Færsluflokkur: Ferðalög

Í FJÓRÐA SINN Á HNJÚKINN

 

Gerðu ásamt “hennar konum” úr hlaupahópi Breiðabliks hafa rætt það sín á milli hvort þær ættu ekki erindi upp á Hvannadalshnjúk. Ég, sem farið hef þrisvar sinnum á toppinn í 4 tilraunum, hélt það nú og væri alveg til í að koma með. Ég kannaði hvort Jón Gauti væri til í að koma okkur á toppinn en hann sagðist vera svo gott sem hættur svona og benti á afar vandaða leiðsögumenn þau Árna og Írisi sem saman reka ferðaþjónustuna Tindaborg. Í ljós kom að Margrét Klausturmær þekkti til þeirra og gekk frá bókun fyrir hópinn með öllu inniföldu þ.e. broddum, beltum og ísöxum. 

Ferðin var ákveðin í byrjun júní nánar tiltekið helgin 10-12 júní. Þá var bara að leggjast á bæn og vona að veðurgluggi myndi opnast þessa helgi. Á miðvikudeginum fyrir gönguna hittumst við á netfundi til að fara yfir málin en áður hafði hópurinn hist í H20 til að stilla saman strengi - þar sem ég m.a. hnykkti aðallega á að hafa nóg að drekka, hafa lokuð sólgleraugu og vera tilbúin að ganga lengi (12-15 klukkutímar er algengur tími á Hnjúkinn) og veglengdin á klassísku leiðinni um Sandfell um 25 km. 

Á miðvikudeginum var símafundur með fararstjóranum sem sagði laugardaginn allt eins líklegan og sunnudagurinn. En hún myndi hafa samband á fimmtudeginum til að negla allt saman. Við héldum austur upp úr hádegi á föstudeginum og loksins komu skilaboðin - gangan yrði daginn eftir á laugardeginum og hittingur klukkan 19 í Svínafelli heima hjá fararstjórunum. Við brunuðum austur með Hákoni og Rósu og vorum komin um klukkan 18 að hreint ágætu tjaldsvæði á Svínafelli. Um kvöldið var nánast logn, nokkuð hlýtt og örlítil úrkoma, þótt það virtist vera mikil rigning þar sem við hjónin lágum í göngutjaldinu okkar góða. Með okkur í ferðinni voru: Anna og Íris ásamt sínum eiginmönnum Tryggva og Skúla og voru þau í tjaldi á tjaldsvæðinu. Magga Lukka og Þórdís gistu í bændagistingu við hliðina á okkur á Svínafelli. Margrét og hennar maður Jón Már gistu svo á Kirkjubæjarklaustri og komu keyrandi um morgunninn.

Brottför klukkan 05 sem þýddi að við vöknuðum upp úr klukkan 04 um morgunninn. Veðrið var skaplegt en okkur fannst eins og ekkert sæist í toppinn góða. Fararstjórarnir sóttu hluta hópsins og voru búnar að ákveða að keyra austur að Hnappavöllum og keyra þar upp á heiðina þar ofan við. Vegurinn liggur rétt við glæsilega Glacier Lagoon hótel. Hann er þræl brattur og mjög grófur á köflum enda tók aksturinn okkur frá Svínafelli þangað sem við stoppuðum tæpan klukkutíma. En allt hafðist þetta og skammt neðan við snjólínuna lögðum við af stað úr uþb 700 metra hæð 06:15 að staðartíma. 

Vatna 1

Við upphaf ferðar

Ferðin sóttist ágætlega og eftir um klukkutíma gang fórum við í línur. Línurnar voru 2 og 5 í hvorri ásamt fararstjóra. Eftir 4 tíma baráttu við nær endalausar snjóbrekkur sem þó komu og fóru vegna þoku sem og landslags þá vorum við komin upp á öskjuna í ríflega 1800 metra hæð. Þar tókum við góða pásu en það þurfti líka að huga að ferðafélögunum þá sérstaklega Möggu Lukku sem var alveg við það að hætta en með lagni og útsjónarsemi tókst fararstjórunum sem og hluta samferðamannanna að stappa í hana stálinu og þá þannig að hún ákvað að halda áfram. Ferðin yfir öskuna sjálfa sóttist vel enda sléttlendi og sólbráðin ekki farin að trufla að neinu ráði. Eftir tæplega 6 tíma göngu nálguðumst við Hnjúkinn sjálfan og við það opnuðust himnarnir og Hnjúkurinn sem og aðrir tindar á öskjunni svo sem Rótarfjallahnúkur, Dyrhamar, Sveinstindur, Sveinsgnípa og Hnapparnir báðir blöstu við. 

vatna2

Við stoppuðum stutt neðan við Hnjúkinn og fórum í jöklabroddana. Þar voru  margir að stíga sín fyrstu skref á jöklabroddum. Við skárum brekkuna vel, klofuðum yfir sprungur og komumst loks á tindinn sjálfan eftir rúmlega 7  klukkutíma gang. Það var ansi mögnuð upplifun að komast á tindinn enn eina ferðina og ekki síður hjá ferðafélögunum sem allir voru að komast í fyrsta sinn á toppinn. Útsýnið var magnað þótt við sæum ekki alveg til Snæfells og Herðubreiðar eins og stundum áður. En Fjallkirkjan, Lómagnúpur og jöklarnir í vestri auk öskjunnar í suðri blöstu við. Alla ferðina vorum við með "cat 4" gleraugun okkar sem vöktu athygli fararstjórana sem áttuðu sig á því á toppnum - þið eruð öll með eins gleraugu! Síðan er gaman að segja frá því að þegar ég sett upp gleraugun neðarlega í snjóbrekkunni þá skildi ég ekkert í því að það var eins og annað glerið væri skítugt og ég var að reyna að pússa það en áfram skrölti ég upp og í næstu pásu segir Gerða - heyrðu vantar ekki annað glerið hjá þér? Jú, jú, það stóð heima - kannski ekki skrýtið að það hafi verið smá munur á milli augna - það vantaði glerið í annað augað. Ég fanna það í pokanum og smellti í og það var allt annað líf. 

 

290093762 584751626410632 1885968053695564629 n

 

Hópurinn samankomin í 2110 metrum

 

IMG 2001.HEIC

Saman á toppnum!

Upp úr klukkan 14 lögðum við í'ann niður. Það gekk ágætlega niður mesta brattann af Hnjúknum sjálfum og þurftum við hjónin að skella okkur niður og dúndra ísexinni í snjóinn til að stöðva Jón Má frá því að renna af stað en hann var orðinn nokkuð valtur á fótunum. En allt hafðist þetta niður og yfir öskjuna aftur þótt Gerða hafi all oft þurft nánast að draga Jón má með sér enda hægðist verulega á honum eftir því sem á leið. Ferðin niður löngu snjóbrekkuna gekk svipað Gerða togaði í Jón enda snjóbráðin farin að hafa verulega áhrif á þreytta fætur. Á köflum sukkum við vel upp að hnjám. En allt hafðist þetta og við vorum komin niður í bíl rétt rúmlega 12 tímum eftir að við lögðum af stað eða um klukkan 18.20. 

Við tók aksturinn niður brattann og að Svínafelli þar sem við kvöddum farastjórana okkar með virktum. Við skelltum okkur í sturtu, rusluðum tjöldunum saman enda með bókað borð á hótelinu á Klaustri um klukkan 21 en þangað eru 75 kílómetrar og eins gott að halda vel á spöðunum. Við brunuðum á Klaustur og skelltum upp tjöldunum og gengum síðan að hótelinu. Steik og rauðvín var á matseðlinum hjá flestum nema bleikja á hjá Gerðu (hvað annað). En flestir voru bara alveg búnir á því og enginn leikur í mannskapnum. Við vorum því komin í koju um 23 enda búin að vera á fótum í 19 tíma.

Sunnudagsmorgunninn vakti okkur svo sannarlega með kossi enda nærri 15 stiga hiti sem siðan fór vel yfir 20 stigin og logn. Við Hákon skelltum okkur í smá göngu upp að Systravatni og niður hjá Systrafossi áður en við fórum í sundið sem ekki opnaði fyrr en klukkan 10 þennan sunnudagsmorgun. Eftir sundferðina fórum við síðan í smá búbblur og osta hjá foreldrum Margrétar sem bjuggu hreinlega í næsta húsi við sundlaugina.  

Okkar frábæru fararstjórar Íris og Svanhvít birtu færslu Facebook síðu Tindaborgar þar sem okkar er getið. Færsluna má sjá hér. Þeir félagar Skúli og Tryggvi bjuggu til létt myndbönd hvor um sig eftir ferðina sem gaman er að skoða. Skúla myndband er hér og hans Tryggva er hér.

 

20220611 105343

Hákon og Rósa

 

20220611 105417

Jón Már og Margrét

 

vatna gerda kok

 Gerða  með kók í 1900 metrum

 


FJÓRIR FJÓRIR TVEIR*

Spennan var eiginlega orðin áþreifanleg hjá þeim mæðginum Atla og Gerðu daginn fyrir Veiðivötnin. Allt var samkvæmt bókinni, brottför klukkan 09.25, brunað fram úr afa og ömmu rétt áður en komið er að Sandskeiði. Dólað í gegnum Selfoss og stoppað við kirkjuna í Skarði þar sem blóm vöru lögð á leiði þeirra Árna og Þorgerðar sem og hjá Ingvari og Sigríði (foreldrum Ella). "Það er alveg sama hversu snemma ég legg af stað, alltaf eruð þið komin þegar ég mæti," sagði Elías sjálfur þegar við hittum hann um klukkan 11 við Skarðskirkju. Við kirkjuna voru framkvæmdir, búið að skipta um klæðningu á kirkjunni. Áfram var haldið og nestispása tekin við Fossbrekkur skammt sunnan við gatnamótin inn í Dómadal. Mættir voru Elli á sýnum spánýja Santa fe, Afi og amma með Þórey Maríu og Sigrúnu Ástu og við (með Atla). Eyþór fór í jarðarför í Stykkishólmi og kom ekki fyrr en seint um kvöldið.

Mætt í vötnin um klukkan 12.30 í sannkallaðri rjómablíðu. Við vorum á nýjum stað í húsi, húsinu Seli, sem stendur einna næst Varðbergi sem og aðgerðarborðinu (sem reyndar átti eftir að koma sér afar vel fyrir aðgerðarformanninn sjálfan). Gerða tölti að borðinu og fékk formlega leyfi að byrja fyrr. 14:07 vorum við komin á bakkann í Ónýtavatni, sem hafði gefið svo vel í fyrra, en viti menn ekki vör! 14:45 vorum við því komin í Ónefndavatn þar sem fyrstu fiskarnir komu á land. Það var haldið í Breiðavatn sem gaf vel sem og Litla Skálavatn á heimleið. Flott byrjun á deginum. Eftir mat héldum við á Síldarplanið sem gaf ekkert í Litla sjó þar sem sá gamli bar höfuð og herðar yfir aðra veiðimenn og setti í 3 urriða á letingjanum með aðra letingja allt í kring. Um 22:18 vorum við mætt í Grænavatn þar sem Atli fékk einn lítinn urriða. Ekki hefðbundinn Grænavatns-urriði sagði móðir. Veitt var til miðnættis í hreint mögnuðu veðri.

IMG 2142

Geggjað sjónarspil í miðnætursólinni ofan af Hádegisöldunni

20220705 231329

Heill Regnbogi blast við okkur við Grænavatn

Niðurstaða dagsins (og haldið ykkur nú): Jón 9 fiskar, Atli 8, Gerða 7 fiskar. Hvenær gerðist það síðast að frú Þorgerður var í 3ja sæti af 3?

Manni fannst maður vera nýsofnaður þegar klukkan hringdi hjá Gerðu. Ræs klukkan 06:40 og við vorum mætt á Langavatnsbakkann og byrjuð að veiða klukkan 07:20. 3 komnir á land klukkan 07:25 og 7 klukkan 07:40. Þetta var svo sannarlega mokveiði, 26 pund og 22 fiskar. Allt mjög flottar bleikjur. Af Langavatnsbakkanum héldum við um klukkan 09:30. Komum við í Seli og skiluðum af okkur fisknum og héldum í Litla Skálavatn, hvar Atli náði einum frekar smáum. Það héldum við í Ónýtavatni þar sem undirritaður náði einum á Letingja hvað annað! Í strauminn í Snjóöldu héldum við og náðum í 3 bleikjur. Síðan lá leiðin í Breiðavatn þar sem við duttum í lukkupottinn og mokveiddum hvort sem það voru kríur eða silungar. Ég hjálpaði bæði Gerðu og Ella við að losa kríu sem reyndi að ná sér í beituna þegar hún sveif um loftin blá. Vakti athygli mína hvað þessi fallegu dýr eru smá og ég sleppti þeim bara eins og lundapysju. Þegar veiðin datt niður í Breiðavatni var haldið í veislu. Pylsur með öllu og kartöflusalati. Eftir matinn var allt eftir bókinni, Elli fór í sína árlegu heimsókn til Veiðivarðanna en við hin héldum suður um þ.á.m í Arnapolli þar sem Atli krækti í einn. Áfram var haldið og undir lokin í Ónefndavatn þar sem hlutirnir fóru að gerast. Fyrst urðu bæði Eyþór og Atli varir og Eyþór næstum landaði einum vænum en síðan skellti Gerða í þann stóra sem reyndist vera ríflega 4 punda risi en það var ekki allt því bæði Atli og Gerða náðu í annan og sá seinni hjá Gerðu var rúmlega 2,5 pund. Veðrið var orðið frekar leiðinlegt þegar þarna var komið við sögu og héldum við Eyþór í hús upp úr klukkan 23 en Gerða og Atli þraukuðu út tímann en fengu ekkert.

Niðurstaða dagsins var þessi: Atli 27 stykki, Gerða 18 og gamli kominn á sinn stað 12.

Seinni morgunninn rann upp bjartur og fagur og hafði ég á orði að það hafi nú bara ekkert komið þetta slæma veður sem spáð var. Við vorum mætt á bakkann fljótlega eftir klukkan 07 og aftur duttum við í virkilega góða veiði, eiginlega mokveiddum. En fljótlega upp úr klukkan 8 voru blikur á lofti** Óveðurskýjunum fjölgaði ört og djúpt í suðri var eins og veggur nálgaðist okkur. Gerða spurði hvort þetta væri úrkoman væntanlega eða sandstormur? Þegar við bruddum sandinn með tönnunum og augun smáfylltust af fíngerðu ryki varð okkur ljóst að hið síðarnefnda var akkúrat málið. Það tók að hvessa með þessu fíngerða ryki og það var sjálfhætt upp úr klukkan 09:30 og haldið heim í hús. Þegar þangað var komið varð okkur ljóst að það myndi ekki nokkur maður koma eða fara fyrr en veðrið myndi ganga niður. Við vorum veðurteppt inn í Veiðivötnum á hásumri!

Niðurstaða dagsins var þessi: Gerða 9 stykki, Atli 6 og gamli 4.

20220707 095422

Blikur á lofti við Langavatn!

IMG_2204

Svona er "venjulegt" útsýni þegar skýjað er af Langavatnsbakkanum!

Við tjilluðum síðan í húsinu góða fram til klukkan 14 en þá virtist fara að komast hreyfing á mannskapinn. Elli var búinn að hafa samband við þann sem átti húsið á eftir okkur og sá var rólegur í Hrauneyjum og vildi bíða af sér veðrið (enda á nýjum bíl rétt eins og við Elli). Þegar Gerða fór síðan að skila veiðiskýrslunni hváði bara Bryndís - "55 fiskar úr Langavatni!". Enda kom í ljós að heildarveiði úr Langavatni í viku 3 voru 127 fiskar - við fengum því 43,3% af heildarfjölda fiskanna þá viku, geri aðrir betur! Leiðin heim var síðan tíðindalaus þótt við á einum stað keyrðum í gegnum sandskafl sem minnti bara á þegar snjór safnast saman í brekkum. Stoppað var í Árnesi og síðan brunað heim í H20 þangað sem við vorum komin um klukkan 17.30.

**Orðasambandið blikur eru á lofti ber ávallt neikvæða merkingu enda merkir orðið blika: óveðursský. Orðasambandið sjálft merkir: eitthvað ógnvænlegt og óvisst er fram undan, það horfir ófriðlega, horfur eru ekki vænlegar. Þess sjást merki að erfiðleikar eða slæmt ástand sé fram undan (sjá Merg málsins).

*Af hverju 4-4-2. Jú þetta er fótboltatenging og einnig gróflega skiptingin á milli okkar veiðimannanna. Þ.e. Gerða og Atli 4 hluti hvort á móti 2 hjá mér!

 

veiðvotn1_veidi

Heildarveiði 2022


Puffinn run og Heimaklettur

Það var snemma á þessu ári að ljóst var að næsta hlaup okkar hlaupafélaganna úr Kópavogi yrði Lundahlaupið (The Puffin Run) í Vestmannaeyjum. Í stuttu máli sagt þá var þetta frábært hlaup.

Screenshot 2022-06-30 105321

Klár í slaginn!

Fljótlega fórum við að huga að gistingu og þar má segja að við höfum komið að tómum kofanum - ekkert laust. En Hákon reddaði gistingu í nýju Hosteli sem Guðjón Pé og félagar voru að koma upp á 3ju hæð fyrir ofan bæjarskrifstofur Vestmannaeyjabæjar við Bárustíg 15. Þegar komið var á svæðið mátti var augljóst að húsnæðið var ennþá á byggingarfasa en kojur og rúmföt voru samt komin inn í herbergin sem við og annar hópur gistum í þessa helgi.

Við lögðum snemma af stað eða klukkan 14 á föstudeginum 6 maí úr Flesjakórnum. Stoppuðum á Selfossi og vorum komin um klukkutíma fyrir brottför Herjólfs frá Landeyjarhöfn. Ferðin var þægileg með nýja skipinu yfir að Heimaey. Þangað var komið um klukkan 19 og þá stormuðum við beint upp á Hostel, komum okkur fyrir og héldum út á lífið! Fórum á Brothers Brewery og fengum okkur einn léttan áður en við fórum í mat á Einsa Kalda þar sem við Hákon fengum okkur að sjálfsögðu The Puffin run special (nautalund með alles). Við sváfum bara nokkuð vel á nýjum stað og sváfum í raun bara út enda byrjaði hlaupið ekki fyrr en klukkan 12. Rétt fyrir klukkan 12 bættust fleiri í hópinn en þá mættu Anna, Íris, Margrét og Magga Lukka úr hlaupahópi Breiðabliks en þær komu með Herjólfi bara um morgunninn. 

 

Hlaupaleiðin

Hlaupið er frá Nausthamarsbryggju framhjá FES og út Ægisgötu og Tangagötu. Inn á Skipasand og þaðan niður á Friðarhafnarbryggju. Norður fyrir N1, framhjá Spröngunni, upp Hlíðarveg og inn í Herjólfsdal. Hlaupið er hringinn í kringum Tjörnina. Þaðan er hlaupið framhjá Kaplagjótu, Mormónapolli og til suðurs með Hamrinum. Upp á Breiðabakka þaðan sem farið er niður í fjöruna Klauf og Höfðavík.

Hlaupið er með brún Stórhöfða að norðan að lundaskoðunarhúsi. Hlaupið meðfram og í lundabyggðinni vestur og allan hringinn um Stórhöfða og þaðan yfir eiðið milli Klaufar og Brimurðar. Beygt inn Kinn og hlaupið meðfram Sæfelli út veginn og síðan beygt til austurs og farið meðfram flugbraut og út fyrir flugbrautarenda að austan. Þaðan niður með brúninni og með henni þar til að komið er inn á slóða. Hlaupið á Slóðanum að Eldfelli og farið framhjá Páskahelli. Farið meðfram Eldfelli að austan að krossinum inn við Eldfellsgýg.

Síðan er hlaupið á malarveginum á Nýja hrauninu til  norðurs niður að gatnamótum, þá er beygt til austurs og hlaupið stutta vegalengd á veginum. Niður á útsýnispall hjá Viðlagafjöru, þar sem útsýni er að Bjarnarey, Elliðaey og Eyjafjallajökli. Frá honum er farið áfram til norðurs og farið grýtta leið meðfram Gjábakkafjöru sem endar upp á útsýnispalli móts við Klettshelli. Hlaupið er þaðan niður í Skansfjöru framhjá Stafkirkjunni  og Landlyst þar sem hringnum er lokað. 

 

puffin1

Leiðin öll 2022 með kílómetrum inn á

 

Á myndinni hér að ofan sjáum við við hreinlega hlaupum um alla eyjuna fögru. Við hjónin komumst loksins inn í Herjólfsdal, þar sem við fórum hring í kringum sviðið. Það koma að því að komast í Herjólfsdalinn komin á sextugsaldurinn!

Við vorum sammála Sigurbirni Erni um hvar hlaupið hafi reynst erfiðast. Km 7-9,5 = hlaupið í fjörunni og upp Stórhöfða. Km 11-13 = hlaupið upp krefjandi brekku upp að flugvellinum. Km 16-17 = þá er hlaupið með krefjandi sendnu undirlagi í hlíðum Eldfells. Hringurinn er með um 640 m hækkun þannig að leiðin er krefjandi. Fyrstu 5 km eru nokkuð þægilegir þar sem 3,5 km eru á malbiki með lítilli hækkun. Á 5-10 km kaflanum liggur leiðin töluver upp og niður og er frekar tæknileg þar sem mikilvægt er að horfa vel fram fyrir sig. Fjaran kemur eftir 7,5 km en búið var að leggja mottu töluverðan spotta af þeirri leið. Síðan var haldið upp frekar bratta grasbrekku upp Stórhöfðann uns 10 km drykkjarstöðinn var náð. Á 10-15 km kaflanum kemur lúmska brekkan upp að flugvellinum.  Á 15-20 km kaflanum er hlaupið með frábært útsýni til lands á hægri hönd og sjálft eldfellið á þá vinstri. Vikurinn í hrauninu getur verið gljúpur og auðvelt að spóla þar! Þegar búið er að hlaupa um 17.5 km er komið inn í nýja hraunið þar sem meira er gengið og klöngrast heldur en hlaupið. Síðasti 1,2 km hlutinn er síðan þegar komið er niður í fjöruna og hlaupið fram hjá Skansinum og í markið.

 

Puffinn1

puffin2

puffin3

Nokkrar myndir frá hlaupinu - fengnar af facebook síðu hlaupsins

 

Allir komumst í mark, veðrið var gott, en töluverður vindur. Hnéð hjá mér hélt eftir að keyrt var á mig á hjólinu 3 vikum fyrr. Eftir hlaupið gengum við að sundmiðstöðinni aðeins til að fá þær upplýsingar eða ekki væri pláss fyrir okkur ofan í laugina en við gætum farið í sturtu sem við ákváðum að gera. Eftir sturtuna var bara orðið stutt í mat sem við áttum bókaðan á veitingastaðnum Gott. Aftur fengum við Hákon okkur Puffin matseðil með steik og rauðvíni. Þarna sátum við í góðu yfirlæti þangað til Íris og Anna ásamt Hákoni þurftu að fara að hafa sig til í bátinn og halda heim. Við hin gistum aðra nótt, ekki oft sem maður deilir herbergi með fjórum konum!

 

IMG_1731

IMG 1739

 

Um morgunninn ákvað ég að halda mínu striki þótt Hákon væri fainn heim og kíkja á Heimaklett, hin nafntogaða algræna fjallstopp við innsiglinguna til Eyja. Bíllaus gekk ég útfyrir og meðfram allri höfninni og að uppgöngustaðnum. Fyrstu kaflarnir eru eiginlega snarbrattir (lóðréttir) stigar áðun komið er inn á frekar aflíðandi dalverpi með útsýni yfir bæinn og lundaholur allt í kring. Virkilega gaman að fara þarna upp. Leiðin upp og niður tók tæplega klukkutíma en ég hugsa að ef maður tæki á því þá sé þetta nú ekki meira en 30 mínútna ferð fram og til baka. En útsýnið var algjörlega geggjað bæði til lands og ekki síður suður eftir Vestmannaeyjunum allt til Surtseyjar.

 

20220508_085129

Mynd af toppi Heimakletta yfir Vestmannaeyjabæ!

 

Klukkan 12 áttum við síðan bátinn til baka í Landeyjarhöfn og vorum komin heim um klukkan 16 eftir að hafa skutlað ferðafélögunum (Möggu Lukkum, Margréti og Rósu) til síns heima.

 


“Ég held ég sé að verða lasin!”

Þetta heyrðist í eiginkonunni í blandi við það, “Hver bókaði eiginlega þetta hlaup?” þegar við vöknuðum rétt fyrir klukkan 7, laugardaginn 25 júní 2022. Brottför var rétt fyrir klukkan 08 til að vera tilbúin til brottfarar úr Flesjukórnum klukkan 08. Við Hákon græjuðum okkur með stórum töskum á meðan eiginkonurnar fylltu skottið af flíkum sem þær ætluðu kannski að vera í í hlaupinu sjálfu. Brottför klukkan 08 var millilending þar sem Rósa vildi fara klukkan 0730 á meðan ég talaði um á milli 0800 og 0830. Áfram lifði Gerða í voninni um að hlaupið yrði slegið af en það gekk ekki eftir, ekki einu sinni eftir fréttirnar um að Hákon (sem reyndar kom hálfþreyttur heima úr Eyjum á föstudagskvöldinu) og Rósa hefðu vakað hálfa nóttina vegna slæmra frétta sem þau fengu.

Áfangastaðurinn var Ólafsvík hvar við fengum far með rútum að Arnarstapa þar sem hlaupið hófst.  Rútan brunaði síðan vestur fyrir Jökul og það útnesveginn að Arnarstapa. Leiðin sú er um 45 kílómetrar og völdu bílstjórar þessa leiðina frekar en að fara yfir Fróðárheiði og þaðan vestur útnesveg að Arnarstapa en sú leið er um 7 km styttri en mun brattari. Við forum ekki að deila við heimamenn um hvort sé betra. Ég held að tímasetning brottfarar hafi verið akkúrat fullkomin enda mætum við að planið við kirkjuna, græjuðum okkur, stukkum á klósettið og beint um borð í rútuna sem brunaði af stað stuttu síðar.

snæfellsjökuls

Allur hlaupahópurinn - alls 215 við upphafstað

Á Arnarstapa vorum við komin um klukkan 1125 og rúmur hálftími ennþá í að hlaupið hefjist. Á Stapanum var hvasst að okkur fannst nokkuð sem átti eftir að fylgja okkur langleiðina í hlaupinu. Það var eiginlega leiðinlega hvasst. Samkvæmt veðurlýsingu á Bláfeldi við rætur Fróðárheiði voru 6-12 metrar á sekúndu klukkan 12 á laugardeginum. Hlaupaleiðin er í stuttu máli svona:

Hlaupaleiðin er um 22 km. Langstærsti hluti hlaupsins er malarvegur. Fyrstu 8 km þarf að hlaupa upp í móti í c.a. 700 metra hæð. Síðan tekur hlaupaleiðin að smá lækka þar til komið er til Ólafsvíkur. Hlauparar eiga von á að þurfa kljást við snjó og drullu frá 1 km til 7 km af leiðinni, en fer það eftir því hvað veturinn var snjóþungur (innskot: Snjórinn þekur um rúmlega 4 km af leiðinni. Spáin lofar góðu) Hlauparar fá á leiðinni að upplifa einstaka náttúrufegurð og að öllu ógleymdu allri þeirri orku sem Snæfellsjökull býr yfir.

snæfells_hakon

 

snæfells_jon

 

snæfells_gerda_rosa

 

Markið er alveg efst í Arnarstapanum og fyrsti kílómetrinn eða svo er eftir veginum meðfram Stapafellinu. Eftir ágætis hækkun er beygt inn á Jökulhálsveginn og upp, upp, upp, hlykkjuðumst við eftir veginum meðfram fyrst Stapafellinu og síðan með jökulinn sjálfan á vinstri hönd. Áfram upp býsna bratta kafla með stuttum sléttum köflum inn á milli. Síðan kom snjórinn sem var ákaflega mjúkur og sökk maður vel niður. Áfram héldum við þar til komið var í skarðið á milli Geldingafells og Sandkúla og fór þá leiðin að liggja niður á við. Veginum var síðan fylgt niður, meðfram vatnsveitu þeirra Snæfellinga og allt niður á þjóðveg þar sem síðustu 2 kílómetrar hlaupsins voru hlaupnir. Það var klárt að alerfiðasti kaflinn eru þessir 2 kílómetrar á malbikinu í markið.

 

IMG_2413.HEIC

Hér má sjá hvernig snjórinn liggur yfir leiðinni

 

IMG_2409.HEIC

 

IMG_2407.HEIC

En mikið óskaplega var gaman að komast í markið og hitta Hákon sem var náttúrulega orðið hálfkalt að bíða eftir mér í rúmar 35 mínútur og síðan konunum í rúmlega korter í viðbót. Eftir myndatöku héldum við upp í Sjómannagarðinn og fylgdumst með verðlaunaafhendingu. Þar voru 4 aldursflokkar hjá hvoru kyni fyrir sig. Þegar þessu öllu saman lauk þá sagði Gerða – “Jæja, núna er komið að okkar flokki!” – enda útdráttarverðlaunin framundan! Og viti menn Gerða fékk einn af aðalvinningunum, nuddrúllu frá Sportvörum að verðmæti 17.900 krónur (verðmiðinn var á kassanum). Þaðan héldum við í sund sem var virkilega notalegt áður en við fengum okkur borgara á veitingastaðnum Reks. Upp úr klukkan 18 var síðan brunað í bæinn þar sem við vorum komin um klukkan 20. Frábærri ferð lokið, takk fyrir mig.

 

snæfells

Komin í markið og allir kátir!

Hér er hægt að upplifa ferðina myndrænt!

 


Á SKÍÐUM SKEMMTI ÉG MÉR TRALALLALA

Það var í haust sem við negldum skíðaferð til Akureyrar með þeim ágætu heiðurshjónum og hlaupafélögum Hákoni og Rósu. Á fimmtudag fyrir áætlaða ferð var komið babb í bátinn. Sverrir komin með veiruna skæðu, Hákon ennþá á leiðinni heim frá Tyrklandi og Hekla á leið til útlanda. Það má segja að allt hafi verið í hers höndum.

En á föstudaginn kom græna ljósið við erum on og þau koma klukkan 15. Þá var lagt af stað. Við hjónin í aftursætum með skíðin á milli okkar. Ferðin norður skotgekk og vorum við komin í hús um klukkan 20. Færðin og veðrið gott alla leið og ekki mikil umferð. Pizzan var græjuð á mettíma úr Pizzunni og farið tiltölulega snemma að sofa. 

Ræs var upp úr klukkan 08 enda að mörgu að hyggja. Úti var ágætisverður, alskýjað en talsvert frost. Upp í fjall vorum við komin um klukkan 09:30 hvar við Gerða fórum beint í leiguna til að redda okkur skíðum. Til að gera langa sögu stutta þá sluppum við fyrir horn þar þ.e. að fá skíði enda um 130 Færeyingar í fjallinu þar sem ekki nokkur einasti var með skíði með sér! En við skíðuðum frá 10 til 15 með smá stoppi í Gúllassúpu og bjór í efri skálanum. Eftir skíðin var brunað niður í hús þar sem við fengum okkur smá brauð og drykk áður haldið væri að klára Alpatvíkeppnina - gönguskíðin! Við vorum komin upp úr klukkan 16 í Kjarnaskóg þar sem við skíðuðum 2 stutta hringi - sem náðu samt tæplega klukkutíma í hreint dásamlegu veðri. Allt var staðfest með myndum og þá var hægt að far í sund.

Eftir Kjarnaskóg var brunað í Akureyrarlaug þar sem röðin náði út úr dyrum. Hvers vegna, jú okkar menn Færeyingarnir mættir og ekki með handklæði né sundskýlur! En allt hafðist þetta fyrir rest og það var dásamtlegt að slaka á í pottinum og mýkja aum lærin eftir skíðin. Það var nú reyndar rétt tæplega að við kæmumst ofan í. Allir pottar voru gjörsamlega troðfullir af fólki - ekkert cóvíd-vesen hér á ferðinni eða hvað?

Þegar upp úr var komið kom skellurinn. Hákon fékk jákvætt úr PCR testinu sem hann fór í á flugvellinum um miðjan dag á fimmtudag. Rúmlega 48 tímum seinna kom staðfestingin - þú hefur greinst með Covíd-19. Nú voru góð ráð dýr. Hákon ekki fundið fyrir einu né neinu nema smá undarlegheitum á sunnudeginum fyrir tæpri viku. 

Þannig að eftir smá taugastrekkjandi tíma meðan allir, þá sérstaklega Hákon, voru að átta sig á stöðunni var ákveðið að halda ótrauð áfram. Við pöntuðum mat frá Greifanum og borðuðum heima og morgunninn eftir fórum við 3 á skíði en Hákon beið heima. Guð minn góður í fjallinu. Veðrið var algjörlega geggjað, póstkortaveður, 13-14 stiga frost, smá gjóla og færð sturlað. Við nánast skíðuðum beint í Fjarkann aftur og aftur nánast frá 10-1130. Eftir það fór aðeins að þéttast í brekkunum. Við skíðuðum til rúmlega 13 og fórm þá niður í hús til að taka saman og halda heim á leið.

Af stað vorum við farin um klukkan 1430 í renni færi all leið fram yfir Borgarnes. Undir Hafnarfjallinu lentum við í dimmum éljum og skafrenningi og á Kjalarnesinu keyrðum við fetið á eftir snjóruðningstæki. En allir komu sælir og sáttir heim eftir geggjaða skíðaferð. Þetta er eitthvað sem við gerum aftur hvort sem það verður til Akureyrar eða Austurríkis!

 

IMG_1523.HEIC

Eina myndin sem var tekin í ferðinni!

 

 

 

 

 


FIMMTUGSFERÐ TIL ÍTALÍU

 IMG 9711.HEIC

Hópurinn samankominn í garðinum við húsið

Það var í september 2021 sem fimmtugsferð Frábærra ferðafélaga var farin til Ítalíu, rétt tæpu ári síðar en til stóð. En þvílík ferð og þvílíkt land sem Ítalía er hvort sem horft er til veðurfars, mannlífs, matar eða drykkjar. Þetta var allt geggjað. Hópurinn skiptist upp í tvennt. Ítalía exstension fór utan laugardaginn 11 september (á 20 ára afmæli 9/11!) og restin af hópnum kom viku síðar. Saman dvöldum við síðan í húsi í bænum Orentano skammt austan við Pisa. 

IMG_0706.HEIC

Ítalía extension hópurinn á góðri stundu! (Vantar Gerðu á myndina)

 

Flogið var með Icelandair til Mílanó. Þangað vorum við komin uppúr klukkan átta á laugardagskvöldinu. Eftir að hafa fengið bílinn okkar í hendur (9 manna Benz) var ekið sem leið liggur til Desenzano við Garda vatnið. Þangað höfðum við Gerða áður komið enda bjó Þórunn systir Gerðu þar í nokkur ár þegar hún og Hlöðver lærðu söng hjá Kristján Jóhannssyni stórsöngvara. Við komum þarna í svartamyrkri og leiðsögutækið leiddi okkur beint í miðbæinn þar sem hótelið okkar var. Hótelið var svo sannarlega "downtown" því við keyrðum eftir að við héldum göngugötum að hótelinu og leið okkur ekkert vel enda áttum við eftir að skemmta okkur vel þegar við sáum aðra ferðalanga keyra eftir "göngugötunum" þegar við vorum úti að borða. Upp á hótel vorum við komin um 11 og fórum beint út að snæða.

Á sunnudeginum vöknuðum við snemma og leigðum okkur bát, enda með skipstjóra með í ferðinni, og sigldum í 2 tíma um Garda vatnið. Á mánudeginum ókum við sem leið lá til Feneyja með smá stoppi í Decathlon þar sem allir fengu sér bráðnauðsynlega sjópoka frá Decathlon. Þaðan var bílnum lagt og bátur tekinn til Feneyja. Það var magnað að ganga í Feneyjum þar sem tiltölulega fátt fólk var. Við skoðuðum helstu staðina og fórum rúnt með gondóla. Frá Feneyjum fórum við um klukkan 19 og stefnum á Wellness hótelið í gamla rómverska bænum Bagno di Romagna nánast í Ítalíu miðri. Á leiðinni sem nb var meðfram sjónum sem við aldrei sáum á meðan bjart var þar sem við keyrðum einbreiða götu með trjám á báðum hliðum. Við stoppuðum í kvöldmat á BBQ stað sem var hreinlega "in the middle of nowhere" en maturinn var ágætur en félagsskapurinn geggjaður.

Til Bagno di Romagna vorum við kominn upp úr klukkan 22 og tókum stutta göngu áður en við fórum í bælið. Daginn eftir lágum við við sundlaugina og sleiktum sólina í 2 tíma áður en við leigðum hjól og hjóluðum í næsta bæ og fengum okkur seinbúinn hádegisverð. Frá Bagno di Romagna lá leiðin til bæjarins Spello sem kom skemmtilega á óvart. Fyrst skal nefna að bærinn sjálfur er ákaflega sjarmerandi en aðalmálið var hins vegar að rauðvínsáhugamenn duttu í lukkupottinn þegar þeir kynntust mögnuðum feðgum sem versluðu með vín út um allan heim og þóttu afar færir. Til að gera langa sögu stutta þá gerðum við risapöntun upp á nokkru þúsund evrur og veigarnar skiluðu sér stuttu eftir að við komum heim.

Frá Spello brenndum við til Rómar, borgarinnar eilífu. Þangað var magnað að koma. Við vorum búin að negla okkur tvær ferðir með Ingó Árnasyni (Rómarrölt), íslenskum fararstjóra. Þessar ferðir voru algjörlega magnaðar. Sú fyrri var í Péturskirkjuna og Vatikansöfnin (þ.á.m. Sixtínsku kapelluna) en sú seinni um helstu og þekktustu kennileiti Rómarborgar s.s. spænsku tröppurnar, Trevi gosbrunninn, Pantheon hofið og Navona torgið. Gríðarlega vel heppnaðar ferðir og óhætt að segja að hægt sé að mæla með Ingó. Daginn eftir fórum við síðan að skoða Colusemum og gengum upp að hnjám og enduðum kvöldið á frábærum sushi veitingastað. Frá Róm héldum við síðan áfram meðfram ströndinni upp til Orentano með stoppi út við sjóinn á veitingastað við snekkjulægi. 

 

IMG 9714.HEIC

Við kvöldmatarborðið sem rúmaði 22 allt í allt!

Í húsið okkar vorum við komin á laugardeginum 18 september á milli klukkan 16 og 17 og er skemmst frá því að segja að það var alveg magnað. Síðan tók við löng bið eftir restinni af hópnum. Nokkrir voru hreinlega sofnaðir (þ.á.m. undirritaður) áður en þau komu rétt um klunna 02 um nóttina. Sunnudagurinn var tekinn rólega og "chillað" við sundlaugina. Mánudagurinn var hins vegar tekinn snemma enda rúmlega klukkutíma keyrsla á rútu sem við pöntuðum og haldið í vínsmökkun til San Guido sem framleiða hin mögnuðu Sassecaia rauðvín skammt frá bænum Bolgheri við vestursströnd Ítalíu. Þetta var afar skemmtileg heimsókn enda tók einn af fjölskyldunni á móti okkur og sýndi okkur allt það  helsta sem viðkemur framleiðslu á rauðvíni. Eftir heimsóknina sátum við á veitingastað í Bolgheri og svo sannarlega drukkum í okkur mannlífið! Heim í hús vorum við komin um miðjan dag enda urðum við að taka á móti kokkinum sem ætlaði að elda ofan í okkur um kvöldið klassískan ítalskan mat. 

IMG 9809.HEIC

Hópurinn í vínsmökkun hjá Sassicaia

Á þriðjudeginum 21 sept var enn haldið í ferðalag og núna keyrðum við til La Spezia og fórum síðan í lest í þorpin fimm sem kölluð eru einu nafni, Cinque Terre, en þorpin sjálf heita Monterosso al Mare, Vernazza, Corniglia, Manarola, og Riomaggiore. Við ætluðum að ganga Ástarstíginn svokallaða á milli Riomaggiore og Manarola en vegna mikilla aurskriða hafði stígurinn eyðilagst bæði á milli Riomaggiore og Manarola sem og á milli Manarola og Corniglia. Við fórum því með lestinni áfram á milli staðanna. Þrömmuðum upp stigann bratta til Corniglia og gengum til Manarola, leið sem við seinna fréttum að væri sennilega sú erfiðasta af leiðunum á milli þorpanna! Við Gerða fórum þetta svo sem létt en það var ekkert endilega þannig með alla. Leiðin sem við gengum er rúmlega 4 kílómetrar og vorum við tæpa 2 tíma á leiðinni. Leiðin öll á milli þorpanna er um 11 kílómetrar og það er pottþétt að þarna á ég eftir að koma aftur til að ganga! Frá Vernazza tókum við síðan lest til Monterosso og sigldum síðan til baka og sáum þorpin frá sjónum sem var mjög skemmtileg upplifun líka. Á leiðinni heim var komið við á skyndibitastað og keyptur alveg heill hellingur sem var síðan á tæpasta vaði þegar heim var komið enda voru boxin hreinlega sleikt að innan.

Á miðvikudeginum var slakað á og hreinlega ekki gert neitt nema einhverjir fóru í búðarferð eins og gengur og gerist en um kvöldið var boðið upp á veislu. Ólafur Skúli fór og keypti heilt naut sem hann bauð okkur uppá. Ok kannski ekki alveg heilt naut en a.m.k. 13 stykki af T-bone steikum sem grillaðar voru á útigrillum. Alveg magnað. Á fimmtudeginum var áfram chillað við sundlaugina og farið til Lucca á skemmtilegan veitingastað sem staðsettur var í porti á milli húsa. Barasta ljómandi fínt. Lucca gömul og skemmtileg borg þá sérstaklega að ganga hluta múrsins magnaða sem umlykur gömlu Lucca borgina. Múrinn er reistur á 16 öld og er um 4 kílómetra langur. Hann gnæfir allt að 10 metra fyrir umhverfið og ansi hreint magnað að ganga eftir stígum sem líða eftir stígnum. 

IMG 2458

Við hjónin við Skakkaturninn!

Á föstudeginum var enn og aftur slakað á, tekið tennismót og veigar hússins kláraðar sem voru töluverðar. Þetta þýddi að við vorum í ljósaskiptunum að sötra og það var hreinlega veisla hjá moskítóflugunum. Enda hafði ég það á orði daginn eftir að okkar hópur þekktist alveg úr, allir meira og minna útúr bitnir aftur á fótunum. Á föstudagskvöldið sóttum við Pizzur og nutum lífsins. Við vorum síðan farin úr húsinu um klukkan 0930. Komum við í Pisa enda vorum við Hrund sammála að það væri ekki hægt að vera rétt hjá Pisa og kíkja ekki á Skakka turninn. Virkilega skemmtilegt. Áfram var keyrt meðfram sjónum yfir alveg magnaðar brýr sem þveruðu hvern dalinn á fætur öðrum. Komum við í hádegismat í smábænum Recco áður en við brunuðum upp til Mílanó aftur og flugum heim.

 

italia_kort

Hér má sjá kort af ferðinni þessar 2 vikur. 

 

 


Hornstrandir - heillandi heimur

Það var haustið 2019 sem Gerða sendi mér póst þar sem STALA (Starfsmannafélag Landsvirkjunnar) hugðist fara á Hornstrandir í hinni árlegu ferð starfsmannafélagsins. Ég var sko meira en til og eiginlega frekar mikið peppaður enda hefur það verið draumur minn lengi að fara í ferð á Hornstrandir. Þegar fram á árið 2020 kom var ferðinni aflýst - út-af-doltnu! 

Á haustmánuðum 2020 var ákveðið að fara í lok júní 2021 sem og varð raunin. Í fyrstu var ákveðið að fara frá Norðurfirði og sigla í Látravík að Hornbjargsvita. Því var síðan breytt þannig að sigla ætti frá Ísafirði í Lónafjörð, ganga yfir Snóksheiði að Hornbjargsvita og heimferðin væri með allt á bakinu í Hornvík og yfir Hafnarskarð í Veiðileysufjörð. En í apríl var aftur breytt þannig að siglt yrði frá Norðurfirði í Smiðjuvík þar sem gengið yrði með dagpoka á bakinu að Hornbjargsvita. 

Við hjónin lögðum af stað um klukkan 13 á miðvikudag með tjaldvagninn góða í aftan í. Sóttist okkur leiðin vel þótt all hvasst væri á köflum. Þegar við áttum um 1 kílómetra eftir að skála FÍ í Norðurfirði heyrði ég smell eða högg og viti menn afturdekkið bílstjórameginn var hvellsprungið og eiginlega gjörónýtt. Við keyrum þessa örfáu metra sem við áttum eftir og skiptum um dekk, sem betur fer var varadekk í bílnum, svona líka fallega gult með merkingum að ekki mætti aka hraðar en 80 með það undir!

 20210630 215329

Dekkið góða - takið eftir Reykjahyrnunni og skýjafarinu

Ef sprungna dekkið var ekki nóg þá fengum við slíkar vindhviður að á köflum var varla stætt úti enda hafði skálavörðurinn, Reynir Traustason, það á orði að í Norðurfirði væru 18 vindáttir! Við gistum í tjaldvagninum um nóttina og vindhviðurnar voru slíkar að ég hélt að vagninn tæki á loft í þeim alhörðustu en eiginkonan svaf eins og ungabarn alla nóttina. En við vorum komin með einni nótt meira í tjaldvagninum heldur en sumarið 2020! Á tjaldsvæðinu voru líka vinnufélagar Gerðu Bryndís og Eggert sem og 2 drekkhlaðnir bílar af vistum sem við fréttum seinna að væru einmitt okkar enda þar á ferðinni skálverðir Hornbjargsvita næstu 10 daga. 

Um morgunninn drifum við okkur að pakka saman í ákaflega fallegu en hvössu veðri. Brottför hafði verið ákveðinn klukkan 10 og á slaginu 09.00 skellti Gerða í sig tveimur sjóveikistöflum fyrir siglinguna. Hún var vart búinn að kyngja þegar við fengum þær upplýsingar að búið væri að fresta brottför til klukkan 12 vegna veðurs. Við Gerða fórum í gönguferð í heinum sérlega fallega Norðurfirði áleiðis að Krossanesi. Að því loknu settumst síðan inn á kaffihús til að biða brottfarar. 

Við hittum smá saman hópinn sem taldi allt í allt 30 manns + Pál Ásgeir og konu hans Rósu sem voru fararstjórar í ferðinni. Allur farangur sem við höfðum skilið eftir á bryggjunni við bátinn var skyndilega horfinn ofan í lestar bátsins og okkur ekkert að vanbúnaði að sigla af stað. Fararstjórarnir höfðu ákveðið að bæði með tilliti til þess að ferð okkar seinkaði um 2 tíma sem og að hugsanlega myndi okkar sækjast ferðin heldur seint vegna sjólags að sleppa því að fara í land við Smiðjuvík og halda beint í Látravík að Hornbjargsvita. Þegar þangað var komið hófust ótrúlegir selflutningar fyrst á fólki og síðan á bæði farangri og vistum. Flytja þurfti allt úr vaggandi bátnum á tuðru í land. Þar röðuðu menn sér í línur og selfluttu dótið að kláfbraut sem dró allt góssið upp hamrana við vitann. 

linan

Hér má sjá hluta af línunni góðu til að flytja töskur og vistir

Allt í allt tók þetta okkur um rúmlega 1 og hálfan tíma. Eftir stutt kaffi og pissustopp hélt hópurinn í stutta skoðunarferð upp á Axarfjall þar sem við fórum fyrst í afar skemmtilegan nafnaleik til að sem flestir myndu ná aðeins að kynnast hvor öðrum. Eftir nafnleikinn gengum við í niður Axarfjallið hinu megin og skoðuðum greni í hlíðum ofan Hrollaugsvíkur. Þegar við gengum síðan niður aftur að vitanum fylgdi refur okkur eftir á göngustígnum á sömu leið og við enda voru þeir með nokkra yrðlinga við rekaviðarstafla á lóðinni við vitann. Eftir kjarngóðan kvöldverð, Kjötsúpu með öllu tilheyrandi, fóru Páll og Rósa yfir dagskrá morgundagsins og fljótlega eftir það fórum við í koju. Kojan sú var ekki að verri endanum í sjálfri Moskvu. En öll herbergi í húsinu hétu eftir hinum ýmsu merkisstöðum í Sovétríkjunum sálugu. Meira að segja kalda geymslan fyrir varning átti sitt nafn sem var Síbería að sjálfsögðu.

 

moskva

Við vorum í Moskvu enn ekki hvað!

IMG_0376.HEIC

Horft yfir Hornbjargsvita af Axarfjalli

 

20210702 101406

Hlýtt á "guðs" orð frá Páli og Rós á leið um Almenninga

Að vakna nokkuð snemma í Friðlandinu í jafn geggjuðu veðri og við nutum á með við gengum um friðlandið eru forréttindi. Þvílík kyrrð og fegurð. Allir vöknuðu snemma, borðuðu morgunmat og voru löngu tilbúnir áður en lagt var af stað  í göngu dagsins um Hornbjargið sjálft. Leiðin lá um Almenningaskarð, framhjá Eilífstindi og Skófnabergi og yfir og upp Kálfatinda, upp og niður Miðfell og útá Horn, niður að Hornbæjunum og yfir Almenningaskarð til baka. Þessi leið er nokkuð löngu eða rúmir 19 kílómetrar og skemmst frá því að segja þá var þetta hreinlega geggjuð upplifun svo vægt sé til orða tekið.

20210702 103114

Frábært útsýni að Kálfatindum

Hornbjarg er þverhnípt sjávarbjarg og fuglabjarg sem rís úr sjó á norðvesturhorni Vestfjarða. Hæstu tindar þess eru Kálfatindur (534 m) og Jörundur (429 m), saman kallaðir Kálfatindar. Nyrsta nef Hornbjargs heitir Horn en það er nyrsti tangi Vestfjarða og miðja Hornstranda, en þar skiptast þær í Austur- og Vesturstrandir. Hornstrandir draga nafn sitt af Horni. Innst við sunnanvert Hornbjarg standa berggangarnir Fjalir. Hornbjarg var klifið 1953 af ungum manni úr Vestmannaeyjum.

Þegar komið var aftur upp í Almenningaskarð sagði Páll okkur að við mættum rúlla áfram sem við og gerðum og við Gerða næstum hlupum niður í vita og vorum langt langt á undan öðrum. Skelltum okkur í sturtu og fengum okkur kaldan áður en hópurinn skreið í endastöð. Þá tók á móti okkur forréttur: Kex, ostar og vínber. Í aðalrétt voru fiskibollur ala Hornbjargsviti og eftirrétturinn var hinn goðsagnakenndi Royal búðingur (3 gerðir) með þeyttum rjóma. 

Á kvöldvökunni fóru Páll og Rósa yfir dagskrá morgundagsins en þá héldum við í tæplega 19 kílómetra göngu yfir Kýrskarð og niður frekar brattan stíg niður í Hornvík hvar við óðum Hafnarósinn og að tjaldsvæðinu við Höfn. Ætlunin var að fara inn í Rekavík bak Höfn en vegna þokuslæðinga sem komu og fóru þar ákváðum við að fara heldur til baka yfir Hafnarósinn og ganga norðanmegin í Hornvík framhjá gömlu tjaldsvæði Útivistar, framhjá fossinum Drífanda, upp Innstadal (ofan Horns bæjanna) og sömu leið og í gær, yfir Almenningaskarð og niður að vita. Þessi leið mældist þegar heim var komið .. 

Við vitann beið okkar kaffi, kökur, ostar og fleira góðgæti. Kvöldmaturinn samanstóð af grilluðu lambalæri með öllu tilkeyrandi og niðursoðnum blönduðum ávöxtum með þeyttum rjóma í eftir rétt. Starfsmannafélagið bauð upp á rautt og hvítt ásamt bjór með matnum sem allir gerðu virkilega góð skil. 

Lokadaginn vöknuðum við við að þokan var skriðinn inn svo ekki sá í fjöllin í kringum Látravíkina (Axarfjall í suðri, Kýrfjall í vestri og Dögunarfell í norðri). Eftir morgunmat komum við öllum farangri niður í fjöru áður en við gengum stutta göngu og fórum niður í fjöru í hins svokölluðu Duggholu sem er ákaflega skemmtileg vík með snarbratta kletta allt í kring. Báturinn kom síðan rúmlega 12 til að sækja okkur. Mun hraðar gekk að ferja fólk og farangur núna í stillunni. Siglingin tók slétta 2 tíma og við komum í Norðurfjörð eftir stórkostlega ferð í Friðlandið að Hornströndum um klukkan 15. 

Eftir ákaflega stutta kveðjustund eða eiginlega enga þar sem allir gripu sína tösku og óðu hreinlega að bílunum (ég svo sem ekkert undanskilinn) og óku á brott. Við Gerða tókum okkur tíma enda með litla gula krypplinginn undir sem þýddi að við fórum ekki mikið hraðar en 70 kílómetra hraða sem var í lagi malarveginn áleiðis að Hólmavík en þegar á þjóðveginn var komið söfnuðust bílar saman í lestir og ég var lestarstjórinn. En allt fór vel á endanum.

Það hefur oft verið talað um að þau Páll Ásgeir og Rósa séu Fararstjórarnir fyrir Hornstrandir með stóru Effi! Ég get vottað fyrir það að um þau er engu logið. Þvílíkir meistarar. Í lokin orti Páll Ásgeir vísu sem hann skrifaði og kvaddi með í gestabókinni góðu í Hornbjargsvita:

Í bjarginu þétt sáum setinn bekk

Í sólskini við þeim brostum

Er hópur frá LV um Hornstrandir gekk

að horfa eftir virkjunarkostum

En þau fundu þar aðeins sinn innri kraft

þá orkulind aldrei mun þrjóta 

þau reistu sér hús byggt úr rekaraft

þar refir í garðinum gjóta

                                 PÁÁ

 

 

IMG 0403.HEIC

 Rebbafjölskylda bjó í rekaviðardrumbum við Vitann

 kálfa

Á toppi Kálfatinda - geggjað veður og útsýni!

 

sjáiði tindinn

Sjáiði tindinn - þar fór ég!

 

lopapeysur

Lopapeysufólkið Gerða, Eggert og Bryndís

 

gerda_grodur

Hornstrandir eru ótrúlega grænar, gular og fjólublára! Gerða á leið á Miðfell.

 

greda_bryndis_systa

Gróðurinn í Hornvík - Gerða, Systa og Bryndís.

 

20210703 142712

Horft til Kálfatinda og Miðfells úr Hornvík

midfell

Á toppi Miðfells - horft yfir Hlöðuvík

 

solinÞegar við fórum var þokan skriðin inn en sólin reyndi sitt besta!


Leiðsögn á Fimmvörðuhálsi

fimm1

Hirðmyndasmiðurinn Hrund með hópinn á sjálfu í upphafi ferðar

Það var á vormánuðum að Dagný systir Gerðu spurði hana hvort við Gerða værum ekki tilkippileg sem fararstjórar yfir Fimmvörðuháls með þær vinkonur Dagnýju og Dóru ásamt mökum. Við héldum það nú enda alltaf til í góða göngu. Í fyrstu var reiknað með að fara 25 júní en vegna veðurs var sú dagsetning slegin af og laugardagurinn 14. Ágúst valinn í staðinn. Það var heldur betur skynsamleg ákvörðun því veðrið var hreint dásamlegt sitt hvoru megin við Fimmvörðuhálsinn sjálfann.

Í vikunni fyrir ferðina bættust 3 við í hópinn, Hrund og Ingi ásamt Össuri vini Dagnýjar og Eyþórs þannig að allt í allt forum við 9 af stað frá Skógum klukkan 10:14 að staðartíma. Hrund og Ingi sóttu okkur Gerðu skömmu fyrir klukkan 8 að morgni og lagt var stað á Skóga með smá stoppi hjá Almari bakara á Selfossi. Það var frekar þungbúið í bænum við brottför og á Hellisheiðinni var svarta þoka. Það létti heldur til eftir því sem austar dró og loksins þegar við komum fyrir hornið við Drangshlíð forum við að sjá til sólar.

Við stukkum út úr bílnum í stuttbuxum og bol og tilbúin í slaginn. Mér fannst nú ferðafélagarnir hinir fullvel klæddir en það er nú bara eins og það er. Ég, titlaður fararstjóri, var búinn að teikna upp áætlunina sem miðaðist við brottför frá nokkrum stöðum á ákveðnum tíma og var það eingöngu gert til að vera viss um að ná rútunni frá Básum í Skóga en brottför hennar var 20.30.

fimm3

Halldóra (Dóra) og Stefán

 

fimm4

Hrund (hirðmyndasmiður) og Ingi

 

fimm5

Dagný og Eyþór

 

fimm6

Jón og Gerða

 

fimm7

Dagný og Össur

 

Svo hófst gangan og sóttist bara vel. Ótrúlega gaman að þræða leiðina upp með Skógafossi og kíkja á fossana sem eru fjölmargir á leiðinni. Fyrst í stað var nánast logn en svo fór aðeins að gjóla og var það bara notalegt. Eftir því sem nær dró Baldvinsskála bætti aðeins í vindinn, svo mikið að ég þurfti að fara í skelina þegar komið var í skálann. Þar var vistin heldur döpur nokkuð mikið sandrok og frekar svalt. Eftir frekar stutt stop í Baldvinsskála héldur við áfram með vindinn í fangið og sandrokið eftir því enda var snjó að sjá alla leiðina. Hækkunin er all nokkur frá skálanum en eftir því sem við lækkuðum okkur aftur hitnaði mjög og endurm við svo sannarlega í algjörri bongóblíðu í Básum.

Þangað komum við all nokkuð á undan “áætlun” eða rétt um 2 tímum áður en rútan fór. Við settumst niður við búðina og keyptum okkur hvítt og rautt og skáluðum fyrir göngunni, lífinu og að ógleymdri ristillskoðun sem all nokkrir í hópnum voru annað hvort á leið í eða nýbúnir.

Það sem vakti athygli við þessa göngu yfir Fimmvörðuháls að þessu sinni var annars vegar gríðarlega mikill fjöldi á göngu, mjög margir hópar og hins vegar ákfalega lítill snjór sem aftur kallaði á töluvert sandrok. Við sáum mjög marga hópa vera á svipuðu róli og við enda fór það svo að við troðfylltum rútuna á Skóga og þurfti að bæta við einum 3 bílum aukalega til að ná að flytja alla. Einnig var stór rúta sem fór beint í bæinn klukkan 20. Þá var og fullt af fólki á tjaldsvæðinu á Básaum enda veðrið með allra besta móti þessa helgina.

fimm2

Heildaryfirlit og tímasetningar á Fimmvörðuhálsi

 

fimm8

Verzlingarnir við einn fossinn á uppleið

 

fimm9

Lítið sem enginn snjór á leiðinni

 

fimm10

Skemmtilegt skýjafar yfir gígnum Móða

 

fimm11

Horf í áttina að gígnum Móða

 

fimm12

Hópurinn við minnismerkið í Bröttufönn

 

fimm13

Svilar og systur á Morinsheiði

 

fimm14

Rautt og hvítt drukkið af stút í Básum


Ævintýraveröld Stórurðar

storurd7 

Ferðafélagarnir með blátt vatnið í baksýn

 

Stórurð er ein mesta náttúruperla Íslands og svo sannarlega vel þess virði að leggja á sig drjúga göngu til að skoða Stórurð og upplifa hrikaleik Dyrfjalla í návígi. Stórurð er mynduð úr risavöxnum móbergs- og þursabergsbjörgum sem fallið hafa ofan á skálarjökul sem legið hefur við Dyrfjöll og má enn sjá leifar af honum undir hömrum fjallanna. Í urðinni er einstök náttúra; sléttir grasbalar, hrikalegir grjótruðningar, steinblokkir, sumar tugir metra á hæð, blágrænar tjarnir og sérstakur gróður. Saman mynda þessi náttúrufyrirbrigði ævintýralega veröld sem lætur engan ósnortinn. 

Það er svolíið erfitt að lýsa upplifuninni. Umhverfið er stórfenglegt og um leið hrikalegt. Veðrið var heldur ekkert að skemma fyrir eins og sést á myndunum. Sól, heiðskýrt og a.m.k. 20 stiga hiti. Í svona veðri voru grænblá vötnin í Stórurð ótrúlega fögur. 

storurd5

Með dyrnar í Dyrfjöllum í baksýn

Við gengum frá Njarðvík að Stórurð (frá bílastæði í miðju Vatnskarðinu) en einnig er hægt að fara ofan af Vatnsskarði, að vestan frá Héraði og einnig úr Borgarfirðinum sjálfum. Leiðin sem við völdum var ekki löng fyrir vant fólk eða 4,6 km hvor leið og ganga í Stórurðinni sjálfri að auki. Þannig að allt í allt var þetta 10,14 km sem við kláruðum með stoppum á 3 tímum og 8 mínútum (moving time 2:23). Hækkun var 531 metri en upphafði mældist í 160 metra hæð yfir sjávarmáli og hæsti punktur á leiðinni 589 metrar. Frábær undirbúningur fyrir Dyrfjallahlaupið daginn eftir.

Leiðin lá um móa og mela. Frekar aflíðandi en einni skarpri hækkun upp í skarðið þar sem sá yfir Stórurðina. Niður í dýrðina sjálfa var síðan aftur 60-80 metra lækkun á mjög stuttri vegalengd. 

storurd1

Við upphaf ferðar

 

storurd2

Dyrastafurinn í baksýn

 

storurd4

Við dyrnar

 

storurd6

Magnað að horfa yfir blágræn vötnin

 

storurd8

Við leiðarlok

 


Dyrfjallahlaup 2021

 

Það var sunnudaginn 16 maí sem pósturinn kom: ”Hákon Sverrisson var að senda þér meðfylgjandi miða: 1 miði/miðar á Dyrfjallahlaup COROS 2021.07.10 11:00”. Búið var að skrá mig og reyndar okkur hlaupahjónin ásamt hlaupahjónunum Hákon og Rósu í Dyrfjallahlaupið 2021. Tilhlökkunin var mikið, Dyrfjöllin eru hreint magnaður staður. Eitthvað sem ég ólst upp við að móðir mína talaði um reglulega hvað Dyrfjöllin væru falleg séð frá Jökulsárhlíðinni.

dyr9

Á toppi Brúnavíkurskarðs sáust Dyrfjöllin vel og þokan yfir firðinum niðri

 

Til að gæta allrar sanngirni þá var Dyrfjallahlaupið 2021 hvergi nálægt Dyrfjöllunum heldur um hið magnaða svæði Víkaslóðir á milli Borgarfjarðar Eystra og Loðmunarfjarðar. Á heimasíðu hreppsins segir svo:

  1. júlí 2021 - HLAUPIÐ EFTIR NÝJUM LEIÐUM UM VÍKNASLÓÐIR

Ungmennafélag Borgarfjarðar varð 100 ára 2017 og hélt af því tilefni sitt fyrsta utanvegahlaup í nágrenni Dyrfjalla. Þrisvar hefur verið hlaupin mjög krefjandi leið umhverfis Dyrfjöll gegnum Stórurð og einu sinni hlaupið um Víknaslóðir. Hlaupið verður haldið í fimmta sinn nú í sumar og að þessu sinni verður boðið upp á tvær alveg nýjar hlaupaleiðir um einstaka náttúru Víknaslóða. Hlaupið er eftir gönguleiðum sem hafa notið mikilla vinsælda göngufólks síðastliðin ár. Víknaslóðir eru einstakt svæði. Ljós líparítfjöll og skriður, í bland við dökka og tignarlega basalttinda.

Þá segir einnig um hlaupið sjálft:

Vegalengd 23.4 km - Heildarhækkun: 1076m - Heildarlækkun: 1132m - Hæsti punktur: 445m.y.s - Lægsti punktur: 5m. y.sm.

Eftir hina mögnuðu ferð í Stórurð (sjá sér bloggsíðu um það) komum við aftur á tjaldsvæðið á Borgarfirði og hittum Þjóðverjana okkar með pallhýsið þar sem við stálumst í rafmagn. Hákon ræddi við þau hjónin, sem voru að hefja 7 vikna ferðalag um Ísland, og sagði allt frágengið gagnvart tjaldvörðunum með rafmagnið! Eftir matinn fór þokan að síga inn fjörðinn og hvarf Bakkagerðiskirkja næstum í þokunni en kirkjan er aðeins í nokkur hundruð metra fjarlægð frá tjaldinu okkar. Þegar við vöknuðum morgunninn eftir var ennþá þoka yfir tjaldsvæðinu og við fórum að spá – hlaupum við bara í þoku og kulda? Eftir að hafa tekið litlu rútuna inn að Þverá í innsveitum Borgarfjarðar þá má segja í stuttu máli að veðrið var hreint geggjað allan tímann eða alveg þangað til við hlupum niður af Brúnavíkurskarðinu niður í Borgarfjörðinn og ofan í þokuna.

kirkja1

Varla sést í kirkjuna góðu frá tjaldsvæðinu fyrir þoku

dyr1

Við startið hjá brúnni

 

Hlaupið hófst klukkan 11:05 og margir hreinlega geystust af stað upp eftir veginum inn í Loðmundarfjörð. En fyrsti kílómetrinn a.m.k. var hlaupinn eftir veginum og hækkunin var nokkur. Ég furðaði mig á hversu margir voru ótrúlega vel klæddir m.v. hitann og sólina úti og auðvitað brattann. Ég fór ákaflega rólega af stað og var með öftustu mönnum lengi framan af enda sagðist Gerða alltaf hafa séð í ljósgræna bolinn skammt undan þangað til undir lokin. Af veginum beygðum við inn á gönguleið um Urðarhóla þar sem við fórum fetið á köflum. Áfram framhjá hinu fallega Urðarhólavatni og áfram að Víknaheiði (258m) og inn á grófan jeppaslóða sem liggur út í Breiðuvík að gönguskála. Leiðin eftir jappaslóðanum var að mestu leiti niður á við og því tiltölulega létt að hlaupa þótt maður þyrfti að passa sig á veginum vegna stórra steina sem þar voru. Ég var samferð stelpu á þrítugsaldri og skiptumst við á að vera með forystuna. Það sem mér þótti merkilegast að hlaupa svona með henni var hversu mikið hún másaði og blés a.m.k. á miðað við mig sem ekki kalla nú allt ömmu mína samt í þeim málum. Enda fór það svo að hún var greinilega að fara allt of hratt á miðað við hennar ástand og við fyrstu drykkjarstöð og fyrstu almennilegu brekkuna skildu leiðir og ég sá hana aldrei aftur!

dyr2

Urðarhólsvatnið fallega

dyr4

Horft niður í Breiðuvík

Rétt áður en fyrsta drykkjarstöðin kom óðum við yfir Stóruá í Breiðuvík þótt talað væri um göngubrú í leiðarlýsingunni. Þarna kom nokkuð mikil hækkun og ég týndi upp ala marga sem á undan mér voru. Frá Breiðuvík er hlaupið eftir gönguleið um gróið land og fallega líparítsmela ofan Kjólsvíkur að Syðra-varpi í 445m hæð. Að og frá Syðra-varpi er nokkuð bratt og erfitt að fóta sig á köflum í skriðunum og þurfti að fara ákaflega varlega. Þaðan er hlaupið ofan við Hvalvík og svo út Brúnavík niður að slysavarnaskýli. Vaða þarf Brúnavíkuránna stóð í lýsingunni en ég stiklaði nú bara þarna yfir enda áin ekki mikið vatnsfall en er hún þveruð alveg niður við sjó. Frá Brúnavík tekur við stíf brekka áleiðis að Brúnavíkurskarði (354m). Hlaupið er þennan hluta leiðarinnar eftir gamalli reiðgötu sem er góð og mikið gengin. Það var þarna sem ég áttaði mig á því að ég var í frábæru standi og hreinlega brunaði upp brekkuna og tók fram úr alveg slatti af mér mun yngri mönnum sem greinilega höfðu farið allt of geyst af stað. Ég var lengi vel samferða skólabróður mínum honum Thomasi og vini hans en þarna hreinlega stakk ég þá af og endaði 10 mínútum á undan þeim. Frá Brúnavíkurskarði liggur leiðin niður að sjó og þarna hreinlega flaug ég áfram og síðustu 400 metrana er hlaupið á malbiki að endamarki við Borgarfjarðarhöfn. Ekki stóðst það nú alveg enda var leiðin merkt niður og upp skurði á síðustu metrunum. Þeir voru það háir bakkarnir að Gerða ætlaði vart að hafa sig upp þegar þær Rósa komu að þeim.

Í markið kom ég á fullu spani ákaflega sáttur við mig og ég hefði alveg getað hlaupið lengra þegar þarna var komið. Garmin prógrammið að virka vel. Við endamarkið út við Hafnahólma tók við allof löng bið eftir fríum próteindrykk frá Unbroken fyrir endurheimt og svo ljúffengan, sérbruggaðan og áfengislausanbjór svokallaðan Dyrfjallabjór frá Múla. En ekkert vatn var í boði í markinu nema með Unbroken. Illu heilli þá kláraðist batteríið í úrinu rétt áður en ég náði toppinum á Brúnavíkurskarði og því náði ég ekki að mæla síðustu kílómetrana sem voru klárlega þeir lang hröðustu hjá mér í hlaupinu. 

Skömmu síðan mætti Hákon keyrandi með Heklu sem  hann hafði sagt að koma niður að höfn það væri bara rétt hjá! En við höfðum greinilega ekki kynnt okkur aðstæður þar sem Hafnarhólminn er nærri 5 kílómetra frá tjaldsvæðinu! Hákon sem var góðum 50 mínútum á undan mér húkkaði sér far inn á tjaldsvæði og náðí í bíl, drykki og dótturina og hitti okkur svo um það bil sem Gerða og Rósa komu samsíða í mark og fengu sömu tímaskráninguna. Hákon hljóp á 3:04:20, ég hljóp á 3:55:02 og þær Gerða og Rósa á 4:16:26.

 

dyr3

Umhverfið og veðrið var sturlað

 

dyr5

Horft í áttina að Syðra varpi

 

dyr6

Í brekkunum ofan Kjólsvíkur

 

dyra7

Þokan alltaf að gera sig líklega en náði samt aldrei að trufla

 

dyra8

Leiðin lá alveg niður í fjöru áður en að Brúnavíkurskarði kom

 

dyr8

Á leið niður Brúnavíkurskarðið

dyr10

Við vorum frekar létt að hlaupi loknu!

Eftir að komið var aftur í þokuna á tjaldsvæðinu ákváðum við að bruna inn á Egilsstaði og fara í sund. Það tókst hjá okkur Gerðu en Hákon og Rósa urðu frá að hverfa vegna ósveigjanleika draumsins í Olajuwon treyjuni í sundlauginni. Við gistum aftur inn á Skipalæk í Fellabæ. Á sunnudeginum tókum við daginn snemma fórum á Seyðisfjörð og stoppuðum við sjónvörpin á Fjarðarheiði og sungum í húsunum mögnuðu sem kölluð eru Tvísöngur . Eftir hádegið sigldum við niður á Höfn í Hornafirði á leið okkar heim. Horfðum á úrslitaleik EM á krá og drukkum bjór. Morgunninn eftir tókum við Gerða daginn snemma enda 500 km heim og undirbúningur fyrir Veiðivötnin daginn eftir varð að hefjast sem fyrst.  Magnaðri ferð með virkilega skemmtilegum ferðafélögum var lokið.

dyr13

Horft yfir Seyðisfjörð

 

dyr12

Kirkjan mögnuð og Regnbogansstræti líka

 

dyr16

Við sungum við Tvísöng

 

dyr15

Hin magnaða altarismynd eftir Kjarval af Jesús við Álfaklett

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

JónJóhannBloggar

Hér eru léttar lýsingar á upplifun á ferðum höfundar.

Höfundur

Jón Jóhann Þórðarson
Jón Jóhann  Þórðarson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • hopur skarðsheiði
  • Hlöðufell leid
  • Hlöðufell hopur
  • HopruinnOGHrutaborg
  • Eyjadalur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband