Puffinn run og Heimaklettur

Það var snemma á þessu ári að ljóst var að næsta hlaup okkar hlaupafélaganna úr Kópavogi yrði Lundahlaupið (The Puffin Run) í Vestmannaeyjum. Í stuttu máli sagt þá var þetta frábært hlaup.

Screenshot 2022-06-30 105321

Klár í slaginn!

Fljótlega fórum við að huga að gistingu og þar má segja að við höfum komið að tómum kofanum - ekkert laust. En Hákon reddaði gistingu í nýju Hosteli sem Guðjón Pé og félagar voru að koma upp á 3ju hæð fyrir ofan bæjarskrifstofur Vestmannaeyjabæjar við Bárustíg 15. Þegar komið var á svæðið mátti var augljóst að húsnæðið var ennþá á byggingarfasa en kojur og rúmföt voru samt komin inn í herbergin sem við og annar hópur gistum í þessa helgi.

Við lögðum snemma af stað eða klukkan 14 á föstudeginum 6 maí úr Flesjakórnum. Stoppuðum á Selfossi og vorum komin um klukkutíma fyrir brottför Herjólfs frá Landeyjarhöfn. Ferðin var þægileg með nýja skipinu yfir að Heimaey. Þangað var komið um klukkan 19 og þá stormuðum við beint upp á Hostel, komum okkur fyrir og héldum út á lífið! Fórum á Brothers Brewery og fengum okkur einn léttan áður en við fórum í mat á Einsa Kalda þar sem við Hákon fengum okkur að sjálfsögðu The Puffin run special (nautalund með alles). Við sváfum bara nokkuð vel á nýjum stað og sváfum í raun bara út enda byrjaði hlaupið ekki fyrr en klukkan 12. Rétt fyrir klukkan 12 bættust fleiri í hópinn en þá mættu Anna, Íris, Margrét og Magga Lukka úr hlaupahópi Breiðabliks en þær komu með Herjólfi bara um morgunninn. 

 

Hlaupaleiðin

Hlaupið er frá Nausthamarsbryggju framhjá FES og út Ægisgötu og Tangagötu. Inn á Skipasand og þaðan niður á Friðarhafnarbryggju. Norður fyrir N1, framhjá Spröngunni, upp Hlíðarveg og inn í Herjólfsdal. Hlaupið er hringinn í kringum Tjörnina. Þaðan er hlaupið framhjá Kaplagjótu, Mormónapolli og til suðurs með Hamrinum. Upp á Breiðabakka þaðan sem farið er niður í fjöruna Klauf og Höfðavík.

Hlaupið er með brún Stórhöfða að norðan að lundaskoðunarhúsi. Hlaupið meðfram og í lundabyggðinni vestur og allan hringinn um Stórhöfða og þaðan yfir eiðið milli Klaufar og Brimurðar. Beygt inn Kinn og hlaupið meðfram Sæfelli út veginn og síðan beygt til austurs og farið meðfram flugbraut og út fyrir flugbrautarenda að austan. Þaðan niður með brúninni og með henni þar til að komið er inn á slóða. Hlaupið á Slóðanum að Eldfelli og farið framhjá Páskahelli. Farið meðfram Eldfelli að austan að krossinum inn við Eldfellsgýg.

Síðan er hlaupið á malarveginum á Nýja hrauninu til  norðurs niður að gatnamótum, þá er beygt til austurs og hlaupið stutta vegalengd á veginum. Niður á útsýnispall hjá Viðlagafjöru, þar sem útsýni er að Bjarnarey, Elliðaey og Eyjafjallajökli. Frá honum er farið áfram til norðurs og farið grýtta leið meðfram Gjábakkafjöru sem endar upp á útsýnispalli móts við Klettshelli. Hlaupið er þaðan niður í Skansfjöru framhjá Stafkirkjunni  og Landlyst þar sem hringnum er lokað. 

 

puffin1

Leiðin öll 2022 með kílómetrum inn á

 

Á myndinni hér að ofan sjáum við við hreinlega hlaupum um alla eyjuna fögru. Við hjónin komumst loksins inn í Herjólfsdal, þar sem við fórum hring í kringum sviðið. Það koma að því að komast í Herjólfsdalinn komin á sextugsaldurinn!

Við vorum sammála Sigurbirni Erni um hvar hlaupið hafi reynst erfiðast. Km 7-9,5 = hlaupið í fjörunni og upp Stórhöfða. Km 11-13 = hlaupið upp krefjandi brekku upp að flugvellinum. Km 16-17 = þá er hlaupið með krefjandi sendnu undirlagi í hlíðum Eldfells. Hringurinn er með um 640 m hækkun þannig að leiðin er krefjandi. Fyrstu 5 km eru nokkuð þægilegir þar sem 3,5 km eru á malbiki með lítilli hækkun. Á 5-10 km kaflanum liggur leiðin töluver upp og niður og er frekar tæknileg þar sem mikilvægt er að horfa vel fram fyrir sig. Fjaran kemur eftir 7,5 km en búið var að leggja mottu töluverðan spotta af þeirri leið. Síðan var haldið upp frekar bratta grasbrekku upp Stórhöfðann uns 10 km drykkjarstöðinn var náð. Á 10-15 km kaflanum kemur lúmska brekkan upp að flugvellinum.  Á 15-20 km kaflanum er hlaupið með frábært útsýni til lands á hægri hönd og sjálft eldfellið á þá vinstri. Vikurinn í hrauninu getur verið gljúpur og auðvelt að spóla þar! Þegar búið er að hlaupa um 17.5 km er komið inn í nýja hraunið þar sem meira er gengið og klöngrast heldur en hlaupið. Síðasti 1,2 km hlutinn er síðan þegar komið er niður í fjöruna og hlaupið fram hjá Skansinum og í markið.

 

Puffinn1

puffin2

puffin3

Nokkrar myndir frá hlaupinu - fengnar af facebook síðu hlaupsins

 

Allir komumst í mark, veðrið var gott, en töluverður vindur. Hnéð hjá mér hélt eftir að keyrt var á mig á hjólinu 3 vikum fyrr. Eftir hlaupið gengum við að sundmiðstöðinni aðeins til að fá þær upplýsingar eða ekki væri pláss fyrir okkur ofan í laugina en við gætum farið í sturtu sem við ákváðum að gera. Eftir sturtuna var bara orðið stutt í mat sem við áttum bókaðan á veitingastaðnum Gott. Aftur fengum við Hákon okkur Puffin matseðil með steik og rauðvíni. Þarna sátum við í góðu yfirlæti þangað til Íris og Anna ásamt Hákoni þurftu að fara að hafa sig til í bátinn og halda heim. Við hin gistum aðra nótt, ekki oft sem maður deilir herbergi með fjórum konum!

 

IMG_1731

IMG 1739

 

Um morgunninn ákvað ég að halda mínu striki þótt Hákon væri fainn heim og kíkja á Heimaklett, hin nafntogaða algræna fjallstopp við innsiglinguna til Eyja. Bíllaus gekk ég útfyrir og meðfram allri höfninni og að uppgöngustaðnum. Fyrstu kaflarnir eru eiginlega snarbrattir (lóðréttir) stigar áðun komið er inn á frekar aflíðandi dalverpi með útsýni yfir bæinn og lundaholur allt í kring. Virkilega gaman að fara þarna upp. Leiðin upp og niður tók tæplega klukkutíma en ég hugsa að ef maður tæki á því þá sé þetta nú ekki meira en 30 mínútna ferð fram og til baka. En útsýnið var algjörlega geggjað bæði til lands og ekki síður suður eftir Vestmannaeyjunum allt til Surtseyjar.

 

20220508_085129

Mynd af toppi Heimakletta yfir Vestmannaeyjabæ!

 

Klukkan 12 áttum við síðan bátinn til baka í Landeyjarhöfn og vorum komin heim um klukkan 16 eftir að hafa skutlað ferðafélögunum (Möggu Lukkum, Margréti og Rósu) til síns heima.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

JónJóhannBloggar

Hér eru léttar lýsingar á upplifun á ferðum höfundar.

Höfundur

Jón Jóhann Þórðarson
Jón Jóhann  Þórðarson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • hopur skarðsheiði
  • Hlöðufell leid
  • Hlöðufell hopur
  • HopruinnOGHrutaborg
  • Eyjadalur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband