14.5.2020 | 13:50
Selvogsgatan eða svona næstum því
Laugardaginn 9. maí klukkan 09:05 var lagt í hann. Farið var í gegnum Vellina í Hafnarfirði út á Krýsuvíkurleið og þaðan ekið eftir Bláfjallavegi nokkra kílómetra að lokunarpósti Vegagerðarinnar undir hlíðum Lönguhlíðar. Þegar þangað var komið sáum við sjúkrabíl og leyst ekki á blikuna. Hákon spurði sjúkraflutningafólkið hvort það væri að bíða eftir okkur en þau voru víst á leið að slysavarnarskála nokkrum kílómetrum lengra. Eftir að hafa fengi leyfi sinna yfirmanna óku þau út í skurðinn við hliðina á veginum og framhjá lokunarpóstinum.
Eftir að Steinar hafði tekið af okkur hópmynd var lagt í hann eftir veginum. Á leiðinni mættum við 6 hlaupurum sem trúlega hafa komið neðan frá Helgafelli í Hafnarfirði. Við gengum eftir veginum nærri 3 kílómetra þar sem við beygðum útaf veginum og út á hraunið. Seinna sáum við að við hefðum átt að ganga aðeins lengra líklega 1-2 km í viðbót til að komast beint á hina eiginlegu Reykjaleið/Selvogsgötu. Það sem vakti mesta athygli mína var hversu nálægt Helgafellið í Hafnarfirði er frá upphafsstaðnum okkar enda sagði Hákon hann hafa gengið þetta með 10 bekkinga þ.e. frá Bláfjallaveginum og niður að Helgafelli.
Selvogsgata er forn þjóðleið frá Hafnarfirði og yfir Grindarskörð og niður í Selvog þar sem Hlíðarvatn og Strandarkirkja eru. Hin eiginlega Selvogsgata byrjar u.þ.b. þar sem nú er Öldutúnsskóli í Hafnarfirði samkvæmt vefsíðu Hraunavina.
Eftir 10 mínútna gang yfir hraunið fór landið að rísa þegar við nálguðumst Grindarskörð. Þar er leiðin ágætlega merkt með stikum. Við örkuðum þetta áfram eftir snjósköflum sem þægilegra var að ganga. Vanir Esjugöngumenn fóru létt með þessa brekku enda hæðin ekki nema um 500 metrar það sem hæst var farið. Gerða og Rósa vildu nú samt meira og fannst þessi brekka nú ekki mikið tiltökumál og vildu ólmar fara næst "svarta" leið.
Þegar upp var komið opnaðist fallegt útsýni yfir Helgafellið (vinstra megin) og höfuðborgarsvæðið.
Þegar upp var komið eða í tæplega 500 metra hæð opnaðist fallegt útsýni til Norðurs og Vesturs. Í bókinni Suðvesturhornið Reykjanesskagi eftir Einar Þ. Guðjohnsen í ritröðinni Gönguleiðir á Íslandi (útgefið 1992) segir um Selvogsgötuna: "Þessi leið er vörðuð frá fornu fari, en vörðurnar hafa hrunið margar hverjar. Nú skilst mér, að áhugamenn hafi endurreist þær og lagað." En illu heilli þá hafa þessir áhugamenn endurreist vörðurnar u.þ.b. 1 km í austur frá hinni eignlegu Selvogsgötu sem bæði Einar nefnir í sinni bók og rakin er í Árbók Ferðafélags Íslands frá 2003. Þar liggur leiðin einmitt um Hvalsskarð á milli Hvalahnúkanna en "nýja" varðaða leiðin liggur sunnan/vestan við Austurása.
Þegar við vorum komin í skjól við Austurásana tókum við drykkjarstopp á grasbletti og nutum lífsins í sólinni. Eftir stutt stopp var arkað áfram eftir móum og melum, svokallaða Stakkavíkurleið eða Selstíg. Þetta var algengasta leiðin eftir að fólki tók að fækka í Selvogi (segir í frásögn Hraunavina sem ofar eru nefndir). Leiðin stefnir nánast beina leið á eyðibýlið Hlíð sem Hlíðarvatn er kennt við. Leiðin er nokkuð augljós þar sem vörður vísa veginn að mestu alveg að Hlíðarskarði. Land fer nokkuð lækkandi á þessari leið þó ekki fari að halla verulega undan fæti fyrr en komið er fram á suðaustur brúnina.
Þar liggur leiðin niður Hlíðarskarðið í nokkrum bratta og blasir þá Suðurlandið við, Selvogurinn og Hlíðarvatn. Þegar niður á veg við Hlíðarvatn var komið ákváðum við að hringja í Atla til að láta sækja okkur. Til að nýta tímann á meðan við biðum örkuðum við eftir veginum og síðan nokkuð beina leið beint yfir fallnar lúpínubreiður að Strandarkirkju. Það small og brast í þurrum skrælnuðum lúpínuprikum og nokkuð erfitt að
ganga. Einnig þurfi að passa sig hvar við stigum - sáum til að mynda spóahreiður með tveimur eggjum í. En viðbótina kláruðum við og enduðum niður við Strandarkirkju eftir rúmlega 5,5 tíma göngu.
Þetta var virkilega skemmtileg ganga og gjörólíkt því sem við fórum síðast (frá Hengli að Úlfljótsvatni). Ekki skemmdi það fyrir þegar ungur maður vatt sér að Gerðu og Rósu og spurði: "Hvaðan voruð þið að koma hlaupandi?" En fljótlega eftir að við komum að kirkjunni renndi Atli í hlað með bæði kampavín og bjór eins og vera ber.
Gangan frá lokunarpóstinum á Bláfjallavegi niður á veg við Hlíðarvatn er rétt um 17 kílómetrar. Við bættum við u.þ.b. 5 kílómetrum með göngunni að Strandarkirkju. Heildargangan endaði í 22.1 kílómetra. Heildartími var 5:36 tímar. Á hreyfingu vorum við 4:52 og stopp 43 mínútur. Minnsta hæðin var 3 m.y.s. og mesta 486 metrar. Uppganga var 581 metri og niðurganga 588 metrar.
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 5123
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.