18.7.2024 | 14:59
Höfuðlaus her í Veiðivötnum 2024
Stemmingsmynd úr Veiðivötnum
Atli Þórður var búin að vera spenntur fyrir Veiðivötnum eiginlega frá því að hann kom heim í fyrra úr vötnunum. Eftir því sem nær dró magnaðist spennan en um leið áhyggjurnar um það hverjir hreinlega væru að fara að þessu sinni. Niðurstaðan varð sú á endanum að við 4 ég og Atli og síðan Eyþór og Elli vorum 4 í stóra skálanum í Bjalla svo sannarlega höfuðlaus her því vegna veikinda Helgu aðgerðarformanns þá kom Gerða ekki (líklega í fyrsta sinn síðan ég veit ekki hvenær) og að sjálfsögðu ekki Siggi heldur. En við fengum nú samt heimsókn á sunnudeginum þegar Tómas Bjarki brunaði á Yarisnum alla leið inn að fyrri kvíslinni með Helgu Katrínu sér við hlið og kærustuna Bryndísi (að koma í fyrsta sinn í vötnin) ásamt systrunum Þórey Maríu og Helgu Sigríði í aftursætinu.
Gerða náði nú samt sem áður að undirbúa okkur að mestu, hún var bæði búin að græja makrílinn sem og fór hún og keypti inn fyrir okkur. En brottför var nærri klukkutíma síðar en venjulega eða upp úr klukkan 10 enda höfðum við mælt okkur mót við Elías um klukkan 12 við Skarðskirkju. Við reyndar brunuðum framúr honum á Suðurlandsveginum skammt hjá Bláfjallaafleggjaranum án þess að átta okkur á því enda kappinn á spánýjum Hyundai Santa fe. Þegar við komum að Hellisheiðarvirkjun fór heldur betur að dimma yfir og rigningin að magnast og fór svo að við keyrðum við heiðina á 40-50 km hraða framan af enda skyggnið nær ekkert. Langt síðan ég hef keyrt heiðina svona dimma.
Land Roverinn rúllaði samt sem áður á rafmagninu mest alla leiðina á Selfoss en til öryggis ákváðum við að taka bensín þar og viti menn 1,4 lítrar bættust við! Ella hittum við síðan í kirkjugarðinum þar sem við minntumst þeirra öndvegishjóna Árna og Þorgerðar sem og foreldra Ella. Þar sem súldin ágerðist ákváðum við að borða bara á bílastæðinu í stað þess að þræla okkur út í Fossbrekkum. Þegar við ókum framhjá Fossbrekkum var reyndar veðrið hið besta en hvað um það áfram héldum við og vorum komin inn í Vötnin góðu tæplega 13.30. Bjalli var klár enda kellurnar á undan löngu búnar að ganga frá öllu (skv gestabókinni var þetta 3ja árið þeirra í Bjalla).
Það var fljót afgreitt að græja okkur í koju allir niðri nema ungi maðurinn sem fórnaði sér á efri hæðina enda þarf hann ekki að fara að míga eins og við hinir um miðja nótt. Þegar við vorum svo að stússast með stangirnar renndi Eyþór í hlað, en hann sótti Rynkeby hjólin okkar svilanna klukkan 10 og lagði síðan af stað upp úr 11. Við urðum síðan samferða suður í vötn og köstuðum fyrsta færin út í Litla Skálavatn klukkan 14:55 (ekkert). Klukkan 15.30 vorum við mætt í Ónýtavatni og sá fyrsti var mættur á land um 15 mínútum síðar hjá gamla 1,2 kg eða um 2,5 pund. Flott byrjun. Þaðan héldum við í Breiðavatn þar sem við fengum sitt hvorn fiskinn við Atli. Þaðan forum við í Snjóölduna þar sem það var á í hverju kasti en smáir voru þeir svo við héldum fljótlega okkar leið.
Í matinn fórum við um kl 19:10 og þar var allt hefðbundið. Kalt hangikjöt sem ég hafði eytt hálfum föstudeginum í að sjóða ásamt því að útbúa uppstúf sem við síðan hituðum upp og snæddum ásamt kartöflusalati og rúgbrauði frá Ella. Virkilega vel heppnað eins og venjulega. Eftir matinn héldum við á Síldarplanið í Stóra Fossvatni þar sem Atli setti í einn. Þaðan fórum við í Litla sjó en urðum ekki varir. Á heimleiðinni kíktum við Atli í Stóra Skálavatn en urðum ekki varir og vorum komin í hús á milli 23 og 23.30. Frekar lélegar heimtur á kvöldvaktinni ætli fiskurinn finni hangikjötslyktina af okkur eða hvað?
En oftar en ekki var himbriminn góði mættur á þau vötn sem við vorum að veiða í og jafnan þegar kappinn mætir þá hverfur öll veiði eins og dögg fyrir sólu. Eftirfarandi mynd og texta má finna um fuglinn, sem kallaður er The Great Diver á ensku (Gavia Immer á latnesku fræðimáli), í Bænadablaðinu 12 tbl. 2024 eins og sjá má hér.
Stór og fallegur er hann
Klukkan hringdi klukkan 06:50 (ekkert stress núna þegar móðir var ekki með í för) - löguðum kaffi og mættir á Langavatnsbakkann kl 07:15 í sannkallaðri rjómablíðu. Þið hringið í mig kannski um tíuleitið og segið mér hvar þið eruð, sagði Elías í svefnrofanum. Í Langavatni var á í svona öðru hverju kasti en þar sem þeir voru frekar smáir stoppuðum við ekki lengi þar. Héldum í Stóra Skálvatn (botninn) ekkert. Í Litla Skálavatn (ekkert), þaðan í Arnarpollinn fyrir Gerðu (ekkert) en í Ónýtavatni kom einn á land sem var vel. Þegar nálgaðist hádegi kom hringing krakkarnir voru mættir norður fyrir Vatnsfell og voru bara á leiðinni og við Eyþór sóttum þau yfir kvíslarnar. Eftir smástopp í húsi, lögðum við af stað á Síldarplanið þar sem eitthvað fiskaðist. Þaðan fórum við svo í Snjóölduna þar sem Tómas kastaði fram Maður hefur nú gert þetta áður um leið og hann setti í einn! Allir komust á blað líka gestirnir sem héldu síðan heim á leið enda átti að sýna Bryndísi helstu sögustaði í kringum Tjaldvatn sem ættmóðirin jafnan fór með barnabörnin hér á árum áður.
Matur var í kringum 19 og sá Þórey María um að hita pylsurnar en það var aðeins bras á öllum þar sem það lak úr framdekkinu hjá Eyþóri og á tímabili ætlaði hann bara að fara heim en svo fann hann gatið, var með naglasett og fékk aðstoð hjá veiðivörðum með að dúndra þessu í og eftir það var bíllinn bara eins og nýr og hann ákvað því að vera fram á morgun, sem var líka eins gott eins og síðar kom í ljós. Elli var nú ekki sáttur við mig að hafa gleymt rúgbrauðinu og kartöflusalatinu og spurði hreint út hvort ég væri nú ekki með heila! Hann hefði nú alveg sjálfur getað passað upp á að servera þetta enda var þetta í hans boxi! Eftir matinn skutluðum við krökkunum yfir kvíslarnar og troðfullur Yarisinn komst á leiðarenda á endanum sem var vel. En Bryndís hafði á orði að hún myndi nú bara fá Land Cruiserinn lánaðan næst þegar þau kæmu inn í vötn.
Helga og Bryndís í góðu yfirlæti í stólunum
Við Atli og Eyþór skelltum okkur á Síldarplanið og síðan Grænavatn eftir að hafa skutlað kökkunum á meðan Elli fór í sína árlegu heimsókn til Bryndísar og Rúnars. Kvöldinu lauk síðan í Ónýtavatni í rjómablíðu, stafa logni og 13-14 stiga hita. En ekkert gerðist, Atli prófaði fluguna en sama þar. Um klukkan 22 koma Rúnar til okkar, þar sem 3 stangir voru úti og allar á letingja. Strákar, þetta er vinna, þið vitið það, sagði Rúnar nokkuð sposkur og tók Gerða sko undir það með honum. En allt kom fyrir ekki enginn fiskur kom á land, ekki heldur hjá Atla sem að sjálfsögðu fór bæði í Litla og Stóra Skálavatn á heimleiðinni eftir að hafa orðið einn eftir þegar við Eyþór fórum heim. Þegar hann gerði að fisknum um kvöldið sagði honum maður að hann hefði fengið nokkra beint á móti hefðbundna staðnum í Litla Skálavatni og því upplagt að prófa það. Þegar hann kom heim upp úr miðnætti, voru allir þrír ferðafélagarnir steinsofnaðir.
Þeir þurfa nú ekki alltaf að vera kokgleyptir!
Ræs var klukkan 06:58 á mánudagsmorgun og þá var blíðan skollin á fyrir alvöru. 14 stig og flugan í algleymi strax upp úr 07. Við héldum beint í Skálavötnin, fyrst í það Stóra (ekkert) og síðan í það Litla þar sem við urðum strax varir en síðan dreif Atli sig yfir og náði þremur auk þess sem ég missti einn hreinlega í fjöruborðinu. Um klukkan 10 drifum við okkur heim í hús, tókum saman og þrifum á mettíma, svo Elli þyrfti ekki að bíða. Hnökralaus þrif, að okkar mati og um klukkan 10.30 lá leiðin í Breiðavatn en illu heilli þá var bara uppselt þar hreinlega svo við héldum í Ónýtavatn og negldum í 7 stk (þar á meðal þann stærsta í ferðinni 3,7 punda kvikindi) á rúmum 1 og hálfum tíma, meira og minna allt á letingja. Hver segir svo að letingjar virki ekki. Hitinn klukkan 11:50 var komin í 21 gráðu en vindur var nokkur svo engin var flugan. Þetta var svona Tene veður heitur vindur. Geggjaður endir á flottri ferð. Með hverjum fiskinum framlengdist dvölin og fór það svo að um klukkan 14 þá sleit Atli og þá sögðum við hingað og ekki lengra og héldum heim. Gerðum að og græjuðum veiðiskýrslur, skiptum um föt ofl. Og lögðum svo af stað í bæinn rétt fyrir klukkan 15.
Með 3,6p urriða úr Ónýtavatni
4 góðir (við Litla-Skálavatn)
Sjónarspil í Litla-Skálavatni
Fegurð við Stóra-Skálavatn
Þegar við feðgar brunuðum eftir söndunum áleiðis að Veiðivötnum tók ég eftir skilti á vinstri hönd og stikaða gönguleið upp á Vatnsfell og þá væntanlega með útsýni yfir Þórisvatn.
Á Vatnsfelli og Þórisvatn í baksýn
Ég náttúrlega iðaði í skinninu að prófa þetta og samdi við svila og Atla um að stoppa á heimleiðinni sem við og gerðum. Það var alveg geggjað veður, mælirinn í bílnum sagði 21 gráða, heiðskýrt en nokkur vindur sem var bara eins og á Tene, heitur.
Þegar við komum að skiltinu sáum við að leiðin í heild sinni er um 8km. Það var of langt fyrir okkur svo við ákváðum bara að kíkja aðeins upp. Leiðin upp var nokkuð brött og eftir eina hæðina blasti sú næsta við og sú næsta. En lokskomum við eftir um 800 metra göngu að sléttu þar sem við sáum vel yfir. En þetta var virkilega skemmtileg ferð og ég á örugglega eftir að fara alla 8km fljótlega.
Hrós á Umhverfisstofnun fyrir að stika þetta sem og leið á Þóristind sem ég hef líka lengið ætlað mér að ganga á. Það verður bara síðar. Það vakti hins vegar athygli okkar þegar við keyrðum yfir brekkuna framhjá Vatnsfellsvirkjun að lónið við virkjunina var alveg tómt man ekki eftir því að hafa séð það áður svoleiðis.
Niðurstaðan 2024
Heim vorum við komnir rétt rúmlega 18 með smá stoppi fyrir móður á Selfossi sem og í Pylsuvagninum þar sem við skelltum okkur á eina djúpsteikta með frönskum!
Pistillinn er skrifaður eftir minni mínu og það þarf ekkert endilega að endurspegla upplifun annara á ferðinni. Kannski gleymdi ég einhverju en það verður þá bara svo að vera. Hafið viljan fyrir verkið.
Hérna eru síðan samskonar lýsingar frá 2020
2020: https://jonjohann.blog.is/blog/jonjohann/entry/2252587
2021: https://jonjohann.blog.is/blog/jonjohann/entry/2267228
2022: https://jonjohann.blog.is/blog/jonjohann/entry/2280638
2023: https://jonjohann.blog.is/blog/jonjohann/entry/2292241
Viðbót 06.08.2024
Hjóna-Dagsferð í Veiðivötn
Ferðalög | Breytt 9.8.2024 kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 18. júlí 2024
Um bloggið
JónJóhannBloggar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar