Gosið í Geldingadal

Sunnudaginn 21. mars ákváðum við hjónin að áeggjan Rósu að ganga að gosinu í Geldingadal. Gosið hófst um klukkan 21.30 föstudaginn 19 mars. Rósa sendi á Gerðu að í stað þess að fara á Esjuna á sunnudagsmorgun þá myndum við storma að gosinu eftir vinnu hjá Hákoni.

Lagt var af stað upp úr klukkan 12 á hádegi á 2 bílum og með í för voru Magga Lukka og strákarnir 3 úr Flesjukórnum þeir Steinar, Óskar og Sverrir. Eftir smá pælingar varðandi leiðarval var ákveðið að ganga heiman frá æskuheimili Rósu við, íbúðarhúsið Hof 2 við Þórkötlustaðaveg, eftir Suðurstrandarvegi og að gosstöðvunum. Leiðin hófst klukkan 13:15 og var töluverð spenna í mannskapnum.

 

Eldgos1

Magga Lukka, Hákon, Jón, Óskar, Steinar, Sverrir, Gerða, Rósa

Fyrsta kílómetrann þræddum við hverfið austan við Grindavík, kallað Þórkötlustaðahverfið, inná Suðustrandarveg, framhjá eyðibænum Hrauni (þar sem lokunin á Suðurstrandarvegi er). Það var lá leiðin næstu 5 kílómetrana eftir malbikinu á Suðurstrandarvegi. Vindur var í bakið og sóttist okkur leiðin vel upp brekkuna framhjá Festarfjalli. Þaðan var farið niður töluverða lækkun hinu megin og beygt út af veginum og inn á Borgarhraunið við Nátthagakrika. Við stórhól, innst í krikanum var beygt upp nokkuð brattar moldarbrekkur og upp á Fagradalsfjall. Eftir stutt labb á brún Fagradalsfjalls blasti dýrðin við þegar horft var ofan í Geldingadal.

eldgos2

Rósa að mynda okkur hjónin efst í Geldingadal

Þegar þangað var komið vorum við búin að vera um 1:40 mínútur á ferðinni og ganga tæpa 7 kílómetra. Heildarvegalengdin að gosstöðvunum sjálfum er síðan tæpir 9 kílómetrar. Það er sannarlega orð að sönnu að sjón er sögu ríkari. Það er ótrúlegt að vera í svona miklu návígi við náttúruöflin, finna hitann frá hrauninu og horfa á hraunið vella upp úr gígnum og hlusta á drunurnar.  Við stoppuðum í brekkunni í hlíðum Borgarfjalls og horfðum yfir gosstöðvarnar og minnti þetta svolítið á að sitja í Herjólfsdalnum, vantaði bara Ingó með gítarinn! Við sátum og borðuðum nestið og fylgdumst með öllu sem fyrir augu og eyru bar.

Mjög mikið var af útlendingum á svæðinu, giskuðum á að það væri svona 60/40 útlendingum í vil. Síðan var stöðugur ómur af þyrlufluginu og drónunum allt í kring. Flestir virkuðu nú bara í góðu standi þegar þarna var komið. Eftir um klukkutíma dvöl á svæðinu var stormað til baka, að mestu á móti vindi. Þeir fyrstu voru komnir að bílum um klukkan 17:40 og tók heildarferðin 4 tíma og 19 mínútur og gengnir voru 18,3 km með 295 metra hækkun.

 

eldgos_ganga1


Ársuppgjör 2020

Það var margt brallað árið 2020 þrátt fyrir að kóvíd krísan takamarkaði ferðalög. En við hjónin náðum nú samt að fara í tvær hlaupaferðir og fjölmargar gönguferðir á árinu. Mest af þessum ferðum eru skráðar í gegnum úrið góða (Garmin forerunner) en þó ekki allar. En  heildar niðurstaðan fyrir árið 2020 lítur svona út.

 

Hreyfing2020

 

Myndin segir til um heildarvegalegndir í kílómetrum á mánuði árið 2020. Að meðaltali ferðaðist ég fyrir eigin orku að meðaltali 436 kílómetra á ári. Langmest eða 316 km var á hjóli, 74 km hlaupandi og 46 km í fjallgöngu eða lengri gönguferðum.

60 ferðir voru farnir á Esjuna á árinu. Þá gengum við Gerða með göngufélögum okkar áleiðis á Hengilinn í apríl sem og 25 km leið frá Sleggjubeinsskarði að Úlfljótsvatni. Í maí fórum við Selvogsgötuna frá Grindaskörðum að Strandarkirkju. Í júní voru það Móskarðahnjúkar í Esju og Reykjadalurinn. Í júlí fórum við Fimmvörðuháls fram og til baka ásamt því að við Atli Þórður fórum í feðgaferð frá Móskarðahnjúkum, yfir Svínaskarð um kjós og Hvalfjörð, yfir Síldarmannagötur og enduðum við Skorradalsvatn. Rúmlega 40 km á 2 dögum með gistingu í tjaldi. Í október fórum við síðan Leggjarbrjót sem allt í allt er um 17 km. Í desember gengum við GSM og Anton hina svokölluðu vitagöngu frá Skarfavita í Sundahöfn að Gróttuvita alls um 20 km leiða meðfram strandlengju Reykjavíkur.

Í hlaupum ber helst að nefna 2 hlaup norður í landi. Það fyrra kallast Þorvaldsdalsskokkið og er rúmir 23 km eftir kindagötum í gegnum Þorvaldsdal. Seinna langa hlaupið var síðan hið 17 km langa Fjögurra skóga hlaup í Fnjóskadal. 

 

 


Vitagangan á aðventu 2020

Þar sem ekki var hægt að fara í hina árlegu aðventuferð okkar félaganna GSM og Antons ákvað GSM með aðstoð GSM Events að bjóða upp á 5 stjörnu ferð á milli helstu vita höfuðborgarsvæðsins.

Lagt var af stað frá söluskúr Viðeyjarferjunnar við Skarfabryggju í Sundahöfn. Þar var fyrsti vitinn í göngunni. Á heimasíðu Faxaflóahafna segir í frétt 12. september 2013: 

"Nýr viti hefur verið reistur á endanum á Skarfagarði í Sundahöfn.  Skarfagarður og aðliggjandi svæði hefur verið að taka breytingum m.a. með opnun á aðgengis að sandströnd við Skarfaklett. Þá verður gönguleið fram á enda Skarfagarðs malbikuð á næstu dögum.

Nýi vitinn er smíðaður af járnsmiðum Faxaflóahafna sf eftir sömu teikningu og innsiglingavitarnir, sem eru í Gömlu höfninni og hafa verið frá opnun þeirrar hafnar.  Vitarnir í Gömlu höfninni voru reyndar endurnýjaðir árið 1993, en þeir voru einnig smíðaðir af járnsmiðum fyrirtækisins."

Skarfaklettur sem vitinn og svæðið allt er kennt við var sker á Viðeyjarsundi, um 400 metra norðvestan við Köllunarklett (sem gnæfir yfir Sundahöfn rétt við Klepp). Vegna landfyllinga við Sundahöfn er kletturinn núna landfastur.

20201217_154947

Við upphaf ferðar við fyrsta vitann

Eftir stopp við Vitann þar sem skálað var í jólabjór Svilabrugghússins Köldukinnar, hinum magnaða Jólareyk Ölvisholts klón var haldið meðfram sjónum yfir að Laugarnesi og áfram að vita númer 2 beint á móti Höfða. Þar tók á móti okkur Guðmundur Pálsson framkvæmdastjóri Pipars og færði okkur Tuborg jólabjór í flösku. Tekið var lagið, Brennið þið vitar, og ljóst að það var ekkert endilega til útflutnings. 

Þann 21. júní 2019 var þessi nýi viti við Sæbrautina tekin í notkun. Ekki hefur verið reistur nýr viti á Íslandi í yfir 30 ár. Vitinn við Sæbrautina er sagður mikilvægt öryggistæki fyrir sjófarendur en er einnig útsýnispallur og áningarstaður á gönguleið meðfram Sæbrautinni.

Vitinn leysir af innsiglingarvitann sem verið hefur í turni Sjómannaskólans frá árinu 1945. Hann þjónaði hlutverki sínu þar til háhýsin við Borgartún og Hátún fóru að skyggja á geisla vitans. Innsiglingarvitarnir frá 1913-1917 í Gömlu höfninni voru notaðir sem fyrirmynd við hönnun Yrki Arkitekta á vitanum við Sæbraut.

20201217_161947

Guðmundur Páls mætti með söngvatn fyrir okkur

Áfram var haldið, enda bíða náttúruöflin flóð og fjara ekki eftir okkur, og halda verður vel á spöðunum eigi áætlunin að haldast. Næst var gengið að innsiglingarvitunum við Gömlu höfnina. Fyrst að þeim græna fyrir aftan Hörpuna og síðan sá rauði á bakvið Brim við Norðurgarð. Á leið okkar í gegnum miðbæinn blöstu barirnir við og þá spurði Anton hvort við ættum ekki að stoppa og fá okkur snaps. GSM brást hratt við og sagði, rólegur félagi, allt hefur sinn tíma! Enda voru það orð að sönnu, eftir heimsóknina út norðurgarðinn og að 4 vitanum, komum við norðan við Brim og mættum þar "catering-bílnum" fullum af veitingum. Þar var á ferðinni Hrund dóttir GSM með Jólabjór, jólaákavíti og volgar tartalettur með hangikjöti. Alveg magnað!

20201217_165310

Við vitana við gömlu höfnina - sá græni í baksýn

20201217_173248

Við græna vitann á Norðurgarði - miðbærinn í baksýn

 

20201217_174304

Bjór, ákavíti og tartalettur við Brim

Áfram var haldið inn á milli húsanna úti á Örfirisey þar sem GSM sagði sögur. Þegar leiðin tók að sveigja í átt að Seltjarnarnesinu fór vindurinn og myrkrið að færast í aukana. En áfram var haldið og þegar nálgast tók Gróttuvita var ljóst að við höfðum orðið að lúta í lægra haldi fyrir náttúruöflunum, ekki var fært á þurrum fótum lengur út í Gróttu.

Næsta stopp átti að vera við heita fótabaðspottinn neðan við hákarlaskúrinn. Fótbaðspotturinn er hugarfóstur og hönnun Ólafar Nordal, þeirrar sömu og skapaði Þúfuna hið magnaða listaverk við Norðurgarð. Í stað þess að á í rokinu við hákarlaskúrinn sátum við í skjólinu við borholu SN12. Þangað mætti "catering-bíllinn" með nýjar veitingar. Núna voru 3 gerðir af snittum á boðstólunum ásamt hákarli (sem reyndar bara Anton fékk sér af), jólabjór og meira snafs - sem einhverjir fengu sér af. 

20201217_190044

Hákarlaskúrinn er fallegur í myrkrinu

Áfram gengum við niður í fjöruna þar sem við sáum glitta í Gróttuvita í fjarska. Hér sagði GSM okkur söguna af Alberti síðasta vitaverðinum í Gróttu. Þegar í fjöruna var komið sáum við mann paufast með lugt í fjörunni og varð okkur ekki um sel og varð að orði að hér væri kominn Albert vitavörður! Ekki var það nú alveg heldur Hlynur sonur GSM klæddur upp í sjógalla, með sjóhatt og forláta lugt. Allt lagt í þessa 5 stjörnu ferð.

Um Gróttuvita segir á vefsíðunni Sjóminjar Íslands

Fyrst var byggður viti í Gróttu árið 1897 að fyrirsögn starfsmanna dönsku vitastofnunarinnar. Núverandi viti var reistur hálfri öld síðar, árið 1947, sívalur kónískur turn úr steinsteypu með ensku ljóshúsi, 24 m að hæð, hannaður af Axel Sveinssyni verkfræðingi. Vitavörður var búsettur í Gróttu frá 1897 til 1970. Vitaverðirnir voru aðeins tveir, Þorvarður Einarsson og Albert sonur hans.

hlynur

Hlynur í fullum skrúða!

Eftir þessa uppákomu gengum við eftir gamla veginum að Nesstofu við Seltjörn sem byggð var á árunum 1761-1767 sem embættisbústaður landlæknis og eitt af elstu steinhúsum landsins. Eftir að hafa kíkt á læknisjurtagarðinn drifum við okkur á Nesbalann. Þar var tekið á móti okkur með kostum og kynjum. Fyrst fórum við í pottinn og síðan bauð Hlynur upp á purusteik með öllu tilheyrandi. Frábær ferð með GSM Event. Megi slíkar ferðir verða fleiri!

Vitar2020

Hér má sjá leiðina sem gengin var á rúmum 4 tímum.

 

 

 


Leggjarbrjótur lagður

Eiginkonan sagði við mig á laugardaginn 3. október að við í samfloti með Hákon og Rósu stefndum á göngu um helgina ef veður leyfði. Þegar síðan sunnudagurinn rann upp var hvorki veðrið né veðurspáin neitt sérstök. En ... það var hægviðri og við ákváðum að láta slag standa. "Hvenær förum við, spurði ég." "Eftir kortér, sagði Gerða, eða mögulega 20 mínútur! Þessi tími eða rétt rúmlega það dugði til að sjóða egg í salat, sjóða vatn í kakó, kaupa bensín og batterí. Við komum til til þeirra skötuhjúa, Rósu og Hákons um klukkan 10.30 og gangan hófst við Svartagil á Þingvöllum um klukkan 11.30. En Helga Katrín tók bílinn  heim. 

Leggjarbrjótur var búin að vera á stefnuskránni í sumar en ekki hafði gefist tími til þegar vel viðraði. 75% göngumanna höfðu gengið þetta áður. Ég fyrir um 20 árum með Helgu tengdamóður og Ferðafélaginu og þau Hákon, Rósa og fjölskylda höfðu gengið þetta fyrir nokkrum árum. 

leggjar2

Við upphaf ferðarinnar - 1 eða 2 metra regla - hvað er það?

Í bók sinni 1. Suðvesturhornið segir Einar Þ. Guðjohnsen um Leggjarbrjót: "Gömul leið er úr Botnsdal um Leggjarbrjót til Svartagils. Gangan hefst hjá Stórabotni og er farið yfir Botnsá á göngubrú fyrir neðan túnið. Síðan liggur leiðin í átt að Hvalskarði og sveigir svo til suðurs á ofanverðan Sandhrygg. Þegar komið er í 400 metra hæð er haldið áfram suður með Sandvatnshlíðum og síðna með Sandvatni að austan. Skammt sunnan við Sandvatn er farið yfir smáhrygg og sunnan hans komið niður að Súluá, sem kemur ofan úr Súlnadal. Þetta er hinn eiginlegi Leggjarbrjótur og vestan hans er Myrkavatn, sem Öxará kemur úr. Öxará er síðan fylgt niður að súlnagili og Orrustuhóli, og er þá stutt í Svartagil. Öll leiðin er um 15 km lögn og má áætla 5-6 tíma í gönguna með því að ganga rólega og hvíla sig oft."

leggjar3

Horft í átt að Öxarárdal með Búrfell (782 mys) til vinstri

Við gengum frá Svartagili og í Botnsdal og var virkilega fínt ganga. Í minningunni vorum við tengdamamma heillengi og þurftum síðan að bíða slatta í lokin eftir því að hópurinn safnaðist saman. Gangan hófst á því að við þurftum að stikla yfir læki. Síðan var haldið upp brekkurnar eftir vegarslóða sem þarna lá. Hækkunin var í sjálfu sér ekki mikil en eftir því sem ofar dró jókst útsýnið til vesturs yfir Þingvallavatnið. Við gengum fram hjá Orrustuhóli og Fossabrekkum og upp í Öxarárdal hvar við fylgdum Öxará fram að ármótum hennar og Súludalsá. Það hlýtur að vera magnað að ganga Öxarárdalinn í betra veðri með Búrfellið á vinstri hönd og Syðstu Súlu á þá hægri gnæfandi yfir. Búrfellið hlýtur að vera markmið okkar við tækifæri - kannski gæti það verið markmið að ganga á öll 39 Búrfellin/fjöllin á landinu. Sigurður Sigurðarson segir skemmtilega frá hvers vegna 39 fjöll á landinu heita Búrfell hér.

Skömmu eftir að við komum að hinum eiginlega Öxarárdal sáum við fólk á undan okkur og einsettum við okkur að ná þeim sem tókst nokkrum kílómetrum síðar þegar framhjá Sandvatni var komið. Markmiðinu náð sögðu stelpurnar hinar ánægðustu. Yfir Súludalsánna þurfti að stikla og hófst þar hinn eiginlegi Leggjarbrjótur, frekar gróf leið á kafla, og til móts við Súludal náðum við hæstu hæðum í þessari ferð rúmlega 450 metra hæð.

leggjar4

Stiklað yfir Súludalsá - þarna komu göngustafirnir að góðum notum

Þarna fór að halla undan fæti. All nokkur lækkun niður að Sandvatni en smávegis upp aftur áður en við steyptum okkur niður Hvalskarðið og fylgdum slóða sem lá þar niður. Leiðin lá meðfram Hvalskarðsánni sem steyptist í fallegum fossum í gljúfri innst í dalnum. Þegar þangað var komið liggur vegurinn í gegnum all nokkra skógrækt og gríðarmikið berjaland. Hákon tilkynnti að hann myndi koma hér eftir 11 mánuði og týna ber. Fannst það bara sóun að þau hefðu ekki verið týnd en það var ástæða fyrir því!

leggjar6

Skýringin á öllum berjunum komin

 

En allt í allt tók þessi ganga okkur rétt rúma 4 klukkutíma án þess nokkurn tímann að flýta okkur að nokkru marki en við héldum vel áfram. Stoppuðum samt og fengum okkur nesti. Veðrið var virkilega gott mest alla leiðin. Það var rétt í lokin að það fór aðeins að rigna. Síðan var það bara eins og eftir pöntun að þegar við stigum inn á bílaplanið þá renndi Sverrir í hlað. Fullkomin tímasetning.

 

leggjar5

Hákon undir regnboganum með Vestursúlu (1086mys) í baksýn

 

Hér fyrir neðan má sjá helstu tölulegu upplýsingar fyrir ferðina

leggjar1

 

 


Egilsstaðir 2020 - Túristar í eigin landi

egs1

Hópurinn með gestgjöfunum í hinu magnaða Stuðlagljúfri

Við hjónin ásamt ferðafélögunum Hrund og Inga og Dodda og Lenu brenndum austur á Egilsstaði til að heimsækja Kára Val og hans konu Valdísi. Ferðina bara skjótt að þannig og smellpassaði á milli Fimmvörðuhálsferðarinnar og Veiðivatnaferðar fjölskyldunnar og þá rétt nýkominn frá Akureyri. En sagði Tómas Bjarki við mömmu sína: "Ætlar þú ekkert í frí?" Honum fannst svona ferðalög ekkert sérstakt frí.

Ferðin var tekin rólega. Lagt af stað um klukkan 14 á fimmtudegi. Keyrt á Selfoss til að skoða í búðir! Á endanum var ákveðið að hópurinn skildi hittast í Reynisfjöru. Virkilega gaman að koma þangað enda orðin margfrægur staður úr fjölmiðlum. Það var haldið áfram að egs reynis2Kirkjubæjarklaustri þar sem við fengum okkur að borða á Systrakaffi. Staðurinn var þéttsetinn og Hrund og Gerða þurftu að bíta í tunguna á sér til að fara ekki að skipta sér af því hvernig fólki væri raðað til borðs! Guð hjálpi þjónunum ef Berglind hefði verið með í för! En maturinn var fínn og gott að setjast niður. 

Eftir þetta var brunað í náttstað, Hof í Öræfum. Þar nýttu allir sér ferðagjöfina ágætu. Við ætluðum að kaupa okkur morgunmat en hættum við þegar við fréttum að komið væri með poka með morgunmatnum að herbergjum okkar! Vöknuðum klukkan 09 og vorum lögð af stað um klukkan 10 eftir að hafa fengið okkur smá morgunmat í formi orkudrykkja og ostasalats sem Lena hafði keypt í bakaríi daginn áður.

Við Stoppuðum í Jökulsárlóni og tókum myndir og brunuðum svo í Höfn. Það var magnað að keyra undir jöklinum í brakandi blíðu. Ég tók því fullrólega á köflum (þrátt fyrir að vera á rúmlega 100 km hraða), svo rólega að Hrund spurði í bílnum hjá Dodda hvort ég væri að drepast! Og þau brunuðu framúr en voru svo sem ekki nema nokkrum mínútum á undan okkur þegar upp er staðið.  Á Höfn keyrðum við um á meðan við biðum eftir að veitingahúsið Pakkhúsið opnaði klukkan 12. Á slaginu var opnað og fólk streymdi inn en afgreiðslan var ein sú hraðasta og 12.25 var maturinn kominn á borð og við lögð af stað klukkan 12.40. En þar fékk Gerða sér humarloku sem er besti maturinn sem hún hefur fengið lengi.

Eftir Höfn var stefnt á Djúpavog þar sem við skoðuðum listaverkið Eggin í Gleðivík eftir Sigurð Guðmundsson. Hér má sjá smá samantekt um Eggin. Virkilega skemmtilegt þarna. Við ákváðum að sleppa Öxi og taka firðina. Stoppuðum í Steinasafni Petru á Stöðvarfirði. Mjög skemmtilegt safn, ekki síst upplýsingaskiltin um þessa mögnuðu konu. Þá var haldið í gegnum nýju Fáskrúðsfjarðargöngin og yfir í Reyðarfjörð og þaðan um Fagradal til Egilsstaða að Valaskjálf þar sem við gistum næstu 2 nætur. 

egs egg2

Við eggin góðu á Djúpavogi

Á Egilsstöðum pöntuðum við borð á Pizzastaðnum Aski og hittum Kára og fjölskyldu. Þegar borðið var pantað var okkur sagt að það gæti tekið tíma að fá pöntunina okkar. Við drifum okkur samt að panta en biðum engu að síður í rúman klukkutíma eftir pizzunum! En besta var nú samt þegar þjóninn kom til okkar varðandi rauðvínið sem við höfðum pantað. Því miður þá eru ekki til nema 5 rauðvínsglös! Tveir þurftu því að fá vatnsglös til að drekka rauðvínið úr! En pizzurnar voru góðar og rauðvínið líka. 

egs2

Vorum alveg ein í gilinu langa stund

Á laugardeginum vara dagurinn tekinn snemma og haldið beint í Stuðlagil. Við lögðum bænum við bæinn Klaustursel og gengum eftir sveitavegi um 5 kílómetra að gljúfrinu og það var sko ganga sem var vel þess virði. Algjörlega magnaður staður að heimsækja og hreint ótrúlega gaman að vera þarna í blíðunni ofan í gljúfrinu. Tímasetning okkar var líka nánast fullkomin þar sem við vorum ein um tíma á svæðinu og gátum myndað allt í bak og fyrir. Kári tók léttan sundsprett í Jökulánni og leið vel á eftir. Eftir Stuðlagilið héldum við áfram upp á hálendið og að Hafrahvammagljúfrum. Þar borðuðum við nesti og gengum niður í gljúfrið sjálft. Eftir það héldum við tiltölulega stutta leið að Kárahnjúkavirkjun þar sem stelpurnar skáluðu í freyðivíni. Síðan var brunað til baka eftir nýja fína veginum sem Landsvirkjun lagði upp að Kárahnjúkum. Vestari leiðin tekin og beint í Vök baths í Urriðavatni. Vök baths eru alveg geggjaður staður og við tókum líka smá sundsprett í Urriðavatninu sjálfu sem var virkilega gaman. Um kvöldið fórum við svo í flotta grillveislu hjá Kára og Valdísi. Virkilega skemmtilegt að koma til þeirra. 

egs gljufur tvo

Stuðlagil er alveg magnað

 

egs6

Gerða var alveg uppveðruð af Vök baths í Urriðavatni

Við Gerða kvöddum síðan ferðafélagana á sunnudagsmorguninn og brunuðum í bæinn klukkan 09 um morguninn. Við keyrðum þetta svo gott sem í einum rykk nema við stoppuðum í góðan hálftíma á Klaustri og fengum okkur borgara. Við komum heim rétt rúmlega 17 eftir að hafa keyrt á 10km hraða síðustu 2-3 kílómetrana að Rauðavatni.

Frábær ferð í alla staði. 1300 kílómetrar eknir + 250 með Kára

egs5

Á göngu niður að útsýnispallinum við Hafrahvammagljúfur

 

 

 

 


Veiðvötn 2020

20200713 165838

Eftir langa og stranga ferð frá Egilsstöðum var pakkað í töskur fyrir Veiðivötn. Það voru heldur færri í hópnum þetta árið en oft áður. Aðeins við Gerða og strákarnir ásamt Ella. Við hittumst í Skarði (reyndar fyrst í Olís sjoppunni á Vegamótum þar sem Elli sagði - það er alveg sama hvað ég fer snemma af stað alltaf ert þú á undan sagði hann við Gerðu!) og lögðum blóm á leiði Þorgerðar og Árna sem og á leiði foreldra Ella. En vegna fráfalls Sigríðar móður Eyþórs og jarðarfarar hennar 13. júlí komu Eyþór og fjölskylda ekki í Vötnin að þessu sinni og Helga (Aðgerðarformaður) og Siggi komu ekki fyrr en um kvöldið. 

Okkur sóttist leiðin bara vel enda Tómas Bjarki að keyra frá Vegamótum og alla leið upp í Vatnsfell. Ekið var á löglegum hraða og ekkert vesen! Skipt var um ökumann í Vatnsfelli og var þá Tómas alveg búinn eftir að hafa keyrt bæði malarveg (frá Dómadalsafleggjaranum) og tiltölulega mjóan þjóðveg. En veðrið var gott og flugan í fínu formi þegar inn í Veiðivötn var komið rétt um klukkan 13. Barnabarn veiðivarðanna sótthreinsaði helstu staði í Bjalla og þangað vorum við komin 13:15. Þá var strax drifið í því að setja saman stangir og svo var bara haldið beint á bakkann sem að þessu sinni var Breiðavatn! Við köstuðum út 14:25 og fyrsti fiskurinn kominn á land 14:45 og formlegur veiðitími ekki hafinn! Hvað segir Eyþór nú?

Fram eftir degi var ágætisveiði og eftir pylsuveisluna um kvöldið var haldið á Síldarplanið í 20200713 215524Fossvatni og þaðan í Litla sjó og áfram bara nokkur veiði. Á þriðjudeginum var byrjað á Eyrinni í Langavatni og fengust þar nokkrir fiskar. Síðan var haldið í suðurvötnin, Skálavatnsgíginn, Snjóölduna, Breiðavatn, Ónefndavatn og fleiri. Áfram einhver veiði þangað til um klukkan 16 um daginn. Eftir það fékkst ekki branda og við varla urðum vör.

Ekki einu sinni bleikjan gaf sig í Snjóöldunni. Eftir hangikjötið var haldið í norður vötnin, Litlasjó og Grænavatn en áfram. Engin veiði og við varla vör. 

Á miðvikudagsmorgunn fórum við bara 3 út - Tómas með leik um kvöldið og fékk að sofa lengur og Elli var orðinn saddur og sæll með sína fiska. Við hættum um klukkan 11 eftir að hafa fengið nokkra fiska í Ónýtavatni.20200714 081219 Elli mjög glaður þegar við renndum í hlað rúmlega 11 og farin vorum við úr vötnunum góðu upp úr klukkan 12 og komin heim rúmlega 15. Fyrst við vorum svona snemma á ferðinni var hægt að skutla fiskinum beint í reyk. Vel lukkuð ferð í alla staði þótt óvenju fámenn væri.

 

 

 

 

Heildarniðurstöður voru sem hér segir:

veidivotn_yfirlit

 

 

 

 

elli

Elli í fullum skrúða!

 

tbj

Þeir voru misstórir fiskarnir!

 

himbrimi

Þessi ætlaði að vaða í Gerðu í Litla Skálavatni

 


Á fartinum í Fjögurra skóga hlaupi

 20200727 162605

Skemmtilegur verðlaunapeningur úr við úr Vaglaskógi

Þarf að æfa mikið fyrir hlaupið? "Nei ég bara bíð eftir pósti um í hvaða hlaup Rósa er búin að skrá mig og þá er ég klár," sagði Hákon þegar hann var spurður hvort hann hefði æft mikið fyrir Fjögurra skóga hlaupið 2020. Reyndar er það ekki alveg satt því Hákon fékk góða æfingu að hlaupa 24 kílómetra Þorvaldsdalsskokk 3 vikum áður við nokkuð erfiðar aðstæður. En hlaupahópur Breiðabliks skilaði 20 hlaupurum að þessu sinni í hlaupið.

4skoga_fjor

Þær voru kátar stelpurnar að hlaupi loknu!

Fjögurra skóga hlaupið hefur verið haldið frá árinu 2011 en það fer fram í suðurhluta Fnjóskadals í júlí ár hvert. Hlaupið er fjáröflunarleið fyrir björgunarsveitina Þingey og hefur lukkast afskaplega vel í gegnum tíðina. Hlaupið er í gegnum fjóra skóga: Vaglaskóg, Lundskóg, Þórðarstaðaskóg og Reykjaskóg. Náttúrufegurð er mikil á svæðinu og ekki spillir fyrir að  mikil veðursæld er í Fnjóskadal. Hér má sjá heimasíðu hlaupsins á Facebook en þar eru upplýsingar um hlaupið ásamt myndum úr hlaupinu.

Hlaupið kom nokkuð á óvart. Var frekar hratt en skemmtilegt, töluvert um brekkur á leiðinni og sagði Garmin að hækkunin hafi verið 484 metrar. Við Hannes nágranni Blöndal hlupum alla leiðina og nánast leiddumst í markið töluvert langt á eftir Hákoni sem náði 3ja sætinu í hlaupinu. 

4skoga_hjon

Við Gerða vorum bara sátt í markinu!

17,6 km hlaupið var reyndar bara þriggja skóga hlaup. Hlaupið hófst í sudda austan brúar við sumarhúsabyggðina við Illugastaði. Þaðan var hlaupið að Þórðarstaðaskógi og í gegnum hann að Lundskógi og yfir að Vaglaskógi þar sem hlaupið endaði við Bjarmavöll skammt frá Þjóðvegi 1. Leiðin var sérlega krókótt í gegnum Vaglaskóg, bæði upp og niður og í gegnum þrönga skógarstíga þar sem greinar slúttu fram og vildu grípa í hlauparana sem "geystust" framhjá.

4skoga_oll

Hlaupafélagarnir - hvað verður það næst?

 fjögurra_haalind

Háulindarbúarnir á fullum spretti. Ég full þreytulegur! (mynd af síðu hlaupsins)

 

 


Feðgar á ferð yfir þjóðleiðir

 fedgar_a_ferd1

Við upphaf ferðar í Hrafnhólum í Mosfellsdal

 

Við feðgarnir Atli Þórður og ég ræddum í vor um að fara saman í göngu. Atla langaði í fjallgöngu og að ganga aðeins meira. Ég stakk upp á að fara í göngu og gista eina nótt á leiðinni. Allt stefndi nú í að ekkert gerðist þangað til Atli segir við mig - hvað með gönguna okkar? Ég skoðaði veðurspánna á mánudagseftirmiðdegi og segi við hann: "Förum á miðvikudag. Spáin er góð, hægviðri og engin úrkoma." Hann var klár en sendi mér nú samt skeyti á þriðjudagskvöldi - erum við ekki on á morgun? Ó jú, við leggjum af stað klukkan 15, sagði ég!

Eftir frekar skamman undirbúning var lagt í hann miðvikudaginn 22. júlí. Í stuttu máli ætluðum við að ganga úr Mosfellsdal yfir í Skorradal. Við fylgdum gömlum þjóðleiðum fyrst yfir Svínaskarð úr Mosfellsdal yfir í Kjós. Þaðan yfir í Fossárdal í Hvalfirði og úr Hvalfirði yfir Síldarmannagötur í Skorradal í Borgarfirði. 

Helga Katrín keyrði okkur upp í Hrafnhóla, skammt ofan við Gljúfrastein í Mosfellsdal. Þaðan gengum við um 3 kílómetra leið að bílastæðinu við Skarðsá þar sem gengið er upp á Móskarðahnjúka. Þaðan lá leiðin um hina fornu Svínaskarðsleið yfir í Kjós. Leiðin er nokkuð brött á kafla þá sérstaklega efst í Svínadalnum og einnig mjög gróf á kafla. Fyrsta stoppið var efst í skarðinu með Móskarðahnjúka á vinstri hönd og Skálafell á hægri hönd. Þar hittum við mótorhjólakappa sem komið höfðu úr Hvalfirðinum. Í skarðinu er frábært útsýni í áttin að Mosfellsbænum sem og yfir að Vindáshlíð í Kjós. 

 20200722 180643 (1)

Atli með Sandfell (384 m) og Vindáshlíð í baksýn.

Þaðan lá leiðin að Vindáshlíð þar sem við ætluðum að fara aðra gamla þjóðleið framhjá Sandfelli og yfir Sperri- og Dauðsmannsbrekkur og niður í Fossárdal í Hvalfirði. Við gerðust djarfir og beygðum af leið þegar niður í Svínadalinn var komið og lentum í tómu bauki að komast framhjá sumarhúsabyggð við .. og þurftum að stökkva yfir á í þröngu gili. Áfram héldum við að veginum upp að Vindáshlíð. Þar var stranglega bannað að fara um vegna co-vid19 og aftur þurfum við að "stytta" okkur leið í skóg, girðingar og lúpínubreiður í allnokkrum halla. Frekar erfitt allt saman með allt á bakinu. En áfram gengum við vel merkta/gegna leið. Skammt fyrir ofan Fossárdal fundum við gististað skammt frá ánni Míganda. Þar slógum við upp tjaldi um klukkan 21 um kvöldið eftir um 6 tíma ferð með góðum stoppum. Á matseðlinum voru núðlur, flatkökur, kaffi, homeblest og snickers.

atli sildarmanna

Á Síldarmannastíg - Hvalfell og Botnsúlur í baksýn.

Við sváfum vel á nýju Costco lofdýnunum með koddanum. Veðrið um nóttina var ótrúlega gott. Nánast logn og um 10 stiga hiti í 200 metra hæð yfir sjávarmáli. Við tókum daginn tiltölulega snemma þótt litla barnið hafi fengið að sofa til klukkan 09.  Við vorum lagðir í hann klukkan 09:50 og gengum niður að þjóðvegi (um 4 km leið). Þaðan gengum við eftir malbikinu, bæði um Brynjudalsvog og síðan inn í Botn þar sem við tókum hádegismat um klukkan 13. Ég hef oft heyrt að það sé mikið af kræklingi í Hvalfirði. En við Brynjudalsvoginn voru haugar af kræklingikraeklingar eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Eftir gott stopp og smá dott í skjólsælli laut á móti sólu var haldið í hann yfir Síldarmannagötur og yfir í Skorradal þar sem Gerða sótti okkur innst í dalnum við enda vatnsins eftir um 47 km göngu! Leiðin hefst í um 35 metra hæð yfir sjávarmáli og nær hæst í 496 metra efst á Botnsheiðinni. Við Skorradalsvatn er hæðin um 103 metrar. Leiðin vel vel vörðuð og stikuð og greinilega mikið farinn. Það var bara á einum stað þar sem hægt var að villast sem við Atli gerðum að sjálfsögðu og það þótt að stúlkurnar tvær sem við mættum á miðri leið hafi sagt okkur nákvæmlega að forðast þetta. Staðurinn er þegar um 2 kílómetrar eru eftir. Það virðist liggja beinast við að fylgja línuvegi Sultartangalínu en það lengir leiðina niður í dalinn um 2 kílómetra hið minnsta. Niður brattann frá brúninni og niður að Skorradalsvatni er um 294 metra lækkun á 1800 metrum sem telst vera 16% halli!

Skorradalur

Horft niður að Skorradalsvatni - Fitjá liðast að vatninu

Lokahnykkurinn verður hins vegar eftirminnilegur. Við horfðum yfir enda Skorradalsvatn og áttuðum okkur á því að Fitjáin skyldi að lokatakmarkið okkar sem var þjóðvegurinn norðan vatnsins. Við gengum niður framhjá Vatnshorni og beint af augum niður að ánni. Þar þótt mér vatni heldur djúpt svo við fórum aðeins til hliðar (vestar) þar sem skiptist í 2 greinar. Sú fyrri náði okkur aðeins upp á leggi en sú síðari, þá sérstaklega síðustu skrefin, náðu hið minnsta upp að rassi! En auðvelt engu að síður að fara yfir þar sem áin er frekar lygn. Á hinum bakkanum þurftum við að hefa okkur upp háan grasi gróin bakka. Þaðan lá leiðin yfir 500 metra langan mýrarfláka, sem við seinna sáum að væri friðað votlendi, en við Atli strunsuðum beint yfir! 

Þegar norðanmegin var komið skiptum við um föt, kláruðum nestið og Gerða kom stuttu síðar og mikið vorum við fegnir að geta sest í bílinn og slakað á með KFC þegar heim var komið. Virkilega góð feðgaferð.

 

votlendi

Þráðbeint yfir friðað votlendi!

 

 

 


Fimmvörðuháls fram og tilbaka

Það hefur sennilega verið eftir Laugavegsgönguna sem við gengum á 2 dögum í rjómablíðu sumarið 2018 að hugmyndin kviknaði að ganga Fimmvörðuháls fram og tilbaka. Gerða var stórtæk og vildi helst ganga fram og tilbaka sama daginn en niðurstaðan varð að við myndum ganga yfir og gista í Básum á Goðalandi og ganga síðan til baka daginn eftir. 

fimm3 upphaf

Gönguhópurinn góði GÁGS (Gengið á góða spá) við Skógafoss.

Ekkert varð af ferðinni 2019 en þann 7. júlí 2020 var lagt í hann. Til að gera langa sögu stutta þá hefur veðrið á hálsinum sjaldan verið betra en þessa 2 daga sem við vorum á göngu. Fyrri daginn var algjörlega heiðskýrt og með létta golu í bakið gengum við yfir hálsinn á rúmum 7 og hálfum tíma. Lögðum af stað rétt fyrir klukkan 12 á hádegi og vorum kominn í Bása um klukkan 19:30. Eftir frábæra nótt í Básum þar sem logn og a.m.k. 13 stiga hiti var, lögðum við af stað rétt fyrir klukkan 10 að morgni og vorum komin yfir um klukkan 16:30.

Á bakaleiðinni lentum við í þoku eftir - í Bröttufönn og Fimmvörðuhálsinum sjálfum eftir það var heiðskýrt veður en nokkur gjóla á móti sem jókst heldur eftir því sem neðar dró. Allt í allt um 52 kílómetrar í göngu með allt á bakinu. Frábær ferð að baki þótt ég sjálfur hafi aðeins glímt við hælsæri og nuddsár á hásininni og gekk ég síðustu 6 kílómetrana á inniskónum! 

Leiðin yfir Fimmvörðuháls er ákaflega fjölbreytt og gaman að upplifa hvað ferðin er ólík eftir því hvor leiðin er farin. Í bók sinni Fimmvörðuháls eftir Sigurð Sigurðarson segir svo: "Svo undarlega sem það kann að hljóma er leiðin yfir Fimmvörðuháls eiginlega tvær ólíkar gönguleiðir. Annars vegar er um að ræða gönguleiðina frá Skógum í Bása og hins vegar gönguleiðina frá Básum að Skógum. Að sjálfsögðu er hér um sömu leiðina að ræða, en aðeins þeir sem hafa farið báðar leiðir, vita að þetta eru tvær ólíkar gönguleiðir. Allt önnur sýn á náttúru og umhverfi fæst þegar gengið er í gagnastæða átt. Með sömu rökum mætti telja fjórar leiðir, yfir Hálsinn að sumarlagi og yfir Hálsinn að vetrarlægi."

Eins og áður sagði lögðum við af stað í rjómablíðu um klukkan 12 að hádegi eftir að hafa brennt austur í bíl með Hákoni og Rósu. Við sátum úti og borðuðum fimm5 maturnesti á tjaldsvæðinu við Skógafoss og nutum lífsins áður en lagt var í hann. Fyrsti leggurinn er upp stáltröppurnar meðfram fossinum sjálfum. Þegar upp er komið opnast frábært útsýni upp á Skógaheiðina og leiðin liggur meðfram Skógaánni og öllum hinum ótal fossum sem sumir hverjir gefa hinum eina sanna ekkert eftir í formfegurð. Sigurður Sigurðarson segir í bók sinni um Fimmvörðuháls: "Fossarnir í Skógárgljúfri eru 23 frá Skógafossi að þeim stað sem gönguleiðin liggur yfir ána á lítilli göngubrú. .. Af 23 fossum eru níu nafnlausir að því er best er vitað." Fyrstu 5-6 kílómetrarnir erum á mjúkum moldarstígum meðfram ánni og að göngubrú yfir ánna sem. Göngubrúin er í um 700 metra hæð. Þar skiptir landið um svip.

Núna er gengið eftir veginum, grófum malarvegi næstum alla leið að Baldvinsskála, frekar tilbreytingarlaus og ekkert sérstaklega skemmtileg leið. Að skálanum eru u.þ.b. 12 km gangur frá Skógum. Þegar upp í Baldvinsskála tók á móti okkur hópur fólks sem skálaði í freyðivíni! Hópurinn sá hefur fimm2 tjoldtrúlega lagt af stað 2 tímum á undan okkur. Í skálanum hittum við geðþekka konu sem var þar skálavörður og sagði okkur aðeins frá nýja skálanum sem reistur var 2010. Sjá má sögu Baldvinsskála á myndinni hér til hliðar. Hún er þar skálavörður 6-8 vikur á hverju sumri og vill hvergi annars staðar vera. Ég bauð eiginkonunni upp á kók og var hún fljót að segja já við því!

Frá Baldvinsskála er ekki langt upp á Fimmvörðuhálsinn sjálfan sem gefur gönguleiðinni nafn. En hæst fer leiðin í um 1070 metra hæð í um kílómeters fjarlægð frá Baldvinsskála. Það var einmitt á þessum hæsta punkti sem við tókum fram úr hópnum góða sem við höfðum hitt í skálanum. Eitt parið í hópnum var langsíðast og hafði kona nokkur, sem greinilega átti orðið í töluverðum vandræðum, það á orði við mann sinn að hún myndi bara éta steikina kalda þegar niður í Þórsmörk væri komið! Á þessum kafla er gengið yfir snjóskafla meira og minna alveg að gígunum Móða og Magna. Þar breyttist leiðin og lengdist aðeins við að krækja fyrir nýja hraunið. Eftir að hafa gengið framhjá minnismerki um þrjá göngumenn sem urðu úti árið 1970 og stendur utan í Bröttufannarfellinu lá leiðin hratt niður á við. Við fórum óvart yfir Heljarkambinn með keðjunum sínum og héldum að hann væri þegar farið væri niður af Morinsheiðinni þannig að við gleymdum alveg að vera eitthvað smeik!

Að horfa yfir í Þórsmörk ofan af Bröttufönn er alveg magnað, litadýrðin og stórskorið landslagið alveg stórkostlegt. Ofan af Morinsheiðinni liggur leiöin utan í heiðarhorninu og síðan áfram yfir moldarstígum niður á Kattarhryggi og að að ég held Strákagili þar sem búið er að leggja tröppur upp mesta brattann. Það var dásamlegt að ganga þessa síðustu kílómetra niður í Bása. Í Básum gistum við í rjómablíðu í nýju tjöldunum. Um miðja nótt í einni af pissuferðinni var stafalogn og um 13 stiga hiti. 

Við vöknuðum upp úr klukkan 08 og fórum að tygja okkur fljótlega eftir morgunmatinn. Lögðum loks af stað klukkan 09:54 eins og áður sagði. Það var ekki alveg eins fallegt á að líta upp fimm1eftir fyrst í stað en smám saman vék þokan fyrir sólinni og eftir að hafa náð toppnum gengum við í rjómablíðu alla leið í Skóga. Þegar við vorum rétt komin upp síðasta snjókaflann í Bröttufannarbrekkunni ákváðu stelpurnar að pissa og við Hákon gengum upp að minnismerkinu sem áður sagði frá. Þær komu gangandi út úr þokunni og heyrðum við í þeim löngu áður en við sáum þær. Síðan héldum við áfram, framhjá Magna og Móða og áleiðis yfir fyrstu snjósléttuna. Þá fimm4 rasssegir Rósa: "Hvar er síminn minn?" og þær Gerða áttuðu sig á því að hún hafði lagt hann frá sér á jörðina þegar þær fóru að pissa. Við vorum búin að ganga um 1,5 kílómetra, ekki mikil hækkun þarna en þó einhver. Hákon skildi farangurinn eftir og hljóp til baka að tveimur dökkum blettum þar sem síminn lá óhreyfður. Eins gott að þetta reddaðist því annars væri rassamyndin góða glötuð! En áður en við náum að Baldvinsskála var Hákon búin að ná okkur á ný, ekki mikið mál hjá honum að skottast 3km aukalega! 

Gönguhópurinn Toppfarar hafa nokkrum sinnum farið yfir Fimmvörðuháls og hér má lesa skemmtilega frásögn þeirra í máli og myndum. Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi skrifaði skemmtilega og ljóðræna leið um ferð sína yfir Fimmvörðuháls sem lesa má hér.

Heildarvegalengd er aðeins á reiki en við giskum á að leiðin sé um 26 km hvora leið. Mesta hæð var um 1070 m og hækkunin var 1.376 m úr 29 m upphafshæð við Skógafoss.

 

 

 


Þorvaldsdalur skokkaður

Það hefur lengi verið á stefnuskránni að hlaupa Þorvaldsdalinn í Eyjafirði. Við hjónin ásamt Hákoni og Rósu skráðum okkur í lengsta legginn sem átti að vera u.þ.b. 25 kílómetrar. Dagsetningin 4. júlí hentaði bara vel. Leikur við KA á sunnudeginum og bæði þurfti Hákon að þorvaldsdalur3aðstoða aðeins á N1 mótinu dagana á undan sem og að mæta á fyrirhugað ættarmót á Blönduósi. Allt gekk upp og við hjónin ásamt einkadótturinni brenndum norður á fimmtudeginum í rjómablíðu sem átti eftir að haldast alla leið fram á sunnudag.

Mæting við Árskógsskóla fyrir klukkan 11 á laugardeginum. Eftir að hafa farið í smá skoðunarferð niður á Árskógssand snérum við við og komum að skólanum þar sem mætti okkur múgur og margmenni enda um 150 hlauparar skráðir í hlaupið. Stuttu síðar mættu rúturnar sem keyrðu okkur að Fornhaga þar sem hlaupið hófst. Til viðbótar við okkur fjögur var Margrét mágkona Kristjáns að hlaupa ásamt auðvitað miklu fleirum.

Til að gera langa sögu stutta þá er hlaupinu lýst svona á heimsíðu hlaupsins:

Skokkið hefst við Fornhaga í Hörgárdal (þjóðvegur 815), en Fornhagi er 90 m yfir sjávarmáli, og endamarkið er við Árskógsskóla, sem er um 60 m yfir sjávarmáli. Vegalengdin er um 25 kílómetrar. Allbratt er fyrsta spölinn upp frá Fornhaga og dalbotninn nær 500 m hæð eftir um 5 km, í svonefndri Kytru, en úr því hallar undan með þeim frávikum sem landslagið býður upp þorvaldsdalur4á. Skokkarar fylgja sennilega helst fjárgötum, en mega fara hvaða leið sem þeim sýnist þægilegust. Leiðin er ómerkt. Farið er um móa, mýrlendi og norðlenskt hraun (framhlaup). Menn mega búast við því að blotna í fætur við að fara yfir mýrar og læki.

Að hlaupi loknu birtist þetta á heimasíðu hlaupsins:

"Lokið er 27. Þorvaldsdalsskokkinu sem fór fram við góðar veðuraðstæður 4. júlí 2020. Færið á dalnum var hins vegar með "kaldara" móti en sakir snjóþunga vetursins voru feikn af snjó sem hlauparar þurftu að hlaupa yfir og var þetta umfram það sem elstu menn muna!"

Það voru orð að sönnu að hlaupið hafi verið með kaldara lagi. Bara á fyrsta kílómetranum blotnuðum við í fæturna og eftir því sem ofar dró jókst snjómagnið. Fyrsti skaflinn til að hlaupa yfir kom eftir um 3,9 km og sá síðasti eftir um 15 km. Undirlagið var bæði fjölbreytt og erfitt. Fyrstu kílómetrarnir var hlaupið utan í fjalli sem kallast Fálkahaus. Þar var að mestu hlaupið eftir kindagötum í gegnum móa og mela. Eftir því sem ofar dró og við nálguðumst hinn eiginlega Þorvaldsdal fór að "blotna" verulega í hlaupaleiðinni og margoft þurftum við að stikla yfir langa mýrarkafla, stikla yfir og eftir þúfuhausum. 

Síðan er hlaupið niður að árbakkanum við Þorvaldsá og áfram að vatni sem er efst í dalnum yfir Hrafnagilshraun en þar er hlaupaleiðin sérlega gróf og leiðinleg að hlaupa yfir. Á u.þ.b. 5 km fresti voru drykkjarstöðvar þar sem hægt var að skella í sig bæði vatni og Powerade. Skemmtilegt að segja frá því að rétt áður en 3ja drykkjarstöðin var tók ég framúr göngufólki sem myndaði heiðursfylkingu og klappaði þegar ég og annar hlaupari "geystumst" fram úr þeim. Síðasti kaflinn var eftir frekar grófum vegi upp og niður brekkurnar ofan Árskógar. Hlaupið endaði síðan við tún skammt ofan þjóðvegarins. 

Í markinu var boðið upp á frábærlega bragðgóða kjötsúpu, hleðslu, kaffi og súkkulaði. Frábært að hafa náð að klára þetta þótt þær Gerða og Rósa hafi sagt fljótlega að þetta hlaup þyrftu þær ekki að hlaupa aftur!

 

þorvaldsdalur1

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

JónJóhannBloggar

Hér eru léttar lýsingar á upplifun á ferðum höfundar.

Höfundur

Jón Jóhann Þórðarson
Jón Jóhann  Þórðarson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Mýrdalshlaupið - hlaupaleið
  • Mýrdalshlaupið - hlaupaleið
  • 20230703 071008
  • 20230705 082155
  • IMG 3587

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 4388

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband