16.12.2024 | 12:57
HAUSTGÖNGUR MEÐ MEIRABRÖLTI 2024
Við Eyþór svili skráðum okkur í Meira bröltið aftur þetta haustið, eftir að hafa pásað á vormisseri 2024, sem mögulega leiddi til þess að það féll niður! Hver segir að við séum ekki ómissandi.
21. september laugardagur Hlöðufell
Ferðin hófst við Hlégarð þar sem skipt var í bíla og fórum við Eyþór á Súkkunni með bræðrunum. Brunað var yfir Mosfellsheiði yfir á Þingvelli og þaðan inn á Uxahryggjaleið. Áfram alla leið þangað til komið var norður fyrir Skjaldbreið og inn á F338, Skjaldbreiðarveg.
F338 er línuvegur sem liggur undir og meðfram Sultartangalínu 1 og 3 sem liggja frá Sultartangavirkjun að iðnaðarsvæðinu á Grundartanga. Sultartangalína 3 (sú hærri) var lögð á árunum 2003-2005 og samanstendur af 21-40 metra háum V-möstrum sem reist eru á 350 metra fresti í um 50 m fjarlægð frá Sultartangalínu 1. (upplýsingar frá Skipulagsstofnun)
Eftir að hafa hossast um 30 km eftir F338 sveigðum við niður með Þórólfsfelli og þaðan vestur fyrir Hlöðufell að skála Ferðafélags Íslands. Eftir stutt stopp örkuðum við af stað beint upp af skálanum vinstra megin við gilið. Þetta var allt frekar óárennilegt að sjá neðan frá en ekki eins mikið mál þegar í var komið.
Þegar upp á stallinn var komið eftir tæplega klukkutíma gang vorum við í þoku og frekar dimmt yfir og áttum eftir rúmlega hálftíma gang að toppinum og þar gat að líta afar sérkennilegt fyrirbæri svo ekki sé meira sagt. Þegar við nálguðumst toppinn fórum við að sjá í stöðumæli og reyndar meira að segja tvöfaldan og var afar vel búið að honum svo hann stóð alveg beinn þrátt fyrir að veðrið þarna uppi sé örugglega ekki alltaf upp á sitt besta.
En gaman væri að vita söguna á bakvið stöðumælinn þarna á toppi Stöðufells eins og Sævar vinnufélagi minn sagði þegar hann spurði hvort ég hefði ekki ruglast og gengið á Stöðufell en ekki Hlöðufell.
Leiðin niður gekk eins og í sögu, við fórum frekar hægt niður skriðurnar enda hætta á grjóthruni. Þegar niður var komið var ákveðið að fara styttri leiðina í vegalengd a.m.k. og fara niður hjá Miðdalsfjalli sem var ákaflega skemmtileg leið en alls ekki á færi allra bíla en Súkkan sigldi þetta eins og ekkert væri þótt hún hafi rekist uppundir nokkrum sinnum enda bíllinn að eindæmum rasssíður með okkur Eyþór svila í baksætinu. Enda fór það svo að ég fór til Olla í Land Cruiserinn rétt áður en verstu brekkurnar voru framundan.
Hópurinn á toppi Hlöðufells með stöðumælinn á milli.
Summitbag gaf þessa skemmtilegu mynd af leiðinni.
5. október laugardagur Skarðsheiðarhringur - Súlárdalshringur
Á toppi Skarðsheiðar með Heiðarhorn í baksýn.
2. nóvember laugardagur Hrútaborg á Mýrum staðfest
Á fimmtudeginum á undan var ferðin blásin af vegna veðurs en ákveðið samt að taka lokstöðuna á föstudeginum. Og viti menn veðurspáin hafði gjörbreyst og heldur betur fært og eins gott að við slepptum ekki þessum geggjað veðurglugga (eins og sjá má á myndunum). Við vorum 9 sem lögðum í hann á tveimur bílum frá Mosfellsbænum. Ferðin tók rúmlega 1:30 með stoppi í Olís.
Það var skemmtilegt að keyra Mýrarnar við sólarupprásina og horfa á skjannahvít fjöllin í kring. Keyrðum inn ísilagðan Hnappadal og lögðum bílnum rétt norðan við Haffjarará. Lögðum af stað kl 09:50 og gengum við upp Hrútadalinn í talsverðum gróðri og var mjúkt undir fæti lengst af þótt snjórinn væri töluverður. Þegar upp á hrygginn sunnan við Hrútaborgina sjálfa er komið var útsýnið í allar áttir slíkt að við urðum nánast orðlaus.
Áfram gengum við austan megin borgarinnar sjálfrar og þaðan áfram upp gil alla leið á toppinn og vorum við komin þangað skömmu fyrir klukkan 13. Það var magnað og mikið sjónarspil að horfa í allar áttir og sjá svo gott sem augað eygði. Tröllakirkja og Fögruhlíðarhnjúkur blöstu við í suðri og líta afar freistandi út fyrir fjallafólk. Ef matarstopp á topnnum í logni drifum við okkur af stað og gengum eftir Steinahlíðinni áleiðis að Fögruhlíðarhnjúki, hvar við skröltum upp við efst klettavegginn og síðan niður hinu megin og áfram niður Kolbeinsstaðafjallið að bílunum.
Afar skemmtileg ferð í algjörlega geggjuðu veðri þar sem allt tókst vel.
Hópurinn með glæsilega Hrútaborgina í baksýn
30. nóvember laugardagur Gengið hring um Eyjadal (upp á Trönu og Móskarðahnjúka)
Kjördagur rann upp bjartur og fagur en við fundum að það var vindur í kortunum á leið okkar yfir Mosfellsheiði og Kjósarskarð. Þegar við gerðum okkur klár við bæinn Sand í mynni Eyjadals var hins vegar logn og tekið að birta. Við gengum rólega upp Breiðurnar að Hnjúkabrúnum og þaðan upp á fyrsta tindinn sem kallast Heimrahögg skv kortum LMI. Áfram áleiðis að Trönu fyrst eftir mjóum hrygg en síðan stuttan bratta og að vörðunni með skeifunni góðu sem einhverjir í hópnum mundu eftir síðast þegar við vorum hér á ferð á vormánuðum 2023.
Þaðan héldum við niður í Móskarðsgil þar sem lægsti punktur var í kringum 580 mys. Þegar þarna var komið var farið að hvessa verulega en þar sem vindurinn var í bakið á okkur slapp það til. Við tókum síðan beina stefnu upp en þar sem mótar ágætlega fyrir stígum þarna norðanmegin fylgdum við þeim. Efir því sem ofar dró jókst vindstyrkurinn og áttu sumir í léttari kantinum fullt í fangi með að halda sé á jörðinni hreinlega. Á toppnum sjálfum á austasta Móskarðahnjúknum var ekki stætt svo við hröðuðum okkur niður hinu megin (venjulegu leiðina) og niður í skarðið á milli austustu hnjúkana og þaðan steyptum við okkur bara beint niður í Eyjadalinn. Það var ekki viðlit að reyna við Laufaskörðin og ganga eftir brúnunum svo við fylgdum plani B sem var að fara niður á þeim stað sem við fórum og beint niður dalinn sem var bara assgoti langur og hreinlega fullur af beinfrosnum lækjarsprænum sem stundum var bras að komast yfir nema þeir sem nenntu að setja á sig broddana aftur.
Þegar niður var komið vorum við vestan megin ár en sem betur fer var þarna gömul steypt brú rétt við bílastæðið okkar þar sem við komumst þurrum fótum yfir. Virkilega góðri ferð lauk fyrir klukkan 16 og tími til komin að koma sér á kjörstað.
Veðrið var fallegt en eins og áður er lýst alveg hreint bálhvasst uppi á toppum. Útsýni feykilegt í allar áttir og skörtuðu t.a.m. Botnsúlurnar og Hvalfell sínu fegursta.
Eyjdalur. Móskarðahnúkar fyrir botni dalsins.
Hópurinn (takið eftir frosinni ánni við hliðina)
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 16. desember 2024
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar