1.6.2020 | 16:42
Móskarðahnjúkar loksins
"Rósa og Hákon koma klukkan 09 og sækja okkur á morgun," sagði eiginkonan í gær. Nú hvert erum við að fara? Spurði ég. Á Móskarðahnjúka! Og það stóð heima. Rétt um klukkan 09 annan í hvítasunnu renndi Hyundainn í hlað og sótti okkur hjónin. Ég í stuttbuxum og Gerða í vetrarbuxunum.
Í bók sinn um Suðvesturnornið segir Einar Þ. Guðjohnsen; "Hnúkaröð tengir saman Esju og Skálafell, en verða þó nokkur misdjúp skörð á milli. Þetta eru líparithnúkarnir Móskarðshnúkar (eða Móskarðahnúkar). Liturinn blekkir marga, og gætu menn ætlað, að þar væri oftar sólskin en raun ber vitni, og þannig blekkti sólarliturinn meistara Þórberg ítrekað, þegar hann ætlaði að gerast húsamálari forðum daga." Haraldur Örn og félagar í Fjallafélaginu lýsa göngunni svo á vefsíðu Fjallafélagsins: "Héðan (innskot: frá göngubrúnni yfir Skarðsá) er gengið upp móann til hægri og upp á Þverfellið, hægra megin við Gráhnúk (stundum nefndur Hrútsnef). Eftir Þverfellinu er gengið að vestari hnjúknum en þar tekur við greinileg gönguslóð sem rétt er að fylgja. Liggur slóðin í austur utaní vestari hnjúknum og í skarðið milli hnjúkanna. Úr skarðinu er greiðfær leið upp á eystri hnjúkinn sem er hærri eða 807 metrar yfir sjávarmáli. Síðan er tilvalið að ganga á vestari hnjúkinn sem er 787 metra hár."
Klukkan 09:40 lögðum við af stað hring um Móskarðahnjúka, austast í Esjunni. Gengin vegalengd reyndist vera 8.76 kílómetrar á tæpum 3 klukkutímum (2:51). Veðrið var ekkert sérstakt. Gengum upp í þokuna í um 5-600 metra hæð og útsýni ekkert á meðan við gengum upp í skarðið á milli Móskarðahnjúkanna tveggja. Fyrst fórum við á þann eystri og hærri sem er um 807 metrar. Leiðin er afar þægileg og renndum við þetta á um klukkutíma upp á toppinn. Eftir stutt stopp og myndatöku héldum við sömu leið niður í skarðið og upp á hinn hnjúkinn sem er heldur lægri. Áfram héldum við á þriðja toppinn og að Laufskörðum. Þegar þangað var komið blöstu tindarnir við enda veðrið orðið skaplegra eins og sjá má á myndinni hérna að ofan sem tekin er frá Laufskörðum.
Í Esjuáskoruninni ágætu sem Hundraðshöfðinginn Þorvaldur Þórsson og fleiri settu inn á fésbókarhópinn Esjuvinir eru þessir toppar listaðir upp svona:
Þessa þrjá tinda + Laufaskörðin (austan megin) kláruðum við og gengum síðan niður eftir nokkuð greinilegum stíg meðfram Þverárdal og nánast beint niður að skátaskálanum Þristi sem m.a. Sverrir pabbi Hákonar kom að byggingu á en hann var byggður árið 1966 af skátafélaginu Kópum. Gönguleiðin öll er mjög greinileg og mjög skemmtileg. Það er alveg eins og þú sért á allt öðrum stað á landinu m.v. annað í Esjunni.
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.