24.7.2025 | 14:13
EKKÍ ÓNÝTT AÐ VEIÐA Í ÓNÝTAVATNI
Stemmingsmynd úr Veiðivötnum
Undirbúningur fyrir Veiðivötn 2025 hófst eins og vanalega með símtölum og bókunum hjá Ella og Gerðu skömmu eftir áramótin. Atli hélt móður sinni við efnið og minnti á að græja beituna tímanlega og gera allt klárt sem þurfti að gera klárt. Við vissum snemma að við yrðum færri en venjulega þar sem Eyþór var staddur í París þegar 13. júlí rann upp en við áttum ekki von á því að Elías myndi líka detta úr skaftinu þegar veikindi trufluðu hans ferð.
Við fjölskyldan lögðum því aðeins fjögur í hann á n.v. hefðbundnum tíma upp úr klukkan 09.30 með hreinlega troðfullan bíl þ.á.m. eitt box með ís sem eftir á að hyggja var eins gott. Þar sem við höfðum nægan tíma til stefnu renndum við við í Köldukinn og heimsóttum Helgu og Þorbjörgu og fjölskyldur sem þar voru stödd. Eftir stutt stopp þar héldum við í Skarðskirkjugarð og þaðan áðum við stutt við Fossabrekkur. Hlýtt var í veðri en skýjað og vindur þannig að netin fóru ekki upp strax.
Komin inn í Vötnin góðu rétt um klukkan 13 og fljótlega var Bjalli, skálinn okkar, klár svo við gátum farið að tygja okkur fyrir veiðina. Hófum daginn í Ónýtavatni. Þar stilltum við upp á ströndinni á móti vindi og öldum og eftir stuttan tíma var sett í þann fyrsta og til að gera langa sögu stutta þá negldum við í 30 fallega urriða á rétt um 2 klukkutímum! 6 voru um og yfir 2 kg. eða rúmlega 4 pund og restin á bilinu 1,5-2 kg. Mögnuð byrjun. Við Tómas fórum að gera að þessum 30 stykkjum á meðan Atli bætti við 2 til viðbótar. Klukkan 18:40 héldum við í Breiðavatn þar sem bættust við 7 fallegar bleikjur og var sú stærsta um 1,7 kg. Vatnshæð Breiðavatns var mun minni en oft áður. Rétt um klukkan 20 héldum við heim á leið í kvöldmat, sem skv. hefðinni var hangikjöt og hvít sósa ásamt smá bita af hamborgarskinku.
Mokveiðin úr Ónýtavanti fyrstu 2 tímana!
Eftir mat héldum við í Litla Skálavatn þar sem Gerða krækti í einn fallegan urriða, aftur í Breiðavatn og síðan í bæði Ónefndavatn og Ónýtavatn áður en heim var farið um miðnætti. Við sáum á vesturhimni að eitthvað var í kortunum varðandi mánudaginn sem svo sannarlega kom á daginn því það var kominn 14 stiga hiti klukkan 08 á mánudagsmorgun og nánast logn.
Vöknuðum upp úr klukkan 07 og gerðum okkur klár (lesist - löguðum kaffi), náðum í beitu og af stað. Ungi maðurinn fékk að sofa aðeins lengur. Vorum mætt í sannkallaðri rjómablíðu í Litla Skálavatn 0745. Léttskýjað, sól, logn og mikil fluga. Síðan var haldið í Breiðavatn þar sem ég skildi hin eftir og sótti Tómas ásamt því að gera að því sem komið var á land um morguninn. Ákváðum að kíkja niður í Nýjavatn þar sem við lögðum upp hæð og gengum niður. Það var svolítið þungt í hitanum og brattanum. En um 50 metra hæðarhækkun reyndist vera þessa rúmu 200 metra sem við gengum! En við urðum ekki vör í Nýjavatni en fengum smá æfingu í staðinn! Héldum þaðan í Kvíslarvatnsgíginn þar sem við urðum ekki vör. Loks var haldið í Langavatn, Ónýtavatn, Arnarpollinn og strauminn í Snjóöldu en þangað vorum við komin klukkan 15:20. Fengum fiska á öllum stöðum nema í Arnarpollinum.
Ekki oft sem veitt er ber að ofan í vöðlunum!
Það tekur á að veiða svona mikið!
Áfram héldum við á nýjan stað í Breiðavatni sem gaf ekkert! Héldum síðan heim á leið með viðkomu í Skálavatni áður við gæddum okkur á pulsu og kók heim í skála. Hitinn var orðin afar mikill seinni partinn náði mest 26 gráðum sem við sáum á bílnum á leiðinni. Klukkan 19 héldum við norður á bóginn og stefnt á Litlasjó með viðkomu á síldarplaninu í Stóra Fossvatni. Þar datt Tómas í lukkupottinn og hreinlega mokaði upp fiski og á tíma sönglaði kappinn fyrir munni sér: "Fjögur-eitt þið getið ekki neitt". En leikar jöfnuðust aðeins þegar á leið kvöldið. Tómas hafði á orði að Stóra Fossvatn væri líklega hans uppáhaldvatn og þó Langavatnið og reyndar Snjóaldan eiga líka stað í hjartanu sagði kappinn!
Flugur, vatn og stöng í Stóra Fossvatni
Upp úr klukkan 22 héldum við aftur suður á bóginn án þessa að kíkja í Litlasjó enda 11 fiskar á land á síldarplaninu. Við Tómas fórum roggnir að gera að á meðan Gerða og Atli héldu áfram. Við aðgerðarborðið vorum við yfirheyrðir af kalli sem flakaði sinn fisk um veiðina á síldarplaninu. Hann sagðist vita af því að fólk hefði verið þarna í 2-3 tíma fyrir klukkan 19 og ekki orðið vör! Þetta átti við okkar mann sem nefndi að það sé ekki fyrir alla að finna lykilinn að kistunni!
Nýjavatn (brekkan niður framundan)
Þegar þarna var komið voru öll möguleg box að fyllast af fiski en engu að síður var beituboxið ennþá laust sem var eins gott þvi enn áttum við von á góðu. Vöknuðum seinni morgunninn upp úr klukkan 07 og héldum af stað öll 4 klukkan 0730. Þennan fallega morgun var ennþá heitara en daginn áður og ekki hreyfði hár á höfði. Við héldum í morgunvatnið góða, Litla Skálavatn, þar sem við Gerða fengum sitthvorn fiskinn. "Hvort viljið þið fara núna í Breiðavatn eða Ónýtavatn?", spurði móðir. Ónýtavatn var svarið. "Allt í lagi, við förum þá fyrst í Breiðavatn það er hvort eð er í leiðinni," . Ekkert gerðist í Breiðavatni en í Ónýtavatni fóru hlutir að gerast og landaði Tómas sínum stærsta fiski í sögunni en hann mældist rúmlega 2,1 kg eða vel rúmlega 4 pund. 3 til víðbótar bættust við og heildartalan er því 40 stykki sem reyndist vera 62,5% af þeim fjölda fiska sem veiddust í Ónýtavatni þessa vikuna!
Okkar maður kátur!
Rúmaðist varla í háfnum!
Við hættum klukkan 10.30 sem var um hálftíma á eftir áætlun enda heldur betur tími til að forða aflanaum frá skemmdum hreinlega. Á meðan ég gerði að morgunveiðinni byrjaði Gerða að taka til og strákarnir tóku saman stangir og annað. Lögðum af stað heim á leið klukkan 11:50 og skriðum inn í Háulindina kl 14.20 eða svo.
Krían að gera sig heima komna í beituboxinu
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.7.): 17
- Sl. sólarhring: 21
- Sl. viku: 62
- Frá upphafi: 5463
Annað
- Innlit í dag: 17
- Innlit sl. viku: 56
- Gestir í dag: 17
- IP-tölur í dag: 17
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning