17.10.2021 | 13:46
Hornstrandir - heillandi heimur
Það var haustið 2019 sem Gerða sendi mér póst þar sem STALA (Starfsmannafélag Landsvirkjunnar) hugðist fara á Hornstrandir í hinni árlegu ferð starfsmannafélagsins. Ég var sko meira en til og eiginlega frekar mikið peppaður enda hefur það verið draumur minn lengi að fara í ferð á Hornstrandir. Þegar fram á árið 2020 kom var ferðinni aflýst - út-af-doltnu!
Á haustmánuðum 2020 var ákveðið að fara í lok júní 2021 sem og varð raunin. Í fyrstu var ákveðið að fara frá Norðurfirði og sigla í Látravík að Hornbjargsvita. Því var síðan breytt þannig að sigla ætti frá Ísafirði í Lónafjörð, ganga yfir Snóksheiði að Hornbjargsvita og heimferðin væri með allt á bakinu í Hornvík og yfir Hafnarskarð í Veiðileysufjörð. En í apríl var aftur breytt þannig að siglt yrði frá Norðurfirði í Smiðjuvík þar sem gengið yrði með dagpoka á bakinu að Hornbjargsvita.
Við hjónin lögðum af stað um klukkan 13 á miðvikudag með tjaldvagninn góða í aftan í. Sóttist okkur leiðin vel þótt all hvasst væri á köflum. Þegar við áttum um 1 kílómetra eftir að skála FÍ í Norðurfirði heyrði ég smell eða högg og viti menn afturdekkið bílstjórameginn var hvellsprungið og eiginlega gjörónýtt. Við keyrum þessa örfáu metra sem við áttum eftir og skiptum um dekk, sem betur fer var varadekk í bílnum, svona líka fallega gult með merkingum að ekki mætti aka hraðar en 80 með það undir!
Dekkið góða - takið eftir Reykjahyrnunni og skýjafarinu
Ef sprungna dekkið var ekki nóg þá fengum við slíkar vindhviður að á köflum var varla stætt úti enda hafði skálavörðurinn, Reynir Traustason, það á orði að í Norðurfirði væru 18 vindáttir! Við gistum í tjaldvagninum um nóttina og vindhviðurnar voru slíkar að ég hélt að vagninn tæki á loft í þeim alhörðustu en eiginkonan svaf eins og ungabarn alla nóttina. En við vorum komin með einni nótt meira í tjaldvagninum heldur en sumarið 2020! Á tjaldsvæðinu voru líka vinnufélagar Gerðu Bryndís og Eggert sem og 2 drekkhlaðnir bílar af vistum sem við fréttum seinna að væru einmitt okkar enda þar á ferðinni skálverðir Hornbjargsvita næstu 10 daga.
Um morgunninn drifum við okkur að pakka saman í ákaflega fallegu en hvössu veðri. Brottför hafði verið ákveðinn klukkan 10 og á slaginu 09.00 skellti Gerða í sig tveimur sjóveikistöflum fyrir siglinguna. Hún var vart búinn að kyngja þegar við fengum þær upplýsingar að búið væri að fresta brottför til klukkan 12 vegna veðurs. Við Gerða fórum í gönguferð í heinum sérlega fallega Norðurfirði áleiðis að Krossanesi. Að því loknu settumst síðan inn á kaffihús til að biða brottfarar.
Við hittum smá saman hópinn sem taldi allt í allt 30 manns + Pál Ásgeir og konu hans Rósu sem voru fararstjórar í ferðinni. Allur farangur sem við höfðum skilið eftir á bryggjunni við bátinn var skyndilega horfinn ofan í lestar bátsins og okkur ekkert að vanbúnaði að sigla af stað. Fararstjórarnir höfðu ákveðið að bæði með tilliti til þess að ferð okkar seinkaði um 2 tíma sem og að hugsanlega myndi okkar sækjast ferðin heldur seint vegna sjólags að sleppa því að fara í land við Smiðjuvík og halda beint í Látravík að Hornbjargsvita. Þegar þangað var komið hófust ótrúlegir selflutningar fyrst á fólki og síðan á bæði farangri og vistum. Flytja þurfti allt úr vaggandi bátnum á tuðru í land. Þar röðuðu menn sér í línur og selfluttu dótið að kláfbraut sem dró allt góssið upp hamrana við vitann.
Hér má sjá hluta af línunni góðu til að flytja töskur og vistir
Allt í allt tók þetta okkur um rúmlega 1 og hálfan tíma. Eftir stutt kaffi og pissustopp hélt hópurinn í stutta skoðunarferð upp á Axarfjall þar sem við fórum fyrst í afar skemmtilegan nafnaleik til að sem flestir myndu ná aðeins að kynnast hvor öðrum. Eftir nafnleikinn gengum við í niður Axarfjallið hinu megin og skoðuðum greni í hlíðum ofan Hrollaugsvíkur. Þegar við gengum síðan niður aftur að vitanum fylgdi refur okkur eftir á göngustígnum á sömu leið og við enda voru þeir með nokkra yrðlinga við rekaviðarstafla á lóðinni við vitann. Eftir kjarngóðan kvöldverð, Kjötsúpu með öllu tilheyrandi, fóru Páll og Rósa yfir dagskrá morgundagsins og fljótlega eftir það fórum við í koju. Kojan sú var ekki að verri endanum í sjálfri Moskvu. En öll herbergi í húsinu hétu eftir hinum ýmsu merkisstöðum í Sovétríkjunum sálugu. Meira að segja kalda geymslan fyrir varning átti sitt nafn sem var Síbería að sjálfsögðu.
Við vorum í Moskvu enn ekki hvað!
Horft yfir Hornbjargsvita af Axarfjalli
Hlýtt á "guðs" orð frá Páli og Rós á leið um Almenninga
Að vakna nokkuð snemma í Friðlandinu í jafn geggjuðu veðri og við nutum á með við gengum um friðlandið eru forréttindi. Þvílík kyrrð og fegurð. Allir vöknuðu snemma, borðuðu morgunmat og voru löngu tilbúnir áður en lagt var af stað í göngu dagsins um Hornbjargið sjálft. Leiðin lá um Almenningaskarð, framhjá Eilífstindi og Skófnabergi og yfir og upp Kálfatinda, upp og niður Miðfell og útá Horn, niður að Hornbæjunum og yfir Almenningaskarð til baka. Þessi leið er nokkuð löngu eða rúmir 19 kílómetrar og skemmst frá því að segja þá var þetta hreinlega geggjuð upplifun svo vægt sé til orða tekið.
Frábært útsýni að Kálfatindum
Hornbjarg er þverhnípt sjávarbjarg og fuglabjarg sem rís úr sjó á norðvesturhorni Vestfjarða. Hæstu tindar þess eru Kálfatindur (534 m) og Jörundur (429 m), saman kallaðir Kálfatindar. Nyrsta nef Hornbjargs heitir Horn en það er nyrsti tangi Vestfjarða og miðja Hornstranda, en þar skiptast þær í Austur- og Vesturstrandir. Hornstrandir draga nafn sitt af Horni. Innst við sunnanvert Hornbjarg standa berggangarnir Fjalir. Hornbjarg var klifið 1953 af ungum manni úr Vestmannaeyjum.
Þegar komið var aftur upp í Almenningaskarð sagði Páll okkur að við mættum rúlla áfram sem við og gerðum og við Gerða næstum hlupum niður í vita og vorum langt langt á undan öðrum. Skelltum okkur í sturtu og fengum okkur kaldan áður en hópurinn skreið í endastöð. Þá tók á móti okkur forréttur: Kex, ostar og vínber. Í aðalrétt voru fiskibollur ala Hornbjargsviti og eftirrétturinn var hinn goðsagnakenndi Royal búðingur (3 gerðir) með þeyttum rjóma.
Á kvöldvökunni fóru Páll og Rósa yfir dagskrá morgundagsins en þá héldum við í tæplega 19 kílómetra göngu yfir Kýrskarð og niður frekar brattan stíg niður í Hornvík hvar við óðum Hafnarósinn og að tjaldsvæðinu við Höfn. Ætlunin var að fara inn í Rekavík bak Höfn en vegna þokuslæðinga sem komu og fóru þar ákváðum við að fara heldur til baka yfir Hafnarósinn og ganga norðanmegin í Hornvík framhjá gömlu tjaldsvæði Útivistar, framhjá fossinum Drífanda, upp Innstadal (ofan Horns bæjanna) og sömu leið og í gær, yfir Almenningaskarð og niður að vita. Þessi leið mældist þegar heim var komið ..
Við vitann beið okkar kaffi, kökur, ostar og fleira góðgæti. Kvöldmaturinn samanstóð af grilluðu lambalæri með öllu tilkeyrandi og niðursoðnum blönduðum ávöxtum með þeyttum rjóma í eftir rétt. Starfsmannafélagið bauð upp á rautt og hvítt ásamt bjór með matnum sem allir gerðu virkilega góð skil.
Lokadaginn vöknuðum við við að þokan var skriðinn inn svo ekki sá í fjöllin í kringum Látravíkina (Axarfjall í suðri, Kýrfjall í vestri og Dögunarfell í norðri). Eftir morgunmat komum við öllum farangri niður í fjöru áður en við gengum stutta göngu og fórum niður í fjöru í hins svokölluðu Duggholu sem er ákaflega skemmtileg vík með snarbratta kletta allt í kring. Báturinn kom síðan rúmlega 12 til að sækja okkur. Mun hraðar gekk að ferja fólk og farangur núna í stillunni. Siglingin tók slétta 2 tíma og við komum í Norðurfjörð eftir stórkostlega ferð í Friðlandið að Hornströndum um klukkan 15.
Eftir ákaflega stutta kveðjustund eða eiginlega enga þar sem allir gripu sína tösku og óðu hreinlega að bílunum (ég svo sem ekkert undanskilinn) og óku á brott. Við Gerða tókum okkur tíma enda með litla gula krypplinginn undir sem þýddi að við fórum ekki mikið hraðar en 70 kílómetra hraða sem var í lagi malarveginn áleiðis að Hólmavík en þegar á þjóðveginn var komið söfnuðust bílar saman í lestir og ég var lestarstjórinn. En allt fór vel á endanum.
Það hefur oft verið talað um að þau Páll Ásgeir og Rósa séu Fararstjórarnir fyrir Hornstrandir með stóru Effi! Ég get vottað fyrir það að um þau er engu logið. Þvílíkir meistarar. Í lokin orti Páll Ásgeir vísu sem hann skrifaði og kvaddi með í gestabókinni góðu í Hornbjargsvita:
Í bjarginu þétt sáum setinn bekk
Í sólskini við þeim brostum
Er hópur frá LV um Hornstrandir gekk
að horfa eftir virkjunarkostum
En þau fundu þar aðeins sinn innri kraft
þá orkulind aldrei mun þrjóta
þau reistu sér hús byggt úr rekaraft
þar refir í garðinum gjóta
PÁÁ
Rebbafjölskylda bjó í rekaviðardrumbum við Vitann
Á toppi Kálfatinda - geggjað veður og útsýni!
Sjáiði tindinn - þar fór ég!
Lopapeysufólkið Gerða, Eggert og Bryndís
Hornstrandir eru ótrúlega grænar, gular og fjólublára! Gerða á leið á Miðfell.
Gróðurinn í Hornvík - Gerða, Systa og Bryndís.
Horft til Kálfatinda og Miðfells úr Hornvík
Á toppi Miðfells - horft yfir Hlöðuvík
Þegar við fórum var þokan skriðin inn en sólin reyndi sitt besta!
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.