CCC - HÁKON, JÓN OG KONURNAR

Það var 11 október 2021 sem ég sendi á Kópana hvort ekki færi að styttast í næstu gönguferð en fram að því gætum við látið okkur dreyma um þessa ferð hér. Til að gera langa sögu stutta þá voru allir óðir og uppvægir að fara og þann 22. nóvember 2021 var ég búinn að panta þessa ferð dagana 11-14 júlí 2022. Uppgefið verð var 89þúsund krónur en endanlegt verð 85 þúsund rúmar vegna styrkingar krónunnar. Í framhaldi negldum við niður flug og hótel og svo var það bara að fara hlakka til.

Við flugum út til Genfar á laugardagsmorgni hvar við lentum um klukkan 13 og biðum í tæpan klukkutíma eftir Easy bus ferðinni til Chamonix. Þangað vorum við komin 16.30 og á hótelið okkar Vert lodge um klukkan 17 eftir um 20 mínútna gang frá rútustöðinni í miðbæ Chamonix. Það er gaman að segja frá því að að það var sjálfafgreiðsla í innrituninni á Vert Lodge. Þú fannst bara umslag merkt þér upp á vegg og þar var 4-númera kóði að herberginu. Auðveldasta innskráning á hótel sem ég hef upplifað. Morgunmatur var innifalinn og hann var í herbergi niðri, var mjög einfaldur en bara ljómandi góður.

Daginn eftir vöknuðum við nokkuð snemma enda áttu við tíma í kláfferjuna upp á Aiguille du Midi klukkan 09:10. Eftirá að hyggja þá var það hárrétt ákvörðun að bóka svona snemma því eftir því sem á leið jókst fjöldinn uppi í hæstu hæðum. Kláfurinn var troðfullur af fólki og fór því sem næst lóðrétt upp úr tæplega 1100 metra hæð upp í 2317 á stað sem heitir Plan de l'Aiguille. Þar var skipt um kláf og annar tekinn alla leið upp hin hina lóðréttu norður hlið Aiguille du Midi í 3778 metra hæð. Með ýmsum tröppum (sem allt í allt voru 42) stóðum við á hæsta punkti 3842 metra hæð með stórkostlegu útsýni yfir Mont Blanc fjallgarðinn. Alveg mögnuð upplifun. Við vöfruðum þarna um svæðið, skoðuðum ýmis konar fróðleiksmola um fjallgöngur og fengum okkur kaffi ásamt því að stíga út í tómið sjálf (into the void). Þarna dóluðum við okkur skýjum ofar í blíðunni og nutum magnaðs útsýnis í allar áttir. Um hádegi tókum við fyrri kláfinn niður og ákváðum að fá okkur drykk á neðri pallinum. Þegar þangað var komið ákváðum við að taka létta 15 mínútna göngu upp að Lac Bleu (Bláa vatninu). Viti menn þarna kúrði lítið vatn í faðmi fjallanna. Virkilega skemmtilegt að koma þarna. Niður í Chamonix vorum við síðan komin upp úr klukkan 15. Þá dóluðum við okkur, kíktum í búðir og nutum lífsins.

blanc1

Kominn upp í hæstu hæðir í Aigel du Midi

 

blanc2

 

Mt Blanc í baksýn

 

blanc3

Horft í norð austur í áttina að Dolomitunum!

blanc4

 

Stígið út í tómið í flottu inniskónum!

 

blanc5

Grímuskylda var í kláfunum

 

Dagur 1: Um Val Ferret dalinn frá Courmayeur að Rifugio W. Bonatti fjallaskálanum

Mánudagurinn rann upp og við vissum að brottför væri um klukkan 12.30 þannig að við drifum okkur í gönguferð í bæinn m.a. til að kaupa vistir fyrir rútuferðina. Veðrið var hreint frábært, reyndar bara eins og það hafði verið alla ferðina. Skömmu fyrir klukkan 12 komum við aftur á hótelið okkar og hittum fararstjórann hinn enska Mark Dodwell. Fylgjast má með ævintýrum hans hér á Strava. Restina af hópnum hittum við síðan í portinu aftan við hótelið. Skutlan af flugvellinum var heldur lengur á leiðinni en ætlað var og það var ekki fyrr en upp úr klukkan 13 að við lögðum af stað í tveimur litlum rútum í gegnum Mont Blanc göngin hvar inngangurinn var í raun rétt hjá hótelinu okkar. Vegna mikillar umferðar vorum við heldur lengur að komast í gegn en eftir að til Ítalíu var komið ókum við stuttan spöl út úr Courmayor og upp í dalinn. Við hófum gönguna í um 1600 metra hæð og enduðum í 2020 metrum þannig að raun hækkun var því um 400 metrar en tótal hækkun var 529 skv Strava hjá Mark. 

blanc6

 

Komin af stað á TMB!

 

blanc7

Skosku vinkonurnar í forgrunni

 

Þarna sáum við í fyrsta sinn alla sem í hópnum voru. 2 konur frá Írlandi, 2 konur frá Skotlandi, 2 konur frá Eistlandi, við 4 frá Íslandi og síðan 2 stakar konur frá Englandi. Allt í allt 12 manna hópur auk Mark farastjóra og varð mér á orði Jón, Hákon og konurnar! Gangan hófst á þægilegri göngu upp á við til að komast á TMB (Tour-Mont-Blanc) stíginn sjálfan. Við tókum eftir litlum línum meðfram stígnum og spurðum Mark hvað þetta væri þá sagði hann þetta vera dýrunum (aðallega kúm) svo þau fari sér ekki að voða á stígnum og stigi þar sem þau geta fallið niður! En brattinn var alveg töluverður á köflum. Áfram héldum við upp og niður eftir prýðisstígum og góðum stoppum. Loks komum við að stað þar sem löng grasbrekka bar við himinn. Þar sagði Mark okkur að skálinn viðfrægi á TMB leiðinni, Rifugio W. Bonatti sem kenndur er við hinn goðsagnakennda ítalska fjallamann Walter Bonatti sem lesa má um hér, væri skammt undan og við mættum bara spretta úr spori. Þarna varð ljóst hverjir skipuðu A-liðið og hverjir ekki. Við vorum svo gott sem varla lögð af stað þegar við vorum komin á pallinn við skálann sem stendur í 2025 metrum yfir sjávarmáli. Að skálanum vorum við komin um klukkan 17.

Mark var búinn að "vara" okkur við að vera ekki að búast við of miklu en fyrir okkur Íslendingana sem þekkjum skálana í Þórsmörk og Landmannalaugum þá var ljóst að þarna var hreinlega um geggjaða gistingu að ræða með heitum sturtum og bar þar sem hægt var að kaupa bæði bjór á krana og léttvín. Þarna sváfum við 14 saman í herbergi sem var bara ágætt þegar upp var staðið. Maturinn var fínn og framreiddur fyrir alla á sama tíma, forréttur, aðalréttur og eftirréttur. Maturinn var góður og flestir drukku vatn með. Eftir mat tókum við Hákon létta göngu í kring en í koju vorum við kofin fljótlega upp úr 21 enda áætluð brottför klukkan 6.30.

Dagur 2: Frá Bonatti yfir Grand Ferret skarðið og að La Fouly í Sviss

Eftir frekar léttan svefn, skelltum við í okkur morgunmat og héldum út í morgunninn en ákveðið var að taka daginn snemma áður en hitinn myndi alveg kæfa okkur.  Við tók nokkuð langur brattur kafli upp slóðan að svissnesku landamærunum. Þegar við vorum farin að sjá í skarðið mikla var aðeins farið að draga af vinkonum okkar frá Skotlandi og til að gera langa sögu stutta þá skiptumst við Hákon á að bera framan á okkur poka frá annarri skosku konunni sem hafði reyndar kvartað nokkuð daginn áður yfir alls kyns hlutum, borðaði ekki neitt og var komin í bælið um klukkan 19! Það sem kom okkur mest á óvart var hvað pokinn hennar var í raun léttur! Þegar upp í skarðið var komið var þar saman komið hellingur af fólki. Vindur var þar töluverður og leituðu flestir skjóls í grösugum brekkunum og  horfðum niður í Val Ferret dalinn. Þarna í skarðinu voru landamærin yfir til Sviss hvar við gengum  næstu 2 dagana. 

Niður úr skarðinu var frekar aflíðandi brekka og eftir að Mark sagði okkur að ekki væri hægt að villast þarna niður að kaffihúsi neðst í brekkunni þá máttum við bruna áfram niður. Það gekk tiltölulega hratt fyrir sig að fara þarna niður og vorum við komin og biðum eftir restinni af hópum (lesist þeim skosku og eistnesku) ásamt Mark sem fylgdi þeim sem hægast fóru. Þarna stoppuðum við dágóða stund áður en við héldum áfram stutta stunda niður á við þangað til við komum að matsölu þar sem m.a. voru seldir  heimagerðir ostar - sem við að sjálfsögðu fengum okkur. Áður en þangað kom fórum við úr skóm og sokkum og óðum út í ískalda Dranse de Ferret ána rétt neðan við matsöluna. Þarna dóluðum við okkur í eiginlega heilan fótboltaleik áður en við vorum sótt og keyrð að næsta gisti stað sem staðsettur var hátt í fjöllunum í bænum Champex-Lac. Þangað var um 30 mínútna akstur með vinkilbeygjum upp brattan.

Gististaðurinn var bara fínasta hótel hvar við fengum 4 manna herbergi fyrir okkur til að gista í. Reyndar var bara eitt klósett á hæðinni en allt reddast þetta á endanum. Þarna við hótelið heyrðum við klingjandi hljóð alpanna í bjöllum kúnna sem þarna voru um allt. Sagan á bak við bjöllurnar er sú að bændur settu hér á árum áður bjöllur á kýrnar til að vita hvar þær væru þegar myrkur og þoka birgði sýn. Á sumrin eru nefnilega kýrnar fluttar upp í 1500-2000 metra hæð og leyft að vafra um nokkurn vegin frjálsar þótt þær séu mjólkaðar á hverjum degi með færanlegum mjólkurstöðum. Rannsóknir hafa sýnt að kýr með bjöllur mjólka um 4% minna en þær sem ekki hafa bjöllur en vegna ferðamennskunnar í fjöllunum sem sækja í "sound of the Alps" þá hafa ferðamálayfirvöld mælt með því að halda í hefðirnar!

 

blanc8

Hópurinn á uppleið! 

 

Dagur 3: Frá Champex-Lac að Bovine og Col De la Forclaz til Trient.

Við vorum á húninum klukkan 06.30 í morgunmatinn sem var hreint ljómandi góður, miklu betri en í fjallaskálanum daginn áður. Mark mælti með því að við tækjum með okkur eina samloku til að narta í á leiðinni enda var hann ekki viss hvar hægt væri að kaupa mat á leiðinni. 

Gangan átti að hefjast klukkan 07 en að sjálfsögðu þurfti hópurinn að bíða eftir okkar konu frá Skotlandi eins og daginn áður!  En Mark gerði þetta ágætlega með því ða segja okkur sögu á meðan við biðum þá var eins og við vissum ekki af því að hún væri sein! En leiðin lá síðan niður í móti til að byrja með eftir malarvegi allt þar til við hófum uppgönguna eftir frekar grófum gömlum lækjarfarvegi. Þarna komst Hákon í feitt enda blár ber á lyngi allt um kring. En áfram héldum við, upp, upp, upp! Leiðin lá í gegnum skóglendi, sem kannski var eins gott þá sáum við ekki hversu langt þetta var. En brattinn var töluverður. En þegar upp var komið opnaðist magnað útsýni til vesturs að Mont Blanc og einnig til austurs yfir bæinn Martigny í Sviss. Þegar við gengum síðan norður fyrir hlíðina sáum við heim að áningarstaðnum Bovine þar sem við stoppuðum góða stund og fengum okkur bökur og drykki. Rétt við Bovine gengum við nánast í gegnum hóp af kúm með stórar bjöllur og áttu sumir fótum sínum fjör að launa!

Eftir gott stopp í Bovine héldum við í stutta stund áfram upp á efsta partinn, sem stendur í um 2050 m.y.s.,  áður en við skelltum okkur niður, niður, niður! Áfram lá leiðin niður í gegnum skóglendi en stígarnir voru betri en áður, þarna mættum við vinnumönnum sem unnu við að slá í kringum slóðana svo gróðurinn myndi ekki smám saman leggjast yfir stíginn. Áfram lá leiðin niður þar til við skyndilega vorum komin að hinu víðfræga Col de la Forclaz sem frægt er orðið í gegnum Tour de France keppnina. Eftir stutt stopp þar, þar sem Gerða hvarf á braut áður en ísinn hennar kom, héldum við niður mjög bratta hlíðina niður að hinu pínulitla myndræna svissneska þorpi Tient sem skartar hinni frægu bleiku kirkju. 

Þarna vorum við komin um klukkan 16 og náðum bara að slaka vel á. Hótelið var verulega gott en við vorum 4 saman í 8 manna herbergi ásamt 4 konum sem komu frá öðrum hópi. Heildargangan þennan dag var hátt í 20 km og mikil hækkun og lækkun líka. Eftir að hafa setið og spjallað úti í sólinni með hluta hópsins kom upp babb í bátinn. Þær skosku kvörtuðu mikið um hraðann á þessum degi, það hefði ekki einu sinni verið tími til myndatöku, og að þær vildu bara hætta. Bæði væri þetta erfitt og þær næðu ekki að njóta sem og að þær vildu ekki að við værum alltaf að bíða. Mark og hópurinn tæklaði þetta vel og þá þannig að við Hákon vorum reiðubúnir að taka pokana þeirra og létta þeim lífið upp brattan kaflann að Col de Balme.

 

blanc9

Við bleiku kirkjuna góðu!

Dagur 4: Frá Trient í Sviss gegnum Col De Balme og niður til Le Tour og Argentiere

Mark sagði okkur að almennt væri morgunnmaturinn klukkan 06.30 en hann hefði oft fengið vilyrði að komast inn klukkan 06.15. En það tókst nú reyndar ekki og var þröng á þingi þegar allir ruddust inn klukkan 06.30. En þetta var besti morgunmaturinn til þessa og nóg fyrir alla og rúmlega það.  Við gengum af stað upp úr klukkan 07 og gengum nú frekar rösklega (skrýtið m.v. uppákomuna daginn áður) að tjaldsvæði neðan við Col de Balme. Þar var ákveðið að við mættum ganga í svona 30 mínútur og sameina síðan hópinn aftur. Við Hákon tókum þarna strax annan pokann og skiptumst á að ganga með hann. Leiðin upp í gegnum skógþykknið zikk zakkaði upp með misbröttum stuttum stígum. Eftir stoppið þar sem við biðum í hátt í 10 mínútur eftir þeim seinustu varð úr að ég tók hinn pokanna upp í skarðið. Í raun var þetta ekkert mál þótt það hafi kannski aðeins hægt á mér a.m.k. miðað við Hákon. Loks komumst við út úr skógþykkninu og sáum í skálann efst í skarðinu víðfræga. Cold de Balme er einmitt þekkt fyrir eitt almagnaðasta útsýni yfir Mont Blanc og allan dalinn þar sem Chamonix liggur. 

Upp í skarðinu lágum við og fengum okkur bjór (þótt klukkan væri bara rétt upp úr klukkan 10 - það er örugglega komið hádegi einhversstaðar!) og nutum lífsins. Svona ca hálftíma síðar komu þær stöllur loksins upp í skarðið í fylgd Mark og sú sem ég bar pokann fyrir knúsaði mig og kallaði mig hetjuna sína. Gaman að því. Leiðin niður lá í gegnum risastór skíðasvæði efst í Chamonix dalnum. Rétt áður en við komum að miklum framkvæmdum við skíðahótel ofarlega í dalnum gegnum við í gegnum kindahjörð sem varin var af hörku af 8-10 stórum hundum og endaði það svo að við þurftum að fara út af stígnum og út á mosann og óræktina til að krækja fyrir hundana. 

 

blanc10

Í Col de Balme

Áfram gengum við síðan niður í bæinn Le Tour þar sem skílðalyftan byrjar þar sem við fengum okkur að borða áður en rútan sótti okkur. Nægur var tíminn svo við ákváðum að skella okkur í fótabað í jökulánni og náðum við því að verða of sein í fyrsta og eina skiptið í ferðinni! En bílarnir voru aldrei þessu vant nokkrum mínútum fyrr á ferðinni en gert var ráð fyrir. Aksturinn niður að Vert Lodge tók stuttan tíma og þar skiptist hópurinn upp, nokkrir urðu eftir en við ásamt þeim eistnesku héldum til Genfar. Þegar til Vert Lodge var komið kvöddust allir með virktum og lauk göngunni formlega með hópknúsi í portinu góða. Hreint frábærri ferð þar sem allt gekk upp var lokið.

Rútan skutlaði okkur fjórmenningunum á flugvöllinn í Genf þaðan sem við tókum leigubíl á hótelið okkar sem staðsett var beint á móti aðaljárnbrautarstöðinni í Genf. Í hinni rándýru Genf vöfruðum við um og nutum lífsins. Tókum hjól á leigu og skoðuðum öll helstu kennileiti borgarinnar s.s. Gengum um miðbæinn og gamla bæinn. Skoðuðum lengsta trébekk í heimi, hinn magnaða 140 metra háa gosbrunn í vatninu ásamt því að skoða eina af þremur höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna og brotna stólinn þar fyrir framan en hann var reistur sem minnismerki um þá sem hafa látið lífið og/eða örkumlast af völdum jarðsprengja.

Rúsínan í pylsuendanum var síðan þátttaka Hákonar í þríþraut Genfar þar sem kappinn synti 250 metra á speedo, hjólaði 10 km á city bike ásamt því að hlaupa 5 km. Hann stóð sig virkilega vel en sagði að slagsmálin í sundinu hefðu komið sér mest á óvart. Gríðarlegur hiti var í borginni meðan við dvöldum þarna en að mörgu leiti dásamleg borg þótt verðlagið hafi verið rúmlega íslenskt! Sem dæmi kostuðu 4 mojhito (ekkert sérstaklega stórir)17 EVRUR stykkið en þeir voru í boði Helgu tengdamóður sem vildi endilega bjóða okkur upp á drykk.

 

blanc11 

Gerða við þrífætta stólinn góða

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

JónJóhannBloggar

Hér eru léttar lýsingar á upplifun á ferðum höfundar.

Höfundur

Jón Jóhann Þórðarson
Jón Jóhann  Þórðarson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Mýrdalshlaupið - hlaupaleið
  • Mýrdalshlaupið - hlaupaleið
  • 20230703 071008
  • 20230705 082155
  • IMG 3587

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 4358

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband