Færsluflokkur: Ferðalög
29.7.2020 | 13:58
Veiðvötn 2020
Eftir langa og stranga ferð frá Egilsstöðum var pakkað í töskur fyrir Veiðivötn. Það voru heldur færri í hópnum þetta árið en oft áður. Aðeins við Gerða og strákarnir ásamt Ella. Við hittumst í Skarði (reyndar fyrst í Olís sjoppunni á Vegamótum þar sem Elli sagði - það er alveg sama hvað ég fer snemma af stað alltaf ert þú á undan sagði hann við Gerðu!) og lögðum blóm á leiði Þorgerðar og Árna sem og á leiði foreldra Ella. En vegna fráfalls Sigríðar móður Eyþórs og jarðarfarar hennar 13. júlí komu Eyþór og fjölskylda ekki í Vötnin að þessu sinni og Helga (Aðgerðarformaður) og Siggi komu ekki fyrr en um kvöldið.
Okkur sóttist leiðin bara vel enda Tómas Bjarki að keyra frá Vegamótum og alla leið upp í Vatnsfell. Ekið var á löglegum hraða og ekkert vesen! Skipt var um ökumann í Vatnsfelli og var þá Tómas alveg búinn eftir að hafa keyrt bæði malarveg (frá Dómadalsafleggjaranum) og tiltölulega mjóan þjóðveg. En veðrið var gott og flugan í fínu formi þegar inn í Veiðivötn var komið rétt um klukkan 13. Barnabarn veiðivarðanna sótthreinsaði helstu staði í Bjalla og þangað vorum við komin 13:15. Þá var strax drifið í því að setja saman stangir og svo var bara haldið beint á bakkann sem að þessu sinni var Breiðavatn! Við köstuðum út 14:25 og fyrsti fiskurinn kominn á land 14:45 og formlegur veiðitími ekki hafinn! Hvað segir Eyþór nú?
Fram eftir degi var ágætisveiði og eftir pylsuveisluna um kvöldið var haldið á Síldarplanið í Fossvatni og þaðan í Litla sjó og áfram bara nokkur veiði. Á þriðjudeginum var byrjað á Eyrinni í Langavatni og fengust þar nokkrir fiskar. Síðan var haldið í suðurvötnin, Skálavatnsgíginn, Snjóölduna, Breiðavatn, Ónefndavatn og fleiri. Áfram einhver veiði þangað til um klukkan 16 um daginn. Eftir það fékkst ekki branda og við varla urðum vör.
Ekki einu sinni bleikjan gaf sig í Snjóöldunni. Eftir hangikjötið var haldið í norður vötnin, Litlasjó og Grænavatn en áfram. Engin veiði og við varla vör.
Á miðvikudagsmorgunn fórum við bara 3 út - Tómas með leik um kvöldið og fékk að sofa lengur og Elli var orðinn saddur og sæll með sína fiska. Við hættum um klukkan 11 eftir að hafa fengið nokkra fiska í Ónýtavatni. Elli mjög glaður þegar við renndum í hlað rúmlega 11 og farin vorum við úr vötnunum góðu upp úr klukkan 12 og komin heim rúmlega 15. Fyrst við vorum svona snemma á ferðinni var hægt að skutla fiskinum beint í reyk. Vel lukkuð ferð í alla staði þótt óvenju fámenn væri.
Heildarniðurstöður voru sem hér segir:
Elli í fullum skrúða!
Þeir voru misstórir fiskarnir!
Þessi ætlaði að vaða í Gerðu í Litla Skálavatni
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2020 | 12:30
Á fartinum í Fjögurra skóga hlaupi
Skemmtilegur verðlaunapeningur úr við úr Vaglaskógi
Þarf að æfa mikið fyrir hlaupið? "Nei ég bara bíð eftir pósti um í hvaða hlaup Rósa er búin að skrá mig og þá er ég klár," sagði Hákon þegar hann var spurður hvort hann hefði æft mikið fyrir Fjögurra skóga hlaupið 2020. Reyndar er það ekki alveg satt því Hákon fékk góða æfingu að hlaupa 24 kílómetra Þorvaldsdalsskokk 3 vikum áður við nokkuð erfiðar aðstæður. En hlaupahópur Breiðabliks skilaði 20 hlaupurum að þessu sinni í hlaupið.
Þær voru kátar stelpurnar að hlaupi loknu!
Fjögurra skóga hlaupið hefur verið haldið frá árinu 2011 en það fer fram í suðurhluta Fnjóskadals í júlí ár hvert. Hlaupið er fjáröflunarleið fyrir björgunarsveitina Þingey og hefur lukkast afskaplega vel í gegnum tíðina. Hlaupið er í gegnum fjóra skóga: Vaglaskóg, Lundskóg, Þórðarstaðaskóg og Reykjaskóg. Náttúrufegurð er mikil á svæðinu og ekki spillir fyrir að mikil veðursæld er í Fnjóskadal. Hér má sjá heimasíðu hlaupsins á Facebook en þar eru upplýsingar um hlaupið ásamt myndum úr hlaupinu.
Hlaupið kom nokkuð á óvart. Var frekar hratt en skemmtilegt, töluvert um brekkur á leiðinni og sagði Garmin að hækkunin hafi verið 484 metrar. Við Hannes nágranni Blöndal hlupum alla leiðina og nánast leiddumst í markið töluvert langt á eftir Hákoni sem náði 3ja sætinu í hlaupinu.
Við Gerða vorum bara sátt í markinu!
17,6 km hlaupið var reyndar bara þriggja skóga hlaup. Hlaupið hófst í sudda austan brúar við sumarhúsabyggðina við Illugastaði. Þaðan var hlaupið að Þórðarstaðaskógi og í gegnum hann að Lundskógi og yfir að Vaglaskógi þar sem hlaupið endaði við Bjarmavöll skammt frá Þjóðvegi 1. Leiðin var sérlega krókótt í gegnum Vaglaskóg, bæði upp og niður og í gegnum þrönga skógarstíga þar sem greinar slúttu fram og vildu grípa í hlauparana sem "geystust" framhjá.
Hlaupafélagarnir - hvað verður það næst?
Háulindarbúarnir á fullum spretti. Ég full þreytulegur! (mynd af síðu hlaupsins)
Ferðalög | Breytt 31.7.2020 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2020 | 11:55
Feðgar á ferð yfir þjóðleiðir
Við upphaf ferðar í Hrafnhólum í Mosfellsdal
Við feðgarnir Atli Þórður og ég ræddum í vor um að fara saman í göngu. Atla langaði í fjallgöngu og að ganga aðeins meira. Ég stakk upp á að fara í göngu og gista eina nótt á leiðinni. Allt stefndi nú í að ekkert gerðist þangað til Atli segir við mig - hvað með gönguna okkar? Ég skoðaði veðurspánna á mánudagseftirmiðdegi og segi við hann: "Förum á miðvikudag. Spáin er góð, hægviðri og engin úrkoma." Hann var klár en sendi mér nú samt skeyti á þriðjudagskvöldi - erum við ekki on á morgun? Ó jú, við leggjum af stað klukkan 15, sagði ég!
Eftir frekar skamman undirbúning var lagt í hann miðvikudaginn 22. júlí. Í stuttu máli ætluðum við að ganga úr Mosfellsdal yfir í Skorradal. Við fylgdum gömlum þjóðleiðum fyrst yfir Svínaskarð úr Mosfellsdal yfir í Kjós. Þaðan yfir í Fossárdal í Hvalfirði og úr Hvalfirði yfir Síldarmannagötur í Skorradal í Borgarfirði.
Helga Katrín keyrði okkur upp í Hrafnhóla, skammt ofan við Gljúfrastein í Mosfellsdal. Þaðan gengum við um 3 kílómetra leið að bílastæðinu við Skarðsá þar sem gengið er upp á Móskarðahnjúka. Þaðan lá leiðin um hina fornu Svínaskarðsleið yfir í Kjós. Leiðin er nokkuð brött á kafla þá sérstaklega efst í Svínadalnum og einnig mjög gróf á kafla. Fyrsta stoppið var efst í skarðinu með Móskarðahnjúka á vinstri hönd og Skálafell á hægri hönd. Þar hittum við mótorhjólakappa sem komið höfðu úr Hvalfirðinum. Í skarðinu er frábært útsýni í áttin að Mosfellsbænum sem og yfir að Vindáshlíð í Kjós.
Atli með Sandfell (384 m) og Vindáshlíð í baksýn.
Þaðan lá leiðin að Vindáshlíð þar sem við ætluðum að fara aðra gamla þjóðleið framhjá Sandfelli og yfir Sperri- og Dauðsmannsbrekkur og niður í Fossárdal í Hvalfirði. Við gerðust djarfir og beygðum af leið þegar niður í Svínadalinn var komið og lentum í tómu bauki að komast framhjá sumarhúsabyggð við .. og þurftum að stökkva yfir á í þröngu gili. Áfram héldum við að veginum upp að Vindáshlíð. Þar var stranglega bannað að fara um vegna co-vid19 og aftur þurfum við að "stytta" okkur leið í skóg, girðingar og lúpínubreiður í allnokkrum halla. Frekar erfitt allt saman með allt á bakinu. En áfram gengum við vel merkta/gegna leið. Skammt fyrir ofan Fossárdal fundum við gististað skammt frá ánni Míganda. Þar slógum við upp tjaldi um klukkan 21 um kvöldið eftir um 6 tíma ferð með góðum stoppum. Á matseðlinum voru núðlur, flatkökur, kaffi, homeblest og snickers.
Á Síldarmannastíg - Hvalfell og Botnsúlur í baksýn.
Við sváfum vel á nýju Costco lofdýnunum með koddanum. Veðrið um nóttina var ótrúlega gott. Nánast logn og um 10 stiga hiti í 200 metra hæð yfir sjávarmáli. Við tókum daginn tiltölulega snemma þótt litla barnið hafi fengið að sofa til klukkan 09. Við vorum lagðir í hann klukkan 09:50 og gengum niður að þjóðvegi (um 4 km leið). Þaðan gengum við eftir malbikinu, bæði um Brynjudalsvog og síðan inn í Botn þar sem við tókum hádegismat um klukkan 13. Ég hef oft heyrt að það sé mikið af kræklingi í Hvalfirði. En við Brynjudalsvoginn voru haugar af kræklingi eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Eftir gott stopp og smá dott í skjólsælli laut á móti sólu var haldið í hann yfir Síldarmannagötur og yfir í Skorradal þar sem Gerða sótti okkur innst í dalnum við enda vatnsins eftir um 47 km göngu! Leiðin hefst í um 35 metra hæð yfir sjávarmáli og nær hæst í 496 metra efst á Botnsheiðinni. Við Skorradalsvatn er hæðin um 103 metrar. Leiðin vel vel vörðuð og stikuð og greinilega mikið farinn. Það var bara á einum stað þar sem hægt var að villast sem við Atli gerðum að sjálfsögðu og það þótt að stúlkurnar tvær sem við mættum á miðri leið hafi sagt okkur nákvæmlega að forðast þetta. Staðurinn er þegar um 2 kílómetrar eru eftir. Það virðist liggja beinast við að fylgja línuvegi Sultartangalínu en það lengir leiðina niður í dalinn um 2 kílómetra hið minnsta. Niður brattann frá brúninni og niður að Skorradalsvatni er um 294 metra lækkun á 1800 metrum sem telst vera 16% halli!
Horft niður að Skorradalsvatni - Fitjá liðast að vatninu
Lokahnykkurinn verður hins vegar eftirminnilegur. Við horfðum yfir enda Skorradalsvatn og áttuðum okkur á því að Fitjáin skyldi að lokatakmarkið okkar sem var þjóðvegurinn norðan vatnsins. Við gengum niður framhjá Vatnshorni og beint af augum niður að ánni. Þar þótt mér vatni heldur djúpt svo við fórum aðeins til hliðar (vestar) þar sem skiptist í 2 greinar. Sú fyrri náði okkur aðeins upp á leggi en sú síðari, þá sérstaklega síðustu skrefin, náðu hið minnsta upp að rassi! En auðvelt engu að síður að fara yfir þar sem áin er frekar lygn. Á hinum bakkanum þurftum við að hefa okkur upp háan grasi gróin bakka. Þaðan lá leiðin yfir 500 metra langan mýrarfláka, sem við seinna sáum að væri friðað votlendi, en við Atli strunsuðum beint yfir!
Þegar norðanmegin var komið skiptum við um föt, kláruðum nestið og Gerða kom stuttu síðar og mikið vorum við fegnir að geta sest í bílinn og slakað á með KFC þegar heim var komið. Virkilega góð feðgaferð.
Þráðbeint yfir friðað votlendi!
Ferðalög | Breytt 30.7.2020 kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2020 | 08:55
Fimmvörðuháls fram og tilbaka
Það hefur sennilega verið eftir Laugavegsgönguna sem við gengum á 2 dögum í rjómablíðu sumarið 2018 að hugmyndin kviknaði að ganga Fimmvörðuháls fram og tilbaka. Gerða var stórtæk og vildi helst ganga fram og tilbaka sama daginn en niðurstaðan varð að við myndum ganga yfir og gista í Básum á Goðalandi og ganga síðan til baka daginn eftir.
Gönguhópurinn góði GÁGS (Gengið á góða spá) við Skógafoss.
Ekkert varð af ferðinni 2019 en þann 7. júlí 2020 var lagt í hann. Til að gera langa sögu stutta þá hefur veðrið á hálsinum sjaldan verið betra en þessa 2 daga sem við vorum á göngu. Fyrri daginn var algjörlega heiðskýrt og með létta golu í bakið gengum við yfir hálsinn á rúmum 7 og hálfum tíma. Lögðum af stað rétt fyrir klukkan 12 á hádegi og vorum kominn í Bása um klukkan 19:30. Eftir frábæra nótt í Básum þar sem logn og a.m.k. 13 stiga hiti var, lögðum við af stað rétt fyrir klukkan 10 að morgni og vorum komin yfir um klukkan 16:30.
Á bakaleiðinni lentum við í þoku eftir - í Bröttufönn og Fimmvörðuhálsinum sjálfum eftir það var heiðskýrt veður en nokkur gjóla á móti sem jókst heldur eftir því sem neðar dró. Allt í allt um 52 kílómetrar í göngu með allt á bakinu. Frábær ferð að baki þótt ég sjálfur hafi aðeins glímt við hælsæri og nuddsár á hásininni og gekk ég síðustu 6 kílómetrana á inniskónum!
Leiðin yfir Fimmvörðuháls er ákaflega fjölbreytt og gaman að upplifa hvað ferðin er ólík eftir því hvor leiðin er farin. Í bók sinni Fimmvörðuháls eftir Sigurð Sigurðarson segir svo: "Svo undarlega sem það kann að hljóma er leiðin yfir Fimmvörðuháls eiginlega tvær ólíkar gönguleiðir. Annars vegar er um að ræða gönguleiðina frá Skógum í Bása og hins vegar gönguleiðina frá Básum að Skógum. Að sjálfsögðu er hér um sömu leiðina að ræða, en aðeins þeir sem hafa farið báðar leiðir, vita að þetta eru tvær ólíkar gönguleiðir. Allt önnur sýn á náttúru og umhverfi fæst þegar gengið er í gagnastæða átt. Með sömu rökum mætti telja fjórar leiðir, yfir Hálsinn að sumarlagi og yfir Hálsinn að vetrarlægi."
Eins og áður sagði lögðum við af stað í rjómablíðu um klukkan 12 að hádegi eftir að hafa brennt austur í bíl með Hákoni og Rósu. Við sátum úti og borðuðum nesti á tjaldsvæðinu við Skógafoss og nutum lífsins áður en lagt var í hann. Fyrsti leggurinn er upp stáltröppurnar meðfram fossinum sjálfum. Þegar upp er komið opnast frábært útsýni upp á Skógaheiðina og leiðin liggur meðfram Skógaánni og öllum hinum ótal fossum sem sumir hverjir gefa hinum eina sanna ekkert eftir í formfegurð. Sigurður Sigurðarson segir í bók sinni um Fimmvörðuháls: "Fossarnir í Skógárgljúfri eru 23 frá Skógafossi að þeim stað sem gönguleiðin liggur yfir ána á lítilli göngubrú. .. Af 23 fossum eru níu nafnlausir að því er best er vitað." Fyrstu 5-6 kílómetrarnir erum á mjúkum moldarstígum meðfram ánni og að göngubrú yfir ánna sem. Göngubrúin er í um 700 metra hæð. Þar skiptir landið um svip.
Núna er gengið eftir veginum, grófum malarvegi næstum alla leið að Baldvinsskála, frekar tilbreytingarlaus og ekkert sérstaklega skemmtileg leið. Að skálanum eru u.þ.b. 12 km gangur frá Skógum. Þegar upp í Baldvinsskála tók á móti okkur hópur fólks sem skálaði í freyðivíni! Hópurinn sá hefur trúlega lagt af stað 2 tímum á undan okkur. Í skálanum hittum við geðþekka konu sem var þar skálavörður og sagði okkur aðeins frá nýja skálanum sem reistur var 2010. Sjá má sögu Baldvinsskála á myndinni hér til hliðar. Hún er þar skálavörður 6-8 vikur á hverju sumri og vill hvergi annars staðar vera. Ég bauð eiginkonunni upp á kók og var hún fljót að segja já við því!
Frá Baldvinsskála er ekki langt upp á Fimmvörðuhálsinn sjálfan sem gefur gönguleiðinni nafn. En hæst fer leiðin í um 1070 metra hæð í um kílómeters fjarlægð frá Baldvinsskála. Það var einmitt á þessum hæsta punkti sem við tókum fram úr hópnum góða sem við höfðum hitt í skálanum. Eitt parið í hópnum var langsíðast og hafði kona nokkur, sem greinilega átti orðið í töluverðum vandræðum, það á orði við mann sinn að hún myndi bara éta steikina kalda þegar niður í Þórsmörk væri komið! Á þessum kafla er gengið yfir snjóskafla meira og minna alveg að gígunum Móða og Magna. Þar breyttist leiðin og lengdist aðeins við að krækja fyrir nýja hraunið. Eftir að hafa gengið framhjá minnismerki um þrjá göngumenn sem urðu úti árið 1970 og stendur utan í Bröttufannarfellinu lá leiðin hratt niður á við. Við fórum óvart yfir Heljarkambinn með keðjunum sínum og héldum að hann væri þegar farið væri niður af Morinsheiðinni þannig að við gleymdum alveg að vera eitthvað smeik!
Að horfa yfir í Þórsmörk ofan af Bröttufönn er alveg magnað, litadýrðin og stórskorið landslagið alveg stórkostlegt. Ofan af Morinsheiðinni liggur leiöin utan í heiðarhorninu og síðan áfram yfir moldarstígum niður á Kattarhryggi og að að ég held Strákagili þar sem búið er að leggja tröppur upp mesta brattann. Það var dásamlegt að ganga þessa síðustu kílómetra niður í Bása. Í Básum gistum við í rjómablíðu í nýju tjöldunum. Um miðja nótt í einni af pissuferðinni var stafalogn og um 13 stiga hiti.
Við vöknuðum upp úr klukkan 08 og fórum að tygja okkur fljótlega eftir morgunmatinn. Lögðum loks af stað klukkan 09:54 eins og áður sagði. Það var ekki alveg eins fallegt á að líta upp eftir fyrst í stað en smám saman vék þokan fyrir sólinni og eftir að hafa náð toppnum gengum við í rjómablíðu alla leið í Skóga. Þegar við vorum rétt komin upp síðasta snjókaflann í Bröttufannarbrekkunni ákváðu stelpurnar að pissa og við Hákon gengum upp að minnismerkinu sem áður sagði frá. Þær komu gangandi út úr þokunni og heyrðum við í þeim löngu áður en við sáum þær. Síðan héldum við áfram, framhjá Magna og Móða og áleiðis yfir fyrstu snjósléttuna. Þá segir Rósa: "Hvar er síminn minn?" og þær Gerða áttuðu sig á því að hún hafði lagt hann frá sér á jörðina þegar þær fóru að pissa. Við vorum búin að ganga um 1,5 kílómetra, ekki mikil hækkun þarna en þó einhver. Hákon skildi farangurinn eftir og hljóp til baka að tveimur dökkum blettum þar sem síminn lá óhreyfður. Eins gott að þetta reddaðist því annars væri rassamyndin góða glötuð! En áður en við náum að Baldvinsskála var Hákon búin að ná okkur á ný, ekki mikið mál hjá honum að skottast 3km aukalega!
Gönguhópurinn Toppfarar hafa nokkrum sinnum farið yfir Fimmvörðuháls og hér má lesa skemmtilega frásögn þeirra í máli og myndum. Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi skrifaði skemmtilega og ljóðræna leið um ferð sína yfir Fimmvörðuháls sem lesa má hér.
Heildarvegalengd er aðeins á reiki en við giskum á að leiðin sé um 26 km hvora leið. Mesta hæð var um 1070 m og hækkunin var 1.376 m úr 29 m upphafshæð við Skógafoss.
Ferðalög | Breytt 31.7.2020 kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2020 | 09:52
Þorvaldsdalur skokkaður
Það hefur lengi verið á stefnuskránni að hlaupa Þorvaldsdalinn í Eyjafirði. Við hjónin ásamt Hákoni og Rósu skráðum okkur í lengsta legginn sem átti að vera u.þ.b. 25 kílómetrar. Dagsetningin 4. júlí hentaði bara vel. Leikur við KA á sunnudeginum og bæði þurfti Hákon að aðstoða aðeins á N1 mótinu dagana á undan sem og að mæta á fyrirhugað ættarmót á Blönduósi. Allt gekk upp og við hjónin ásamt einkadótturinni brenndum norður á fimmtudeginum í rjómablíðu sem átti eftir að haldast alla leið fram á sunnudag.
Mæting við Árskógsskóla fyrir klukkan 11 á laugardeginum. Eftir að hafa farið í smá skoðunarferð niður á Árskógssand snérum við við og komum að skólanum þar sem mætti okkur múgur og margmenni enda um 150 hlauparar skráðir í hlaupið. Stuttu síðar mættu rúturnar sem keyrðu okkur að Fornhaga þar sem hlaupið hófst. Til viðbótar við okkur fjögur var Margrét mágkona Kristjáns að hlaupa ásamt auðvitað miklu fleirum.
Til að gera langa sögu stutta þá er hlaupinu lýst svona á heimsíðu hlaupsins:
Skokkið hefst við Fornhaga í Hörgárdal (þjóðvegur 815), en Fornhagi er 90 m yfir sjávarmáli, og endamarkið er við Árskógsskóla, sem er um 60 m yfir sjávarmáli. Vegalengdin er um 25 kílómetrar. Allbratt er fyrsta spölinn upp frá Fornhaga og dalbotninn nær 500 m hæð eftir um 5 km, í svonefndri Kytru, en úr því hallar undan með þeim frávikum sem landslagið býður upp á. Skokkarar fylgja sennilega helst fjárgötum, en mega fara hvaða leið sem þeim sýnist þægilegust. Leiðin er ómerkt. Farið er um móa, mýrlendi og norðlenskt hraun (framhlaup). Menn mega búast við því að blotna í fætur við að fara yfir mýrar og læki.
Að hlaupi loknu birtist þetta á heimasíðu hlaupsins:
"Lokið er 27. Þorvaldsdalsskokkinu sem fór fram við góðar veðuraðstæður 4. júlí 2020. Færið á dalnum var hins vegar með "kaldara" móti en sakir snjóþunga vetursins voru feikn af snjó sem hlauparar þurftu að hlaupa yfir og var þetta umfram það sem elstu menn muna!"
Það voru orð að sönnu að hlaupið hafi verið með kaldara lagi. Bara á fyrsta kílómetranum blotnuðum við í fæturna og eftir því sem ofar dró jókst snjómagnið. Fyrsti skaflinn til að hlaupa yfir kom eftir um 3,9 km og sá síðasti eftir um 15 km. Undirlagið var bæði fjölbreytt og erfitt. Fyrstu kílómetrarnir var hlaupið utan í fjalli sem kallast Fálkahaus. Þar var að mestu hlaupið eftir kindagötum í gegnum móa og mela. Eftir því sem ofar dró og við nálguðumst hinn eiginlega Þorvaldsdal fór að "blotna" verulega í hlaupaleiðinni og margoft þurftum við að stikla yfir langa mýrarkafla, stikla yfir og eftir þúfuhausum.
Síðan er hlaupið niður að árbakkanum við Þorvaldsá og áfram að vatni sem er efst í dalnum yfir Hrafnagilshraun en þar er hlaupaleiðin sérlega gróf og leiðinleg að hlaupa yfir. Á u.þ.b. 5 km fresti voru drykkjarstöðvar þar sem hægt var að skella í sig bæði vatni og Powerade. Skemmtilegt að segja frá því að rétt áður en 3ja drykkjarstöðin var tók ég framúr göngufólki sem myndaði heiðursfylkingu og klappaði þegar ég og annar hlaupari "geystumst" fram úr þeim. Síðasti kaflinn var eftir frekar grófum vegi upp og niður brekkurnar ofan Árskógar. Hlaupið endaði síðan við tún skammt ofan þjóðvegarins.
Í markinu var boðið upp á frábærlega bragðgóða kjötsúpu, hleðslu, kaffi og súkkulaði. Frábært að hafa náð að klára þetta þótt þær Gerða og Rósa hafi sagt fljótlega að þetta hlaup þyrftu þær ekki að hlaupa aftur!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2020 | 15:23
Reykjadalur
Mig hafði lengið dreymt um að ganga Reykjadalinn og að heitu laugunum. Við Gerða fórum fyrir nokkrum árum með Helga frænda að ofan, frá Ölkelduhálsi, en aldrei þessa hefðbundnu leið frá Hveragerði. Leið er mjög auðveld og vel merkt. Hún er um 3,4 km á lengd. Á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17 júní var drifið í málinu og Rósa, Hákon og fjölskylda mættu ásamt mér, Gerðu og Tómas. Úr varð ljómandi skemmtileg ferð í fínu veðri en svolítið köldu sérstaklega á móti vindinum á niðurleiðinni.
Reykjadalir sem sumir nefna Reykjadal en þeir eru fleiri en einn og fleiri en tveir. Einn hefur t.a.m. verið nefndur Gjósta, virkt hverasvæði. Dalirnir eru hluti af eldstöð sem kennd er við Hengil og nær eldstöðin frá Hveragerði til Nesjavalla, vestur fyrir Hengil og suður í Hverahlíð. Landslag svæðisins einkennist af jarðhita og er þar fjöldi hvera og lauga, berggangar, brot og framhlaup.
Á svæðinu eru einkennandi lækjarsytrur sem seytla niður hlíðar dalsins. Þær eru allsérstæðar á landsvísu enda hafa þær mikið að segja til um lífríki hveranna.
Innri hluti Reykjadals ásamt Klambragili er mjög votlendur og undirlagður heitum hverum og laugum. Volgar ár og lækir eru algengir.
Við lögðum af stað úr bænum rétt um klukkan 16:30 og ökumenn á sitthvorum bílnum voru þeir Sverrir og Tómas Bjarki. Tómas létt stressaður að keyra niður Kambana en allt gekk eins og í sögu. Töluvert var af fólki á göngunni og vakti athygli okkar að mikið var af ungu fólki og þá sérstaklega erlendu ungu fólki sem hafði með sér nokkra kalda! Ferðin hófst að sjálfsögðu og hóað var í næsta mann sem reyndist vera erlendur ferðamaður og höfðu þær Gerða og Rósa töluverðar áhyggjur af Co-Vid smiti. En hvað um það þá var ferðin upp í fínu lagi og Hekla sú yngsta í ferðinni sóttist leiðin mjög vel. Þegar upp var komið skelltu strákarnir og Hekla sér í heita lækinn en Rósa og Gerða fylgdust með. Vatnið var misheitt eftir því hvar við settumst í lækinn. Búið er að byggja palla meðfram læknum sem og smá girðingu til að hægt sé að skipta um föt.
Eftir að hafa legið dágóðs stund í pottinum var haldið til baka. Við ætluðum auðvitað að versla við heimamenn og kaupa okkur pizzu en annars pizzastaðurinn var lokaður og biðlisti hjá hinum þannig að við brunuðum í bæinn og beint á Eldsmiðjuna á Suðurlandsbraut. Flottur dagur og flott ferð.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2020 | 16:42
Móskarðahnjúkar loksins
"Rósa og Hákon koma klukkan 09 og sækja okkur á morgun," sagði eiginkonan í gær. Nú hvert erum við að fara? Spurði ég. Á Móskarðahnjúka! Og það stóð heima. Rétt um klukkan 09 annan í hvítasunnu renndi Hyundainn í hlað og sótti okkur hjónin. Ég í stuttbuxum og Gerða í vetrarbuxunum.
Í bók sinn um Suðvesturnornið segir Einar Þ. Guðjohnsen; "Hnúkaröð tengir saman Esju og Skálafell, en verða þó nokkur misdjúp skörð á milli. Þetta eru líparithnúkarnir Móskarðshnúkar (eða Móskarðahnúkar). Liturinn blekkir marga, og gætu menn ætlað, að þar væri oftar sólskin en raun ber vitni, og þannig blekkti sólarliturinn meistara Þórberg ítrekað, þegar hann ætlaði að gerast húsamálari forðum daga." Haraldur Örn og félagar í Fjallafélaginu lýsa göngunni svo á vefsíðu Fjallafélagsins: "Héðan (innskot: frá göngubrúnni yfir Skarðsá) er gengið upp móann til hægri og upp á Þverfellið, hægra megin við Gráhnúk (stundum nefndur Hrútsnef). Eftir Þverfellinu er gengið að vestari hnjúknum en þar tekur við greinileg gönguslóð sem rétt er að fylgja. Liggur slóðin í austur utaní vestari hnjúknum og í skarðið milli hnjúkanna. Úr skarðinu er greiðfær leið upp á eystri hnjúkinn sem er hærri eða 807 metrar yfir sjávarmáli. Síðan er tilvalið að ganga á vestari hnjúkinn sem er 787 metra hár."
Klukkan 09:40 lögðum við af stað hring um Móskarðahnjúka, austast í Esjunni. Gengin vegalengd reyndist vera 8.76 kílómetrar á tæpum 3 klukkutímum (2:51). Veðrið var ekkert sérstakt. Gengum upp í þokuna í um 5-600 metra hæð og útsýni ekkert á meðan við gengum upp í skarðið á milli Móskarðahnjúkanna tveggja. Fyrst fórum við á þann eystri og hærri sem er um 807 metrar. Leiðin er afar þægileg og renndum við þetta á um klukkutíma upp á toppinn. Eftir stutt stopp og myndatöku héldum við sömu leið niður í skarðið og upp á hinn hnjúkinn sem er heldur lægri. Áfram héldum við á þriðja toppinn og að Laufskörðum. Þegar þangað var komið blöstu tindarnir við enda veðrið orðið skaplegra eins og sjá má á myndinni hérna að ofan sem tekin er frá Laufskörðum.
Í Esjuáskoruninni ágætu sem Hundraðshöfðinginn Þorvaldur Þórsson og fleiri settu inn á fésbókarhópinn Esjuvinir eru þessir toppar listaðir upp svona:
Þessa þrjá tinda + Laufaskörðin (austan megin) kláruðum við og gengum síðan niður eftir nokkuð greinilegum stíg meðfram Þverárdal og nánast beint niður að skátaskálanum Þristi sem m.a. Sverrir pabbi Hákonar kom að byggingu á en hann var byggður árið 1966 af skátafélaginu Kópum. Gönguleiðin öll er mjög greinileg og mjög skemmtileg. Það er alveg eins og þú sért á allt öðrum stað á landinu m.v. annað í Esjunni.
Ferðalög | Breytt 2.6.2020 kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2020 | 21:32
Ísland - Já takk!
Frábærir ferðafélagar ala Verslógengið skellti sér í innanlands-saumaklúbbsferð helgina 16.-17 maí 2020. Gerða smellti inn athugasemd hvort menn væru til í innanlandsferð 2. maí. Allir klárir (og í raun æstir í að fara) og þá var drifið í að leita tilboða.
Betri helmingurinn í fjórhjólaferð
Niðurstaðan var hið rómaða UMI hótel. Við keyptum pakka sem innihélt nótt á hótelinu, 3ja rétta kvöldverð og morgunmat daginn eftir. Hótelið er staðfest 150 km frá Reykjavík, svo gott sem beint fyrir neðan Þorvaldseyri með stórkostlegu útsýni yfir Eyjafjallajökul. Hótelið er í eigu fjölskyldu sem tók vel á móti okkur. Hótelið var opnað 2017 og er allt hið smekklegasta í hönnun. UMI er japanska og þýðir Haf.
Við mættum um klukkan 13:30 og spjölluðum aðeins og svo var haldið austur að Ytri Sólheimum í 2 tíma ævintýraferð á fjórhjólum. Eftir að þeir Valdi (aðalfararstjórinn) og Magnús voru búnir að kenna okkur á fjórhjólin og öryggisatriði var bara brunað af stað. Leiðin lá um móa og mela til að byrja með og eftir árfarvegi undir Þjóðveg 1 og niður á Sólheimasand.
Í grein Morgunblaðsins frá 2016 segir svo frá: "Þann 21. nóvember 1973 var bandarísk herflugvél af gerðinni Douglas C-117 á leiðinni frá Höfn í Hornafirði til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli þegar veður fór skyndilega versnandi. Flugvélin hafði verið að flytja varning til ratsjárstöðvarinnar við Stokksnes. Hitinn féll niður í 10 gráðu frost, öflugar vindhviður skullu á flugvélinni og ís fór að safnast fyrir í vél hennar. .... Þegar flugvélin kom niður fyrir skýin í 2.500 feta hæð sá Fletcher að þeir væru staddir yfir einhverjum sem liti út eins og tunglið. Þar var um að ræða Sólheimasand. Hann ákvað að gera tilraun til þess að lenda í frosinni sandfjörunni. Það tókst og stöðvaðist vélin að lokum um sex metra frá sjónum. Flugvélin var illa farin eftir lendinguna en allir voru á lífi. Þægilegasta lending sem ég hef tekið þátt í, sagði Howard Rowley síðar en hann var í áhöfninni." Síðar komu fulltrúar bandaríska hersins og hirtu allt sem hægt var að hirða úr flugvélaflakinu og skildu síðan það sem eftir stóð eftir á Sólheimasandi þar sem það hefur verið síðan.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar