Rógvi breytti snöggt í spaða þegar hann sá að það væri möguleiki á rigningu norðan til svo við hjóluðum af stað af hótelinu með hvelli 845. Brunuðum í gegn um miðbæinn og upp bratta brekku og áleiðis að Kirkjuvog þar sem þaklaus elsta kirkja Færeyja er stödd. En byrjað var að byggja kirkjuna i kringum 1270 .
Eftir stutt stopp rúlluðum við i næsta vog þar sem rútan beið okkar og skutlaði okkur i gegnum göng til Sandeyjar. Göngin tengja Straumey við Sandey og lengd þeirra er 10,8 km en þau voru opnuð 2023. Sandey er sú nyrsta af þeim 5 eyjum Færeyja sem kallaðar eru suðureyjar. Eyjan er sú 5 fjölmennasta með rúmlega 1200 manns.
"Við eigum eftir að hjóla alla vegi á eyjunni," sagði Rógvi okkur og voru það orð að sönnu. Göngin rúlla undir Skopunarfjörð og enda á miðri eyjunni í Traðardal. Fyrst hjóluðum við skoðunarferð um um þorpið Sand þar sem um 500 manns búa. Það héldum við í austur og suðurátt og upp og niður, upp og niður. Fyrst í Húsavík, þaðan yfir til Dalur, pínulítið þorp á suðurhluta eyjarinnar. Leiðin þangað var mjög skemmtileg, frábært malbik og grindverk sjávarmegin og útsýnið gríðarlegt suður Atlantshafið. Mér þótti sérstaklega gaman að því að fylgjast með kindunum sem bitu gras þarna í snarbrattri brekkunni neðan við vegin. Magnað!
Eftir stutt stopp í Dalur hjóluðum við síðan í gegnum Húsavík aftur og til Skálavíkur þar sem við keyptum okkur hádegisverð. Enginn var á staðnum þegar við komum en tekið var ákaflega vel á móti okkur á staðnum sem var samansettur úr gömlum húsgögnum, bæði stólum, borðum og sófum frá svona 1970 ásamt myndum á veggjunum frá sama tíma! Þegar við vorum búin að panta okkur má setja að staðurinn hafi troðfyllst og um 25 manns biðu veitinga þ.a.m. 4 Íslendingar sem komu á sínum bíl með Norrönu og vorum að keyra um eyjurnar.
Frá Skálavík rúlluðum við síðan aftur yfir hálsinn og niður að Sandi og þaðan að upphafsstaðnum. Þar sem ennþá var aðeins í að rútan sækti okkur ákvað hluti hópsins að halda áfram yfir til Sköpun sem var gamli ferjustaðurinn áður en göngin komu. Þar sprakk á slöngulausu hjólinu hjá Rógva sem bara tók upp síman og bauð sér og þeim sem voru með honum í heimahús í kaffi!
Þeir sem ekki fóru í Skopun lágu eftir í sólinni við skóla þarna á miðri eyjunni. Þar æfði landslið Færeyja í blaki undir komandi landsleik við Austurríki. Ég sat þar smá stund og slakaði á. Rútan mætti síðan á umsömdum tíma og við byrjuðum á því að sækja Rógva og brunuðum síðan heim á hótel, skelltum í okkur fyrsta bjór dagsins og tókum sundur hjólin og pökkuðum þeim.
Um kvöldið var síðan sameiginlegur kvöldmatur með Rakul og hennar foreldrum ásamt Rógva á hótelinu. Það var þríréttað með "self-service". Fyrst rækjukokteill, síðan geggjað lamb og rabbarbarapæ með sýrðum rjóma (sérstakt) í eftirrétt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.