17.10.2023 | 15:50
Peter Habeler Runde 2023
Við upphaf ferðar í Vals
Eftir ferðina velheppnuðu í kringum hálft Mt Blanc fjallasvæðið í fyrra langaði okkur í meiri áskorun. Þá fórum við með leiðsögn í 12 manna hópi eins og sjá má hér. Sú ferð heppnaðist í alla staði vel nema við höfðum það á orði í okkar hópi að þetta væri jafnvel aðeins of létt fyrir okkur Kópavogsbúana og fjallageiturnar. Því var um tvennt að ræða, ganga aðeins lengra á hverjum degi og vera jafnvel á eigin vegum. Við leit mína á internetinu fann ég hollenska ferðaskrifstofu, Bookatrekking, sem bauð upp á alls kyns ferðir sem hægt væri að gera á eigin vegum.
Fyrst var ætlunin að fara til Ítalíu í Dolómítana og ganga a.m.k. hluta af hinni mögnuðu og rómuðu AV1 leið, Alta Via 1. Til að gera langa sögu stutta þá gengu tímasetningar ekki upp að þessu sinni og sögðu þær hollensku að best væri að ganga frá pöntunum uþb 7-10 mánuðum fyrirfram til að vera viss um að komast í ítölsku fjallaskálana. Munum það næst.
Þá hélt ég áfram að leita og fyrirsögnin - "Langar til þig í smá áskorun" heillaði vel. Peter Habeler hringurinn þar sem fylgt er í fótspor hin goðsagnakennda Peter Habeler. Notið austurískrar matarhefðar í þægilegum fjallaskálum í 5 daga göngu í stað hefðbundinnar 7 daga göngu.
Peter Habeler Runde er hringleið sem byrjar og endar í Vals, fjallaþorpi í Týról með 537 íbúum. Leiðin var tileinkuð austuríska fjallamanninum Peter Habeler á 70 ára afmælisdegi hans. Þessi leið er ein sú virtasta á þessum slóðum. Peter Habeler er fæddur í Mayerhofen í Týról og eignaðist sinn sess í fjallasögunni þegar hann og Reinhold Messner klifu Everest án súrefnis árið 1978.
Leiðin telst vera 56,1 kílómetri (við reyndar bættum um 15 kílómetrum við hana með því að ganga alla leiðina frá St Jodok að upphafsstaðnum efst í Vals dalnum. Leiðin hefur allt í allt um 3490 metra hækkun og 3500 metra lækkun og telst vera leið aðeins fyrir afar vant fólk þar sem mjög góðs úthalds er krafist ásamt því að vera fótviss og helst með einhverjar reynslu í fjallamennsku. Bara allt sem við þekkjum vel enda átti það alveg eftir að koma á daginn að í raun erum við bara orðin ágætlega sjóuð amk þegar veðrið er gott. Veðurspáin í aðdraganda ferðar var ekki sú allra besta en þegar upp var staðið má segja að svona 95% af gönguferðinni hafi verið í hreint geggjuðu veðri.
Ferðin hófst með flugi í gegnum Munchen þaðan sem við tókum lest frá aðaljárnbrautarstöð borgarinnar til Wörgl þar sem við skiptum um lest sem leiddi okkur m.a. í gegnum Insbruck, höfuðborg Týróla héraðs, og alla leið til smábæjarins St. Jodok am Brenner. Gistihúsið sem var bara alveg frábært var í um 5 mínútna gang frá lestarstöðinni þannig að þetta gæti ekki hafa verið betra.
Dagur eitt: Vals - Geraer skálinn (St. Jokok - Geraer skálinn)
Við vöknuðum í rjómablíðu sunnudaginn 2. júlí og hófum gönguna eftir virkilega velheppnaðan morgunverð á afar heimilislegu og skemmtilegu fjölskylduhóteli. Leiðin lá sunnan megin í dalnum upp og niður alls kyns stíga uns við komum að Gasthaus Touristenrast sem formlega séð er m.v. að sé upphaf göngunnar. Alls var þetta um 8 kílómetra leið. Við stöldruðum stutt við, fengum okkur kaffibolla og lögðum síðan á brattann. Fyrst var gengið eftir sveitavegi norðan megin í dalnum upp fyrir skíðalyftuna sem flytur vistir upp í Geraer skálann. Þaðan liggur liðin eftir löngu zikk-zakki upp fyrir trjálínu í gegnum opið svæði að Geraer skálanum sem stendur í 2,324 metra hæð. Eftir stutt stopp ákváðum við að rúlla aðeins lengra og tékka á námum sem þarna eru - en vildum síðan ekki fara alla leið þar sem tíminn var á þrotum. Við skelltum okkur í sturtu og fórum síðan í matinn sem samanstóð af forrétti, aðalrétti (gúllasi - virkilega góðu) og síðan blönduðum ávöxtum með rjóma í eftirrétt. Í herbergi vorum við með félögum frá Hollandi sem höfðu litla sem enga reynslu í fjallamennsku en voru ungir og sprækir.
Dagur 1:
Hækkun: 1.300 metrar
Tími á göngu: 5:40 tímar
Vegalengd: 17,2 kílómetrar.
Þokan lá yfir dalnum í morgunsárið
Dagur 2: Frá Geraer skálanum að Tuxerjochhaus
Eftir ágætan nætursvefn og morgunmat lögðum við snemma í hann. Veðrið var mjög gott, hann var að rífa af sér eins og sagt er, þótt skýin lægju yfir dölunum fyrir neðan. Frá skálnum liggur leiðin í norður yfir það sem kallast Stinernes Lamm, ógróið land undan jökli og í gegnum Höllwand. Áfram að hinu risavaxna Kleegrubenscharte þar sem við tókum töluvert mikla lækkun til þess að krækja fyrir gilið. Áfram að Kasererscharte og að fjallinu Frauenwand. Þegar þangað var komið var komin þoka þannig að við náðum ekki að njóta útsýnisins. Komum að skíðalyftu með veg niður í sortann. En þarna var fullt af fólki á gangi en loks birtist skálinn út úr þokunni en hann stendur í 2,313 metra hæð. Eftir um klukkutíma opnaðist allt í einu sýn yfir svæðið fyrir neðan okkar, risastórt skíðasvæði sem heitir Sommerville. Þangað gengum við ca 2 km og töluverð lækkun. Magnað að koma þarna í menninguna þar sem við keyptum okkur bæði ís, bjór og kaffi og borguðum með korti!
Um kvöldið skreið síðan þokan inn aftur þannig að allt hvarf.
Dagur 2:
Hækkun: 704 metrar
Lækkun: 500 metrar
Tími á göngu: 4:55 tímar
Vegalengd: 10,2 kílómetrar.
Dagur 3: Frá Tuxerjochhaus að Friesenberghaus
Þegar við vöknuðum snemma morguninn eftir var eins og við værum stödd á öðrum stað. Nú var alveg dregið frá og fjallatopparnir blöstu við og skíðalyftur allt upp í 3200 metra hæð. Frá Tuxerjochhaus lá leiðin fyrst niður á við, þvert yfir skíðasvæðið neðan við fjallið Larmstage og Frauenwand og upp undir kláfunum þar sem við sikksökkuðum að skála sem kallast Spanagelhaus, sem sendur í 2,531 metrar. Þaðan lá afar grýtt leið upp í Friesenbergsskarðið, í 2,911 metra hæð. Hér, á hæsta punkti leiðarinnar, var feykilegt útsýni í allar áttir. Skarðið sjálf og niður leiðin austanmegin var hálfgert einstigi. Við Hákon skelltum okkur í göngu upp á tind í skarðinu sjálfu, en leiðin sú var studd með böndum og stiga. Á meðan biður eiginkonurnar milli vonar og ótta um hvort við kæmum til baka og hræðslan við niðurleiðina jókst með hverri mínútu. Það verður að segjast að leiðin sú var nokkuð brött með keðjum eða vírum og tröppum til stuðnings en allt gekk þetta bara býsna vel. Ofan úr skarðinu sjálfu blasti næsti áfangastaður við en það tók okkur nú samt hátt í 1,5 tíma að komast að skálanum sem kallast Friesendberghaus og stendur í 2,498 metra hæð. Rétt eftir að við vorum komin í hús skall á úrhellisrigning og haglél með þrumum og eldingum og á eftir skreið þokan inn svo varla sást yfir dalinn í næsta fjall.
Hækkun: 910 metrar
Lækkun: 740 metrar
Tími á göngu: 6:08 tímar
Vegalengd: 9,07 kílómetrar.
Hákon og Rósa og útsýnið við Olpererhutte
Undirritaður og Gerða við Olpererhutte
Dagur 4: Frá Friesenberghaus að Pfitscherjochhaus
Um morgunninn var aftur komin frábært veður með útsýni sem enginn var svikinn af. Við gengum fyrst niður Friesenberg vatninu og svo upp brattann þaðan sem við komum í gær. Þegar við vorum búin að hækka okkurm 150-200 metra komum við á stíg sem kallast Berliner Höhenweg og er annar frægur stígur í Austurísku ölpunum. Þaðan lá leiðin að mögnuðum skála sem kallast Olpererhütte og liggur í 2,389 metrum. Skálinn sá er einn af þeim flottari og mikið sóttur enda magnað lón, Schlegeisspeicher, beint fyrir neðan sem margir sækja í og að stökkva upp stiginn að skálanum. Þarna vorum við komin eftir um 2,5 tíma og þetta hefði talist dagleið ef við hefðum tekið 7 daga túrinn! Áfram hélt leiðin og var hreint ansi mikið á stórum, grófum steinum nær alla leið að landamærum Ítalíu, en skammt sunnan þeirra stóð flottasti skálinn í ferðinni Pfitscherjochhaus, í 2,276 metrum. Þarna fundum við snemma að við vorum komin í menninguna enda hægt að keyra upp að skálanum og mikið um hjólreiðafólk. Í Pfitscherjochhaus fengum við líklega besta Tírómasú sem ég hef smakkað.
Hækkun: 650 metrar
Lækkun: 1080 metrar
Tími á göngu: 7,21 tímar
Vegalengd: 13,88 kílómetrar
Dagur 5: Pfitscherjochhaus - Vals
Í síðasta skálanum biðum við til klukkan 07 til að fá morgunmat, en vorum síðan fyrst til að leggja af stað. Fyrst liggur leiðin meðfram litlum vötnum og eftir klassískum stígum undir fjallshlíðinni. En stóru grjótleiðirnar voru líka áberandi öðru hvoru. Rétt undir toppnum á Friedrichshöhe við skálann Landshuter Europa-Hütte, sem stendur í 2,693 metrum. Þar stoppuðum við í svartaþoku í hálftíma og fengum okkur kaffi og kók. Þarna hefði einmitt 6 dagurinn af 7 verið ef við hefðum tekið lengri ferðina. Rétt við skálann hófst niðurleiðin en hún lá í gegnum afar grófa grjótstíga fyrst aðeins upp og svo niður í gil og upp í skarð í fjallinu Sumpfschaftl, í 2,666 metrar, áfram lá leiðin í gegnum grófa grjótstíga þangað ti við komum að íslenskum fjallastígum með grasi og mosa og héldum við að við hefðum loksins komist á beinu brautina en það var nú öðru nær, stiginn magnaði var eftir við Lange Wand.
Við dóluðum okkur niður grasbrekkurnar en vorum ennþá alveg í hæstu hæðum. Þá komum við staðnum þar sem fólk hafði varað við stiganum. Úr fjarlægð virkaði þetta jú alveg bratt en ekkert svo svakalegt en þegar nær dró breyttist myndin, lóðréttur 100-150 metra hár veggur með mjóu einstigi lá niður af stiganum sem var 5-10 metra hár nær beint niður. Alls staðar voru veggfastir vírar til stuðnings og sagði ég aftur og aftur við Gerðu, ekki sleppa takinu, enda hefði þá að öllum líkindum ekki þurft að spyrja að leikslokum. En áfram þokuðum við okkur niður, fyrst skref niður og þurftum að beygja okkur niður fyrir slúttandi berg og síðan fyrir hornið þar sem blasti við nær enginn stígur, hann var svo mjór að rétt skórnir komumst fyrir, en þetta voru 2 helstu hindranirnar á leiðinni. Áfram niður við aðeins þægilegri aðstæður að stiganum góða. En allt gekk bara vel þrátt fyrir að hollensku vinir okkar hafi fylgst áhugasamir með okkur og trúlega hugsað: "Hvernig ætli gangi fyrir kellurnar að komast þarna niður," en til að gera langa sögu stutta þá mössuðu þær þetta og haft var á orði að þetta væri aðeins út fyrir þægindarammann!
Hækkun: 675 metrar
Lækkun: 1750 metrar
Tími á göngu: 7,55 tímar + 1,18 tímar niður Valsdalinn
Vegalengd: 17,8 kílómetrar + 7,11 niður Valsdalinn
Síðasti kafli leiðarinnar frá Gasthaus Touristenrast gengum við á veginum og rétt áður en við komum í bæinn fór að rigna (beint niður) aðeins í gegnum sólina. Niður í gistiheimilið okkar vorum við komin rétt fyrir klukkan 18, skelltum okkur í sturtu og síðan beint í kvöldmat á hótelinu sem var hreint ljómandi góður. Morgunninn eftir flýttum við för og tókum lestina 07:46 áleiðis til Munchen þar sem við dvöldum 1 nótt á hóteli áður en við fórum heim í sólina á Íslandi. Hótelið okkar í Munchen er staðsett í miðborinni rétt við Marienplats og Aðaljárnbrautarstöðina, gæti ekki verið betra upp á samgöngur.
Merkilegt í ferðinni er hversu óáreiðanlegar samgöngur geta verið. Fyrst var það leigubíllinn úr Njarðvík upp á flugvöll sem var löngu búið að panta á ákveðnum tíma. Hann koma nærri 40 mínútum of seint. Flugvélinni seinkaði síðan aðeins lítilsháttar, en þegar til Munchen kom biðum við í rúman klukkutíma eftir töskunum. Lestarferðin gekk ágætlega nema þegar við komum til borgarinnar Wörgl og áttum að taka lestina áfram til St. Jodok. Þá var búið að fella hana niður svo við þurftum að bíða í nærri klukkutíma eftir næstu lest. Svipað var síðan uppi á teningnum á leiðinni til baka. Fyrst var okkar stopp í Kufstein þar sem við áttum að skipta um lest til Munchen fellt niður, svo við þurftum aftur að skipta um lest í Wörgl til að koma okkur til Kufstein, sú bið tók næstum klukkutíma. Á laugardagsmorgunninn kom í ljós að búið var að seinka brottför flugsins um 45 mínútur auk þess sem lestin sem við ætluðum að taka var aflýst svo við biðum í rúman hálftíma eftir næstu lest. En allt gekk upp að lokum og allir eru mjög svo kátir eftir ferðina.
Á leið niður brattann
Stiginn langi var síðan bara minnsta málið þarna!
Öll komumst við til baka!
Ferðalög | Breytt 19.10.2023 kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 17. október 2023
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.8.): 0
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 26
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar