Í FJÓRÐA SINN Á HNJÚKINN

 

Gerðu ásamt “hennar konum” úr hlaupahópi Breiðabliks hafa rætt það sín á milli hvort þær ættu ekki erindi upp á Hvannadalshnjúk. Ég, sem farið hef þrisvar sinnum á toppinn í 4 tilraunum, hélt það nú og væri alveg til í að koma með. Ég kannaði hvort Jón Gauti væri til í að koma okkur á toppinn en hann sagðist vera svo gott sem hættur svona og benti á afar vandaða leiðsögumenn þau Árna og Írisi sem saman reka ferðaþjónustuna Tindaborg. Í ljós kom að Margrét Klausturmær þekkti til þeirra og gekk frá bókun fyrir hópinn með öllu inniföldu þ.e. broddum, beltum og ísöxum. 

Ferðin var ákveðin í byrjun júní nánar tiltekið helgin 10-12 júní. Þá var bara að leggjast á bæn og vona að veðurgluggi myndi opnast þessa helgi. Á miðvikudeginum fyrir gönguna hittumst við á netfundi til að fara yfir málin en áður hafði hópurinn hist í H20 til að stilla saman strengi - þar sem ég m.a. hnykkti aðallega á að hafa nóg að drekka, hafa lokuð sólgleraugu og vera tilbúin að ganga lengi (12-15 klukkutímar er algengur tími á Hnjúkinn) og veglengdin á klassísku leiðinni um Sandfell um 25 km. 

Á miðvikudeginum var símafundur með fararstjóranum sem sagði laugardaginn allt eins líklegan og sunnudagurinn. En hún myndi hafa samband á fimmtudeginum til að negla allt saman. Við héldum austur upp úr hádegi á föstudeginum og loksins komu skilaboðin - gangan yrði daginn eftir á laugardeginum og hittingur klukkan 19 í Svínafelli heima hjá fararstjórunum. Við brunuðum austur með Hákoni og Rósu og vorum komin um klukkan 18 að hreint ágætu tjaldsvæði á Svínafelli. Um kvöldið var nánast logn, nokkuð hlýtt og örlítil úrkoma, þótt það virtist vera mikil rigning þar sem við hjónin lágum í göngutjaldinu okkar góða. Með okkur í ferðinni voru: Anna og Íris ásamt sínum eiginmönnum Tryggva og Skúla og voru þau í tjaldi á tjaldsvæðinu. Magga Lukka og Þórdís gistu í bændagistingu við hliðina á okkur á Svínafelli. Margrét og hennar maður Jón Már gistu svo á Kirkjubæjarklaustri og komu keyrandi um morgunninn.

Brottför klukkan 05 sem þýddi að við vöknuðum upp úr klukkan 04 um morgunninn. Veðrið var skaplegt en okkur fannst eins og ekkert sæist í toppinn góða. Fararstjórarnir sóttu hluta hópsins og voru búnar að ákveða að keyra austur að Hnappavöllum og keyra þar upp á heiðina þar ofan við. Vegurinn liggur rétt við glæsilega Glacier Lagoon hótel. Hann er þræl brattur og mjög grófur á köflum enda tók aksturinn okkur frá Svínafelli þangað sem við stoppuðum tæpan klukkutíma. En allt hafðist þetta og skammt neðan við snjólínuna lögðum við af stað úr uþb 700 metra hæð 06:15 að staðartíma. 

Vatna 1

Við upphaf ferðar

Ferðin sóttist ágætlega og eftir um klukkutíma gang fórum við í línur. Línurnar voru 2 og 5 í hvorri ásamt fararstjóra. Eftir 4 tíma baráttu við nær endalausar snjóbrekkur sem þó komu og fóru vegna þoku sem og landslags þá vorum við komin upp á öskjuna í ríflega 1800 metra hæð. Þar tókum við góða pásu en það þurfti líka að huga að ferðafélögunum þá sérstaklega Möggu Lukku sem var alveg við það að hætta en með lagni og útsjónarsemi tókst fararstjórunum sem og hluta samferðamannanna að stappa í hana stálinu og þá þannig að hún ákvað að halda áfram. Ferðin yfir öskuna sjálfa sóttist vel enda sléttlendi og sólbráðin ekki farin að trufla að neinu ráði. Eftir tæplega 6 tíma göngu nálguðumst við Hnjúkinn sjálfan og við það opnuðust himnarnir og Hnjúkurinn sem og aðrir tindar á öskjunni svo sem Rótarfjallahnúkur, Dyrhamar, Sveinstindur, Sveinsgnípa og Hnapparnir báðir blöstu við. 

vatna2

Við stoppuðum stutt neðan við Hnjúkinn og fórum í jöklabroddana. Þar voru  margir að stíga sín fyrstu skref á jöklabroddum. Við skárum brekkuna vel, klofuðum yfir sprungur og komumst loks á tindinn sjálfan eftir rúmlega 7  klukkutíma gang. Það var ansi mögnuð upplifun að komast á tindinn enn eina ferðina og ekki síður hjá ferðafélögunum sem allir voru að komast í fyrsta sinn á toppinn. Útsýnið var magnað þótt við sæum ekki alveg til Snæfells og Herðubreiðar eins og stundum áður. En Fjallkirkjan, Lómagnúpur og jöklarnir í vestri auk öskjunnar í suðri blöstu við. Alla ferðina vorum við með "cat 4" gleraugun okkar sem vöktu athygli fararstjórana sem áttuðu sig á því á toppnum - þið eruð öll með eins gleraugu! Síðan er gaman að segja frá því að þegar ég sett upp gleraugun neðarlega í snjóbrekkunni þá skildi ég ekkert í því að það var eins og annað glerið væri skítugt og ég var að reyna að pússa það en áfram skrölti ég upp og í næstu pásu segir Gerða - heyrðu vantar ekki annað glerið hjá þér? Jú, jú, það stóð heima - kannski ekki skrýtið að það hafi verið smá munur á milli augna - það vantaði glerið í annað augað. Ég fanna það í pokanum og smellti í og það var allt annað líf. 

 

290093762 584751626410632 1885968053695564629 n

 

Hópurinn samankomin í 2110 metrum

 

IMG 2001.HEIC

Saman á toppnum!

Upp úr klukkan 14 lögðum við í'ann niður. Það gekk ágætlega niður mesta brattann af Hnjúknum sjálfum og þurftum við hjónin að skella okkur niður og dúndra ísexinni í snjóinn til að stöðva Jón Má frá því að renna af stað en hann var orðinn nokkuð valtur á fótunum. En allt hafðist þetta niður og yfir öskjuna aftur þótt Gerða hafi all oft þurft nánast að draga Jón má með sér enda hægðist verulega á honum eftir því sem á leið. Ferðin niður löngu snjóbrekkuna gekk svipað Gerða togaði í Jón enda snjóbráðin farin að hafa verulega áhrif á þreytta fætur. Á köflum sukkum við vel upp að hnjám. En allt hafðist þetta og við vorum komin niður í bíl rétt rúmlega 12 tímum eftir að við lögðum af stað eða um klukkan 18.20. 

Við tók aksturinn niður brattann og að Svínafelli þar sem við kvöddum farastjórana okkar með virktum. Við skelltum okkur í sturtu, rusluðum tjöldunum saman enda með bókað borð á hótelinu á Klaustri um klukkan 21 en þangað eru 75 kílómetrar og eins gott að halda vel á spöðunum. Við brunuðum á Klaustur og skelltum upp tjöldunum og gengum síðan að hótelinu. Steik og rauðvín var á matseðlinum hjá flestum nema bleikja á hjá Gerðu (hvað annað). En flestir voru bara alveg búnir á því og enginn leikur í mannskapnum. Við vorum því komin í koju um 23 enda búin að vera á fótum í 19 tíma.

Sunnudagsmorgunninn vakti okkur svo sannarlega með kossi enda nærri 15 stiga hiti sem siðan fór vel yfir 20 stigin og logn. Við Hákon skelltum okkur í smá göngu upp að Systravatni og niður hjá Systrafossi áður en við fórum í sundið sem ekki opnaði fyrr en klukkan 10 þennan sunnudagsmorgun. Eftir sundferðina fórum við síðan í smá búbblur og osta hjá foreldrum Margrétar sem bjuggu hreinlega í næsta húsi við sundlaugina.  

Okkar frábæru fararstjórar Íris og Svanhvít birtu færslu Facebook síðu Tindaborgar þar sem okkar er getið. Færsluna má sjá hér. Þeir félagar Skúli og Tryggvi bjuggu til létt myndbönd hvor um sig eftir ferðina sem gaman er að skoða. Skúla myndband er hér og hans Tryggva er hér.

 

20220611 105343

Hákon og Rósa

 

20220611 105417

Jón Már og Margrét

 

vatna gerda kok

 Gerða  með kók í 1900 metrum

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

JónJóhannBloggar

Hér eru léttar lýsingar á upplifun á ferðum höfundar.

Höfundur

Jón Jóhann Þórðarson
Jón Jóhann  Þórðarson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Mýrdalshlaupið - hlaupaleið
  • Mýrdalshlaupið - hlaupaleið
  • 20230703 071008
  • 20230705 082155
  • IMG 3587

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 4360

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband