
Hópurinn í upphafi ferðar!
(Fanney, Bjarki (farastj), Áslaug, Jón (farastj), Jón Andri, Gerða, Dóra, Kristrún, Edith, Dagný, Jón, Kristín, Vignir, Jói, Eyþór, Dóra, Olli, Bertha, Jónína, Brynhildur og Einar)
11:50 AM on Saturday, July 26, 2025 Skaftárhreppur
Núpsstaðaskógur - Skaftafell - Dagur 1
ð¦¶â¬ï¸ 2025 = 39,816 m | ð summitbag.com
Ferðalagið hjá okkur Gerðu hófst upp úr klukkan 15 þegar við lögðum í hann að heiman og stefnan sett á Svínafell í Öræfum þar sem við hittum hópinn og gistum eina nótt. Flestir voru komnir á svæðið og bauð Áslaug upp á góða Döðlutertu með súkkulaði sem ég skolaði niður með bjórnum!
Áætluð brottför var kl 09 en fararstjórar voru svo rólegir í tíðinni að við fórum ekki fyrr en 09:15 eða svo af stað og lögðum bílum svolítið innan við tjaldsvææðið í Skaftafelli eða nálægt mynni Morsársdals. Á meðan við dóluðum okkur þangað kom Jón fararstjóri við hjá Fjallaleiðsögumönnum til að fá búnað að láni fyrir 2. Það gekk allt saman, síðan var skipt í bíla og lagt af stað og keyrt rúmlega 30 km eftir þjóðvegi 1 og rétt áður en við komum að brúnni yfir Núpsvötn þá beygðum við útaf og renndum út á sandinn sem áður hafði verið botn á beljandi stórfljóti. Slóðinn var ágætur framan af en versnaði síðan mjög enda tók það okkur um klukkutíma að aka upp að tjaldsvæðinu í Núpsstaðaskógi.

Systur í upphafi ferðar
Loksins þegar þangað var komið og allir voru klárir var klukkan 11:50 og við gátum loksins paufast af stað með níðþunga pokana. Fyrstu 2 km liggur leiðin eftir vegi þangað til við þurfum að ganga upp í hlíðina og slást við trjágreinar næstu 2-3 kílómetrana. Loksins komumst við á sandinn neðan Kálfsklifs þar sem ætlunin var að stoppa stutt en náði að verða hátt í klukkutími enda veðrið gott og allir léttir.

Slegist við trjágreinar
Eftir um það bil 5 mínútna barnig við greinar þar sem mjög skemmtileg risastór hvít blóm urðu á vegi okkar var komið að ótrúlegum farartálma sjálfu Kálfsklifi. Í lýsingu á kletti eða klifi þessu segir í Árbók Ferðafélagsins frá 2024; "Kálfsklif er á að gisak 10 metra hár móbergsstallur sem erfitt er að komast upp ... . Niður klettahaftið hefur til þessa legið járnkeðja sem unnt er að hafa sem handfestu og príla þannig upp bergið. Rétt er að sýna þarna fyllstu aðgát og æskilegt að bæta við tryggingu með því að bregða um fólk bandi ef margir eru í för." Það var og!

Gerða í Kálfsklifinu
Til að gera langa sögu stutta þá komumst allir upp, 20 af 21 skildu pokann sinn eftir og þeir voru síðan hífðir upp. En þetta var vægast sagt býsna erfitt fyrir hluta hópsins og langt fyrir utan þægindaramma flestra. Þegar upp var komið ákváðu 2 að snúa við en þau ætluðu að gista með okkur eina nótt og ganga síðan niður aftur en hættu við eftir að hafa mátað sig við klettinn. Allt í allt tók þetta rúma 2 klukkutíma að koma öllum og farangri þeirra upp.
Rétt ofan við Kálfsklif blasir hinn svokallaði tvíliti foss við. Hann er auðvitað ekkert tvílitur en svæðið kallast Núpsárhylur en í hann falla tveir fossar, Núpsárfoss og Hvítárfoss. Árnar hafa sitt hvorn litinn og því myndast þessi skemmtilega náttúrusmíð eins og sjá má á myndum. Áfram var haldið en nú var hreinlega orðið áliðið dags og gengum við ekki nema í um 3-4 kílómetra í viðbót þar sem ákváðum að borða kvöldverð og ganga síðan aðeins lengra fram á kvöldið.

Hjónin ofar Kálfsklifi

Dagný og Eyþór ofar Kálfsklifi
Rétt eftir kvöldmatinn við Skessutorfugljúfur þurftum við að taka út mikinn bratta í gegnum þröngt gil á að giska 100-200 metra hækkun á skömmum tíma. Þetta tók svo sannarlega á en upp á Hvassavalladalssker komumst við og klukkan farin að nálgast 21 og við ennþá langt frá áætluðum tjaldstað. Varð það úr að við gengum á að giska 2 kílómetra í viðbót þar sem gengið var eftir melum að mestu en upp og niður gil.
Loks sáum við ágætis tjaldstað þar sem við gátum tjaldað og það var ekki mikill leikur í fólki enda fórum við að sofa fljótlega.

Næturstaður
8:54 AM on Sunday, July 27, 2025 Skaftárhreppur
Núpsstaðaskógur - Skaftafell - Dagur 2
ð¦¶â¬ï¸ 2025 = 40,457 m | ð summitbag.com
Eftir ágætan nætursvefn var ræs einhvern tímann upp úr klukkan 7 en stefnt var á að leggja af stað "svona hálf níu, níu" lesist nær 9 en hálf níu! Veðrið var með besta móti sól og sumar bara eins og spáð var. Fararstjórar áætluðu að við ættum eftir um það bil 2 kílómetra að áætluðum tjaldstað en reyndin var að örugglega rúmlega 4. Við tókum síðan að okkur fannst töluverðan krók vestur fyrir fjalið Eggjar og gengum eftir hlíðunum sunnan við gamla lónstæðið þar sem áður var Grænalón. Þarna lentum við í miklu brasi og þræddum há og mikil gil, upp og niður, upp og niður.

Flottir svilar
Loks komumst við fram á brúnirnar og horfðum í átt til Skaftafellsfjalla. Fararstjórar höfðu áætlað að við mættum ekki leggja mikið síðar á jökulinn en á milli klukkan 12 og 13. Þarna vorum við hins vegar um kl 13 og áttum enn ófarna rúma 2 kílómetra að jökulröndinni. Tekin var fundur þar sem ákveðið var með framhaldið. Allir vildu halda áfram og taka stöðuna þegar að jöklinum kæmi. Við gengum niður í gamla lónstæðið og komum þá að líklega ánni Súlu sem var hreinlega ofvaxinn og ómögulegt að vaða hana nokkur staðar. Áfram héldum upp í hlíðunum sunnan við lónstæðið þangað til við sáum hvernig áin fór í boga að Grænafjallstöglum og niður meðfram jöklulröndinni og alls endis óvíst hvar hún rynni undir jökulinn. Kannski þyrfti að ganga marga kílómetra niður með jölinum og klukkan orðin 15:30 og komnir 12 kílómetrar!
Tekin var ákvörðun á þessum tímapunkti að snúa við. Við gengum síðan eftir fjallinu Eggjar áleiðis að trakkinu okkar vestan við Eggjar. Skemmst frá því að segja þá var þessi leið miklu styttri og miklu þægilegri yfirferðar. Eftir á að hyggja hefðum við alltaf átt að fara þessa leið. Eftir rúmlega klukkutíma gang komumst við á trakkið okkar og fylgdum því síðan til baka. Um 2 kílómetrum frá tjaldstaðnum okkar frá deginum áður ákváðum við að tjalda enda klukkan orðinn 20:30.
Tjaldsvæðið var hið mýksta með mosa og lyng undir og engjarósina allt í kring. Alls voru 13 tjöldum tjaldað fyrir þessar 19 sálir sem þarna voru á ferð og bauð Olli "konunum sínum" upp á rauðvín úr 1 lítra fernu en þar sem þau voru á "ððru" tjaldsvæði en 5 tjaldanna fengum við ekki veður af þessari áfengisneyslu fyrr en daginn eftir.

Grænafjalltagl fyrir miðri mynd þar sem við áttum að fara upp á jökul.
Skaftafellsfjöll til hægri og fjær á myndinni.
8:48 AM on Monday, July 28, 2025 Skaftárhreppur
Núpsstaðaskógur - Skaftafell - Dagur 3
ð¦¶â¬ï¸ 2025 = 40,749 m | ð summitbag.com
Það var rjómablíða þegar við vöknuðum og meira að segja var flugan vöknuð þegar við græjuðum morgunmatinn. Brottför var eins og daginn áður og við vorum farin 08:48 af stað. Þrammað var niður mela, upp og niður gil. Stoppuðum og kíktum út á magnað gil sem er skammt ofan við hin svokölluðu Nautavöð þar sem áður var farið yfir ánna. Upp úr klukkan 11 komum við að gilinu bratta. Ferðin þar niður sóttist hægt en örugglega og þegar niður var komið ákváðu fremstu menn að nú væri komið að hádegismat!
Á þessum fallega engarósabletti við fallega lindá nærðum við okkur aðeins fyrir lokasprettinn. Eftir gönguna stýrði sá sænski ferðinni og sóttist hún vel alla leið niður á brúnir Núpshyls. Meðan ferðafélagarnir gengu fram á brúnir og tóku myndir í gríð og erg gerði Bjarki fararstjóri allt klárt fyrir sig niður klettinn. Athyglisvert að sigtólin og stuðningurinn var núna dreginn fram en ekki þear við fórum upp. En allt gekk vel og mikið öryggi að hafa tryggingu ef eitthvað gerðist. Sumir voru mjög hræddir og hreinlega grétu bæði í miðri hlíð sem og ekki síst þegar niður var komið. Fleiri fóru núna með poka á bakinu niður enda vorum við töluvert sneggri niður en upp, allt í allt tók það hópinn rúmlega klukkutíma að paufast niður.
Við slógumst síðan við trjágreinar í Núpsstaðaskóginum eins og fyrr en okkur sóttist ferðin vel og vorum komin að bílunum rúmlega 17 eftir rúmlega 8 tíma göngu (ferðalag). Þegar þangað var komið var einum bíl og tveimur manneskjum færra en við komuna en með góðri skipulagningu komumst allir sem og pokarnir með og lagt var í hann kl 17:30 en þá einmitt komu fyrstu rigningardroparnir. Ferðin í gegnum sandinn tók okkur rúman klukkutíma eftir að við villtumst a.m.k. tvisvar á leiðinni.
Loksins komumst við aftur á bílastæðið okkar vestan við tjaldsvæðið, kvöddum ferðafélagana, pikkuðum upp pokana og héldum hvert okkar leið. Sumir heim á meðan aðrir ætluðu að gista aftur á Svínafelli. Við rúlluðum í Systrakaffi á Klaustri og borðuðum. Skipulagið var það mikið að þegar við Gerða komum í hús og fengum borð þá pantaði hún fyrir okkur 5 þótt hin væru ekki komin. Tæplega 21 lögðum við síðan af stað í bæinn og vorum komin heim fyrir miðnætti.
Frábærri ferð um Núpsstaðaskóg lokið þótt hún hafi ekki alveg gengið upp þ.e. leiðin þá var ferðin í heild sinni frábær. En það eru samt nokkrir hlutir sem þyrfti að bæta og hafa í huga fyrir næstu ferð, ekki spurning.

Núpsárhylur þar sem Súlá og Núpsá falla saman og mynda "tvílitan" hyl.

Gaman að ganga út á klettinn bak við runnana
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning