9.8.2024 | 10:44
Team Rynkeby 2024 - Ferðasaga
Það má með sanni segja að þetta hafi verið ævintýri hjá okkur svilunum mér og Eyþóri Kolbeins. Takk Eyþór fyrir að hvetja mig til að sækja um.
Það skiptust svo sannarlega á skin og skúrir í þessari ferð okkar og það í orðsins fyllstu merkingu. Við fengum bæði mjög gott veður en einnig frekar mjög leiðinlegt (lesist rok og rigning) en það rigndi og rigndi og vart sá til sólar svo dögum skipti. Kemur kannski ekki á óvart því samkvæmt nýlegri frétt þá hefur ekki rignt meira í Danmörku á þessu ári síðan mælingar hófust! En allt hafðist þetta samt sem áður án teljandi vandræða þótt ég hafi dottið á 25-30 km hraða á degi 4 og skrámaðist nokkuð en að öðru leiti mjög góður eftir fallið og var tilbúinn að halda áfram strax en þar sem hnakkurinn á hjólinu brotnaði við falið varð ég að bíða af mér næstu 60 km þangað til Ragnar hjólahvíslari kom hjólinu í gang aftur.
Það rigndi duglega á köflum
Allt í allt hjólaði ég 1100 kílómetra á þessum 8 dögum með 6000 metrum í hæðarhækkun þar sem 70% hæðarinnar komu á 3 dögum! Það var síðan alveg magnað að koma inn í miðborg Parísar og hjóla framhjá bæði Sigurboganum og Effelturninum og syngja We are the Champions með öllum hinum Team Rynkeby liðunum á íþróttavellinum þar sem lokahófið fór fram.
Liðið í ár samanstóð af 28 hjólurum og 7 meiriháttar umhyggjuliðum (service aðilarnir okkar fengu þetta fallega nýyrði). Umhyggjuliðarnir okkar í ár voru alveg frábærir og hreinlega lýstu upp daginn þegar við nálguðumst hvort sem það var í kaffi- eða matarstoppi með sinn gleði, fagnaðarlátum og umhyggju.
Team Rynkeby 2024 - hvíta kvöldið
Við svilar lærðum sitthvað og komum út úr þessu verkefni reynslunni ríkari og höfum eignast vini í flottu Team Rynkeby fjölskyldunni nokkuð sem við heyrðum mikið talað um þegar við fórum til Spánar í hjólaferð í mars eins og sjá má hér.
Ferðin tók 8 daga frá laugardegi til laugardags. Við flugum út á föstudegi og keyrðum í rútu frá Kastrup til Kolding á Jótlandi. Við byrjuðum á því að setja hjólin saman og snæddum síðan ágætan morgunmat áður en við lögðum af stað í fyrstu dagleiðina. Hérna kemur síðan smá lýsing á leiðinni á hverjum degi;
Dagur 1: Frá Kolding til Tönning
Dagurinn var bjartur og fagur þegar við hófum túrinn til Parísar nokkrum mínútum fyrir áætlaðan tíma enda allir spenntir að komast af stað. En ekki byrjaði hann samt vel því strax eftir fyrstu beygju féll einn úr hópnum og meiddist lítillega en samt nóg til að hann settist inn í bíl og hjólaði ekki fyrstu dagana.
Dagurinn var mjög skemmtilegur, frekar flatur og bara um 100 mílur (162 km) eða svo! Frábært að hjóla um lendur Danmerkur og heiðar Jótlands . Virkilega fagurt landslag og allt var tekið frekar rólega svona svona fyrsta daginn. Eftir um 84 km er stoppað í Padborg og tekið hádegishlé í vöruskemmu flutningafyrirtækisins H.P. Terkelsen A/S. Öllum Team Rynkeby liðum sem fara þar framhjá er boðið í hressingu í hádeginu hjá þeim. Þar var okkur fagnað eins og rokkstjörnum og brunuðum alla leið undir dynjandi fagnaðarlátum beint inn á verkstæði þar sem nóg var af öllu. Lifandi tónlist, öl, samlokur, grillaðar pulsur og ís. Stuttu síðar hjólum við yfir landamærin og inn í Þýskaland þar sem við eyðum næstu þremur dögum. Hér erum við að hjóla í gegnum sveitir norður Þýskalands og að Be Bio hótelinu þar sem við lágum í sólinni, þrifum hjólin letilega og nærðum okkur.
Dagur 2: Töningen til Blumenthal (Bremen)
Hjóladagur 2 bauð upp á 194km og 500m hækkun frekar flatur og átti að vera frekar auðveldur dagur þrátt fyrir vegalengdina. En fyrst regnið og síðan mótvindurinn settu strik í reikninginn. Áfram hjólum við í þýskalandi og hjólum mikið í gegnum sveitabæi og meðfram ökrum og sjáum að það er greinilega mikið stundaður landbúnaður í norður Þýskalandi. Fórum í tvær ferjur eða pramma og tók sá lengri um 30 mínútur. Það er mjög gott að hjóla í Þýskalandi ýmist á hjólastígum eða götum. Endum á hótelinu Ringhotel Fährhaus Farge við ána Wheser við hliðina á stóru orkuveri.
Dagur 3: Frá Blumenthal (Bremen) til Hengelo
Eftir ekkert sérstakan morgunmat hjá þjóðverjunum á Ringhotel Fährhaus Farge hótelinu byrjaði dagurinn á því að við hjóluðum 200 metra að ferju sem rúllaði með okkur yfir ána Weser. Áin Weser er þriðja lengsta fljót Þýskalands 744 km löng. Hægt er að sigla á fljótinu frá Bremerhaven alla leið til München. Til þess þarf að fara um átta skipastiga, sem sumir gegna líka hlutverki vatnsorkuvera. Við rúlluðum nánast beint um borð en ferjan var mjög stutt og við héldum áfram hinu megin og þá byrjaði að rigna.
Hjólað var í gegnum sveitir og bæi Þýskalands á frekar sléttum og góðum vegum. Öðru hvoru gaus upp lykt þegar við hjóluðum framhjá og við veltum því fyrir okkur hvort þarna væri um að ræða svínabú, kjúklingabú eða nautgriparæktun. Eftir því sem á leið vorum við alveg komnir með þetta að við teljum! Eftir ca 153 km hjólum við inn i Holland og endum í bænum Hengelo skammt frá borginni Twente og gistum á samnefndu hóteli.
Trís dagur 4: Frá Hangelo (Twente) til Genk
Dagurinn í dag átti jú að vera langur en tiltölulega þægilegur og já bara auðveldur hjólalega séð. En NEI aldeilis ekki. Ekki voru það 200+ km hjá kallinum heldur bara rétt 140. Enda féll ég á svona 25-30 km hraða og tók með mér einn hjólara í fallinu, því miður. En við stóðum bæði upp, ég aðeins skrámaður á fæti og hendi en Greta fann til svo gott sem í allri annarri hliðinni. Ég var klár að halda áfram en ekki hjólið sem þarfnaðist lagfæringar. Það var sîðan græjað í matarhléinu 60km seinna og ég kláraði daginn og var ánægður með það.
Ferðin hófst á rauðu hjólastígunum út úr bænum og það er geggjað að hjóla á þessum mjúku brautum. Áfram inn í sveitir Hollands og svo Þýskalands með tilheyrandi ilmi frá verksmiðju búunum. Ferðin endaði svo í Belgíu þannig að þetta var þriggja landa hjólatúr í dag. Daginn enduðum við á M hótel í Genk.
Ferðalagið tímalega er hálfnað en við erum samt búnin með 750 km af 1250 eða svo þannig að kílómetrarnir eru heldur færri eftir en við erum búnir með.
TRÍS DAGUR 5: Hengelo til Transinne
Dagur 5 hófst eins og allir hinir. Kl 06.30 út með töskuna í bílinn, morgunmatur, Tékka á hjóli og tilbúinn ca 07.45 og af stað 08. Svolítið svona groundhog day stemming hjá okkur svilum.
Alskýjað og frekar kalt. Það var bara nokkuð erfitt að hjóla á frekar vondum gangstígum og götum Belgíu á löngum köflum. Það hefði ekkert veitt af viðgerðum hér og þar, minnti okkur bara á íslenska þjóðvegakerfið.
Fórum fetið niður afar bratta leið niður í dal sem við síðan þræddum, framhjá orkuveri og að hinni goðsagnakenndu, stuttu en snarbröttu Mur de Huy (myndi mæla með að gúggla hana bara). Mur de Huy er 1300 metra löng með meðalhalla 9,3% en sumir hlutar hennar fara í um 17% halla og mest er hallinn 26 % í einni beygjunni. Brekkan hefur m.a. verið notuð í Tour de France hjólreiðakeppninni.
En Eyþór svili massaði þetta heldur betur. Ferð eitt með hópnum og að sjálfsögðu með fremstu mönnum. Ferð 2 með Sverri mínum. Ferð 3 til að aðstoða Rakul en ferð 4 var bara til að fara ferð 4. Geggjað hjá mínum manni. Hann reyndar missti af hópmyndatökunni vegna ferðar númer 4 en hvað um það!
Mikið af hjólurum voru í brekkunni frá hinum Norðurlöndunum og stuð efst. Ég rann lítillega á hálum stöfunum í brekkunni og náði ekki að losa en komst af stað aftur stuttu seinna með smá aðstoð þar sem brekkan er það brött að erfitt er að komast af stað aftur. En heilt yfir þá voru aðstæðurnar aðeins erfiðar þar sem bleytan var mikil í brekkunni en Eyþór talað um að í ferð 4 hefði brekkan aðeins verið farin að þorna.
Á toppnum fengum við síðan grillaða borgara sem var geggjað en þarna voru rúmir 60 k búnir 85 eftir.
Trjágöngin voru erfið enda sprakk hjá fjölmörgum og almenn bugun í gangi vegna erfiðra aðstæðna, kulda og hækkunar og fór svo að aðeins 16 af 28 kláruðu daginn.
Síðan er haldið áfram um sveitir Belgíu og til að kóróna daginn þar sem við fórum upp bröttustu brekkuna þá endar dagurinn á því að fara upp lengstu brekkuna líka. Mjög strembinn dagur að baki og við komin að hótelinu Hotel La Barrière de Transinne sem m.a. státar af Michelin stjörnu. Við vorum einu gestir hótelsins sem var alveg magnað. Maturinn mjög myndrænn en um leið ljómandi góður.
Dagur 6: Transinne til Reims
Eftir flottan morgunmat á Michelin staðnum héldum við áleiðis "niður" Belgíu en fengum samt á okkur fullt af hæðarmetrum. Hver sagði eiginlega að Belgía væri marflöt?
Það rigndi framan af degi en þegar til Frakklands var komið fór sólin að skína og hiti náði 25 stigum = mjög heitt.
Eftir kaffistoppið í 123k við kirkjugarð með svörtum krossum en það er tákn fyrir Þjóðverja sem féllu í fyrri heimsstyrjöld 1917/18. Við brunuðum áfram um víðáttur franskra sveita í miklum mótvindi og stoppuðum svo við næsta kirkjugarð þar sem bandamenn 1917/18 voru grafnir.
Það var hjóla með fram síkinu All. des Tileuls í Reims um 10 k leið. Leiðin lá á fínum stíg þar sem fullt var af fólki en við náðum að halda ágætum hraða - mjög skemmtileg og falleg leið að hótelinu okkar góða þar sem Danirnir deildu með okkur hóteli.
Dagur 7: Reims til CDG (við París)
Dagurinn hófst í frekar köldu og skýjuðu veðri. Við rúlluðum í gegnum kampavínshéraðið "Champagne" í mótvind sem reyndi ágætlega á hópinn. Töluverð hækkun var á deginum sem tók á þótt dagurinn væri heldur styttri en dagarnir á undan. Hótelið sem við gistum á heitir Hotel Oceania Paris Roissy CDG og er flott. Þar var sundlaug sem margir nýttu sér og hjólin voru geymd í stórum veislusal á annari hæð.
Núna erum við farin að sjá til lands í þessu ferðalagi okkar enda aðeins um 50 kílómetrar eftir eða svo en rassarnir eru orðnir frekar aumir enda var samið lag í tilefni þess og hópsöngur eftir matinn á "hvíta kvöldinu" við lag sem allir ættu að þekkja (lagið Litlir kassar með Þokkabót)
Aumir rassar
Og sveittir hnakkar
Aumir rassar
Og öll nuddsárin
Aumir rassar
Sveittir hnakkar
Aumir rassar
Allir eins
Einn er rauður
Annar gulur
Þriðji hvítur
Fjórði fjólublár
En allir lykta þeir afar illa
Enda eru þeir allir eins!
Hvíta kvöldið var skemmtilegt og haldið á veitingastað við hliðina á hótelinu sjálfu og boðið var upp á franskan matseðil og hreint ljómandi góður matur.
Dagur 8: CDG til Parísar
Dagurinn hófst á flugvallarhóteli nálægt CDG (Charles-de-Gaulle flugvelli). Það var ró yfir öllum. Allir með í dag nema einn sem var veikur. Víó liðsstjóri gekk á milli liðsmanna og límdi Eiffelturnin 2024 á hjólin. Magnað þetta var að hafast, komin formleg staðfesting. Síðan var rúllað af stað í gegnum St. Denis hverfið, framhjá Sigurboganum og Eiffel turninum áður en haldið var að lokaathöfninni þar sem allir rúmlega 2600 hjólarar Team Rynkeby sameinuðust með fjölskyldum sínum á gamla hjóla íþróttaleikvanginum Stade-Vélodrome Jacques Anquetil.
Við Eiffel turninn
Við Sigurbogann
Ferðin þangað með því að rúlla framhjá öllum aðalstöðunum í París er ca 55 km en tók okkur frekar langan tíma þar sem það sprakk á ansi mörgum dekkjum á götum Parísar og báðir hóparnir stoppuðu í hvert sinn.
Það var síðan magnað að koma inn á leikvanginn og sjá alla hina þátttakendurna samankomna og rúlla "sigur-hringinn" við dynjandi lófaklapp. Ævintýrinu var næstum lokið. Ég segi næstum því við áttum eftir að rúlla rúmlega 8 k upp á hótel þar sem við stoppuðum í brekku og fórum að taka hjólin í sundur enda áttu þau bara að fara beint upp bíla og heim. Þarna eiginlega sundraðist hópurinn, sumir fóru með fjölskyldum sínum á önnur hótel á meðan aðrir þ.á.m. við svilar héldum á loka hótelið Ibiss Gare du Nord.
Um kvöldið fór um 15 manna hópur á Entrecote staðinn ágæta þar sem aðeins einn réttur er á boðstólnum. Nokkrir úr hópnum skutluðumst síðan niður á Trocadero til að sjá ljósasýningu Effelturnsins en hún varð heldur endasleppt þar sem búið er að girða fyrir stóran hluta útsýnisins fína þar sem stetningarathöfn Ólympíuleikanna mun fara þar fram 2 vikum seinna.
Daginn eftir gengum við Svilar með þriðja manni að Sacre Coure kirkjunni frægu og gengum um Montmartre hverfið og nutum lífsins í blíðunni. Flugið heim var síðan klukkan 17 lögðum við af stað út á völl um klukkan 14 og við vorum með lífið í lúkunum alla leið enda fórum við frekar hratt svo vægt sé til orða tekið. 40 mínútna leið skv google tók ekki nema 30 mínútur og það með kaffistoppi bílstjórans á miðri leið!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 9. ágúst 2024
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar