Færsluflokkur: Ferðalög
16.12.2024 | 12:57
HAUSTGÖNGUR MEÐ MEIRABRÖLTI 2024
Við Eyþór svili skráðum okkur í Meira bröltið aftur þetta haustið, eftir að hafa pásað á vormisseri 2024, sem mögulega leiddi til þess að það féll niður! Hver segir að við séum ekki ómissandi.
21. september laugardagur Hlöðufell
Ferðin hófst við Hlégarð þar sem skipt var í bíla og fórum við Eyþór á Súkkunni með bræðrunum. Brunað var yfir Mosfellsheiði yfir á Þingvelli og þaðan inn á Uxahryggjaleið. Áfram alla leið þangað til komið var norður fyrir Skjaldbreið og inn á F338, Skjaldbreiðarveg.
F338 er línuvegur sem liggur undir og meðfram Sultartangalínu 1 og 3 sem liggja frá Sultartangavirkjun að iðnaðarsvæðinu á Grundartanga. Sultartangalína 3 (sú hærri) var lögð á árunum 2003-2005 og samanstendur af 21-40 metra háum V-möstrum sem reist eru á 350 metra fresti í um 50 m fjarlægð frá Sultartangalínu 1. (upplýsingar frá Skipulagsstofnun)
Eftir að hafa hossast um 30 km eftir F338 sveigðum við niður með Þórólfsfelli og þaðan vestur fyrir Hlöðufell að skála Ferðafélags Íslands. Eftir stutt stopp örkuðum við af stað beint upp af skálanum vinstra megin við gilið. Þetta var allt frekar óárennilegt að sjá neðan frá en ekki eins mikið mál þegar í var komið.
Þegar upp á stallinn var komið eftir tæplega klukkutíma gang vorum við í þoku og frekar dimmt yfir og áttum eftir rúmlega hálftíma gang að toppinum og þar gat að líta afar sérkennilegt fyrirbæri svo ekki sé meira sagt. Þegar við nálguðumst toppinn fórum við að sjá í stöðumæli og reyndar meira að segja tvöfaldan og var afar vel búið að honum svo hann stóð alveg beinn þrátt fyrir að veðrið þarna uppi sé örugglega ekki alltaf upp á sitt besta.
En gaman væri að vita söguna á bakvið stöðumælinn þarna á toppi Stöðufells eins og Sævar vinnufélagi minn sagði þegar hann spurði hvort ég hefði ekki ruglast og gengið á Stöðufell en ekki Hlöðufell.
Leiðin niður gekk eins og í sögu, við fórum frekar hægt niður skriðurnar enda hætta á grjóthruni. Þegar niður var komið var ákveðið að fara styttri leiðina í vegalengd a.m.k. og fara niður hjá Miðdalsfjalli sem var ákaflega skemmtileg leið en alls ekki á færi allra bíla en Súkkan sigldi þetta eins og ekkert væri þótt hún hafi rekist uppundir nokkrum sinnum enda bíllinn að eindæmum rasssíður með okkur Eyþór svila í baksætinu. Enda fór það svo að ég fór til Olla í Land Cruiserinn rétt áður en verstu brekkurnar voru framundan.
Hópurinn á toppi Hlöðufells með stöðumælinn á milli.
Summitbag gaf þessa skemmtilegu mynd af leiðinni.
5. október laugardagur Skarðsheiðarhringur - Súlárdalshringur
Á toppi Skarðsheiðar með Heiðarhorn í baksýn.
2. nóvember laugardagur Hrútaborg á Mýrum staðfest
Á fimmtudeginum á undan var ferðin blásin af vegna veðurs en ákveðið samt að taka lokstöðuna á föstudeginum. Og viti menn veðurspáin hafði gjörbreyst og heldur betur fært og eins gott að við slepptum ekki þessum geggjað veðurglugga (eins og sjá má á myndunum). Við vorum 9 sem lögðum í hann á tveimur bílum frá Mosfellsbænum. Ferðin tók rúmlega 1:30 með stoppi í Olís.
Það var skemmtilegt að keyra Mýrarnar við sólarupprásina og horfa á skjannahvít fjöllin í kring. Keyrðum inn ísilagðan Hnappadal og lögðum bílnum rétt norðan við Haffjarará. Lögðum af stað kl 09:50 og gengum við upp Hrútadalinn í talsverðum gróðri og var mjúkt undir fæti lengst af þótt snjórinn væri töluverður. Þegar upp á hrygginn sunnan við Hrútaborgina sjálfa er komið var útsýnið í allar áttir slíkt að við urðum nánast orðlaus.
Áfram gengum við austan megin borgarinnar sjálfrar og þaðan áfram upp gil alla leið á toppinn og vorum við komin þangað skömmu fyrir klukkan 13. Það var magnað og mikið sjónarspil að horfa í allar áttir og sjá svo gott sem augað eygði. Tröllakirkja og Fögruhlíðarhnjúkur blöstu við í suðri og líta afar freistandi út fyrir fjallafólk. Ef matarstopp á topnnum í logni drifum við okkur af stað og gengum eftir Steinahlíðinni áleiðis að Fögruhlíðarhnjúki, hvar við skröltum upp við efst klettavegginn og síðan niður hinu megin og áfram niður Kolbeinsstaðafjallið að bílunum.
Afar skemmtileg ferð í algjörlega geggjuðu veðri þar sem allt tókst vel.
Hópurinn með glæsilega Hrútaborgina í baksýn
30. nóvember laugardagur Gengið hring um Eyjadal (upp á Trönu og Móskarðahnjúka)
Kjördagur rann upp bjartur og fagur en við fundum að það var vindur í kortunum á leið okkar yfir Mosfellsheiði og Kjósarskarð. Þegar við gerðum okkur klár við bæinn Sand í mynni Eyjadals var hins vegar logn og tekið að birta. Við gengum rólega upp Breiðurnar að Hnjúkabrúnum og þaðan upp á fyrsta tindinn sem kallast Heimrahögg skv kortum LMI. Áfram áleiðis að Trönu fyrst eftir mjóum hrygg en síðan stuttan bratta og að vörðunni með skeifunni góðu sem einhverjir í hópnum mundu eftir síðast þegar við vorum hér á ferð á vormánuðum 2023.
Þaðan héldum við niður í Móskarðsgil þar sem lægsti punktur var í kringum 580 mys. Þegar þarna var komið var farið að hvessa verulega en þar sem vindurinn var í bakið á okkur slapp það til. Við tókum síðan beina stefnu upp en þar sem mótar ágætlega fyrir stígum þarna norðanmegin fylgdum við þeim. Efir því sem ofar dró jókst vindstyrkurinn og áttu sumir í léttari kantinum fullt í fangi með að halda sé á jörðinni hreinlega. Á toppnum sjálfum á austasta Móskarðahnjúknum var ekki stætt svo við hröðuðum okkur niður hinu megin (venjulegu leiðina) og niður í skarðið á milli austustu hnjúkana og þaðan steyptum við okkur bara beint niður í Eyjadalinn. Það var ekki viðlit að reyna við Laufaskörðin og ganga eftir brúnunum svo við fylgdum plani B sem var að fara niður á þeim stað sem við fórum og beint niður dalinn sem var bara assgoti langur og hreinlega fullur af beinfrosnum lækjarsprænum sem stundum var bras að komast yfir nema þeir sem nenntu að setja á sig broddana aftur.
Þegar niður var komið vorum við vestan megin ár en sem betur fer var þarna gömul steypt brú rétt við bílastæðið okkar þar sem við komumst þurrum fótum yfir. Virkilega góðri ferð lauk fyrir klukkan 16 og tími til komin að koma sér á kjörstað.
Veðrið var fallegt en eins og áður er lýst alveg hreint bálhvasst uppi á toppum. Útsýni feykilegt í allar áttir og skörtuðu t.a.m. Botnsúlurnar og Hvalfell sínu fegursta.
Eyjdalur. Móskarðahnúkar fyrir botni dalsins.
Hópurinn (takið eftir frosinni ánni við hliðina)
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2024 | 10:44
Team Rynkeby 2024 - Ferðasaga
Það má með sanni segja að þetta hafi verið ævintýri hjá okkur svilunum mér og Eyþóri Kolbeins. Takk Eyþór fyrir að hvetja mig til að sækja um.
Það skiptust svo sannarlega á skin og skúrir í þessari ferð okkar og það í orðsins fyllstu merkingu. Við fengum bæði mjög gott veður en einnig frekar mjög leiðinlegt (lesist rok og rigning) en það rigndi og rigndi og vart sá til sólar svo dögum skipti. Kemur kannski ekki á óvart því samkvæmt nýlegri frétt þá hefur ekki rignt meira í Danmörku á þessu ári síðan mælingar hófust! En allt hafðist þetta samt sem áður án teljandi vandræða þótt ég hafi dottið á 25-30 km hraða á degi 4 og skrámaðist nokkuð en að öðru leiti mjög góður eftir fallið og var tilbúinn að halda áfram strax en þar sem hnakkurinn á hjólinu brotnaði við falið varð ég að bíða af mér næstu 60 km þangað til Ragnar hjólahvíslari kom hjólinu í gang aftur.
Það rigndi duglega á köflum
Allt í allt hjólaði ég 1100 kílómetra á þessum 8 dögum með 6000 metrum í hæðarhækkun þar sem 70% hæðarinnar komu á 3 dögum! Það var síðan alveg magnað að koma inn í miðborg Parísar og hjóla framhjá bæði Sigurboganum og Effelturninum og syngja We are the Champions með öllum hinum Team Rynkeby liðunum á íþróttavellinum þar sem lokahófið fór fram.
Liðið í ár samanstóð af 28 hjólurum og 7 meiriháttar umhyggjuliðum (service aðilarnir okkar fengu þetta fallega nýyrði). Umhyggjuliðarnir okkar í ár voru alveg frábærir og hreinlega lýstu upp daginn þegar við nálguðumst hvort sem það var í kaffi- eða matarstoppi með sinn gleði, fagnaðarlátum og umhyggju.
Team Rynkeby 2024 - hvíta kvöldið
Við svilar lærðum sitthvað og komum út úr þessu verkefni reynslunni ríkari og höfum eignast vini í flottu Team Rynkeby fjölskyldunni nokkuð sem við heyrðum mikið talað um þegar við fórum til Spánar í hjólaferð í mars eins og sjá má hér.
Ferðin tók 8 daga frá laugardegi til laugardags. Við flugum út á föstudegi og keyrðum í rútu frá Kastrup til Kolding á Jótlandi. Við byrjuðum á því að setja hjólin saman og snæddum síðan ágætan morgunmat áður en við lögðum af stað í fyrstu dagleiðina. Hérna kemur síðan smá lýsing á leiðinni á hverjum degi;
Dagur 1: Frá Kolding til Tönning
Dagurinn var bjartur og fagur þegar við hófum túrinn til Parísar nokkrum mínútum fyrir áætlaðan tíma enda allir spenntir að komast af stað. En ekki byrjaði hann samt vel því strax eftir fyrstu beygju féll einn úr hópnum og meiddist lítillega en samt nóg til að hann settist inn í bíl og hjólaði ekki fyrstu dagana.
Dagurinn var mjög skemmtilegur, frekar flatur og bara um 100 mílur (162 km) eða svo! Frábært að hjóla um lendur Danmerkur og heiðar Jótlands . Virkilega fagurt landslag og allt var tekið frekar rólega svona svona fyrsta daginn. Eftir um 84 km er stoppað í Padborg og tekið hádegishlé í vöruskemmu flutningafyrirtækisins H.P. Terkelsen A/S. Öllum Team Rynkeby liðum sem fara þar framhjá er boðið í hressingu í hádeginu hjá þeim. Þar var okkur fagnað eins og rokkstjörnum og brunuðum alla leið undir dynjandi fagnaðarlátum beint inn á verkstæði þar sem nóg var af öllu. Lifandi tónlist, öl, samlokur, grillaðar pulsur og ís. Stuttu síðar hjólum við yfir landamærin og inn í Þýskaland þar sem við eyðum næstu þremur dögum. Hér erum við að hjóla í gegnum sveitir norður Þýskalands og að Be Bio hótelinu þar sem við lágum í sólinni, þrifum hjólin letilega og nærðum okkur.
Dagur 2: Töningen til Blumenthal (Bremen)
Hjóladagur 2 bauð upp á 194km og 500m hækkun frekar flatur og átti að vera frekar auðveldur dagur þrátt fyrir vegalengdina. En fyrst regnið og síðan mótvindurinn settu strik í reikninginn. Áfram hjólum við í þýskalandi og hjólum mikið í gegnum sveitabæi og meðfram ökrum og sjáum að það er greinilega mikið stundaður landbúnaður í norður Þýskalandi. Fórum í tvær ferjur eða pramma og tók sá lengri um 30 mínútur. Það er mjög gott að hjóla í Þýskalandi ýmist á hjólastígum eða götum. Endum á hótelinu Ringhotel Fährhaus Farge við ána Wheser við hliðina á stóru orkuveri.
Dagur 3: Frá Blumenthal (Bremen) til Hengelo
Eftir ekkert sérstakan morgunmat hjá þjóðverjunum á Ringhotel Fährhaus Farge hótelinu byrjaði dagurinn á því að við hjóluðum 200 metra að ferju sem rúllaði með okkur yfir ána Weser. Áin Weser er þriðja lengsta fljót Þýskalands 744 km löng. Hægt er að sigla á fljótinu frá Bremerhaven alla leið til München. Til þess þarf að fara um átta skipastiga, sem sumir gegna líka hlutverki vatnsorkuvera. Við rúlluðum nánast beint um borð en ferjan var mjög stutt og við héldum áfram hinu megin og þá byrjaði að rigna.
Hjólað var í gegnum sveitir og bæi Þýskalands á frekar sléttum og góðum vegum. Öðru hvoru gaus upp lykt þegar við hjóluðum framhjá og við veltum því fyrir okkur hvort þarna væri um að ræða svínabú, kjúklingabú eða nautgriparæktun. Eftir því sem á leið vorum við alveg komnir með þetta að við teljum! Eftir ca 153 km hjólum við inn i Holland og endum í bænum Hengelo skammt frá borginni Twente og gistum á samnefndu hóteli.
Trís dagur 4: Frá Hangelo (Twente) til Genk
Dagurinn í dag átti jú að vera langur en tiltölulega þægilegur og já bara auðveldur hjólalega séð. En NEI aldeilis ekki. Ekki voru það 200+ km hjá kallinum heldur bara rétt 140. Enda féll ég á svona 25-30 km hraða og tók með mér einn hjólara í fallinu, því miður. En við stóðum bæði upp, ég aðeins skrámaður á fæti og hendi en Greta fann til svo gott sem í allri annarri hliðinni. Ég var klár að halda áfram en ekki hjólið sem þarfnaðist lagfæringar. Það var sîðan græjað í matarhléinu 60km seinna og ég kláraði daginn og var ánægður með það.
Ferðin hófst á rauðu hjólastígunum út úr bænum og það er geggjað að hjóla á þessum mjúku brautum. Áfram inn í sveitir Hollands og svo Þýskalands með tilheyrandi ilmi frá verksmiðju búunum. Ferðin endaði svo í Belgíu þannig að þetta var þriggja landa hjólatúr í dag. Daginn enduðum við á M hótel í Genk.
Ferðalagið tímalega er hálfnað en við erum samt búnin með 750 km af 1250 eða svo þannig að kílómetrarnir eru heldur færri eftir en við erum búnir með.
TRÍS DAGUR 5: Hengelo til Transinne
Dagur 5 hófst eins og allir hinir. Kl 06.30 út með töskuna í bílinn, morgunmatur, Tékka á hjóli og tilbúinn ca 07.45 og af stað 08. Svolítið svona groundhog day stemming hjá okkur svilum.
Alskýjað og frekar kalt. Það var bara nokkuð erfitt að hjóla á frekar vondum gangstígum og götum Belgíu á löngum köflum. Það hefði ekkert veitt af viðgerðum hér og þar, minnti okkur bara á íslenska þjóðvegakerfið.
Fórum fetið niður afar bratta leið niður í dal sem við síðan þræddum, framhjá orkuveri og að hinni goðsagnakenndu, stuttu en snarbröttu Mur de Huy (myndi mæla með að gúggla hana bara). Mur de Huy er 1300 metra löng með meðalhalla 9,3% en sumir hlutar hennar fara í um 17% halla og mest er hallinn 26 % í einni beygjunni. Brekkan hefur m.a. verið notuð í Tour de France hjólreiðakeppninni.
En Eyþór svili massaði þetta heldur betur. Ferð eitt með hópnum og að sjálfsögðu með fremstu mönnum. Ferð 2 með Sverri mínum. Ferð 3 til að aðstoða Rakul en ferð 4 var bara til að fara ferð 4. Geggjað hjá mínum manni. Hann reyndar missti af hópmyndatökunni vegna ferðar númer 4 en hvað um það!
Mikið af hjólurum voru í brekkunni frá hinum Norðurlöndunum og stuð efst. Ég rann lítillega á hálum stöfunum í brekkunni og náði ekki að losa en komst af stað aftur stuttu seinna með smá aðstoð þar sem brekkan er það brött að erfitt er að komast af stað aftur. En heilt yfir þá voru aðstæðurnar aðeins erfiðar þar sem bleytan var mikil í brekkunni en Eyþór talað um að í ferð 4 hefði brekkan aðeins verið farin að þorna.
Á toppnum fengum við síðan grillaða borgara sem var geggjað en þarna voru rúmir 60 k búnir 85 eftir.
Trjágöngin voru erfið enda sprakk hjá fjölmörgum og almenn bugun í gangi vegna erfiðra aðstæðna, kulda og hækkunar og fór svo að aðeins 16 af 28 kláruðu daginn.
Síðan er haldið áfram um sveitir Belgíu og til að kóróna daginn þar sem við fórum upp bröttustu brekkuna þá endar dagurinn á því að fara upp lengstu brekkuna líka. Mjög strembinn dagur að baki og við komin að hótelinu Hotel La Barrière de Transinne sem m.a. státar af Michelin stjörnu. Við vorum einu gestir hótelsins sem var alveg magnað. Maturinn mjög myndrænn en um leið ljómandi góður.
Dagur 6: Transinne til Reims
Eftir flottan morgunmat á Michelin staðnum héldum við áleiðis "niður" Belgíu en fengum samt á okkur fullt af hæðarmetrum. Hver sagði eiginlega að Belgía væri marflöt?
Það rigndi framan af degi en þegar til Frakklands var komið fór sólin að skína og hiti náði 25 stigum = mjög heitt.
Eftir kaffistoppið í 123k við kirkjugarð með svörtum krossum en það er tákn fyrir Þjóðverja sem féllu í fyrri heimsstyrjöld 1917/18. Við brunuðum áfram um víðáttur franskra sveita í miklum mótvindi og stoppuðum svo við næsta kirkjugarð þar sem bandamenn 1917/18 voru grafnir.
Það var hjóla með fram síkinu All. des Tileuls í Reims um 10 k leið. Leiðin lá á fínum stíg þar sem fullt var af fólki en við náðum að halda ágætum hraða - mjög skemmtileg og falleg leið að hótelinu okkar góða þar sem Danirnir deildu með okkur hóteli.
Dagur 7: Reims til CDG (við París)
Dagurinn hófst í frekar köldu og skýjuðu veðri. Við rúlluðum í gegnum kampavínshéraðið "Champagne" í mótvind sem reyndi ágætlega á hópinn. Töluverð hækkun var á deginum sem tók á þótt dagurinn væri heldur styttri en dagarnir á undan. Hótelið sem við gistum á heitir Hotel Oceania Paris Roissy CDG og er flott. Þar var sundlaug sem margir nýttu sér og hjólin voru geymd í stórum veislusal á annari hæð.
Núna erum við farin að sjá til lands í þessu ferðalagi okkar enda aðeins um 50 kílómetrar eftir eða svo en rassarnir eru orðnir frekar aumir enda var samið lag í tilefni þess og hópsöngur eftir matinn á "hvíta kvöldinu" við lag sem allir ættu að þekkja (lagið Litlir kassar með Þokkabót)
Aumir rassar
Og sveittir hnakkar
Aumir rassar
Og öll nuddsárin
Aumir rassar
Sveittir hnakkar
Aumir rassar
Allir eins
Einn er rauður
Annar gulur
Þriðji hvítur
Fjórði fjólublár
En allir lykta þeir afar illa
Enda eru þeir allir eins!
Hvíta kvöldið var skemmtilegt og haldið á veitingastað við hliðina á hótelinu sjálfu og boðið var upp á franskan matseðil og hreint ljómandi góður matur.
Dagur 8: CDG til Parísar
Dagurinn hófst á flugvallarhóteli nálægt CDG (Charles-de-Gaulle flugvelli). Það var ró yfir öllum. Allir með í dag nema einn sem var veikur. Víó liðsstjóri gekk á milli liðsmanna og límdi Eiffelturnin 2024 á hjólin. Magnað þetta var að hafast, komin formleg staðfesting. Síðan var rúllað af stað í gegnum St. Denis hverfið, framhjá Sigurboganum og Eiffel turninum áður en haldið var að lokaathöfninni þar sem allir rúmlega 2600 hjólarar Team Rynkeby sameinuðust með fjölskyldum sínum á gamla hjóla íþróttaleikvanginum Stade-Vélodrome Jacques Anquetil.
Við Eiffel turninn
Við Sigurbogann
Ferðin þangað með því að rúlla framhjá öllum aðalstöðunum í París er ca 55 km en tók okkur frekar langan tíma þar sem það sprakk á ansi mörgum dekkjum á götum Parísar og báðir hóparnir stoppuðu í hvert sinn.
Það var síðan magnað að koma inn á leikvanginn og sjá alla hina þátttakendurna samankomna og rúlla "sigur-hringinn" við dynjandi lófaklapp. Ævintýrinu var næstum lokið. Ég segi næstum því við áttum eftir að rúlla rúmlega 8 k upp á hótel þar sem við stoppuðum í brekku og fórum að taka hjólin í sundur enda áttu þau bara að fara beint upp bíla og heim. Þarna eiginlega sundraðist hópurinn, sumir fóru með fjölskyldum sínum á önnur hótel á meðan aðrir þ.á.m. við svilar héldum á loka hótelið Ibiss Gare du Nord.
Um kvöldið fór um 15 manna hópur á Entrecote staðinn ágæta þar sem aðeins einn réttur er á boðstólnum. Nokkrir úr hópnum skutluðumst síðan niður á Trocadero til að sjá ljósasýningu Effelturnsins en hún varð heldur endasleppt þar sem búið er að girða fyrir stóran hluta útsýnisins fína þar sem stetningarathöfn Ólympíuleikanna mun fara þar fram 2 vikum seinna.
Daginn eftir gengum við Svilar með þriðja manni að Sacre Coure kirkjunni frægu og gengum um Montmartre hverfið og nutum lífsins í blíðunni. Flugið heim var síðan klukkan 17 lögðum við af stað út á völl um klukkan 14 og við vorum með lífið í lúkunum alla leið enda fórum við frekar hratt svo vægt sé til orða tekið. 40 mínútna leið skv google tók ekki nema 30 mínútur og það með kaffistoppi bílstjórans á miðri leið!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2024 | 14:59
Höfuðlaus her í Veiðivötnum 2024
Stemmingsmynd úr Veiðivötnum
Atli Þórður var búin að vera spenntur fyrir Veiðivötnum eiginlega frá því að hann kom heim í fyrra úr vötnunum. Eftir því sem nær dró magnaðist spennan en um leið áhyggjurnar um það hverjir hreinlega væru að fara að þessu sinni. Niðurstaðan varð sú á endanum að við 4 ég og Atli og síðan Eyþór og Elli vorum 4 í stóra skálanum í Bjalla svo sannarlega höfuðlaus her því vegna veikinda Helgu aðgerðarformanns þá kom Gerða ekki (líklega í fyrsta sinn síðan ég veit ekki hvenær) og að sjálfsögðu ekki Siggi heldur. En við fengum nú samt heimsókn á sunnudeginum þegar Tómas Bjarki brunaði á Yarisnum alla leið inn að fyrri kvíslinni með Helgu Katrínu sér við hlið og kærustuna Bryndísi (að koma í fyrsta sinn í vötnin) ásamt systrunum Þórey Maríu og Helgu Sigríði í aftursætinu.
Gerða náði nú samt sem áður að undirbúa okkur að mestu, hún var bæði búin að græja makrílinn sem og fór hún og keypti inn fyrir okkur. En brottför var nærri klukkutíma síðar en venjulega eða upp úr klukkan 10 enda höfðum við mælt okkur mót við Elías um klukkan 12 við Skarðskirkju. Við reyndar brunuðum framúr honum á Suðurlandsveginum skammt hjá Bláfjallaafleggjaranum án þess að átta okkur á því enda kappinn á spánýjum Hyundai Santa fe. Þegar við komum að Hellisheiðarvirkjun fór heldur betur að dimma yfir og rigningin að magnast og fór svo að við keyrðum við heiðina á 40-50 km hraða framan af enda skyggnið nær ekkert. Langt síðan ég hef keyrt heiðina svona dimma.
Land Roverinn rúllaði samt sem áður á rafmagninu mest alla leiðina á Selfoss en til öryggis ákváðum við að taka bensín þar og viti menn 1,4 lítrar bættust við! Ella hittum við síðan í kirkjugarðinum þar sem við minntumst þeirra öndvegishjóna Árna og Þorgerðar sem og foreldra Ella. Þar sem súldin ágerðist ákváðum við að borða bara á bílastæðinu í stað þess að þræla okkur út í Fossbrekkum. Þegar við ókum framhjá Fossbrekkum var reyndar veðrið hið besta en hvað um það áfram héldum við og vorum komin inn í Vötnin góðu tæplega 13.30. Bjalli var klár enda kellurnar á undan löngu búnar að ganga frá öllu (skv gestabókinni var þetta 3ja árið þeirra í Bjalla).
Það var fljót afgreitt að græja okkur í koju allir niðri nema ungi maðurinn sem fórnaði sér á efri hæðina enda þarf hann ekki að fara að míga eins og við hinir um miðja nótt. Þegar við vorum svo að stússast með stangirnar renndi Eyþór í hlað, en hann sótti Rynkeby hjólin okkar svilanna klukkan 10 og lagði síðan af stað upp úr 11. Við urðum síðan samferða suður í vötn og köstuðum fyrsta færin út í Litla Skálavatn klukkan 14:55 (ekkert). Klukkan 15.30 vorum við mætt í Ónýtavatni og sá fyrsti var mættur á land um 15 mínútum síðar hjá gamla 1,2 kg eða um 2,5 pund. Flott byrjun. Þaðan héldum við í Breiðavatn þar sem við fengum sitt hvorn fiskinn við Atli. Þaðan forum við í Snjóölduna þar sem það var á í hverju kasti en smáir voru þeir svo við héldum fljótlega okkar leið.
Í matinn fórum við um kl 19:10 og þar var allt hefðbundið. Kalt hangikjöt sem ég hafði eytt hálfum föstudeginum í að sjóða ásamt því að útbúa uppstúf sem við síðan hituðum upp og snæddum ásamt kartöflusalati og rúgbrauði frá Ella. Virkilega vel heppnað eins og venjulega. Eftir matinn héldum við á Síldarplanið í Stóra Fossvatni þar sem Atli setti í einn. Þaðan fórum við í Litla sjó en urðum ekki varir. Á heimleiðinni kíktum við Atli í Stóra Skálavatn en urðum ekki varir og vorum komin í hús á milli 23 og 23.30. Frekar lélegar heimtur á kvöldvaktinni ætli fiskurinn finni hangikjötslyktina af okkur eða hvað?
En oftar en ekki var himbriminn góði mættur á þau vötn sem við vorum að veiða í og jafnan þegar kappinn mætir þá hverfur öll veiði eins og dögg fyrir sólu. Eftirfarandi mynd og texta má finna um fuglinn, sem kallaður er The Great Diver á ensku (Gavia Immer á latnesku fræðimáli), í Bænadablaðinu 12 tbl. 2024 eins og sjá má hér.
Stór og fallegur er hann
Klukkan hringdi klukkan 06:50 (ekkert stress núna þegar móðir var ekki með í för) - löguðum kaffi og mættir á Langavatnsbakkann kl 07:15 í sannkallaðri rjómablíðu. Þið hringið í mig kannski um tíuleitið og segið mér hvar þið eruð, sagði Elías í svefnrofanum. Í Langavatni var á í svona öðru hverju kasti en þar sem þeir voru frekar smáir stoppuðum við ekki lengi þar. Héldum í Stóra Skálvatn (botninn) ekkert. Í Litla Skálavatn (ekkert), þaðan í Arnarpollinn fyrir Gerðu (ekkert) en í Ónýtavatni kom einn á land sem var vel. Þegar nálgaðist hádegi kom hringing krakkarnir voru mættir norður fyrir Vatnsfell og voru bara á leiðinni og við Eyþór sóttum þau yfir kvíslarnar. Eftir smástopp í húsi, lögðum við af stað á Síldarplanið þar sem eitthvað fiskaðist. Þaðan fórum við svo í Snjóölduna þar sem Tómas kastaði fram Maður hefur nú gert þetta áður um leið og hann setti í einn! Allir komust á blað líka gestirnir sem héldu síðan heim á leið enda átti að sýna Bryndísi helstu sögustaði í kringum Tjaldvatn sem ættmóðirin jafnan fór með barnabörnin hér á árum áður.
Matur var í kringum 19 og sá Þórey María um að hita pylsurnar en það var aðeins bras á öllum þar sem það lak úr framdekkinu hjá Eyþóri og á tímabili ætlaði hann bara að fara heim en svo fann hann gatið, var með naglasett og fékk aðstoð hjá veiðivörðum með að dúndra þessu í og eftir það var bíllinn bara eins og nýr og hann ákvað því að vera fram á morgun, sem var líka eins gott eins og síðar kom í ljós. Elli var nú ekki sáttur við mig að hafa gleymt rúgbrauðinu og kartöflusalatinu og spurði hreint út hvort ég væri nú ekki með heila! Hann hefði nú alveg sjálfur getað passað upp á að servera þetta enda var þetta í hans boxi! Eftir matinn skutluðum við krökkunum yfir kvíslarnar og troðfullur Yarisinn komst á leiðarenda á endanum sem var vel. En Bryndís hafði á orði að hún myndi nú bara fá Land Cruiserinn lánaðan næst þegar þau kæmu inn í vötn.
Helga og Bryndís í góðu yfirlæti í stólunum
Við Atli og Eyþór skelltum okkur á Síldarplanið og síðan Grænavatn eftir að hafa skutlað kökkunum á meðan Elli fór í sína árlegu heimsókn til Bryndísar og Rúnars. Kvöldinu lauk síðan í Ónýtavatni í rjómablíðu, stafa logni og 13-14 stiga hita. En ekkert gerðist, Atli prófaði fluguna en sama þar. Um klukkan 22 koma Rúnar til okkar, þar sem 3 stangir voru úti og allar á letingja. Strákar, þetta er vinna, þið vitið það, sagði Rúnar nokkuð sposkur og tók Gerða sko undir það með honum. En allt kom fyrir ekki enginn fiskur kom á land, ekki heldur hjá Atla sem að sjálfsögðu fór bæði í Litla og Stóra Skálavatn á heimleiðinni eftir að hafa orðið einn eftir þegar við Eyþór fórum heim. Þegar hann gerði að fisknum um kvöldið sagði honum maður að hann hefði fengið nokkra beint á móti hefðbundna staðnum í Litla Skálavatni og því upplagt að prófa það. Þegar hann kom heim upp úr miðnætti, voru allir þrír ferðafélagarnir steinsofnaðir.
Þeir þurfa nú ekki alltaf að vera kokgleyptir!
Ræs var klukkan 06:58 á mánudagsmorgun og þá var blíðan skollin á fyrir alvöru. 14 stig og flugan í algleymi strax upp úr 07. Við héldum beint í Skálavötnin, fyrst í það Stóra (ekkert) og síðan í það Litla þar sem við urðum strax varir en síðan dreif Atli sig yfir og náði þremur auk þess sem ég missti einn hreinlega í fjöruborðinu. Um klukkan 10 drifum við okkur heim í hús, tókum saman og þrifum á mettíma, svo Elli þyrfti ekki að bíða. Hnökralaus þrif, að okkar mati og um klukkan 10.30 lá leiðin í Breiðavatn en illu heilli þá var bara uppselt þar hreinlega svo við héldum í Ónýtavatn og negldum í 7 stk (þar á meðal þann stærsta í ferðinni 3,7 punda kvikindi) á rúmum 1 og hálfum tíma, meira og minna allt á letingja. Hver segir svo að letingjar virki ekki. Hitinn klukkan 11:50 var komin í 21 gráðu en vindur var nokkur svo engin var flugan. Þetta var svona Tene veður heitur vindur. Geggjaður endir á flottri ferð. Með hverjum fiskinum framlengdist dvölin og fór það svo að um klukkan 14 þá sleit Atli og þá sögðum við hingað og ekki lengra og héldum heim. Gerðum að og græjuðum veiðiskýrslur, skiptum um föt ofl. Og lögðum svo af stað í bæinn rétt fyrir klukkan 15.
Með 3,6p urriða úr Ónýtavatni
4 góðir (við Litla-Skálavatn)
Sjónarspil í Litla-Skálavatni
Fegurð við Stóra-Skálavatn
Þegar við feðgar brunuðum eftir söndunum áleiðis að Veiðivötnum tók ég eftir skilti á vinstri hönd og stikaða gönguleið upp á Vatnsfell og þá væntanlega með útsýni yfir Þórisvatn.
Á Vatnsfelli og Þórisvatn í baksýn
Ég náttúrlega iðaði í skinninu að prófa þetta og samdi við svila og Atla um að stoppa á heimleiðinni sem við og gerðum. Það var alveg geggjað veður, mælirinn í bílnum sagði 21 gráða, heiðskýrt en nokkur vindur sem var bara eins og á Tene, heitur.
Þegar við komum að skiltinu sáum við að leiðin í heild sinni er um 8km. Það var of langt fyrir okkur svo við ákváðum bara að kíkja aðeins upp. Leiðin upp var nokkuð brött og eftir eina hæðina blasti sú næsta við og sú næsta. En lokskomum við eftir um 800 metra göngu að sléttu þar sem við sáum vel yfir. En þetta var virkilega skemmtileg ferð og ég á örugglega eftir að fara alla 8km fljótlega.
Hrós á Umhverfisstofnun fyrir að stika þetta sem og leið á Þóristind sem ég hef líka lengið ætlað mér að ganga á. Það verður bara síðar. Það vakti hins vegar athygli okkar þegar við keyrðum yfir brekkuna framhjá Vatnsfellsvirkjun að lónið við virkjunina var alveg tómt man ekki eftir því að hafa séð það áður svoleiðis.
Niðurstaðan 2024
Heim vorum við komnir rétt rúmlega 18 með smá stoppi fyrir móður á Selfossi sem og í Pylsuvagninum þar sem við skelltum okkur á eina djúpsteikta með frönskum!
Pistillinn er skrifaður eftir minni mínu og það þarf ekkert endilega að endurspegla upplifun annara á ferðinni. Kannski gleymdi ég einhverju en það verður þá bara svo að vera. Hafið viljan fyrir verkið.
Hérna eru síðan samskonar lýsingar frá 2020
2020: https://jonjohann.blog.is/blog/jonjohann/entry/2252587
2021: https://jonjohann.blog.is/blog/jonjohann/entry/2267228
2022: https://jonjohann.blog.is/blog/jonjohann/entry/2280638
2023: https://jonjohann.blog.is/blog/jonjohann/entry/2292241
Viðbót 06.08.2024
Hjóna-Dagsferð í Veiðivötn
Ferðalög | Breytt 9.8.2024 kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2024 | 14:09
Langar æfingar með Team Rynkeby
Eyþór svili kom að máli við mig í ágúst 2023 hvort ég hefði áhuga á því að taka þátt í Team Rynkeby og ég sagði að sjálfsögðu já!
Á fyrsta liðsfundinum kom þetta fram;
- Stóru skylduæfingarnar fjórar
- Alltaf í góðu veðri, alltaf meðvindur og þægilegur hiti.
- Hugmyndir: Hvalfjörður, Geysir, Snæfellsnes, Selfoss, Grindavík, Krýsuvík, Búðardalur, Nesjavellir o.s.frv.
- 70km æfing: 20.apríl eða 21.apríl 2024
- 100km æfing: 4.maí eða 5.maí
- 150km æfing: 25.maí eða 26.maí
- 200km æfing: 15.júní eða 16.júní
Skemmst er frá því að segja að allar þessar æfingar tókust með miklum ágætum og er hér ætlunin að segja aðeins frá hverri og einni. Það er með ólíkindum að þessar dagsetningar stóðust allar eins og stafur í bók og einnig að það var eins og veðrið hafi líka verið pantað þegar þær voru ákveðnar á haustmánuðum nærri 8 mánuðum fyrir brottför.
Fyrsta langa skyldu útiæfing TRÍS 24
Eyþór svili renndi við um klukkan 08 að morgni og við brunuðum síðan upp að Laxá í Leirársveit nánar tiltekið að Laxárbakka sem opnuðu sín hús fyrir okkur Team Rynkeby Ísland.
Veðrið var ágætt, sáum aðeins í bláan himinn en töluverður vindur var að vestan/norð-vestan kannski. Hópnum var skipt í tvennt ca 10-12 í hvorum hópi. Við lauslega talningu voru hjólarar 22 og 3 frá service.
Frá Laxárbakka er örstutt að gamla Hvalfjarðarveginum og eftir honum brunuðum við undan vindinum að mestu og sóttist ferðin vel. Fyrst stoppuðum við eftir tæpa 10 km við Ferstiklu. Þar var m.a. skipt um dekk og pumpað í dekk, sem ekki veitti af hjá mér. Dottinn niður í ca 40-450pund þegar ég mátti vera með 90-100pund. Það var virkilega gaman að bruna niður brekkurnar í áttina að fyrst Bjarteyjarsandi og síðan niður að Hvalsstöðinni þá sérstaklega á ný-pumpuðum dekkjum. En áfram héldum við inn í botn og áfram út fjörðinn á móti stífum vindi þá sérstaklega þegar við þveruðum Brynjudalinn. 35 kílómetra markinu náðum við skömmu eftir að við komum framhjá skógræktinni við Fossá. Þar var snúið við og kaffi/matarstopp á bílastæðinu við fossinn.
Það var sko sannarlega geggjað að þiggja þessar frábæru veitingar sem service reiddi fram. Takk fyrir mig. Síðan var haldið til baka sömu leið, fyrst undan vindinum inn í botn en eftir það kárnaði gamanið enda bæði brekkur og stífur mótvindur mest alla leið. Þá sérstaklega eftir að við komum framhjá Ferskikluskála á bakaleiðinni. En þá hafði hins vegar sólin látið sjá sig og hitinn komin upp í 10 stig.
En allt gekk vel, bara 2 sprungin dekk, og næstum allir komumst alla leið. En heilt yfir frábær ferð sem síðan lauk í súpu á Laxárbakka sem við Eyþór misstum af þar sem við brunuðum í bæinn.
TRÍS 100 km æfing frá Geysi
Geggjuð æfing í afar góðu veðri,
Við svilarnir brunuðum austur í morgunsárið og vorum mættir á bílaplanið við hótel Geysir u.þ.b. kortéri fyrir brottför. Veðrið var gott, engin sól þarna fyrir klukkan 09 og svona frekar svalt en enginn vindur sem var gott.
Eftir myndatöku við hótelið fyrir Morgunblaðið var haldið af stað niður veg 35, Biskupstungnabraut alla leið niður að Sólheimum í Grímsnesi þar sem við stoppuðum örstutt og teygðum lúin bein. Áfram var haldið Sólheimahringurinn og svo enduðum við í hádegismat í Borg í Grímsnesi þar sem við fengum sjálfan salinn að láni. Þar bauð service upp á geggjaðar veitingar og hafi þau kærar þakkir fyrir.
En okkur var ekki til setunnar boðið enda bara rúmlega 48km á mælunum og áfram var haldið eftir Biskupstungnabraut í norður/austurátt og beygt norður veg 37 í áttina að Laugarvatni. Þarna rúlluðum við mjög vel með meðvindi og sóttist okkur ferðin ákaflega vel. Ég sé hóp eitt skammt á undan okkar beygja inn í byggðina á Laugarvatni og þegar við brunuðum í gegnum Laugarvant sáum við þau hvergi enda kom seinna í ljós að þau stoppuðu við Fontana böðin inn í bænum. En við brunuðum áfram alla leið í Úthlíð og voru þá nokkrir orðnir heldur fótfúnir enda við búin að hjóla nærri 39 km í beit, sem er kannski heldur mikið þegar kílómetrunum í fótunum (og rassinum) fjölgar.
Eftir stutt stopp kláruðum við þessa 13 km sem eftir voru og þurftum að hjóla aðeins áleiðis að Gullfossi til að ná örugglega 100 km. Það tókst allt saman og þegar komið var á hótel Geysir var tekið á móti okkur með geggjuðum veitingum frá hótelinu, bjór og kampavín í byrjun og síðan frábærar léttar veitingar í framhaldi.
Um kvöldið var síðan þríréttaður kvöldverður og service sá um skemmtun sem lukkaðist mjög vel.
TRÍS 150 kílómetra æfing Skagafirði
Hópurinn fylgdist með veðurspánni síuðustu dagana fyrir ferðina og við ætluðum vart að trúa því sem við sáum. Spáin var heil sól og 15-18 stiga heiti og vindur aðeins 1-2 gráður. Þetta var eiginlega of gott til að vera satt en spá er spá og hluti spárinnar var réttur en aðrir hlutar ekki alveg svo réttir.
Við svilarnir lögðum í hann upp úr klukkan 20 á föstudagskvöldið eftir smá bras með vindlaust afturdekk á hjólinu mínu. Veðrið úti var hreint ömurlegt, mikill vindur og rigning og ákváðum við því að hafa bara hjólin inni í bíl á leiðinni norður. Sem var kannski eins gott því vindur var um og yfir 18 m/sek á bæði Kjalarnesi og undir Hafnarjfalli þar sem hviður skutu sér niður allt upp í 38 m/sek.
Að öðru leiti var ferðin norður tíðindalaus og vorum við komnir í hús í Brautarholti í Skagafirði rétt fyrir klukkan 12 að miðnætti. Þar hittum við húsráðanda, Ragnheiði, systur Eyþór og spjölluðum við aðeins við hana en fórum síðan í háttinn. Um klukkan 04 vaknaði ég við mikið hanagal enda hænsnakofinn nánast beint fyrir utan gluggann. Gaman að því! En við sofnuðum samt alveg aftur og vöknuðum um kl 06,30 til að gera okkur klára.
Þegar við fórum út fundum við að þetta yrði góður dagur, mikil hlýindi tóku á móti okkur og afar notalegt en vindur var nokkur. Síðan var haldið í Barmahlíðina og lagt af stað á slaginu klukkan 08 í tveimur hópum. Það var haldið eftir þjóðveginum áleiðis að Varmahlíð. Afar hlýtt var en mikill strekkingur á móti. Stutt (3 mínútur) stopp í Varmahlíð og síðan brunað eftir þjóðvegi 1 og síðan sveigt til norðurs út Blönduhlíðina. Það var sannarlega eftirminnilegt. Feykilegur meðvindur hreinlega feykti okkur áfram og brunuðum við á yfir 50 kílómetra hraða á köflum. Geggjað!
Fyrsta kaffistoppið var síðan áætlað við lítin skógarlund í Blönduhlíðinni, sem heimamenn kalla Framsóknarlund (hvað annað!) en Service klikkaði eitthvað og brunaði framhjá svo við stoppuðum við afleggjarann að hótelinu við Hofsstaði sem frændfólk Eyþór reka. Þar var stoppað í 15 mínútur og gott að teygja úr sér og fá kaffi og me'ðí. En áfram var haldið upp í Hjaltadal að Hólum þar sem við borðuðum hádegismat og stoppað var í nákvæmlega 30 mínútur. Á Hólum tók Service fólkið á móti okkur með kúrekahatta og kúrekatónlist hljómaði undir borðum. Gaman að því. Á Hólum var alveg frábært veður, sól og hitinn slíkur að við urðum bara að fara inn. Einhverjir Garmin mælar sýndur 24 gráður!
Síðan var haldið út Hjaltadalinn og áleiðis að Hofsósi þar sem við stoppuðum örstutt (3 mínútur) við sundlaugina. Eftir þetta tók aðeins að kárna gamanið. rúmlega 95 km stóðu á klukkunni en meðvindurinn góði var orðinn að mótvindi og það hressilegum á köflum svo að meðalhraðinn var ekki mikill. Næsta kaffistopp var síðan við Sleitustaði í Viðvíkursveit í mynni Kolbeinsdals. Stoppað var í 15 mínútur og líklega erfiðasti kaflinn framundan með vindinn í fangið og hækkun einhver. Tók sá kafli nokkuð á hópinn og sem þegar við sveigðum til vesturs í áttina að Sauðárkrók en rétt áður en við komum að bröttustu brekku ferðarinnar yfir Hegranesið sveigðum við það mikið til norðurs að við fengum vindinn í bakið sem var flott. Síðan var áfram brunað að bílaplaninu við sundlaugina á Króknum þar sem við stoppuðum stutt. Hitamælir við sundlaugina sýndi 18 gráður! 135 kílómetrar voru komnir á klukkuna og enn vantaði eitthvað.
Áfram héldum við áleiðis veginn yfir Þverárfjall og þegar loksins var komið að snúningspunktinum við 142 kílómetra voru einhverjir búnir að ákveða að hjóla aðeins lengra og fara upp að afleggjarann að skíðasvæðinu við Tindastól. Þangað brunaði ég á meðan hluti hópsins hélt heim hús. Þegar að afleggjaranum var komið ákváðu nokkrir að halda alla leið upp og bættu við sig 3,5 km hvora leið og með við nokkur brunuðum niður. En þegar við lögðum af stað niður áttuðum við okkur á því af hverju það hafið gengið svona vel upp, mótvindurinn var mikill svo mikill að við þurftum að hafa fyrir því að hjóla niður.
En allt hafðist þetta nú samt og ég var kominn í hús um klukkan 16:30. Þar fórum við sturtu í boði Sigga og Steinunnar, borðuðum hamborgara og horfðum á Valsara tryggja sér Evrópubikartitil í vítakastkeppni.
Um klukkan 1930 eða svo lögðum við Eyþór svo af stað heim eftir velheppnaða ferð og ákváðum að hafa hjólin inn í bíl aftur enda vindur ennþá töluverður. Frábær ferð að baki.
TRÍS 200 KM ÆFING SUÐURLANDI
Stóra markmiðið var 15. júní að klára 200 kílómetra á einum degi og allt í einu er það bara búið og allt gekk vel. Fengum heilt yfir frábært veður og allir sáttir með ferðina. En hugsið aðeins um hvað 200 kílómetrar er langt! Það er rúmlega hálf leiðin til Akureyrar og við værum komin framhjá afleggjaranum að Hvammstanga nú eða töluvert austur fyrir Vík í Mýrdal ef við færum hina leiðina.
Ferðin hófst við Ásvallalaug í rjómablíðu. Farið var á slaginu 08.00 af stað og haldið sem leið liggur í gegnum hringtorgin við Ásvallabraut, eftir Krýsuvíkurveginum og áleiðis að Kleifarvatni.
Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m. (7. dýpsta vatn landsins) Það hefur lítið aðrennsli en ekkert frárennsli. Silungsseiði af bleikjustofni úr Hlíðarvatni í Selvogi voru sett í vatnið á sjötta áratugnum og þau hafa dafnað vel, þannig að veiði er tíðum ágæt.
Lítil umferð var svona í morgunsárið og ferðin sóttist vel. Brekkan upp Vatnsskarðið tekur alltaf á en sínu léttara svona í upphafi ferðar heldur en í lokin. Yfir Vatnsskarðið fórum við og Sveiflushálsinn og brunuðum meðfram spegilsléttu Kleifarvatninu og upp og yfir bæði innri stapa og syðri stapa og að Seltúni þar sem komið var að stuttu stoppi og tæplega 23 km komnir (rétt rúmlega 10%).
Eftir kortérsstopp var haldið áfram niður Krýsuvíkurveg og beygt inn á Suðurstrandarveg áleiðis að Þorlákshöfn. Það var flott að bruna eftir suðurstrandarveginum enda lítil umferð og frekar meðvindur heldur en hitt. Þegar komið var í Selvoginn sveigðum við að Strandarkirkju og fengum okkur kaffi og með'í í boði service. Geggjað! En okkur var ekki til setunnar boðið og áfram var haldið (sitjandi reyndar) meðfram suðurströndinni og þar var magnað að sjá kranaflóðið í kringum allar landeldisframkvæmdirnar. Nokkrum kílómetrum frá Þorlákshöfn sveigðum við inn á nýmalbikaðan göngustíg og brunuðum alla leið inn í bæinn og tókum léttan hring við íþróttamiðstöðina og svo beinustu leið áleiðis að Stokkseyri.
Stutt stopp var hjá stóra humrinum við Hafið bláa og áfram var brunað framhjá Eyrarbakka, inn til Stokkseyrar og áfram Gaulverjabæjarhringinn að Selfossi. Þar komum við í geggjað grill í heimahúsi sunnarlega í bænum. Klukkan orðin tæplega eitt og kílómetrarnir 113 þannig að við vorum rúmlega hálfnuð. Veðrið dásamlegt og sátu allir úti og gúffuðu í sig hamborgara. Takk fyrir okkur húsráðendur.
Áfram var haldið eftir Suðurhólum áleiðis að hringtorginu að Eyrarbakkavegi. Þar fórum við inn á nýlagaðan göngustíg lungað af leiðinni að Eyrarbakka. Á þessum kafla var mótvindurinn verulegur og hægðist á hópnum en áfram skrölti hann þó. Meðfram ströndinni var töluverður mótvindur og erfitt hreinlega á köflum t.d. eftir kaffistoppið við afleggjarann að Strandarkirkju þar sem stoppað var við flóamarkaðinn og lúin bein hvíld. Við afleggjarann að Krýsuvík gafst einn hjólari upp og annar við Seltún þar sem stoppað var stutt stopp. Þá voru framundan brekkurnar góðu í hlíðum Sveifluhálsins en allt hafðist það með grát og gnístran en að bruna niður þær norðan megin var geggjað og eins og Siggi sagði: "Maður gleymir því að maður sé þreyttur þegar maður brunar svona niður." Lárus tók þetta alla leið síðan niður Vatnsskarðið þegar hraðamælirinn sló í 70! Síðan var þetta bara krús að Ásvallalaug. Geggjuðum degi í frábærum hópi var lokið eftir ellefu og hálfan tíma þar af 9:47 á ferðinni. Næst er það síðan miðvikudagsæfing og svo að pakka hjólum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2024 | 16:22
Hjólað á Spáni með Rynkeby fjölskyldunni
Það var um haustið 2023 sem við svilarnir Eyþór Kolbeins skráðum okkur í Team Rynkeby 2024. Þar ætlum við að hjóla í góðum hópi fólks frá bænum Kolding á Jótlandi til Parísar. Allt í allt rúmlega 1200 kílómetra leið. Æfingar hófust í október og hafa stigmagnast eftir því sem nær dregur brottförinni sem verður 28. júní 2024. Við svilarnir fréttum af þessari hjólaferð í gegnum Rynkeby fjölskylduna, sem er hópur fyrrverandi þátttakenda í Team Rynkeby. Við höfðum samband við hann Guðmund Jónsson sem sér um skipulagninguna og stuttu síðar var allt klárt. Ferðin var bókuð og var farin 18.-25. mars til Denia á Spáni skammt norðan við Alicante.
Við svilarnir vissum af nokkrum núverandi félögum sem ætluðu að fara í ferðina og á teams kynningarfundi sáum við strax að þetta yrði góður hópur! En til að gera langa sögu stutta þá er öll skipulagning hjá Guðmundi upp á 10 og allt stóð eins og stafur í bók. Við vorum sótt á flugvöllinn á rútu og keyrð beint á hótelið. Þá var hjóla-leiðsögumaðurinn mættur og fólk fékk sín leiguhjól afhent í hollum. Allt klárt.
Ferðin hófst mánudaginn 18. mars þegar við flugum til Alicante með Icelandair. Við Gerða slökuðum á í lánsinum fína og þar var frekar fámennt enda flugið klukkan 08:40 og því vorum við svona aðeins á eftir straumnum. Flugið gekk vel og lentum við í Alicante rétt fyrir klukkan 14 að staðartíma.
Dagur #1 hjólaferð til Spánar
Frábær fyrsti dagur í Spánarhjólaferðinni. Leiðin sem við fórum kallast Coll de Rates. 90 k og 1300 metra hækkun þ.á.m. hin magnaða leið upp Coll de Rates.
Dagur #2 hjólaferð á Spáni
Petracos og Vall de Ebo. Byrjuðum á Lhosa klifrinu og síðan vel bratt 3 km klifur þar sem fylgdi geggjað 8 km downhill. Frabær dagur.
Dagur #3 í hjólaferð til Spánar
Port de Bernia. Geggjaður dagur þar sem klifrið upp 10km langa Bernia hlíðina var alveg frábært. Snarbratt niðurleið í byrjun sem reyndi vel á bremsur. mjög hvasst á niðurleiðinni svo mikið að okkur Íslendingum hreinlega óaði við þeim. Stoppuðum á flottum útsýnisstað og sáum klettinn í Calpe.
Dagur #4 í Spánar hjólaferð
Granadella endurheimtartúr. Farið að bænum Javea, meðfram ströndinni og að svölunum að hafinu 'Balcon el Mar' og þaðan niður að földu perlunni Granadella og að kaffihúsinu La Bandieta. Hápunkturinn var síðan 1.5 km klifur beint upp. Síðan haldið heim og i vínsmökkun.
Dagur #5 í hjólaferð á Spáni
100 km múrinn brotinn. Malcom 70+ var gædinn og keyrði okkur áfram með þeim árangri að ég var með mesta meðalhraða i ferðinni. Afar skemmtilegur dagur. Keyrðum allt i botn strax og sigldum vel upp hið 22km langa klifur upp Vall de Gallinera eða dal kirsuberjanna sem voru rétt að byrja að fara i vorbúninginn. Áfram fórum við upp og nú upp á Vall d'Ebo sem við fórum á fyrsta deginum. Þaðan liggur leiðin 8 km niður á við sem var alveg geggjað. Eitt klifur i viðbót og svo keyrt a 30+ niður i bæ og þaðan bakdyramegin að hótelinu. Frábær dagur.
Dagur #6 í hjólaferð á Spáni
Rúlluðum upp hjá Jesus Pobre og þar niður m.a. framhjá vínbúgarðinum Les Presses og áfram upp í fjöllin. Hápunkturinn var síðan að keyra upp og niður 8 km Vall de Ebo. Leiðin er víðfræg og m.a. oft notuð i keppni og mátti sjá enn merkingar á malbikinu enda ekki rignt frá jólum. Eftir downhill Vall de Ebo var keyrt á 30+ niður að strönd við Oli ia Playa. Þaðan var aftur keyrt þétt upp á hótel.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2024 | 16:12
Mýrdalshlaupið 2023
Býsna krefjandi hlaup við erfiðar aðstæður. Skítaveður síðustu 4 km.
Veðurspáin var ekki gæfuleg fyrir laugardaginn 13. maí 2023. Hlaupið átti að hefjast klukkan 12 á hádegi og sagði spáin daginn fyrir að úrkoman yrði mikil og vindur 14-15 metrar á sekúndu. Rétt fyrir klukkan 17 á föstudag kom niðurstaðan; hlaupinu yrði flýtt og myndi byrja klukkan 09.
Þetta þýddi að við lögðum af stað að heiman upp úr klukkan 06 um morgunninn. Stoppuðum í Olís Selfossi en annars brunuðum við austur á rétt rúmum 2 tímum. Þegar þangað var komið var veðrið ágætt en greinilega töluvert minna af fólki en búið var að skrá sig.
Hlaupið hófst síðan á breyttum tíma klukkan 9. Ræst var í svartri fjörunni neðan við bæinn. Hlaupið upp að Reynifjalli, meðfram fjallinu í norður og inn í bæinn aftur og sikk-sakkað upp Reynisfjallið með fallegu útsýni yfir bæinn. Þegar upp var komið fór aðeins að hvessa en þar sem vindurinn var í bakið var allt gott. Áfram var hlaupið eftir endilöngu Reynisfjalli með ægifögru útsýni, fyrst niður að Vík í Mýrdal, síðan að Reynisdröngum og Reynisfjöru (Black Beach) og loks í áttina að Dyrhólaey.
Áfram var hlaupið norður eftir fjallinu, upp á hæsta tindinn áður en farið er niður af fjallinu við fjallsendann, en þar hefur verið komið fyrir keðju til að aðstoða hlaupara við að fara niður mesta brattann.
Eftir að niður er komið er hlaupin tæpur kílómetri meðfram þjóðveginum og þar var hörkumótvindur og rigning auk þess sem stígurinn sjálfur var frekar erfiður. Síðan er farið yfir þjóðveginn og hlaupið eftir gömlum vegi, vaðið yfir litla á og upp að Höttu. Þar er talsverð hækkun og hlaupið utan stíga síðasta kílómeterinn upp á topp á Höttu. Flestir telja þetta vera erfiðasta hluta leiðarinnar. En frá kílómetra 17 ca var veðrið orðið ansi hreint leiðinlegt. Leiðin upp á topp Höttu var býsna brött í hálum mosabornum stígum þar sem margir voru á fjórum fótum á uppleiðinni. Áfram var hlaupið í þokunni upp á toppinn í afar miklu roki, þoku og rigningu.
Frá toppi Höttu er síðan mjög skemmtilegt niðurhlaup á göngustígum niður í Víkurþorp. Þar eru mismunandi brattir kaflar en flatir inn á milli. Hluti þessarar leiðar er þó nokkuð brött og getur reynst þreyttum fótum erfið. En það var magnað að horfa yfir bæinn aftur með Reynisdrangana í fjarska. En allt gekk þetta nú og það var ákaflega gaman að hlaupa síðustu metrana í markið.
Í lýsingu á hlaupinu segir sem svo:
Vakin er athygli á því að 21 km hlaupið er krefjandi og einungis fyrir þá hlaupara sem hafa farið í utanvegahlaup áður og teljast nokkuð vanir að hlaupa utanvega. Um tæknilega braut er að ræða og brött niðurhlaup á köflum.
Ég held að menn hafi ekkert verið að ýkja frekar að draga úr en veðrið var svo sem ekki að hjálpa heldur.
Ferðalög | Breytt 23.5.2024 kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2023 | 18:23
Gengið á Skessuhorn
Mig hefur lengi langað til að ganga á hið magnaða Skessuhorn í Borgarfirði, Toblerone-fjall Íslands. Ég hef reyndar áður gengið á Skessuhorn en það var með Brattgengishópnum góða um 1. maí 2011. Lýsing mín á göngunni hljóðar svo: "Genginn NA hryggurinn í Skessuhorni - sama leið niður - tímafrekt með tryggingum.". Í minningunni var skyggni ekkert á toppnum í heild gengum við 20 km á heilum 12 klukkutímum. En skemmtilegt var það. Þá gengum við GSM í október 2013 upp á helstu tinda Skarðsheiðar og alla leið út á ónefndan tindinn sem blasir við beint suður af Skessuhorni. Snarbratt er þar niður á rimann sem tengir við aðalfjallið svo við lögðum ekki í hann þar út á.
Í bók sinni Gönguleiðir á 101 tind segir Ari Trausti svo frá gönguleiðinni á Skessuhorn:
"Skessuhorn freistar göngumanna meira en mörg önnur fjöll. Bygging fjallsins er slík; það er líka hárreistri stöllóttri burst enda sorfið að samhliða skriðjöklum í þykkan basalthraunlagastafla Skarðsheiðar." Ari segir einnig; "Langur en ekki tiltakanlega erfiður brekkuvals á mjög glæsilegan tind."
Fjallið nýtur sín sérlega vel úr Andakíl og Skorradal og horfðum við Meira brölt dolfallinn í átt til fjallsins sem gnæfir yfir sveitinni 963 m.y.s. Við lögðum bílnum vestan megin við Álfsteinsá og gengum síðan upp meðfram ánni austan megin. Svolítið ofan við gamla bæinn á Horni sáum við gríðarlega miklar framkvæmdir í gangi af hálfu nýrra eigenda á jörðinni. En þar hyggst kanadískur auðkýfingur ásamt eiginkonu sinni að reisa 1000 ferm hús og 700 ferm gestahús eins og lesa má hér og hér. 2 kranar voru á svæðinu og allt á fullu sýndist okkur úr nokkurri fjarlægð þó.
Áfram gengum við upp mela og mosagrónar hlíðar sem voru nokkuð seinfarnar. Áfram nánast upp að klettastálinu þar sem við sveigðum til hægri þar sem stefnan var að taka nánast U-beygju aftan við fjallið með því að ganga upp skriðurásir aftan við rimann sem tengir tindinn við Skarðsheiði. Þegar við vorum komin upp að klettunum sjálfum heyrði við háa hvelli sem bergmáluðu í klettastálinu, rjúpnaveiðimenn voru hér á ferð. Fullt sáum við af rjúpum sem tóku strauið austur eftir við skothríðina frá veiðimönnunum sem okkur fannst nú heldur vera hálfgerðir amatörar á ferð og fengum síðan fullvissu um það þegar við komum á einn blóðvöllinn, þar sem líklega ein rjúpa féll en hátt í 10 patrónur lágu á sléttum vellinum.
Við gengum síðan áfram nær beint upp á milli stallana og upp á tindinn sjálfan. Þar sátum við í logni og létum þreytuna líða úr fótunum enda búin að ganga rúma 6 km með um 900 metra hækkun. Útsýnið af tindinum var hreint ótrúlegt í allar áttir; til vesturs blasti Skarðsheiðin við með sína hæstu tinda (Skessuhyrna 969, Heiðarhorn 1053 og Skarðskambur 1039). Enn lengra í vestur skartaði Snæfellsjökull sínu fegursta. Norður af blasti Baulan við fjær og Hestfjall ofan við lónið við Andakílsvirkjun nær. Í norðri og norðaustri sá til Tröllakirkju á Holtavörðuheiði og jöklarnir, Eiríksjökull, Þórisjökull og Langjökull voru ákaflega tærir að sjá í magnaðri birtu. Þá sáum við til Skjaldbreiðar og Hlöðufells og til suðaustur sáum við líklega í Ýmir og Ýmu á Tindfjallajökli.
Eftir frekar stutt stopp á toppnum lögðum við í hann aftur og fórum "hefðbundnu" leiðina niður sem er að fara eins sunnarlega í krókinn og þaðan beint niður skriðurnar. Að fara niður grjótskriðurnar var sennilega leiðinlegast kafli leiðarinnar. En allt hafðist þetta og við strunsuðum síðan áfram neðar uns við sáum í bílana um það bil þegar ljósaskiptin voru komin í garð. Á leiðinni niður sáum við svartklædda veru hlaupa niður línuveginn, einmitt þann sama og við hjónin hlupum fyrir rúmum fjórum árum og lesa má um hér. Svartklædda veran var um það bil samferða okkur á niðurleiðinni uns hún hvarf inn í hvítan bíl sem dólaði síðan á veginum fyrir neðan, vildi greinilega eitthvað ræða við okkur, sem hún og gerði þegar niður á bílaplanið var komið. Þá reyndist þetta vera ungur bóndi að leita fjár sem strokið hafði úr girðingu í vikunni. Og vildi hann vita hvort við hefðum eitthvað séð rollurnar hans þarna upp frá.
Mjög vel heppnuð leið í góðum hópi og um að gera að nýta svona veðurglugga sem gefst.
Ferðalög | Breytt 1.8.2024 kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2023 | 15:50
Peter Habeler Runde 2023
Við upphaf ferðar í Vals
Eftir ferðina velheppnuðu í kringum hálft Mt Blanc fjallasvæðið í fyrra langaði okkur í meiri áskorun. Þá fórum við með leiðsögn í 12 manna hópi eins og sjá má hér. Sú ferð heppnaðist í alla staði vel nema við höfðum það á orði í okkar hópi að þetta væri jafnvel aðeins of létt fyrir okkur Kópavogsbúana og fjallageiturnar. Því var um tvennt að ræða, ganga aðeins lengra á hverjum degi og vera jafnvel á eigin vegum. Við leit mína á internetinu fann ég hollenska ferðaskrifstofu, Bookatrekking, sem bauð upp á alls kyns ferðir sem hægt væri að gera á eigin vegum.
Fyrst var ætlunin að fara til Ítalíu í Dolómítana og ganga a.m.k. hluta af hinni mögnuðu og rómuðu AV1 leið, Alta Via 1. Til að gera langa sögu stutta þá gengu tímasetningar ekki upp að þessu sinni og sögðu þær hollensku að best væri að ganga frá pöntunum uþb 7-10 mánuðum fyrirfram til að vera viss um að komast í ítölsku fjallaskálana. Munum það næst.
Þá hélt ég áfram að leita og fyrirsögnin - "Langar til þig í smá áskorun" heillaði vel. Peter Habeler hringurinn þar sem fylgt er í fótspor hin goðsagnakennda Peter Habeler. Notið austurískrar matarhefðar í þægilegum fjallaskálum í 5 daga göngu í stað hefðbundinnar 7 daga göngu.
Peter Habeler Runde er hringleið sem byrjar og endar í Vals, fjallaþorpi í Týról með 537 íbúum. Leiðin var tileinkuð austuríska fjallamanninum Peter Habeler á 70 ára afmælisdegi hans. Þessi leið er ein sú virtasta á þessum slóðum. Peter Habeler er fæddur í Mayerhofen í Týról og eignaðist sinn sess í fjallasögunni þegar hann og Reinhold Messner klifu Everest án súrefnis árið 1978.
Leiðin telst vera 56,1 kílómetri (við reyndar bættum um 15 kílómetrum við hana með því að ganga alla leiðina frá St Jodok að upphafsstaðnum efst í Vals dalnum. Leiðin hefur allt í allt um 3490 metra hækkun og 3500 metra lækkun og telst vera leið aðeins fyrir afar vant fólk þar sem mjög góðs úthalds er krafist ásamt því að vera fótviss og helst með einhverjar reynslu í fjallamennsku. Bara allt sem við þekkjum vel enda átti það alveg eftir að koma á daginn að í raun erum við bara orðin ágætlega sjóuð amk þegar veðrið er gott. Veðurspáin í aðdraganda ferðar var ekki sú allra besta en þegar upp var staðið má segja að svona 95% af gönguferðinni hafi verið í hreint geggjuðu veðri.
Ferðin hófst með flugi í gegnum Munchen þaðan sem við tókum lest frá aðaljárnbrautarstöð borgarinnar til Wörgl þar sem við skiptum um lest sem leiddi okkur m.a. í gegnum Insbruck, höfuðborg Týróla héraðs, og alla leið til smábæjarins St. Jodok am Brenner. Gistihúsið sem var bara alveg frábært var í um 5 mínútna gang frá lestarstöðinni þannig að þetta gæti ekki hafa verið betra.
Dagur eitt: Vals - Geraer skálinn (St. Jokok - Geraer skálinn)
Við vöknuðum í rjómablíðu sunnudaginn 2. júlí og hófum gönguna eftir virkilega velheppnaðan morgunverð á afar heimilislegu og skemmtilegu fjölskylduhóteli. Leiðin lá sunnan megin í dalnum upp og niður alls kyns stíga uns við komum að Gasthaus Touristenrast sem formlega séð er m.v. að sé upphaf göngunnar. Alls var þetta um 8 kílómetra leið. Við stöldruðum stutt við, fengum okkur kaffibolla og lögðum síðan á brattann. Fyrst var gengið eftir sveitavegi norðan megin í dalnum upp fyrir skíðalyftuna sem flytur vistir upp í Geraer skálann. Þaðan liggur liðin eftir löngu zikk-zakki upp fyrir trjálínu í gegnum opið svæði að Geraer skálanum sem stendur í 2,324 metra hæð. Eftir stutt stopp ákváðum við að rúlla aðeins lengra og tékka á námum sem þarna eru - en vildum síðan ekki fara alla leið þar sem tíminn var á þrotum. Við skelltum okkur í sturtu og fórum síðan í matinn sem samanstóð af forrétti, aðalrétti (gúllasi - virkilega góðu) og síðan blönduðum ávöxtum með rjóma í eftirrétt. Í herbergi vorum við með félögum frá Hollandi sem höfðu litla sem enga reynslu í fjallamennsku en voru ungir og sprækir.
Dagur 1:
Hækkun: 1.300 metrar
Tími á göngu: 5:40 tímar
Vegalengd: 17,2 kílómetrar.
Þokan lá yfir dalnum í morgunsárið
Dagur 2: Frá Geraer skálanum að Tuxerjochhaus
Eftir ágætan nætursvefn og morgunmat lögðum við snemma í hann. Veðrið var mjög gott, hann var að rífa af sér eins og sagt er, þótt skýin lægju yfir dölunum fyrir neðan. Frá skálnum liggur leiðin í norður yfir það sem kallast Stinernes Lamm, ógróið land undan jökli og í gegnum Höllwand. Áfram að hinu risavaxna Kleegrubenscharte þar sem við tókum töluvert mikla lækkun til þess að krækja fyrir gilið. Áfram að Kasererscharte og að fjallinu Frauenwand. Þegar þangað var komið var komin þoka þannig að við náðum ekki að njóta útsýnisins. Komum að skíðalyftu með veg niður í sortann. En þarna var fullt af fólki á gangi en loks birtist skálinn út úr þokunni en hann stendur í 2,313 metra hæð. Eftir um klukkutíma opnaðist allt í einu sýn yfir svæðið fyrir neðan okkar, risastórt skíðasvæði sem heitir Sommerville. Þangað gengum við ca 2 km og töluverð lækkun. Magnað að koma þarna í menninguna þar sem við keyptum okkur bæði ís, bjór og kaffi og borguðum með korti!
Um kvöldið skreið síðan þokan inn aftur þannig að allt hvarf.
Dagur 2:
Hækkun: 704 metrar
Lækkun: 500 metrar
Tími á göngu: 4:55 tímar
Vegalengd: 10,2 kílómetrar.
Dagur 3: Frá Tuxerjochhaus að Friesenberghaus
Þegar við vöknuðum snemma morguninn eftir var eins og við værum stödd á öðrum stað. Nú var alveg dregið frá og fjallatopparnir blöstu við og skíðalyftur allt upp í 3200 metra hæð. Frá Tuxerjochhaus lá leiðin fyrst niður á við, þvert yfir skíðasvæðið neðan við fjallið Larmstage og Frauenwand og upp undir kláfunum þar sem við sikksökkuðum að skála sem kallast Spanagelhaus, sem sendur í 2,531 metrar. Þaðan lá afar grýtt leið upp í Friesenbergsskarðið, í 2,911 metra hæð. Hér, á hæsta punkti leiðarinnar, var feykilegt útsýni í allar áttir. Skarðið sjálf og niður leiðin austanmegin var hálfgert einstigi. Við Hákon skelltum okkur í göngu upp á tind í skarðinu sjálfu, en leiðin sú var studd með böndum og stiga. Á meðan biður eiginkonurnar milli vonar og ótta um hvort við kæmum til baka og hræðslan við niðurleiðina jókst með hverri mínútu. Það verður að segjast að leiðin sú var nokkuð brött með keðjum eða vírum og tröppum til stuðnings en allt gekk þetta bara býsna vel. Ofan úr skarðinu sjálfu blasti næsti áfangastaður við en það tók okkur nú samt hátt í 1,5 tíma að komast að skálanum sem kallast Friesendberghaus og stendur í 2,498 metra hæð. Rétt eftir að við vorum komin í hús skall á úrhellisrigning og haglél með þrumum og eldingum og á eftir skreið þokan inn svo varla sást yfir dalinn í næsta fjall.
Hækkun: 910 metrar
Lækkun: 740 metrar
Tími á göngu: 6:08 tímar
Vegalengd: 9,07 kílómetrar.
Hákon og Rósa og útsýnið við Olpererhutte
Undirritaður og Gerða við Olpererhutte
Dagur 4: Frá Friesenberghaus að Pfitscherjochhaus
Um morgunninn var aftur komin frábært veður með útsýni sem enginn var svikinn af. Við gengum fyrst niður Friesenberg vatninu og svo upp brattann þaðan sem við komum í gær. Þegar við vorum búin að hækka okkurm 150-200 metra komum við á stíg sem kallast Berliner Höhenweg og er annar frægur stígur í Austurísku ölpunum. Þaðan lá leiðin að mögnuðum skála sem kallast Olpererhütte og liggur í 2,389 metrum. Skálinn sá er einn af þeim flottari og mikið sóttur enda magnað lón, Schlegeisspeicher, beint fyrir neðan sem margir sækja í og að stökkva upp stiginn að skálanum. Þarna vorum við komin eftir um 2,5 tíma og þetta hefði talist dagleið ef við hefðum tekið 7 daga túrinn! Áfram hélt leiðin og var hreint ansi mikið á stórum, grófum steinum nær alla leið að landamærum Ítalíu, en skammt sunnan þeirra stóð flottasti skálinn í ferðinni Pfitscherjochhaus, í 2,276 metrum. Þarna fundum við snemma að við vorum komin í menninguna enda hægt að keyra upp að skálanum og mikið um hjólreiðafólk. Í Pfitscherjochhaus fengum við líklega besta Tírómasú sem ég hef smakkað.
Hækkun: 650 metrar
Lækkun: 1080 metrar
Tími á göngu: 7,21 tímar
Vegalengd: 13,88 kílómetrar
Dagur 5: Pfitscherjochhaus - Vals
Í síðasta skálanum biðum við til klukkan 07 til að fá morgunmat, en vorum síðan fyrst til að leggja af stað. Fyrst liggur leiðin meðfram litlum vötnum og eftir klassískum stígum undir fjallshlíðinni. En stóru grjótleiðirnar voru líka áberandi öðru hvoru. Rétt undir toppnum á Friedrichshöhe við skálann Landshuter Europa-Hütte, sem stendur í 2,693 metrum. Þar stoppuðum við í svartaþoku í hálftíma og fengum okkur kaffi og kók. Þarna hefði einmitt 6 dagurinn af 7 verið ef við hefðum tekið lengri ferðina. Rétt við skálann hófst niðurleiðin en hún lá í gegnum afar grófa grjótstíga fyrst aðeins upp og svo niður í gil og upp í skarð í fjallinu Sumpfschaftl, í 2,666 metrar, áfram lá leiðin í gegnum grófa grjótstíga þangað ti við komum að íslenskum fjallastígum með grasi og mosa og héldum við að við hefðum loksins komist á beinu brautina en það var nú öðru nær, stiginn magnaði var eftir við Lange Wand.
Við dóluðum okkur niður grasbrekkurnar en vorum ennþá alveg í hæstu hæðum. Þá komum við staðnum þar sem fólk hafði varað við stiganum. Úr fjarlægð virkaði þetta jú alveg bratt en ekkert svo svakalegt en þegar nær dró breyttist myndin, lóðréttur 100-150 metra hár veggur með mjóu einstigi lá niður af stiganum sem var 5-10 metra hár nær beint niður. Alls staðar voru veggfastir vírar til stuðnings og sagði ég aftur og aftur við Gerðu, ekki sleppa takinu, enda hefði þá að öllum líkindum ekki þurft að spyrja að leikslokum. En áfram þokuðum við okkur niður, fyrst skref niður og þurftum að beygja okkur niður fyrir slúttandi berg og síðan fyrir hornið þar sem blasti við nær enginn stígur, hann var svo mjór að rétt skórnir komumst fyrir, en þetta voru 2 helstu hindranirnar á leiðinni. Áfram niður við aðeins þægilegri aðstæður að stiganum góða. En allt gekk bara vel þrátt fyrir að hollensku vinir okkar hafi fylgst áhugasamir með okkur og trúlega hugsað: "Hvernig ætli gangi fyrir kellurnar að komast þarna niður," en til að gera langa sögu stutta þá mössuðu þær þetta og haft var á orði að þetta væri aðeins út fyrir þægindarammann!
Hækkun: 675 metrar
Lækkun: 1750 metrar
Tími á göngu: 7,55 tímar + 1,18 tímar niður Valsdalinn
Vegalengd: 17,8 kílómetrar + 7,11 niður Valsdalinn
Síðasti kafli leiðarinnar frá Gasthaus Touristenrast gengum við á veginum og rétt áður en við komum í bæinn fór að rigna (beint niður) aðeins í gegnum sólina. Niður í gistiheimilið okkar vorum við komin rétt fyrir klukkan 18, skelltum okkur í sturtu og síðan beint í kvöldmat á hótelinu sem var hreint ljómandi góður. Morgunninn eftir flýttum við för og tókum lestina 07:46 áleiðis til Munchen þar sem við dvöldum 1 nótt á hóteli áður en við fórum heim í sólina á Íslandi. Hótelið okkar í Munchen er staðsett í miðborinni rétt við Marienplats og Aðaljárnbrautarstöðina, gæti ekki verið betra upp á samgöngur.
Merkilegt í ferðinni er hversu óáreiðanlegar samgöngur geta verið. Fyrst var það leigubíllinn úr Njarðvík upp á flugvöll sem var löngu búið að panta á ákveðnum tíma. Hann koma nærri 40 mínútum of seint. Flugvélinni seinkaði síðan aðeins lítilsháttar, en þegar til Munchen kom biðum við í rúman klukkutíma eftir töskunum. Lestarferðin gekk ágætlega nema þegar við komum til borgarinnar Wörgl og áttum að taka lestina áfram til St. Jodok. Þá var búið að fella hana niður svo við þurftum að bíða í nærri klukkutíma eftir næstu lest. Svipað var síðan uppi á teningnum á leiðinni til baka. Fyrst var okkar stopp í Kufstein þar sem við áttum að skipta um lest til Munchen fellt niður, svo við þurftum aftur að skipta um lest í Wörgl til að koma okkur til Kufstein, sú bið tók næstum klukkutíma. Á laugardagsmorgunninn kom í ljós að búið var að seinka brottför flugsins um 45 mínútur auk þess sem lestin sem við ætluðum að taka var aflýst svo við biðum í rúman hálftíma eftir næstu lest. En allt gekk upp að lokum og allir eru mjög svo kátir eftir ferðina.
Á leið niður brattann
Stiginn langi var síðan bara minnsta málið þarna!
Öll komumst við til baka!
Ferðalög | Breytt 19.10.2023 kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2023 | 21:04
Nú stendur upp á Hjaltavíkina!
Það var heldur betur tilhlökkun í loftinu miðvikudaginn 12. júlí. Það var komið að árlegu fjölskylduveiðiferðinni í Veiðivötn frá 13.-15. júlí. Undirbúningur gekk hratt og örugglega fyrir sig, gott að hafa Atla með í undirbúningi að græja allt sem þurfti að græja. Við vöknuðum snemma og kláruðum að græja bílinn og svo fór það að allt var tilbúið klukkan 08.30 og það þótt brottför væri ekki fyrirhuguð fyrr en um kl 09.20. Gerða hafði mestar áhyggjur af því að hún væri núna að gleyma einhverju, undirbúningurinn gekk það vel. Veðrið var ljómandi gott, komin norðanátt og mun kaldara en dagana á undan en sól skein í heiði og vindur var nokkur.
Af stað var haldið með troðfullan bílinn: "Hvernig bætum við við dótinu fyrir Tómas, næst þegar hann kemur með," sagði Atli áhyggjufullur þegar ég tróð síðustu hlutunum í skottið á bílnum. "Úff, það er seinni tíma vandamál," svaraði ég. En allt komst með sem átti að fara með og ekkert vantaði. Við brunuðum í einum rykk í Skarðskirkju, þar sem við komum klukkan 10:50, og biðum þar þangað til hinir 3 bílarnir mættu skömmu síðar. Fyrst komu Helga og Siggi á Súkkunni, síðan Elli á Hyundai-inum og loks Eyþór, Þórey María og Sigrún Ásta á mjallahvítum Land Rover Sport. Eftir stutt stopp við leiðin í Skarðskirkjugarði skv hefðinni var brunað að Fossbrekkum þar sem við borðuðum nestið okkar og aldrei þessu vant þurfti enginn að setja upp flugnanet.
Hópurinn samankomin fyrir framan Bjalla (ráðskonan inni ásamt Sigga)
Inn í vötnin góðu var komið um klukkan 12.50 og núna var það hún Birgitta sem afgreiddi okkur og allt klárt rétt rúmlega 13. Þá drifum við okkur í gallann og beint af stað og færið var komið í vatnið um klukkan 1350 í Litla Skálavatn. Ég setti í einn en missti. Síðan fórum við í Ónýtavatn, með óvenju lágri vatnsstöðu, en ekkert var að hafa þar. Það var ekki fyrr en í Arnarpollinum góða að hlutirnir fóru að gerast og komu 4 stykki á land þar sem sá stærsti var 3,2 pund.
Gerða veðurfræðingur var alltaf að spá í veðri og vindum og átti ekki von á góðri veiði í þetta skiptið en það gæti staðið vel upp á Hjaltavíkina, sennilega í fyrsta skipti í nokkur ár. Það var og - held að Elli verði núna kátur.
Í minningunni var veðrið svona!
Eftir að Arnarpollurinn hætti að gefa var brunað í Breiðavatn. Þegar þangað kom var þar einn bíll og að okkur fannst strákur að gaufa með flugustöng víðsfjarri þeim stað sem við vorum vön að veiða á. En til öryggis spurði Gerða þann sem sat í bílnum og fylgdist með fluguveiðimanninum hvort þeim væri ekki sama að hún kastaði út? Jú það var í lagi en ég held að það hafi runnið á kappann tvær grímur þegar hver veiðimaðurinn á fætur öðrum úr þremur bílum mætti út í vatnið. En Breiðavatnið gaf heldur betur vel því 10 vænar bleikjur komu á land, flestar frekar stórar eða um og yfir 3 pund. Þegar fór að hægjast um var brunað heim í hús í mat, hangikjöt, uppstúf og reykt skinka. Gott að vera með kokk heima í húsinu, en Helga tengdó stendur vaktina með mikilli prýði!
Algengustu myndirnar af mæðginunum. Annar að gera að og hinni út í vatni!
Eftir matinn fórum við á Síldarplanið og veiddum vel og þar vorum við bara til miðnættis þegar hætt var að veiða. Elli og Eyþór fóru fyrr heim og voru komnir undir sæng (nú eða svefnpoka svo við séum nákvæm!) þegar við komum í hús eftir að hafa gert að hluta aflans.
Staðan eftir dag 1:
Dagur tvö hófst með því að klukkan hringdi kl 07 og af stað vorum við farin um 20 mínútur yfir. Veðrið var fallegt en frekar svalt (svona uþb 6 gráður eða svo). Á meðan ég hellti upp á kaffi byrjuðu mæðginin að hala inn fiskum sem voru smærri en við höfðum verið að draga að landi daginn áður. Um klukkan 09 brunuðum við í suður-vötnin með stuttu stoppi bæði til að koma af okkur fiski í hús sem og að skella sér á setbergið góða. Þegar þangað var komið var annað af tveimur klósettunum upptekið þegar Atli kom inn stuttu á eftir mér. Allt gekk þetta nú hjá kappanum við hliðina og þegar hann var farinn út heyrðist í Atla og já ég segi heyrðist því Gerða heyrði í honum yfir á kvennaklósettið! "Faðir! Það var maður að skíta í básnum við hliðina á þér!." "Nú, hvað gerir maður annað á klósetti, spurði ég?" "Sko, ég horfðist í augu við manninn og báðir vissu hvað hafið verið að gerast, þetta var bara vandræðalegt," sagði veiðimaðurinn góði til útskýringar.
Veiðimaðurinn góði með einn flottann
Áfram var haldið í suðurvötnin en ekki mikið að hafa en alltaf þó eitthvað frá ca 09.30 til 14 komu 9 fiskar á land hjá SÚPER-veiðimönnunum tveimur í fjölskyldunni en þegar klukkan sló 14:20 kom loksins fiskur á land hjá gamla í Breiðavatninu góða. Toppurinn á tilverunni var síðan í Kvíslarvatninu þar sem gamli fékk eina fiskinn sem kom á land í því ágæta vatni. Í Kvíslarvatnsgígnum var það Elías sem fékk einn ágætan og það þrátt fyrir hreint afar miklar fortölur um hvað allt væri ómögulegt við gíginn - um að þar væri eitthvað hafa. Eftir pylsuveisluna í kvöldmatnum var haldið norður á bóginn í bæði Fossvatn og Hjaltavíkina góðu í Litlasjó og voru litlar heimtur. Það merkilega við þessa heimsókn í Hjaltavíkina að Elli var fjarri góðu gamni eða kannski bara í miklu meira gamni í kaffi hjá Bryndísi veiðiverði. Síðan var haldið suður á bóginn og um klukkan 22.40 héldum við Eyþór í koju á meðan Gerða og Atli kláruðu kvöldið í Breiðavatni og fengu sitt hvorn fiskinn.
Dagur 2 niðurstaða:
Aftur vöknuðum við klukkan 07 og mætt á bakkann stuttu síðar þar sem helt var upp á kaffið. Veðrið var fallegt, bjart og sól með köflum og uþb 7 gráðu hiti. Nokkrir fiskar komu á land ásamt því að Gerða setti í vænan í Arnarpollinum sem sleit sig lausan og það gerði líka STÆRSTI fiskurinn í ferðinni hjá gamla í Skálavatni. Án djóks, þá tók hann hressilega í, það hressilega að hann sleit öngulinn af en velti sér um leið og þá sáum við kvikindið. En því miður náðist hann ekki. Tíminn leið og þegar Gerða setti í einn sem sleit var ballið búið hjá henni og fylgdist hún með okkur af bakkanum. Heldur betur sjaldséð sjón að hún sé uppi á landi en við Atli út í vatni. Atli ákvað síðan að vera áfram á meðan við Gerða brunuðum heim til að ganga frá skálanum. Ég gerði að morgunfiskunum og hitti þar verulega reyndan kappa sem fer svona ca 3x á sumri í vötnin og er svona 5-7 daga í hvert skipti. Þegar ég spurði hann um lengingu á veiðitímanum þá sagði hann og hafði eftir Bryndísi að það þyrfti nú ekki að vera allan tíman þótt það mætti!
Þreyta í gangi eftir svefnlausar nætur!
Eftir fráganginn lagði liðið af stað á meðan við Gerða sóttum Atla í Skálavatnið þar sem hann stóð út í vatninu, búinn að setja í fisk en með öngulinn í rassinum, nei ég meina með háfinn fastann í rassinum þannig að hann gat engra björg sér veitt. Gerða, komin svona semi í sparifötin bauðst til að aðstoða, og skellti sér út í vatnið á strigaskónum til að háfa fiskinn ágæta sem Atla var búinn að þreyta í dágóða stund. Frábærri veiðiferð í Vötnin dásamlegu var lokið. Alls veiddum við þrjú 61 fisk og okkur reiknast til að aldrei höfum við verið með hærri meðalþyngd.
Eftir að ég hafði gert að fiskinum og Gerða skilað inn leyfinu brunuðum við yfir árnar og náðum að kveðja ferðafélagana í Árnesi samkvæmt hefðinni. Takk fyrir mig!
Heildarniðurstaða:
Elías komin í fullan skrúða!
Stöngin klár á bakkanum
Eyþór kuldalegur á Síldarplaninu
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2023 | 20:30
CCC - HÁKON, JÓN OG KONURNAR
Það var 11 október 2021 sem ég sendi á Kópana hvort ekki færi að styttast í næstu gönguferð en fram að því gætum við látið okkur dreyma um þessa ferð hér. Til að gera langa sögu stutta þá voru allir óðir og uppvægir að fara og þann 22. nóvember 2021 var ég búinn að panta þessa ferð dagana 11-14 júlí 2022. Uppgefið verð var 89þúsund krónur en endanlegt verð 85 þúsund rúmar vegna styrkingar krónunnar. Í framhaldi negldum við niður flug og hótel og svo var það bara að fara hlakka til.
Við flugum út til Genfar á laugardagsmorgni hvar við lentum um klukkan 13 og biðum í tæpan klukkutíma eftir Easy bus ferðinni til Chamonix. Þangað vorum við komin 16.30 og á hótelið okkar Vert lodge um klukkan 17 eftir um 20 mínútna gang frá rútustöðinni í miðbæ Chamonix. Það er gaman að segja frá því að að það var sjálfafgreiðsla í innrituninni á Vert Lodge. Þú fannst bara umslag merkt þér upp á vegg og þar var 4-númera kóði að herberginu. Auðveldasta innskráning á hótel sem ég hef upplifað. Morgunmatur var innifalinn og hann var í herbergi niðri, var mjög einfaldur en bara ljómandi góður.
Daginn eftir vöknuðum við nokkuð snemma enda áttu við tíma í kláfferjuna upp á Aiguille du Midi klukkan 09:10. Eftirá að hyggja þá var það hárrétt ákvörðun að bóka svona snemma því eftir því sem á leið jókst fjöldinn uppi í hæstu hæðum. Kláfurinn var troðfullur af fólki og fór því sem næst lóðrétt upp úr tæplega 1100 metra hæð upp í 2317 á stað sem heitir Plan de l'Aiguille. Þar var skipt um kláf og annar tekinn alla leið upp hin hina lóðréttu norður hlið Aiguille du Midi í 3778 metra hæð. Með ýmsum tröppum (sem allt í allt voru 42) stóðum við á hæsta punkti 3842 metra hæð með stórkostlegu útsýni yfir Mont Blanc fjallgarðinn. Alveg mögnuð upplifun. Við vöfruðum þarna um svæðið, skoðuðum ýmis konar fróðleiksmola um fjallgöngur og fengum okkur kaffi ásamt því að stíga út í tómið sjálf (into the void). Þarna dóluðum við okkur skýjum ofar í blíðunni og nutum magnaðs útsýnis í allar áttir. Um hádegi tókum við fyrri kláfinn niður og ákváðum að fá okkur drykk á neðri pallinum. Þegar þangað var komið ákváðum við að taka létta 15 mínútna göngu upp að Lac Bleu (Bláa vatninu). Viti menn þarna kúrði lítið vatn í faðmi fjallanna. Virkilega skemmtilegt að koma þarna. Niður í Chamonix vorum við síðan komin upp úr klukkan 15. Þá dóluðum við okkur, kíktum í búðir og nutum lífsins.
Kominn upp í hæstu hæðir í Aigel du Midi
Mt Blanc í baksýn
Horft í norð austur í áttina að Dolomitunum!
Stígið út í tómið í flottu inniskónum!
Grímuskylda var í kláfunum
Dagur 1: Um Val Ferret dalinn frá Courmayeur að Rifugio W. Bonatti fjallaskálanum
Mánudagurinn rann upp og við vissum að brottför væri um klukkan 12.30 þannig að við drifum okkur í gönguferð í bæinn m.a. til að kaupa vistir fyrir rútuferðina. Veðrið var hreint frábært, reyndar bara eins og það hafði verið alla ferðina. Skömmu fyrir klukkan 12 komum við aftur á hótelið okkar og hittum fararstjórann hinn enska Mark Dodwell. Fylgjast má með ævintýrum hans hér á Strava. Restina af hópnum hittum við síðan í portinu aftan við hótelið. Skutlan af flugvellinum var heldur lengur á leiðinni en ætlað var og það var ekki fyrr en upp úr klukkan 13 að við lögðum af stað í tveimur litlum rútum í gegnum Mont Blanc göngin hvar inngangurinn var í raun rétt hjá hótelinu okkar. Vegna mikillar umferðar vorum við heldur lengur að komast í gegn en eftir að til Ítalíu var komið ókum við stuttan spöl út úr Courmayor og upp í dalinn. Við hófum gönguna í um 1600 metra hæð og enduðum í 2020 metrum þannig að raun hækkun var því um 400 metrar en tótal hækkun var 529 skv Strava hjá Mark.
Komin af stað á TMB!
Skosku vinkonurnar í forgrunni
Þarna sáum við í fyrsta sinn alla sem í hópnum voru. 2 konur frá Írlandi, 2 konur frá Skotlandi, 2 konur frá Eistlandi, við 4 frá Íslandi og síðan 2 stakar konur frá Englandi. Allt í allt 12 manna hópur auk Mark farastjóra og varð mér á orði Jón, Hákon og konurnar! Gangan hófst á þægilegri göngu upp á við til að komast á TMB (Tour-Mont-Blanc) stíginn sjálfan. Við tókum eftir litlum línum meðfram stígnum og spurðum Mark hvað þetta væri þá sagði hann þetta vera dýrunum (aðallega kúm) svo þau fari sér ekki að voða á stígnum og stigi þar sem þau geta fallið niður! En brattinn var alveg töluverður á köflum. Áfram héldum við upp og niður eftir prýðisstígum og góðum stoppum. Loks komum við að stað þar sem löng grasbrekka bar við himinn. Þar sagði Mark okkur að skálinn viðfrægi á TMB leiðinni, Rifugio W. Bonatti sem kenndur er við hinn goðsagnakennda ítalska fjallamann Walter Bonatti sem lesa má um hér, væri skammt undan og við mættum bara spretta úr spori. Þarna varð ljóst hverjir skipuðu A-liðið og hverjir ekki. Við vorum svo gott sem varla lögð af stað þegar við vorum komin á pallinn við skálann sem stendur í 2025 metrum yfir sjávarmáli. Að skálanum vorum við komin um klukkan 17.
Mark var búinn að "vara" okkur við að vera ekki að búast við of miklu en fyrir okkur Íslendingana sem þekkjum skálana í Þórsmörk og Landmannalaugum þá var ljóst að þarna var hreinlega um geggjaða gistingu að ræða með heitum sturtum og bar þar sem hægt var að kaupa bæði bjór á krana og léttvín. Þarna sváfum við 14 saman í herbergi sem var bara ágætt þegar upp var staðið. Maturinn var fínn og framreiddur fyrir alla á sama tíma, forréttur, aðalréttur og eftirréttur. Maturinn var góður og flestir drukku vatn með. Eftir mat tókum við Hákon létta göngu í kring en í koju vorum við kofin fljótlega upp úr 21 enda áætluð brottför klukkan 6.30.
Dagur 2: Frá Bonatti yfir Grand Ferret skarðið og að La Fouly í Sviss
Eftir frekar léttan svefn, skelltum við í okkur morgunmat og héldum út í morgunninn en ákveðið var að taka daginn snemma áður en hitinn myndi alveg kæfa okkur. Við tók nokkuð langur brattur kafli upp slóðan að svissnesku landamærunum. Þegar við vorum farin að sjá í skarðið mikla var aðeins farið að draga af vinkonum okkar frá Skotlandi og til að gera langa sögu stutta þá skiptumst við Hákon á að bera framan á okkur poka frá annarri skosku konunni sem hafði reyndar kvartað nokkuð daginn áður yfir alls kyns hlutum, borðaði ekki neitt og var komin í bælið um klukkan 19! Það sem kom okkur mest á óvart var hvað pokinn hennar var í raun léttur! Þegar upp í skarðið var komið var þar saman komið hellingur af fólki. Vindur var þar töluverður og leituðu flestir skjóls í grösugum brekkunum og horfðum niður í Val Ferret dalinn. Þarna í skarðinu voru landamærin yfir til Sviss hvar við gengum næstu 2 dagana.
Niður úr skarðinu var frekar aflíðandi brekka og eftir að Mark sagði okkur að ekki væri hægt að villast þarna niður að kaffihúsi neðst í brekkunni þá máttum við bruna áfram niður. Það gekk tiltölulega hratt fyrir sig að fara þarna niður og vorum við komin og biðum eftir restinni af hópum (lesist þeim skosku og eistnesku) ásamt Mark sem fylgdi þeim sem hægast fóru. Þarna stoppuðum við dágóða stund áður en við héldum áfram stutta stunda niður á við þangað til við komum að matsölu þar sem m.a. voru seldir heimagerðir ostar - sem við að sjálfsögðu fengum okkur. Áður en þangað kom fórum við úr skóm og sokkum og óðum út í ískalda Dranse de Ferret ána rétt neðan við matsöluna. Þarna dóluðum við okkur í eiginlega heilan fótboltaleik áður en við vorum sótt og keyrð að næsta gisti stað sem staðsettur var hátt í fjöllunum í bænum Champex-Lac. Þangað var um 30 mínútna akstur með vinkilbeygjum upp brattan.
Gististaðurinn var bara fínasta hótel hvar við fengum 4 manna herbergi fyrir okkur til að gista í. Reyndar var bara eitt klósett á hæðinni en allt reddast þetta á endanum. Þarna við hótelið heyrðum við klingjandi hljóð alpanna í bjöllum kúnna sem þarna voru um allt. Sagan á bak við bjöllurnar er sú að bændur settu hér á árum áður bjöllur á kýrnar til að vita hvar þær væru þegar myrkur og þoka birgði sýn. Á sumrin eru nefnilega kýrnar fluttar upp í 1500-2000 metra hæð og leyft að vafra um nokkurn vegin frjálsar þótt þær séu mjólkaðar á hverjum degi með færanlegum mjólkurstöðum. Rannsóknir hafa sýnt að kýr með bjöllur mjólka um 4% minna en þær sem ekki hafa bjöllur en vegna ferðamennskunnar í fjöllunum sem sækja í "sound of the Alps" þá hafa ferðamálayfirvöld mælt með því að halda í hefðirnar!
Hópurinn á uppleið!
Dagur 3: Frá Champex-Lac að Bovine og Col De la Forclaz til Trient.
Við vorum á húninum klukkan 06.30 í morgunmatinn sem var hreint ljómandi góður, miklu betri en í fjallaskálanum daginn áður. Mark mælti með því að við tækjum með okkur eina samloku til að narta í á leiðinni enda var hann ekki viss hvar hægt væri að kaupa mat á leiðinni.
Gangan átti að hefjast klukkan 07 en að sjálfsögðu þurfti hópurinn að bíða eftir okkar konu frá Skotlandi eins og daginn áður! En Mark gerði þetta ágætlega með því ða segja okkur sögu á meðan við biðum þá var eins og við vissum ekki af því að hún væri sein! En leiðin lá síðan niður í móti til að byrja með eftir malarvegi allt þar til við hófum uppgönguna eftir frekar grófum gömlum lækjarfarvegi. Þarna komst Hákon í feitt enda blár ber á lyngi allt um kring. En áfram héldum við, upp, upp, upp! Leiðin lá í gegnum skóglendi, sem kannski var eins gott þá sáum við ekki hversu langt þetta var. En brattinn var töluverður. En þegar upp var komið opnaðist magnað útsýni til vesturs að Mont Blanc og einnig til austurs yfir bæinn Martigny í Sviss. Þegar við gengum síðan norður fyrir hlíðina sáum við heim að áningarstaðnum Bovine þar sem við stoppuðum góða stund og fengum okkur bökur og drykki. Rétt við Bovine gengum við nánast í gegnum hóp af kúm með stórar bjöllur og áttu sumir fótum sínum fjör að launa!
Eftir gott stopp í Bovine héldum við í stutta stund áfram upp á efsta partinn, sem stendur í um 2050 m.y.s., áður en við skelltum okkur niður, niður, niður! Áfram lá leiðin niður í gegnum skóglendi en stígarnir voru betri en áður, þarna mættum við vinnumönnum sem unnu við að slá í kringum slóðana svo gróðurinn myndi ekki smám saman leggjast yfir stíginn. Áfram lá leiðin niður þar til við skyndilega vorum komin að hinu víðfræga Col de la Forclaz sem frægt er orðið í gegnum Tour de France keppnina. Eftir stutt stopp þar, þar sem Gerða hvarf á braut áður en ísinn hennar kom, héldum við niður mjög bratta hlíðina niður að hinu pínulitla myndræna svissneska þorpi Tient sem skartar hinni frægu bleiku kirkju.
Þarna vorum við komin um klukkan 16 og náðum bara að slaka vel á. Hótelið var verulega gott en við vorum 4 saman í 8 manna herbergi ásamt 4 konum sem komu frá öðrum hópi. Heildargangan þennan dag var hátt í 20 km og mikil hækkun og lækkun líka. Eftir að hafa setið og spjallað úti í sólinni með hluta hópsins kom upp babb í bátinn. Þær skosku kvörtuðu mikið um hraðann á þessum degi, það hefði ekki einu sinni verið tími til myndatöku, og að þær vildu bara hætta. Bæði væri þetta erfitt og þær næðu ekki að njóta sem og að þær vildu ekki að við værum alltaf að bíða. Mark og hópurinn tæklaði þetta vel og þá þannig að við Hákon vorum reiðubúnir að taka pokana þeirra og létta þeim lífið upp brattan kaflann að Col de Balme.
Við bleiku kirkjuna góðu!
Dagur 4: Frá Trient í Sviss gegnum Col De Balme og niður til Le Tour og Argentiere
Mark sagði okkur að almennt væri morgunnmaturinn klukkan 06.30 en hann hefði oft fengið vilyrði að komast inn klukkan 06.15. En það tókst nú reyndar ekki og var þröng á þingi þegar allir ruddust inn klukkan 06.30. En þetta var besti morgunmaturinn til þessa og nóg fyrir alla og rúmlega það. Við gengum af stað upp úr klukkan 07 og gengum nú frekar rösklega (skrýtið m.v. uppákomuna daginn áður) að tjaldsvæði neðan við Col de Balme. Þar var ákveðið að við mættum ganga í svona 30 mínútur og sameina síðan hópinn aftur. Við Hákon tókum þarna strax annan pokann og skiptumst á að ganga með hann. Leiðin upp í gegnum skógþykknið zikk zakkaði upp með misbröttum stuttum stígum. Eftir stoppið þar sem við biðum í hátt í 10 mínútur eftir þeim seinustu varð úr að ég tók hinn pokanna upp í skarðið. Í raun var þetta ekkert mál þótt það hafi kannski aðeins hægt á mér a.m.k. miðað við Hákon. Loks komumst við út úr skógþykkninu og sáum í skálann efst í skarðinu víðfræga. Cold de Balme er einmitt þekkt fyrir eitt almagnaðasta útsýni yfir Mont Blanc og allan dalinn þar sem Chamonix liggur.
Upp í skarðinu lágum við og fengum okkur bjór (þótt klukkan væri bara rétt upp úr klukkan 10 - það er örugglega komið hádegi einhversstaðar!) og nutum lífsins. Svona ca hálftíma síðar komu þær stöllur loksins upp í skarðið í fylgd Mark og sú sem ég bar pokann fyrir knúsaði mig og kallaði mig hetjuna sína. Gaman að því. Leiðin niður lá í gegnum risastór skíðasvæði efst í Chamonix dalnum. Rétt áður en við komum að miklum framkvæmdum við skíðahótel ofarlega í dalnum gegnum við í gegnum kindahjörð sem varin var af hörku af 8-10 stórum hundum og endaði það svo að við þurftum að fara út af stígnum og út á mosann og óræktina til að krækja fyrir hundana.
Í Col de Balme
Áfram gengum við síðan niður í bæinn Le Tour þar sem skílðalyftan byrjar þar sem við fengum okkur að borða áður en rútan sótti okkur. Nægur var tíminn svo við ákváðum að skella okkur í fótabað í jökulánni og náðum við því að verða of sein í fyrsta og eina skiptið í ferðinni! En bílarnir voru aldrei þessu vant nokkrum mínútum fyrr á ferðinni en gert var ráð fyrir. Aksturinn niður að Vert Lodge tók stuttan tíma og þar skiptist hópurinn upp, nokkrir urðu eftir en við ásamt þeim eistnesku héldum til Genfar. Þegar til Vert Lodge var komið kvöddust allir með virktum og lauk göngunni formlega með hópknúsi í portinu góða. Hreint frábærri ferð þar sem allt gekk upp var lokið.
Rútan skutlaði okkur fjórmenningunum á flugvöllinn í Genf þaðan sem við tókum leigubíl á hótelið okkar sem staðsett var beint á móti aðaljárnbrautarstöðinni í Genf. Í hinni rándýru Genf vöfruðum við um og nutum lífsins. Tókum hjól á leigu og skoðuðum öll helstu kennileiti borgarinnar s.s. Gengum um miðbæinn og gamla bæinn. Skoðuðum lengsta trébekk í heimi, hinn magnaða 140 metra háa gosbrunn í vatninu ásamt því að skoða eina af þremur höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna og brotna stólinn þar fyrir framan en hann var reistur sem minnismerki um þá sem hafa látið lífið og/eða örkumlast af völdum jarðsprengja.
Rúsínan í pylsuendanum var síðan þátttaka Hákonar í þríþraut Genfar þar sem kappinn synti 250 metra á speedo, hjólaði 10 km á city bike ásamt því að hlaupa 5 km. Hann stóð sig virkilega vel en sagði að slagsmálin í sundinu hefðu komið sér mest á óvart. Gríðarlegur hiti var í borginni meðan við dvöldum þarna en að mörgu leiti dásamleg borg þótt verðlagið hafi verið rúmlega íslenskt! Sem dæmi kostuðu 4 mojhito (ekkert sérstaklega stórir)17 EVRUR stykkið en þeir voru í boði Helgu tengdamóður sem vildi endilega bjóða okkur upp á drykk.
Gerða við þrífætta stólinn góða
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar