29.6.2022 | 15:30
Ég held ég sé að verða lasin!
Þetta heyrðist í eiginkonunni í blandi við það, Hver bókaði eiginlega þetta hlaup? þegar við vöknuðum rétt fyrir klukkan 7, laugardaginn 25 júní 2022. Brottför var rétt fyrir klukkan 08 til að vera tilbúin til brottfarar úr Flesjukórnum klukkan 08. Við Hákon græjuðum okkur með stórum töskum á meðan eiginkonurnar fylltu skottið af flíkum sem þær ætluðu kannski að vera í í hlaupinu sjálfu. Brottför klukkan 08 var millilending þar sem Rósa vildi fara klukkan 0730 á meðan ég talaði um á milli 0800 og 0830. Áfram lifði Gerða í voninni um að hlaupið yrði slegið af en það gekk ekki eftir, ekki einu sinni eftir fréttirnar um að Hákon (sem reyndar kom hálfþreyttur heima úr Eyjum á föstudagskvöldinu) og Rósa hefðu vakað hálfa nóttina vegna slæmra frétta sem þau fengu.
Áfangastaðurinn var Ólafsvík hvar við fengum far með rútum að Arnarstapa þar sem hlaupið hófst. Rútan brunaði síðan vestur fyrir Jökul og það útnesveginn að Arnarstapa. Leiðin sú er um 45 kílómetrar og völdu bílstjórar þessa leiðina frekar en að fara yfir Fróðárheiði og þaðan vestur útnesveg að Arnarstapa en sú leið er um 7 km styttri en mun brattari. Við forum ekki að deila við heimamenn um hvort sé betra. Ég held að tímasetning brottfarar hafi verið akkúrat fullkomin enda mætum við að planið við kirkjuna, græjuðum okkur, stukkum á klósettið og beint um borð í rútuna sem brunaði af stað stuttu síðar.
Allur hlaupahópurinn - alls 215 við upphafstað
Á Arnarstapa vorum við komin um klukkan 1125 og rúmur hálftími ennþá í að hlaupið hefjist. Á Stapanum var hvasst að okkur fannst nokkuð sem átti eftir að fylgja okkur langleiðina í hlaupinu. Það var eiginlega leiðinlega hvasst. Samkvæmt veðurlýsingu á Bláfeldi við rætur Fróðárheiði voru 6-12 metrar á sekúndu klukkan 12 á laugardeginum. Hlaupaleiðin er í stuttu máli svona:
Hlaupaleiðin er um 22 km. Langstærsti hluti hlaupsins er malarvegur. Fyrstu 8 km þarf að hlaupa upp í móti í c.a. 700 metra hæð. Síðan tekur hlaupaleiðin að smá lækka þar til komið er til Ólafsvíkur. Hlauparar eiga von á að þurfa kljást við snjó og drullu frá 1 km til 7 km af leiðinni, en fer það eftir því hvað veturinn var snjóþungur (innskot: Snjórinn þekur um rúmlega 4 km af leiðinni. Spáin lofar góðu) Hlauparar fá á leiðinni að upplifa einstaka náttúrufegurð og að öllu ógleymdu allri þeirri orku sem Snæfellsjökull býr yfir.
Markið er alveg efst í Arnarstapanum og fyrsti kílómetrinn eða svo er eftir veginum meðfram Stapafellinu. Eftir ágætis hækkun er beygt inn á Jökulhálsveginn og upp, upp, upp, hlykkjuðumst við eftir veginum meðfram fyrst Stapafellinu og síðan með jökulinn sjálfan á vinstri hönd. Áfram upp býsna bratta kafla með stuttum sléttum köflum inn á milli. Síðan kom snjórinn sem var ákaflega mjúkur og sökk maður vel niður. Áfram héldum við þar til komið var í skarðið á milli Geldingafells og Sandkúla og fór þá leiðin að liggja niður á við. Veginum var síðan fylgt niður, meðfram vatnsveitu þeirra Snæfellinga og allt niður á þjóðveg þar sem síðustu 2 kílómetrar hlaupsins voru hlaupnir. Það var klárt að alerfiðasti kaflinn eru þessir 2 kílómetrar á malbikinu í markið.
Hér má sjá hvernig snjórinn liggur yfir leiðinni
En mikið óskaplega var gaman að komast í markið og hitta Hákon sem var náttúrulega orðið hálfkalt að bíða eftir mér í rúmar 35 mínútur og síðan konunum í rúmlega korter í viðbót. Eftir myndatöku héldum við upp í Sjómannagarðinn og fylgdumst með verðlaunaafhendingu. Þar voru 4 aldursflokkar hjá hvoru kyni fyrir sig. Þegar þessu öllu saman lauk þá sagði Gerða Jæja, núna er komið að okkar flokki! enda útdráttarverðlaunin framundan! Og viti menn Gerða fékk einn af aðalvinningunum, nuddrúllu frá Sportvörum að verðmæti 17.900 krónur (verðmiðinn var á kassanum). Þaðan héldum við í sund sem var virkilega notalegt áður en við fengum okkur borgara á veitingastaðnum Reks. Upp úr klukkan 18 var síðan brunað í bæinn þar sem við vorum komin um klukkan 20. Frábærri ferð lokið, takk fyrir mig.
Komin í markið og allir kátir!
Hér er hægt að upplifa ferðina myndrænt!
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.