23.12.2020 | 10:53
Vitagangan á aðventu 2020
Þar sem ekki var hægt að fara í hina árlegu aðventuferð okkar félaganna GSM og Antons ákvað GSM með aðstoð GSM Events að bjóða upp á 5 stjörnu ferð á milli helstu vita höfuðborgarsvæðsins.
Lagt var af stað frá söluskúr Viðeyjarferjunnar við Skarfabryggju í Sundahöfn. Þar var fyrsti vitinn í göngunni. Á heimasíðu Faxaflóahafna segir í frétt 12. september 2013:
"Nýr viti hefur verið reistur á endanum á Skarfagarði í Sundahöfn. Skarfagarður og aðliggjandi svæði hefur verið að taka breytingum m.a. með opnun á aðgengis að sandströnd við Skarfaklett. Þá verður gönguleið fram á enda Skarfagarðs malbikuð á næstu dögum.
Nýi vitinn er smíðaður af járnsmiðum Faxaflóahafna sf eftir sömu teikningu og innsiglingavitarnir, sem eru í Gömlu höfninni og hafa verið frá opnun þeirrar hafnar. Vitarnir í Gömlu höfninni voru reyndar endurnýjaðir árið 1993, en þeir voru einnig smíðaðir af járnsmiðum fyrirtækisins."
Skarfaklettur sem vitinn og svæðið allt er kennt við var sker á Viðeyjarsundi, um 400 metra norðvestan við Köllunarklett (sem gnæfir yfir Sundahöfn rétt við Klepp). Vegna landfyllinga við Sundahöfn er kletturinn núna landfastur.
Við upphaf ferðar við fyrsta vitann
Eftir stopp við Vitann þar sem skálað var í jólabjór Svilabrugghússins Köldukinnar, hinum magnaða Jólareyk Ölvisholts klón var haldið meðfram sjónum yfir að Laugarnesi og áfram að vita númer 2 beint á móti Höfða. Þar tók á móti okkur Guðmundur Pálsson framkvæmdastjóri Pipars og færði okkur Tuborg jólabjór í flösku. Tekið var lagið, Brennið þið vitar, og ljóst að það var ekkert endilega til útflutnings.
Þann 21. júní 2019 var þessi nýi viti við Sæbrautina tekin í notkun. Ekki hefur verið reistur nýr viti á Íslandi í yfir 30 ár. Vitinn við Sæbrautina er sagður mikilvægt öryggistæki fyrir sjófarendur en er einnig útsýnispallur og áningarstaður á gönguleið meðfram Sæbrautinni.
Vitinn leysir af innsiglingarvitann sem verið hefur í turni Sjómannaskólans frá árinu 1945. Hann þjónaði hlutverki sínu þar til háhýsin við Borgartún og Hátún fóru að skyggja á geisla vitans. Innsiglingarvitarnir frá 1913-1917 í Gömlu höfninni voru notaðir sem fyrirmynd við hönnun Yrki Arkitekta á vitanum við Sæbraut.
Guðmundur Páls mætti með söngvatn fyrir okkur
Áfram var haldið, enda bíða náttúruöflin flóð og fjara ekki eftir okkur, og halda verður vel á spöðunum eigi áætlunin að haldast. Næst var gengið að innsiglingarvitunum við Gömlu höfnina. Fyrst að þeim græna fyrir aftan Hörpuna og síðan sá rauði á bakvið Brim við Norðurgarð. Á leið okkar í gegnum miðbæinn blöstu barirnir við og þá spurði Anton hvort við ættum ekki að stoppa og fá okkur snaps. GSM brást hratt við og sagði, rólegur félagi, allt hefur sinn tíma! Enda voru það orð að sönnu, eftir heimsóknina út norðurgarðinn og að 4 vitanum, komum við norðan við Brim og mættum þar "catering-bílnum" fullum af veitingum. Þar var á ferðinni Hrund dóttir GSM með Jólabjór, jólaákavíti og volgar tartalettur með hangikjöti. Alveg magnað!
Við vitana við gömlu höfnina - sá græni í baksýn
Við græna vitann á Norðurgarði - miðbærinn í baksýn
Bjór, ákavíti og tartalettur við Brim
Áfram var haldið inn á milli húsanna úti á Örfirisey þar sem GSM sagði sögur. Þegar leiðin tók að sveigja í átt að Seltjarnarnesinu fór vindurinn og myrkrið að færast í aukana. En áfram var haldið og þegar nálgast tók Gróttuvita var ljóst að við höfðum orðið að lúta í lægra haldi fyrir náttúruöflunum, ekki var fært á þurrum fótum lengur út í Gróttu.
Næsta stopp átti að vera við heita fótabaðspottinn neðan við hákarlaskúrinn. Fótbaðspotturinn er hugarfóstur og hönnun Ólafar Nordal, þeirrar sömu og skapaði Þúfuna hið magnaða listaverk við Norðurgarð. Í stað þess að á í rokinu við hákarlaskúrinn sátum við í skjólinu við borholu SN12. Þangað mætti "catering-bíllinn" með nýjar veitingar. Núna voru 3 gerðir af snittum á boðstólunum ásamt hákarli (sem reyndar bara Anton fékk sér af), jólabjór og meira snafs - sem einhverjir fengu sér af.
Hákarlaskúrinn er fallegur í myrkrinu
Áfram gengum við niður í fjöruna þar sem við sáum glitta í Gróttuvita í fjarska. Hér sagði GSM okkur söguna af Alberti síðasta vitaverðinum í Gróttu. Þegar í fjöruna var komið sáum við mann paufast með lugt í fjörunni og varð okkur ekki um sel og varð að orði að hér væri kominn Albert vitavörður! Ekki var það nú alveg heldur Hlynur sonur GSM klæddur upp í sjógalla, með sjóhatt og forláta lugt. Allt lagt í þessa 5 stjörnu ferð.
Um Gróttuvita segir á vefsíðunni Sjóminjar Íslands:
Fyrst var byggður viti í Gróttu árið 1897 að fyrirsögn starfsmanna dönsku vitastofnunarinnar. Núverandi viti var reistur hálfri öld síðar, árið 1947, sívalur kónískur turn úr steinsteypu með ensku ljóshúsi, 24 m að hæð, hannaður af Axel Sveinssyni verkfræðingi. Vitavörður var búsettur í Gróttu frá 1897 til 1970. Vitaverðirnir voru aðeins tveir, Þorvarður Einarsson og Albert sonur hans.
Hlynur í fullum skrúða!
Eftir þessa uppákomu gengum við eftir gamla veginum að Nesstofu við Seltjörn sem byggð var á árunum 1761-1767 sem embættisbústaður landlæknis og eitt af elstu steinhúsum landsins. Eftir að hafa kíkt á læknisjurtagarðinn drifum við okkur á Nesbalann. Þar var tekið á móti okkur með kostum og kynjum. Fyrst fórum við í pottinn og síðan bauð Hlynur upp á purusteik með öllu tilheyrandi. Frábær ferð með GSM Event. Megi slíkar ferðir verða fleiri!
Hér má sjá leiðina sem gengin var á rúmum 4 tímum.
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.