11.10.2020 | 11:15
Leggjarbrjótur lagður
Eiginkonan sagði við mig á laugardaginn 3. október að við í samfloti með Hákon og Rósu stefndum á göngu um helgina ef veður leyfði. Þegar síðan sunnudagurinn rann upp var hvorki veðrið né veðurspáin neitt sérstök. En ... það var hægviðri og við ákváðum að láta slag standa. "Hvenær förum við, spurði ég." "Eftir kortér, sagði Gerða, eða mögulega 20 mínútur! Þessi tími eða rétt rúmlega það dugði til að sjóða egg í salat, sjóða vatn í kakó, kaupa bensín og batterí. Við komum til til þeirra skötuhjúa, Rósu og Hákons um klukkan 10.30 og gangan hófst við Svartagil á Þingvöllum um klukkan 11.30. En Helga Katrín tók bílinn heim.
Leggjarbrjótur var búin að vera á stefnuskránni í sumar en ekki hafði gefist tími til þegar vel viðraði. 75% göngumanna höfðu gengið þetta áður. Ég fyrir um 20 árum með Helgu tengdamóður og Ferðafélaginu og þau Hákon, Rósa og fjölskylda höfðu gengið þetta fyrir nokkrum árum.
Við upphaf ferðarinnar - 1 eða 2 metra regla - hvað er það?
Í bók sinni 1. Suðvesturhornið segir Einar Þ. Guðjohnsen um Leggjarbrjót: "Gömul leið er úr Botnsdal um Leggjarbrjót til Svartagils. Gangan hefst hjá Stórabotni og er farið yfir Botnsá á göngubrú fyrir neðan túnið. Síðan liggur leiðin í átt að Hvalskarði og sveigir svo til suðurs á ofanverðan Sandhrygg. Þegar komið er í 400 metra hæð er haldið áfram suður með Sandvatnshlíðum og síðna með Sandvatni að austan. Skammt sunnan við Sandvatn er farið yfir smáhrygg og sunnan hans komið niður að Súluá, sem kemur ofan úr Súlnadal. Þetta er hinn eiginlegi Leggjarbrjótur og vestan hans er Myrkavatn, sem Öxará kemur úr. Öxará er síðan fylgt niður að súlnagili og Orrustuhóli, og er þá stutt í Svartagil. Öll leiðin er um 15 km lögn og má áætla 5-6 tíma í gönguna með því að ganga rólega og hvíla sig oft."
Horft í átt að Öxarárdal með Búrfell (782 mys) til vinstri
Við gengum frá Svartagili og í Botnsdal og var virkilega fínt ganga. Í minningunni vorum við tengdamamma heillengi og þurftum síðan að bíða slatta í lokin eftir því að hópurinn safnaðist saman. Gangan hófst á því að við þurftum að stikla yfir læki. Síðan var haldið upp brekkurnar eftir vegarslóða sem þarna lá. Hækkunin var í sjálfu sér ekki mikil en eftir því sem ofar dró jókst útsýnið til vesturs yfir Þingvallavatnið. Við gengum fram hjá Orrustuhóli og Fossabrekkum og upp í Öxarárdal hvar við fylgdum Öxará fram að ármótum hennar og Súludalsá. Það hlýtur að vera magnað að ganga Öxarárdalinn í betra veðri með Búrfellið á vinstri hönd og Syðstu Súlu á þá hægri gnæfandi yfir. Búrfellið hlýtur að vera markmið okkar við tækifæri - kannski gæti það verið markmið að ganga á öll 39 Búrfellin/fjöllin á landinu. Sigurður Sigurðarson segir skemmtilega frá hvers vegna 39 fjöll á landinu heita Búrfell hér.
Skömmu eftir að við komum að hinum eiginlega Öxarárdal sáum við fólk á undan okkur og einsettum við okkur að ná þeim sem tókst nokkrum kílómetrum síðar þegar framhjá Sandvatni var komið. Markmiðinu náð sögðu stelpurnar hinar ánægðustu. Yfir Súludalsánna þurfti að stikla og hófst þar hinn eiginlegi Leggjarbrjótur, frekar gróf leið á kafla, og til móts við Súludal náðum við hæstu hæðum í þessari ferð rúmlega 450 metra hæð.
Stiklað yfir Súludalsá - þarna komu göngustafirnir að góðum notum
Þarna fór að halla undan fæti. All nokkur lækkun niður að Sandvatni en smávegis upp aftur áður en við steyptum okkur niður Hvalskarðið og fylgdum slóða sem lá þar niður. Leiðin lá meðfram Hvalskarðsánni sem steyptist í fallegum fossum í gljúfri innst í dalnum. Þegar þangað var komið liggur vegurinn í gegnum all nokkra skógrækt og gríðarmikið berjaland. Hákon tilkynnti að hann myndi koma hér eftir 11 mánuði og týna ber. Fannst það bara sóun að þau hefðu ekki verið týnd en það var ástæða fyrir því!
Skýringin á öllum berjunum komin
En allt í allt tók þessi ganga okkur rétt rúma 4 klukkutíma án þess nokkurn tímann að flýta okkur að nokkru marki en við héldum vel áfram. Stoppuðum samt og fengum okkur nesti. Veðrið var virkilega gott mest alla leiðin. Það var rétt í lokin að það fór aðeins að rigna. Síðan var það bara eins og eftir pöntun að þegar við stigum inn á bílaplanið þá renndi Sverrir í hlað. Fullkomin tímasetning.
Hákon undir regnboganum með Vestursúlu (1086mys) í baksýn
Hér fyrir neðan má sjá helstu tölulegu upplýsingar fyrir ferðina
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.