Færsluflokkur: Bloggar

Selvogsgatan eða svona næstum því

Laugardaginn 9. maí klukkan 09:05 var lagt í hann. Farið var í gegnum Vellina í Hafnarfirði út á Krýsuvíkurleið og þaðan ekið eftir Bláfjallavegi nokkra kílómetra að lokunarpósti Vegagerðarinnar undir hlíðum Lönguhlíðar. Þegar þangað var komið sáum við sjúkrabíl og leyst ekki á blikuna. Hákon spurði sjúkraflutningafólkið hvort það væri að bíða eftir okkur en þau voru víst á leið að slysavarnarskála nokkrum kílómetrum lengra. Eftir að hafa fengi leyfi sinna yfirmanna óku þau út í skurðinn við hliðina á veginum og framhjá lokunarpóstinum.

selvogs8

Eftir að Steinar hafði tekið af okkur hópmynd var lagt í hann eftir veginum. Á leiðinni mættum við 6 hlaupurum sem trúlega hafa komið neðan frá Helgafelli í Hafnarfirði. Við gengum eftir veginum nærri 3 kílómetra þar sem við beygðum útaf veginum og út á  hraunið. Seinna sáum við að við hefðum átt að ganga aðeins lengra líklega 1-2 km í viðbót til að komast beint á hina eiginlegu Reykjaleið/Selvogsgötu. Það sem vakti mesta athygli mína var hversu nálægt Helgafellið í Hafnarfirði er frá upphafsstaðnum okkar enda sagði Hákon hann hafa gengið þetta með 10 bekkinga þ.e. frá Bláfjallaveginum og niður að Helgafelli.

Selvogsgata er forn þjóðleið frá Hafnarfirði og yfir Grindarskörð og niður í Selvog þar sem Hlíðarvatn og Strandarkirkja eru. Hin eiginlega Selvogsgata byrjar u.þ.b. þar sem nú er Öldutúnsskóli í Hafnarfirði samkvæmt vefsíðu Hraunavina.

Eftir 10 mínútna gang yfir hraunið fór landið að rísa þegar við nálguðumst Grindarskörð. Þar er leiðin ágætlega merkt með stikum. Við örkuðum þetta áfram eftir snjósköflum sem þægilegra var að ganga. Vanir Esjugöngumenn fóru létt með þessa brekku enda hæðin ekki nema um 500 metrar það sem hæst var farið. Gerða og Rósa vildu nú samt meira og fannst þessi brekka nú ekki mikið tiltökumál og vildu ólmar fara næst "svarta" leið.

selvogs3

Þegar upp var komið opnaðist fallegt útsýni yfir Helgafellið (vinstra megin) og höfuðborgarsvæðið.

 

Þegar upp var komið eða í tæplega 500 metra hæð opnaðist fallegt útsýni til Norðurs og Vesturs. Í bókinni Suðvesturhornið Reykjanesskagi eftir Einar Þ. Guðjohnsen í ritröðinni Gönguleiðir á Íslandi (útgefið 1992) segir um Selvogsgötuna: "Þessi leið er vörðuð frá fornu fari, en vörðurnar hafa hrunið margar hverjar. Nú skilst mér, að áhugamenn hafi endurreist þær og lagað." En illu heilli þá hafa þessir áhugamenn endurreist vörðurnar u.þ.b. 1 km í austur frá hinni eignlegu Selvogsgötu sem bæði Einar nefnir í sinni bók og rakin er í Árbók Ferðafélags Íslands frá 2003. Þar liggur leiðin einmitt um Hvalsskarð á milli Hvalahnúkanna en "nýja" varðaða leiðin liggur sunnan/vestan við Austurása. 

 

Þegar við vorum komin í skjól við Austurásana tókum við drykkjarstopp á grasbletti og nutum lífsins í sólinni. Eftir stutt stopp var arkað áfram eftir móum og melum, svokallaða Stakkavíkurleið eða Selstíg. Þetta var algengasta leiðin eftir að fólki tók að fækka í Selvogi (segir í frásögn Hraunavina sem ofar eru nefndir). Leiðin stefnir nánast beina leið á eyðibýlið Hlíð sem Hlíðarvatn er kennt við. Leiðin er nokkuð augljós þar sem vörður vísa veginn að mestu alveg að Hlíðarskarði. Land fer nokkuð lækkandi á þessari leið þó ekki fari að halla verulega undan fæti fyrr en komið er fram á suðaustur brúnina.

Þar liggur leiðin niður Hlíðarskarðið í nokkrum bratta og blasir þá Suðurlandið við, Selvogurinn og Hlíðarvatn. Þegar niður á veg við Hlíðarvatn var komið ákváðum við að hringja í Atla til að láta sækja okkur. Til að nýta tímann á meðan við biðum örkuðum við eftir veginum og síðan nokkuð beina leið beint yfir fallnar lúpínubreiður að Strandarkirkju. Það small og brast í þurrum skrælnuðum lúpínuprikum og nokkuð erfitt að 

selvogs6ganga. Einnig þurfi að passa sig hvar við stigum - sáum til að mynda spóahreiður með tveimur eggjum í. En viðbótina kláruðum við og enduðum niður við Strandarkirkju eftir rúmlega 5,5 tíma göngu.

Þetta var virkilega skemmtileg ganga og gjörólíkt því sem við fórum síðast (frá Hengli að Úlfljótsvatni). Ekki skemmdi það fyrir þegar ungur maður vatt sér að Gerðu og Rósu og spurði: "Hvaðan voruð þið að koma hlaupandi?" En fljótlega eftir að við komum að kirkjunni renndi Atli í hlað með bæði kampavín og bjór eins og vera ber.

Gangan frá lokunarpóstinum á Bláfjallavegi niður á veg við Hlíðarvatn er rétt um 17 kílómetrar. Við bættum við u.þ.b. 5 kílómetrum með göngunni að Strandarkirkju. Heildargangan endaði í 22.1 kílómetra. Heildartími var 5:36 tímar. Á hreyfingu vorum við 4:52 og stopp 43 mínútur. Minnsta hæðin var 3 m.y.s. og mesta 486 metrar. Uppganga var 581 metri og niðurganga 588 metrar.selvogs1

 

 


Gengið yfir Esjuna 1. maí 2020

Eftir að GSM var búinn að hringja í bæði heimasímann og nánast alla fjölskyldumeðlimi á milli klukkan 20 og 21 á fimmtudeginum náðum við loks saman og ákvörðun tekin. Það er líklega gluggi og við skellum okkur yfir.

GSM sótti bæði mig og Anton og við hófum göngu klukkan 8:35 við nokkuð kuldalegar aðstæður. Svo kuldalegar að um leið og ég opnaði hurðina á bílnum þá ákvað ég strax að setja skálmarnar á stuttbuxurnar og sett meira að segja upp hettuna til að vera alveg öruggur. Búið er að leggja nýjan veg uppi á bakkanum en ekki niður við ánna. Líklega tengist þessi vegagerð því að lagður var vegur yfir Þverá til að koma bóndanum í Þverárkoti í samband við umheiminn!

 

yfiresju2

Ferðafélagarnir Anton og GSM. Hátindshyrnan beint fyrir ofan GSM (með því að smella á myndina þá stækkar hún)

 

Gengið er til að byrja með um móa og mela Þverárkotshálsins og áleiðis að Háuhlíð og Hátindshyrnu þar við klöngruðust upp klettana. Engar áhyggjur hér. Allt frekar auðvelt yfirferðar. Eftir tæpa 2 klukkutíma náðum við nestispásu pallinum okkar í um 733 metra hæð. Þar sátum við í skjóli og sól og nutum lífsins en þegar Anton áttaði sig á því að við hefðum verið tæpa 2 tíma þarna upp þá leist honum ekki á blikuna og var ekki viss um að hann kæmistyfiresju3 í tíma til að hantera gæsina fyrir kvöldmatinn í bústaðnum hjá Dóra og Öggu í Vitleysu við Grábrók. 

Frá áningarstaðnum er tæplega 200 metra hækkun sem að þessu sinni var að töluverðu leiti á snjólausu landi. Við vörðuna góðu í 909 metra hæð var sungið (2 erindið í Maístjörnunni), skrifað í gestabókina og teknar myndir. GSM Expedition mætti með skjöld með lagi á 5 ára fresti hér á undan. Fyrst var það Internationnallinn 1. maí 2010, næst var það Maístjarnan 1. maí 2015 og að sjálfsögðu hefði átt að vera lag líka 1. maí 2020. En það lag verður að bíða betri tíma. 

Eftir tiltölulega stutt stopp var haldið áfram niður brúnina frá Háatind og eftir egginni út á háfjallið. Þaðan gengum við að mestu á snjó eftir öllu háfjallinu, niður Esjuhornið og út á Sandfjallið. Anton vildi breyta aðeins til og í stað þess að fara beint niður í Flekkudalinn þá gengum við eftir endilöngu Sandfjallinu, sukkum öðru hvoru í drullu, og alveg út á brún þar sem Meðalfellsvatnið og byggðin í kringum það blasti við. Héldum við síðan beint niður af fjallinu og í gegnum hlaðið á bænum Grjóteyri þar sem Atli beið okkar Gumma og Inga beið Antons enda þau á leið beint í  matarboð í Borgarfirðinum.

yfiresju4Virkilega vel heppnuð ferð þar sem það rættist heldur betur úr veðrinu eftir því sem leið á og þegar niður var komið var sól og virkilega fallegt veður þótt hitinn hefði að ósekju mátt vera nokkrum gráðum hærri. 

 

yfiresju5

 

Með smá lengingu Antons mældist leiðin 13,2 km. Tótal tími minn var nokkrum sekúndum undir 5 klukkutímum. Á ferðinni vorum við í 3:35 og stopp 1:23. Þetta þýðir að meðalhraði var 2,64 km á klst fyrir alla gönguna og 3.7 á ferðinni. Heildar uppganga var 873 metrar og niður á við gengum við 905 metra. Gangan hefst 82 m.y.s. og lýkur í 50 m.y.s. við Grjóteyri við Meðalfellsvatn.

 

yfiresju1

 


Gengið um Hengil að Úlfljótsvatni

Laugardagurinn 25. apríl 2020 rann upp bjartur og fagur. Veðurfræðingarnir höfðu lofað þessu veðri sunnan lands. Heiðskýrum himni, sól, hita allt að 15 stigum sunnanlands en austan gjólu. Þetta veður bætti heldur betur upp fyrir Sumardaginn fyrsta þar sem dökkgrár himinninn og frekar köld gjólan var ekki spennandi fyrir margra tíma göngu. 

Ulfljotsvatn9

 

Uppstillt á bílastæðinu við Sleggjubeinsskarð í upphafi göngu.

Ath - smella á myndir til að gera þær stærri

 

Vaknað rétt fyrir klukkan 8 og allt gert klárt áður en ferðafélagarnir Hákon og Rósa mættu upp úr klukkan 09. Það var ekið beina leið upp í Sleggjubeinsdal þar sem gangan hófst. Í stuttu máli ákváðum við helgina undan að ganga um huliðsheima Hengilsins að Úlfljótsvatni. Leiðin skv býsna nákvæmum skiltum Orkuveitunnar var sögð 23,8 km. Með okkar útúrdúrum mældist gangan 26,5 km. Skv. leiðarlýsingum er talað um: "Fjölbreytt útsýnisleið, auðveld en kallar á úthald." Úthald var akkúrat það sem þurfti til að klára þessa ferð.

Ulfljotsvatn1

Leiðin hefst í Sleggjubeinsdal innan við Hellisheiðarvirkjun. Gengið er upp hrygginn milli Sleggju og Skarðsmýrarfjalls upp í Sleggjubeinsskarð. Að austanverðu er öflugt hverasvæði sem skartar mikilli litadýrð.  Uppi í skarðinu er skilti sem skiptir leiðum, önnur um vesturhlíð skarðsins upp á Vörðu-Skeggja hin sem við göngum leiðir okkur inn í Innstadal sem er innstur Hengladala. Það var ótrúlega mikill munur á brekkunni upp skarðið frá því að við fórum þarna upp á Skírdegi 2 vikum áður. Snjórinn hafði hopað mikið. Gangan upp tekur kannski ekki mikið á en í hitanum var hún bara talsvert erfið.

Slóðin heldur áfram með suðurhlið dalsins sem er grasi gróinn og sléttur, girtur fjöllum allan hringinn, Hengillinn í allri sinni dýrð til norðurs. Að austanverðu er gróið hraun, Ulfljotsvatn10þar þrengist dalurinn. En á okkar göngu var snjór yfir öllu og við sáum hvorki grasi gróinn dalinn og það rétt grillti í hraunið á stöku stað.

Í hrauninu er skilti sem skiptir leiðum, önnur áfram til austurs yfir á Ölkelduháls, hin til norðurs upp á Vörðu-Skeggja. Að skiltinu eru 3,3km. En í stað þess að ganga að skiltinu þá gengum við upp að skála Fjallaskíðafélagsins og kíktum í gilið austan við skálann þar sem er heitur lækur. Þetta lengdi sannarlega leiðina um 2-3 kílómetra. Gerða og Rósa forðuðu sér langt frá skálanum til að létta á sér enda vefmyndavél á skálanum sem væntanlega fór í gang við minnstu hreyfingu. Rétt neðan við skálann er spræna en þar fórum við varlega yfir snjóbrú sem gæti gefið sig hvenær sem er.

Áfram gengum við út mjókkandi dalinn. Hér þurftum við að vaða yfir á þar sem brattar snjófannir voru á norðurendanum. Engir voru vaðskórnir en nú kom litla Flugfélags golf-handklæðið sér vel! Gengum áfram í genum skarðið á milli Innstadals og Fremstadals áfram eftir brekkunni og suður fyrir Kýrgilshnjúk. Þegar framhjá Kýrgilshnjúki er komið opnast stórkostlegt útsýni yfir Þingvallavatn og fjöllin handan þess.

Ulfljotsvatn5

Útsýnið yfir Þingvallavatn var stórkostlegt.

 

Hér áðum við í skjóli kletta. Áfram gengum við nokkurn spöl yfir mjög mjúka malarkamba þar sem við sukkum að ökklum í drullu alla leið að Ölkelduhálsi þar sem við skoðuðum hagla-skotið upplýsingaskilti og drög að nýjum ferðum fæddust. Áfram haldið upp létta grasbrekku að Ölkelduhnjúki. Farið norðan við hnjúkinn. Hér voru falleg lón og hverir á hverju strái og áfram að Dalskarðshnjúki. Þar skiptast leiðir og hægt að fara hring um Tjarnarhnjúk, Lakahnjúk og Hrómundartind framhjá Kattartjörnum. Sú leið frá skiltinu við Ölkelduháls er um 12 km. Við göngum áfram niður hallan, yfir nokkuð bratt gil og yfir fallegt hverasvæði að skilti við Dalsel. Héðan eru 8,5 km frá skiltinu og 11,8 alls.

Frá vegprestinum við Dalsel skiptast leiðir önnur liggur um 4 km leið (sem við förum) að Álúti en hin niður í Klambragil. Þar er gott tækifæri til að baða sig í heita læknum. Gengið er síðan upp slakkann og upp í Dalskarð. Úr skarðinu rétt ofan við hverasvæðið sem staðsett er undir Dalskarðshnúk er gott útsýni yfir Klambragil og Molddalahnúka.

Farið er niður hlíðina í Grænadal sem svo sannarlega bar nafn með rentu. Leiðin liggur nú um mjög virkt hverasvæði sem hefur breyst nokkuð í jarðskjálftanum 2008 þar sem margir nýir Ulfljotsvatn6hverir hafa myndast og allnokkuð jarðrask þar sem hlíðar í giljum hafa skriðið fram. Því þarf að fara varlega eins og reyndar á öllum hverasvæðum. Hér þarf að vaða eða stikla Grænadalsánna. 

Frá Hverasvæðinu er haldið upp nokkuð bratta brekku í skarðið á milli Selfjalls og Álúts. Rétt áður en við komum að Álúti sáum við stikurnar enda skyndilega. Í skarðinu var leiðin öll á bólakafi í snjó. En við sikk sökkuðum upp. Nokkuð stíf brekka en ekki löng. Að Álúti eru 4,1 km frá Dalseli og 15.9 km alls. Af Álút er stórfenglegt útsýni yfir Ölfus til Hveragerðis, Kamba og til Þingvallavatns. Af Álúti er gengið niður Efjumýrarhrygg og að Dagmálafelli og niður á Selflatir. Dagmálafell er með gott útsýni til allra átta, Þingvallavatn, Úlfljótsvatn, Grímsnes og Ingólfsfjall.  Létt en Ulfljotsvatn8nokkuð löng ganga segir í leiðarlýsingu en það getum við sem fórum þessa ferð að hún var sko alls ekki létt! Enda sukkum við upp fyrir ökkla í drullu örugglega 5-6 km af þeim 9 sem eftir voru ferðar. Áður en við steypum okkur niður síðustu brekkurnar fyrir ofan réttirnar var kaffistopp í annað sinn í ferðinni og þá var notað tækifærið og hringt í Atla og honum sagt að fara af stað til að sækja okkur. 

Skammt ofan Selflata eru Grafningsréttir. Hér þarf að fara yfir Fossá og niður ásana ofan við Úlfljótsvatn. Rósa nennti ekkert að standa í þessu lengur og stikaði stórum beint yfir ánna. "Þurfti að hvort sem er að skola skóna," sagði hún.  Gengið er um gott berjaland í nokkuð þéttu kjarri sem þéttist eftir því sem neðar dregur. Slóðin sveigir niður með ánni og við fylgjum síðan vegaslóða að upplýsingaskilti við Úlfljótsvatn. Þessi vegarslóði var algjört helvíti en þar sukkum við áfram í drullu síðustu metrana og mikið vorum við feginn þegar við sáum Atla koma í áttina að okkur til að keyra okkur heim. Frá Álúti og að upplýsingaskiltinu eru 8,9 km og heildargangan því orðin 26,5 km alls með útúrdúrum.

Í bílnum hjá Atla var fullt ísbox af drykkjum: "Besti bjór sem ég hef smakkað", sagði Hákon, "Besta kók sem ég hef smakkað," sagði Rósa og "Besta Prozecco sem ég hef smakkað," sagði Gerða. En mikið lifandis gott var að setjast niður og keyra heima að loknu sérdeilis góðu dagsverki. 

Ulfljotsvatn7

Lagt var af stað klukkan 09.45 og tíminn stöðvaður við bílinn hjá Atla við komuna að Úlfljótsvatni. Heildarvegalengd 26.5 kílómetrar. 8:34 var heildartíminn. Á göngu vorum við 6:29 og stopp í 2 tíma og 5 mínútur. Meðal gönguhraðinn var 4.1 km á klst (3.08 þegar stoppin eru reiknuð með). Mest fórum við í 501 metra hæð yfir sjávarmáli. Heildar uppganga (ascent) reyndist vera 1053 metrar og heildar niðurganga (descent) 1232 metrar. Hæsti punkturinn í ferðinni er tindurinn Álútur eða 501 m.y.s. Hann er ýmist sagður 481 eða 485 metrar og á skv. vefsíðu toppfara mældist tindurinn 508 metrar. En er þetta ekki bara innan skekkjumarka! 

Frábær ferð í alla staði. Mjög skemmtileg en nokkuð krefjandi leið um afar fjölbreytt svæði svo gott sem í túnfætinum heima. 

Hvað verður það næst? Nokkrum uppástungum var kastað fram. Kattartjarnarleið, Selvogsgatan, Heiti lækurinn í Reykjadal og svo auðvitað Fimmvörðuhálsinn.


Hvað eru 19 sekúndur á milli vina?

 Maraþon2

Við hjónin vöknuðum fyrir allar aldir laugardaginn 24. ágúst 2019. Það var komið að því, hlaupið sem við skráðum okkur í, Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka, var framundan. 21.1 km = hálft maraþon. Hvernig datt okkur þetta í hug, hugsuðum við bæði þegar við tóku hefðbundin morgunverk.

Lagt var af stað upp úr klukkan 7:30 að sækja hlaupafélagana, Möggu Lukku og Önnu. Ég skutlaði stelpunum niður á N1, lagði bílnum við Íslenska erfðagreiningu og hljóp í bæinn. Fín upphitun það! Klukkan 08:40 var hlaupið ræst í sannkallaðri rjómablíðu sem átti eftir að vera allan daginn. Ég tók fram úr Gerðu á Suðurgötunni við Þjóðminjasafnið og hélt fínum hraða 10.5 km/klst (eða 5:30-40 á km pace) fyrstu 19-20 kílómetrana. Á síðustu 1-2 kílómetrunum missti ég aðeins dampinn, orkan búin og það þrátt fyrir að hafa fengið mér eitt gel eftir u.þ.b. 10 km. 

Maraþon3

Hér má sjá skemmtilega tölfræði í boði mótshaldara. Þar má m.a. sjá að ég tók fram úr 61 hlaupara síðustu 5 km en missti um leið 64 framúr mér á móti. En þetta var frábært hlaup og mér leið vel eftir að hafa sopið einn bjór (léttbjór) og tvær flöskur af powerade eftir hlaupið. En hlaupið kláraði ég síðan á 2 tímum sléttum og 19 sekúndum! Bæting um rúmar 13 mínútur ef ég man rétt. En þetta var samt 19 eða 20 sekúndur of mikið. Stefnt var að tíma undir 2 tímum en því miður þá var orkan búin síðustu kílómetrana. Allt frá snúningspunktinum á Sæbrautinni fylgdi ég hraðastjórunum þeim Elísabetu Margeirs og Erlendi Stein Guðnasyni en því miður vantaði aðeins upp á í lokinn. En kærar þakkir Elísabet og Erlendur fyrir peppið á leiðinni! 

Hópurinn hittist síðan fyrir framan MR að venju og við Gerða vorum síðan komin heim um klukkan 12. EFtir sturtu og hádegismat drifum við okkur niður í Hörpu að aðstoða Álftanes systurnar. Þegar við gengum í blíðunni um klukkan 14:30 sáum við fólk á hlaupum - fólk sem hafði byrjað heilt maraþon á sama tíma og við okkar hálfa eða klukkan 08:40 og var við það að komast í mark - um 6 tímum seinna! 

Maraþon4

Eins og alltaf þá líður manni vel eftir að hafa afrekað þetta og fer strax að spá í hvenær byrjar skráningin fyrir hlaupið 2020!

 

 

 


Hlaupið og gengið í Borgarfirði

Við hjónin fengum sumarbústað úthlutað í byrjun júlí í Húsafelli. Það er orðið ákaflega langt síðan við höfum dvalið í sumarbústað í lengri tíma og því töluverð tilhlökkun þegar kom að því enda Húsafell frábær staður til að vera á hafi maður einhvern áhuga á útivist.

Á föstudeginum fórum við Helga og Atli í bústaðinn en Gerða og Tómas komu á laugardeginum þar sem Tómas var á æfingum hjá U-16 ára landsliðinu á laugardagsmorgunninn. Við Helga og Atli komum frekar seint upp í Borgarfjörðinn og gengum aðeins um og spiluðum fram yfir miðnætti.

Á laugardagsmorgunn upplifðum við eitthvert besta veður sem við höfum lent í á Íslandi og flatmöguðum, lásum og hlustuðum á hlaðvörp þangað til restin af fjölskyldunni mætti í hús. Um kvöldið var spilað, farið í pottinn og í gönguferð og við nutum lífsins. Krakkarnir fóru síðan heim á sunnudeginum enda vinnandi fólk!

Á mánudeginum hlupum við Gerða upp og meðfram Hvítá í áttina að Langjökli. Heildarvegalengd um 10 km. Mikið á fótinn. Eftir hádegi gengum við svo yfir Bjarnargil sem er gegnt Húsafelli. Á þriðjudeginum tókum við síðan aftur tvímenning og hlupum niður að Hraunfossum og aftur til baka (7 km hvor leið).

borgarfj2

Eftir stutta hvíld skelltum við okkur á Strút, fjallið keilulagaða sem blasir við fyrir framan Eiríksjökul þegar horft er frá Húsafelli. 

 

borgarfj3

 

Í bókinni Fólk á fjöllum - Gönguleiðir á 101 tind eftir þá Ara Trausta og Pétur Þorleifsson segir um Strút: "Strúturinn hjá Kalmanstungu í Borgarfirði er ákjósanlegt fjall ef sóst er eftir góðu útsýnisfjalli án mikils erfiðis." Þá segir sömuleiðis um leiðarmatið: "Nokkuð löng en ljúf fjallganga. Gott útsýni."

Það tók okkur Gerðu um 1 tíma og 45 mínútur að komast upp og 2 tíma á 2:53 mínútur fram og til baka. Við gengum eingöngu eftir veginum alla leið á toppinn. Á köflum alveg ferlega borgarfj4leiðinlegt að ganga í grófri mölinni sem sett hafði verið í veginn. Veðrið var alveg dásamlegt og ég gekk megnið af leiðinni ber að ofan slíkur var hitinn. En þegar upp á hálsinn er komið skall á okkur ískaldur norðan vindur frá Langjökli.

Gönguhækkunin er um 600 metrar en fjallið telst 937 m.y.s. Heildarvegalengdin var um 6,2 km upp á topp þaðan sem við lögðum bílnum og því 12,4 tótal. Þegar við bætum því við 14 km hlaupið niður að Hraunfossum var alveg ljóst að við ættum skilið einn kaldann þegar niður væri komið.

Ég segi þegar niður væri komið vegna þessa að við lögðum í þessa seinni ferð dagsins án þess að hafa vott né þurrt með okkur og Gerða sem jafnan svolgrar í sig litlu vatnsflöskurnar sínar hefði sko sannarlega þurf að vökva kverkarnar og var hálf pirruð a.m.k. út í sig sjálfa að hafa ætt af stað án þess að taka með sér eitthvað að drekka. Við sáum bíl keyra langleiðina upp og Gerða var farin að reikna út í huganaum hvað hún myndi borga viðkomandi fyrir einn drykk ef hann væri með. En bíllinn snéri við áður en við komumst í tæri við hann.

Af toppi Stúts var útsýnið gríðarlegt. Við rætur Strúts að norðan og austan sér yfir Hallmundarhraun. Eiríksjökull blasir af toppnum en Hafrafell og Geitlandsjökull til suðurs sem og Prestahnúkur enn lengra til suðurs. Kaldidalur liggur opinn til suðurs og til vinstri við hann er Þórisjökull en vestan dalsins Jökullinn Ok má fífil sinn fegurri. En árið 2014 var það úrskurðað að Ok teldist ekki lengur Jökull.

Í frétt RÚV segir:

Í september 2014 bárust þær fréttir að jökullinn Ok í samnefndu fjalli í Borgarfirði teldist ekki lengur jökull. Oddur Sigurðsson, jöklafræðingur, úrskurðaði að snjóbreiðan væri ekki lengur nógu þykk til að skríða undan eigin þunga og teldist þar af leiðandi ekki jökull. Þar með varð Ok fyrsti nafnkunni jökull landsins til að missa þessa nafnbót. Samkvæmt nýjustu rannsóknum verða allir 400 jöklar landsins horfnir árið 2170.

borgarfj6

 

 


Vesturgatan 2019

Við hjónin höfðum aðeins rætt að gaman væri að fara Vesturgötuna svokölluðu sem er utanvegahlaup frá Arnarfirði til Dýrafjarðar. 

Hlaupið er á Skaganum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem gjarnan er kenndur við Sléttanes eða Svalvoga, stundum kallaður Fjallaskagi en kannski oftast nefndur Vestfirsku alparnir. Fyrir skagann er enginn þjóðvegur en þar er stórmerkilegur og löngu landsþekktur ýtuvegur, einkaframtak Elísar Kjaran á áttunda áratugnum.

Hlaupið árið 2019 einkenndist af einmunablíðu svo mikilli að flestir ef ekki allir voru í stuttbuxum og jafnvel hlýrabol. Himinn var heiður og sólin skein allan tímann eða eins og hægt væri að segja. Geggjað veður! Á heimasíðu hlaupsins segir: "Hlaupið er niður brekku í lokin þannig að allir koma í mark af mikilli reisn."

vesturgata1

Ferðalagið átti sér ekki langan aðdraganda. Eftir Esjugöngu fimmtudaginn 4. júlí var ákveðið að skella sér. Gerða skráði hópinn en við vorum í slagtogi með Rósu og Hákoni í ákvarðanatökum varðandi þessa ferð eins og svo margar á undanförnum árum. Gerða bókaði 4 sæti í hlaupið en aðeins eitt í rútu (fyrir sjálfan sig)! Við hin vorum sett á biðlista og vonuðum það besta.

Farið var af stað út úr bænum eftir vinnu föstudaginn 19. júlí í rjómablíðu. Strax í Kollafirðinum bárust okkur skilaboð: "Þið eruð öll komin með rútupláss". Okkur leið betur við þetta og þurftum ekki að hafa áhyggjur af því að koma okkur inn í Stapadal í startið. Keyrðum í gegnum Dalina og gistum á bænum Hóli í miðri Reykhólasveit en Hóll er gamalt vesturgata3uppgert einbýlishús forfeðra Hákonar. Þar var gott að vera. Á laugardagsmorgun var ákveðið að skella sér í sund áður en haldið væri til Þingeyrar. Sunddótið var í bílnum og hann var læstur og enginn lykill! Eftir u.þ.b. 10 mínútna leit fannst lykillinn góði í snyrtitöskunni hjá Hákoni og við rétt sluppum í sundið, laugin Grettislaug á Reykhólum.

Eftir morgunmat og frágang var lagt af stað um klukkan 11:15 og komið til Þingeyrar á yfirfullt tjaldsvæðið upp úr klukkan 15. En á leiðinni höfðum við stoppað bæði á Dynjandisheiðinni og við Dynjanda vesturgata4sjálfan. Það var mikið fjör á tjaldsvæðinu enda fjallahjólakeppnin yfir tvöfalda Vesturgötu í algleymingi en nærri allir á svæðinu voru ýmist að hlaupa eða hjóla ef ekki bæði! 

vesturgata16

Frá Breiðablik hlupu a.m.k. 10 manns sem hér má sjá í blíðunni í Stapadal.

Á sunnudeginum var vaknað snemma, keppnisgögnin sótt og haldið af stað með rútunni klukkan 09 inn í Stapadal en sú leið tók u.þ.b. klukkutíma en ekið var yfir Hrafnseyrarheiðina. Þar tók við um klukkutíma bið eftir startinu í Vesturgötuna. Við lágum í grasinu og nutum blíðunnar og horfðum á nokkra úr tvöfaldri Vesturgötu hlaupa hjá og hvöttum þá vel enda búnir að leggja um 21 km. að baki. Fyrstu menn voru reyndar komnir hjá þegar við mættum á svæðið. Við hlupum heila Vesturgötu sem eru 24,2 kílómetrar og liggur leiðin frá Stapadal í Arnarfirði og að Sveinseyri í Dýrafirði.

vesturgata2

 

Startið sjálft var síðan um 100 metra frá þeim stað sem við lágum á. Gengum yfir sprænuna og þar var startið. Í stuttu máli þá var þetta alveg geggjað. Veðrið dásamlegt, ef eitthvað ervesturgata17startid hægt að kvarta þá var jafnvel of heitt á kafla. En að hlaupa í svona veðri og svona stað eru forréttindi. Á leiðinni eru nokkrar vatnsstöðvar með banönum, vatni, orkudrykkjum o.fl. sem var vel í sumarhitanum. Á leiðinni eru skilti til að telja kílómetrana en á þessari leið er talið niður sem er skemmtilega öðruvísi en maður á að venjast. 

Við Svalvogsvitann bættust 10 km hlaupararnir við hópinn en þeir ræstu klukkan 11 þannig að fremstu menn náðu að taka framúr okkur skjaldbökunum í heilli Vesturgötu. En skemmtilegt var að hlaupa í gegnum hópinn sem hvatti hlaupara mjög þegar við liðum framhjá. Það er gaman að segja frá því að hann Hlynur Guðmundsson sem sigraði í 10 km hlaupinu nokkuð örugglega gerði sér lítið fyrir og skokkaði frá Sveineyri í startið við Svalvoga. Hann var 48 mínútur út eftir og 38 mínútur til baka í keppninni sjálfri! Öflugur hlaupari þar á ferð en hann ætlaði sér ekki að hlaupa í Vesturgötunni þar sem hann hafði nýlokið við Laugavegshlaupið helgina á undan þar sem hann var 7 á heildarlistanum en þegar á hólminn var komið á Þingeyri stóðst kappinn ekki mátið. 

Það eru orð að sönnu að komið sé af mikilli reisn í markið við Sveinseyri en hlaupið er niður nokkuð bratta brekku. Gamli endaði á 2:53 og Gerða og hennar hlaupafélagar á 3:08. Hákon stakk okkur auðvitað af strax í byrjun og endaði á 2:11 eða í 10 sæti á heildarlistanum. Hann var líka sá eini sem kvartaði daginn eftir um strengi í lærum!

vesturgata15

Þegar í markið var komið fengum við far með björgunarsveitinni til Þingeyrar. Fórum í sund og nutum blíðunnar áfram. Svo var grillað fljótlega og spjallað fram eftir kvöldi. Á mánudeginum fórum við upp í Kirkjubólsdal til að skoða Múla gamla ættaróðalið. Upp úr klukkan 13 var síðan haldið heim á leið með aðeins tveimur pissutoppum sagði Hákon. Komið í bæinn um klukkan 19:15. Frábær ferð að baki. Heildarveglengd í akstri u.þ.b. 408 km x 2 og Reykhólaferðin að auki 2 x 14 km. Allt í allt ríflega 870 km þegar allt er talið.

vesturgata13

 

 

 

 

 

 


Veiðivötnin 2019

Hin árlega veiðiferð á hluta Köldukinnar-fjölskyldunnar inn í Veiðivötn hefst 13. júlí ár hvert og stendur yfir í 2 daga. Eftir að langar og strangar samningaviðræður þar sem sumir vildu fara af stað 09.30 en aðrir klukkan 10 var ákveðið að farið yrði af stað kl 09.45 og hist í kirkjugarðinum á Skarði í Landssveitinni. 

H20 lagði af stað klukkan 09.39 eða 6 mínútur á undan áætlun! Mikil þoka var á Hellisheiðinni og skyggnið nær ekkert. Komið var við á N1 á Selfossi til að bæta tæpum 5 lítrum af bensíni við og viti menn þegar þangað var komið var Elías fyrsti maður sem við sáum á planinu hjá KFC og Helga og Siggi ásamt Helgu Sigríði voru mætt þar líka. Svona eru menn fastheldnir þótt ekki hafi verið ætlunin að hittast á Selfossi.

veiðivotn3

Áfram var ekið og komið upp í Skarð þegar klukkan var 10 mínútur gengin í 12. Eftir að hafa Efstu foss í Ytri-Rangá nefnist Fossabrekkur og er hann rétt fyrir neðan vestari upptök árinnar skömmu eftir að komið er inn fyrir afréttarmörk Landmannaafréttar. Fossabrekkur eru gróðursæl vin í vikurauðninni sem þar er að finna og þarf að keyra að staðnum til að sjá hann, enda vel falinn. komið fyrir blómum, kertum og krossað yfir leiðin var haldið í kaffistopp í Fossabrekkum

Veiðivötn liggja í aflangri lægð með norðaustur – suðvesturstefnu. Lægðin er allt að 5 km breið og 35 km löng frá Norðurnámum á Landmannaafrétti að Ljósufjöllum. Veiðivatnasvæðið frá veiðivotn1Snjóölduvatni norðaustur í Hraunvötn er um 20 km veiðivotn5langt. Suðaustan við svæðið er móbergshryggur, Snjóöldufjallgarður en öskugígaröð, Vatnaöldur að norðvestanverðu. Í lægðinni eru fjölmörg stöðuvötn og pollar.

Komið var inn í Vötnin 13.15. Okkur til ánægju sáum við að Bjalli var laus. Kvörtun ættmóðurinnar fyrir nokkrum árum hefur grenilega skilað árangri. Þegar komið var í Varðberg urðu fagnaðarfundir. Tómas þurfti ekki að greiða veiðileyfi enda erum við fjölskyldan duglega í grisjun eins og Bryndís veiðivörður nefndi.

Þegar komið var inn í Bjalla tók á móti okkur mjög svo "óskilgreind kallalykt" sem a.m.k. bæði ættmóðirin og Gerða fundu en ekki við strákarnir! Veðrið var hið fegursta. Mjög heitt. Og fluga svo mikilveiðivotn6 að það komið að því að amma setji upp net.

Elli vill byrja i Langavatni/eskivatni. Alveg sama segir gerða. 10 mínútum siðar. Eigum við ekki að byrja í Ónýtavatni og fara svo hitt? Og fyrsta kastið 14.32 hjá Elíasi sjálfum. En fyrsti fiskurinn kom á land hjá gamla kl 14.43, lítill urriði. 15.25 mætt á bakkann í Arnarpolli. Farin kl 15.48. Ekki vör.

Haldið í Breiðavatn. Gerða með fisk í fyrsta kasti og vör í því næsta. Elli og Atli og gamli fengu allir fisk (innskot TBJ. en lélegi sonurinn er enn með öngulinn á bólakafi...). Í Breiðavatni bættist Eyþór í hópinn en hann fagnaði afmæli móður sinnar á Hrafnistu og hélt Álftanesfjölskyldan heldur seinna af stað en við hin. Haldið yfir kvíslina hjá Kvíslarvatni og í strauminn í Eskivatni gamla veiðistaðinn hans Todda sagði Elli. Gaman að komast loks yfir kvíslina en vatnið þar rétt náði upp á felgur á bílunum en í gegnum árin hefur þetta aðeins verið jeppafæri að fara þarna yfir.

Klukkan 18.06 gerðist það sem allir biðu eftir. TBJ er kominn á blað. "..Ég var að draga inn og þá sá ég hann og rykkti í og öskraði: Hann er á."

Kl 18.47 á Sandeyrinn í Langavatni. 2 fiskurinn í röð. Hvað er í gangi eiginlega. Sigur í vítakeppni í gær og núna 2 fiskar i röð og kominn á toppinn á meðal þeirra bestu. 19.15 haldið í mat. Allt hefðbundið hér. Hangikjöt með uppstúi og kartöflusalati og rúgbrauði frá frú Guðnýju. Geggjað. 20.28 komin á bakkann í Litlasjó. Tómas og Helga Sigríður fóru saman á Langavatnsbakkann. Í stuttu máli - 3-0 hvað er að gerast! Á meðan forystumenn veiðifélagsins veiðivotn7Davíðs (Ölið, Ingason, Davíðsson) fóru erindisleysu í Litlasjó fór Tómas á bakkann og halaði inn einum. Hætt 23.40. Tómt rugl að lengja þetta en við fengum að sofa u.þ.b. 20 mínútum lengur í staðinn.  Mikil þoka yfir öllu og erfitt að keyra heim úr Litlasjó. Ekkert útsýni af Hádegisöldu yfir skálavæðið. 

Vekjaraklukkur hringdu 06.50 og komin á bakkann kl. 07.27. Tómas svaf lengur sem og Elli. "Ég kem í fyrsta lagi klukkan 10" var það síðasta sem Elli sagði fyrir svefninn. Gerða fékk títt 07.33. Logn og ótrúlega fallegur morgunn. 9 stiga hiti, skýjað og fluga. Ekkert heyrðist nema suðið í flugum, vatnsniðurinn við Slýdrátt og söngur lóunnar. Smá líf í Langavatni. 4 fiskar á land og Eyþór kominn á blað. Merkilegast var þó fundur þrettán himbrima á Langavatni. Þeir sennilega að ráða ráðum sínum fyrir sumarið. En magnað að sjá þá koma svífandi eina 9 saman og hitta 3 til viðbótar sem syntur á Langavatni. Eskivatn næst. 5 á land. Frekar smátt.

Fyrst hægt er að fara yfir kvíslina hjá Kvíslarvatni er fínt að fara þá leið. Fýluferð í Kvíslarvatni. En fengum kaffi og aflin sóttur. Haldið í Snjóölduna í strauminn. 7 á land flestir mjög smáir. Flugan allt að drepa. 4 til viðbótar bættust við á ströndinni í Snjóöldu. Klukkan 14 haldið í Ónýtavatn. Gamli sló í gegn og fékk 2 urriða þar af einn 2.5 pund sem reyndist þegar upp var staðið stærsti fiskurinn í ferðinni a.m.k. hjá H20 fjölskyldunni. Mikið af festum. Haldið í Litla Skálavatn kl 16. Ekkert en Elli með einn. Enginn fiskur í Háulind síðan 16.16 og kl orðin veiðivotn821. En þá komu 3 urrandi urriðar í Ónýtavatni. Pundarar allir. Svo í Arnarpoll og Breiðavatn ekkert. Atli keyrði yfir kvíslina. Haldið heim á leið um 23.15

Mætt 07.30 á Langavatnsbakkann. Og það var maður kominn Skellur! En við fórum samt og fældum hann í burtu 5 mín seinna. Ekkert. Fórum á gamla bakkann og Gerða raðaði inn fiskum í lokaköstunum! 5 alls hjá okkur. Allir frekar smáir. Næst Eskivatni þar var á í hverju kasti en alltof lítið. Atli svolítið í að veiða og sleppa. "Ég hefði ekki viljað missa af þessu.." sagði Tómas þegar við vorum komin í bílinn aftur. Farið í stóra Breiðavatn og endað þar upp úr kl 12. Þar kom golli á land hjá TBJ 1.2 pund ala 2 pund eins og hann sagði sjálfur. 

Haldið upp í hús klukkan 12.30 tekið saman og þrifið. Skilað inn veiðileyfum og þess háttar og haldið úr Vötnunum kæru fyrir klukkan 14. Komið við í Árnesi og veiðifélagarnir kvaddir og komin heim í Háulind um klukkan 16.25.

Veiðisamantekt: 46 fiskar á land. Flestir frekar smáir og voru stærstu fiskarnir að þessu sinni á bilinu 1,5-2,5 pund.

 

 

Veiðivötn 2018

(Dagbók ferðarinnar)

 

Vaknað klukkan 07.30 í grenjandi rigningu. Helga Katrín lagði af stað til Malaga í morgun en Tómas lagði sig eftir blaðburðinn. Atli líklega vaknaður og er að strjúka nýja símann.

Brottför klukkan 9.25! Átti að vera 9.30 (Hamarsættin). Dimm þoka og rigning á heiðinni. Tókum bensín á N1 og hittum þar ömmu og afa. Hittum Ella í Skarði. Þar var ákveðið að borða nesti við Fossbrekkur. Fínn staður og ákveðið að gera það hér eftir.

Komið inn í Veiðivötn kl 13. Nýr veiðivörður og ný skráningar dama. Hvað er að gerast! Allir farnir úr Bjalla og við komin í hús kl 13.30. Komin rafmagnskaffikanna. Amma glöð en um leið þreytt. Gerða orðin klár fyrir 14. Veit Gerða ekki að við megum ekki byrja fyrr en kl 15 spyr Elli. Lagt af stað, í veiði með, leyfi Notabene. Byrjað í Ónýtavatni kl 14.25. rok og rigning fyrir allan peninginn. Atli fær einn urriða 0,5 um kl 15. Farið kl 15.02 í Arnarpoll á bryggjuna. Atli fær einn flottan 2,5 pund af klettunum. Gerða húkkar annann. Farin í Strauminn í Snjóöldu kl 16.45.

Straumur í Snjóöldu = mokveiði. En bara litlir tittir sem flestum var hent. En jú allir á blað. Gamli fékk hinu megin 1 stk bleikju. Allir komnir á blað. Haldið fljótlega í Breiðavatn. Eftir smá villu rötuðum við. 2 bleikjur á land. Ein fín ca 1,5 pund hjá Gerðu og Atli fékk ágæta.

Inn kl 18.50 í hangikjötið. Virkilega gott. Kominn á bakkann á Síldarplanið í Fossvatni kl 19.57. Engin veiði og enginn var. Kominn í Hjaltavíkina í Litla sjó kl 20.40. Gerða lét Ella plata sig. Báran var svona á ská í Hjaltavíkina. En ákaflega lítið að hafa þarna. Gerða fékk einn titt og missti annan sem var örugglega stærri! Lægði með kvöldinu en smá rigning stöðug. Elli fór heim 22.45.

Laugardagur 14 júli.

Vaknað 06.30. Smá prumpusynfónía hjá Ella en annars sváfu allir vel. Mætt á bakkann um kl 7. Langavatnsbakkann. Gerða varð vör í fyrstu 3 köstunum og landaði einum litlum. Svo fékk Atli annan. Allt í gangi Um klukkan 8 komst kallinn loks á blað. Og þá fœr sólin að, skína (svo sem ekki viss að það tengist samt). Heim kl 09 eftir að gaur með flugu kom þétt upp að okkur. Heim á Setberg og allir ræstir. Allir léttari eftir stoppið og valhoppaði Atli. En 5 bleikjur af eyrinni í Langavatni. Jón 3 ein ágæt. Atli 2 stk og Gerða 1 stk. Haldið í litla Skálavatn fyrst menn voru á báti í stóra. Einn urriði á land, smár og fékk Jón hann.

Kl 11 var komið í Ónýtavatn og kastað út í festurnar þar. Helga og Siggi komu með kaffi en annars var ekkert að hafa. Skýring á stóra bátamálinu. Veiðiverðir sóttu net og voru að skrá og vigta. Kiddi sagði að nú væri vestanátt og þá veiddist ekkert. Engi veiði og komið í Arnarpollinn kl 1145. Komið í Snjóölduvatn um kl,12. Á í næstum hverju kasti en of litlir.

En 2 flugu fiskar hjá Atla HÚRRA! og 1 venjulegur. 2 stk hjá Gerðu en allir mjög litlir. Haldið í Breiðavatn kl 13. Sól og 12 stiga hiti. Samkeppni í Breiðavatani við 3 himbrima. En fín veiði. 5 bleikjur allar ca 1 pund sú stærsta 1,5. Gerða 3 stk og J 2. Farið á annan stað í Breiðavatni en ekkert. Brunað í Kvíslarvatnsgíginn í verulega góðu veðri. Ekkert. Komið við í Kvíslarvatni á leið í Skálavatn kl 16. Farið bæði í botninn og við bakkann.

Jón fór í kvíar í Skálavatni og varð ekki var. Sleit og fór heim. Gerða og Atli fóru í Breiðavatn og kom ein lítil bleikja hjá Atla. Síðan í Litlasjó þar sem Gerða var háfari fyrir Atla. A fékk 10 og Gerða 2. Stærsti í kringum 4 og 3 ca 3 punda. Tóku alveg við landsteina. Fékk þann síðasta 1 mín í 23 og Herman þurfti útskýringa við þegar verið var að landa 23.06! Svo tók við myndataka og alles held að fimleika bræðurnir verði ánægðir með Atla! Má segja að loks hafi hlaupið á snærið hjá ömmu að fara rígmontin á aðgerðarborðið.

 

Sunnudagur 15 júlí.

Vaknað fyrir allar aldir og mætt á bakkann kl 07,á Langavatni. Gerða og Atli fengu fljótt sitthvoran smáfiskinn. Gerða annan áður en komið var að gamla sem fékk 3 fínar bleikjur í röð. Þegar sú þriðja kom á land sást til sólar, blár himinn og regnboga. Kom lagið popplag í G dúr upp Ä« hugann. Svo þegar þú birtist fer sólin að skína, smáfuglar ( allt svo krían) kvaka við raust.... Gerða fékk svo eina til.

Haldið í Litlasjó kl 09. G og A urðu vör í fyrst og svo ekki söguna meir.Kvöldvatn segir Atli. Haldið í Langavatn og fékk J einn punda bleikju ca. Komið í Bjalla kl 12.05. Brottför kl 1240.

 

Ónýtavatn 1 stk

Arnarpollur 2 stk

Snjóölduvatn 6 stk

Breiðavatn 8 stk

Litli sjór 13 stk

Langavatn 13 stk

Litla Skálavatn 1 stk

 

 


Næstum eintóm hamingja á hamingjudögum

Gerða er búin að tala um Hamingjuhlaupið á Hólmavík síðan í fyrra og við bara létum verða af því í þetta skiptið. Hamingjuhlaupið tilheyrir flokki gleðihlaupa þ.e. engin sérstök hamingja15tímataka heldur er markmiðið að njóta en ekki þjóta og það þar ekki einu sinni að skrá sig í hlaupið! Hlaupararnir halda yfirleitt hópinn og fylgja fyrir fram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar þar sem hægt er að koma inn og fara út á hvaða stoppistöð sem er.

Hafþór Rafn Benediktsson frá Hólmavík hafði veg og vanda að skipulagningunni við að koma sér til og frá í hlaupið. Fékk lánaðan skólabílinn og mömmu sína og eiginkonu í akstur. Við hjónin ásamt yngst syninum lögðum af stað úr bænum klukkan 18.30. Komið var norður um klukkan 22 um kvöldið eftir stutt stopp í Borgarnesi.

Eftir næstum svefnlausa nótt var ræs um klukkan 07.30. Hafþór mætti upp úr klukkan 8.30 og lagt var af stað þessa rúmlega 70 km. leið frá Hólmavík í Djúpuvík í Reykjafirði þar sem við, 11 manna hópur frá hamingja1Breiðablik, kom inn á stoppistöð 3 í Hamingjuhlaupinu.

Hamingjuhlaupið fór fram í 11. sinn laugardaginn 29. júní 2019. Að þessu sinni lá leiðin frá Árnesi í Trékyllisvík til Hólmavíkur, samtals rúmlega 54 km. 

Samkvæmt nákvæmu skipulagi Stefáns Gíslasonar átti leggur 3 frá Djúpuvík í Bólstað innst í Steingrímsfirði að taka 3 klukkutíma og 40 mínútur og samkvæmt mínum mælingum reyndist tími okkar Breiðablikfólks 3 tímar og 49 mínútur - eftir gott stopp til myndatöku á útsýnispalli fyrir ofan Selárdalinn. Við gömlu brúnna yfir Selá beið okkar skólabílinn góði þar sem hamingja12við (öll 11) tróðum okkur í 9 manna bílinn og ókum síðustu 15-16 kílómetrana til Hólmavíkur.

Þar fórum við úr blautum skónum og sokkum og biðum í rúman 1,5 tíma eftir að sameinast hópnum á ný við Lögreglustöðina í Hólmavík. Það var svo hlaupið fylktu liði niður í bæ þar sem okkur var fagnað mjög af kökuþyrstum gestum Hamingjudaga. En hefð ef fyrir því að hlaupararnir hlaupi beint að kökuhlaðborðinu og fái fyrstir að gæða sér á kökum og kruðeríi í boði heimamanna. Taldist Stefáni til að þátttakendur í hamingja14hlaupinu að þessu sinni hafi verið 38 (þar af hlupu 21 yfir Tékkyllisheiðina og 5 alla leið eða 54 kílómetra.

Leiðin yfir Trékyllisheiðina var að stórum hluta eftir línuvegum en einnig var hlaupið á móum og melum. Stiklað yfir Kjósará á steinum (hefðum reyndar getað farið yfir hana á lítilli göngubrú) en Stefán hafði aðeins villst af leið á þessum kafla! Þá fylgdum við um tíma gamla jarðsímastrengnum sem reyndar bara ekki nafn með rentu því hann lá hreinlega ofan á jörðinni á löngum kafla. Vaðið í skóm og sokkum yfir Goðdalsá og leið okkur sérstaklega vel í fótunum eftir kælinguna í ánni!

Veðrið var napurt, hvöss norðaustan átt (sem var þá sem betur fer í bakið), þokuslæðingur norðan til og varla nema 2-3°C á fjöllum. 

Samkvæmt Garmin úrinu hófst gangan í 47 m.y.s. og mestri hæð náðum við í u.þ.b. 461 m.y.s. Heildarhækkun reyndist vera um 487 metrar en lækkunin mun meiri! Greinlega eitthvað sem þarf að skoða nánar.

hamingja13 

Í fyrirsögn segi ég næstum eintóm hamingja á Hamingjudögum. Það var bara hann Örn sem skemmdi fyrir - vandræðagemsinn í hjólhýsinu við hliðina sem var með tónleika til 03 um nóttina fyrir hlaupið. Fínn play-listi EN ekki gaman þegar maður er ekki alveg í stuði fyrir að láta skemmta sér! En Sagan segir að þátttakendur öðlist mikla hamingju að hlaupi loknu og það voru sko orð að sönnu! Eftir kökuhlaðborðið fórum við í sundlaugina, grilluðum og spjölluðum aðeins fram eftir kvöldi. Vöknðuðum um klukkan 9 morguninn eftir og hófumst eiginlega strax handa við að pakka saman enda var alskýjað, hiti 5 stig og töluverður vindur að norðan. Lögðum af stað upp úr 11 heim og vorum komin í Háulindina um klukkan 14:49.

hamingja5

Allir hamingjuhlaupararnir (nema ca. 2) saman komnir á Kálfanesskeiði. Lausleg talning gaf töluna 36, sem þýðir að þátttakendur voru a.m.k. 38.


Hlaupið yfir Skarðsheiðarveg

Laugardaginn 18. maí hlupum við hjónin eftir Skarðsheiðarvegi. Hlaupið var skipulagt af Sölku bókaútgáfu og markaði upphaf hlaupaársins hjá Stefáni Gíslasyni fjallvegahlaupara.

Skarðheiðarvegur1

Um 50 hlauparar komu saman á Skorholtsmelum í Melasveit og þaðan var hlaupið að Hreppslaug í Andakíl. Á myndinni má sjá hópinn rétt fyrir startið og eftir smá tölu frá Stefáni (sá í gula jakkanum með svart belti um sig miðjan) var haldið af stað. Í færslu á Facebook síðu Fjallvegahlaupa segir Stefán svo frá: 

"Allur hópurinn samankominn á Skorholtsmelum, þ.e.a.s. næstum allur hópurinn. Þegar myndin var tekin voru 9 ofurhlauparar á leið suður Skarðsheiðarveginn til að geta hlaupið hann norður aftur með okkur, 2 ofurhlauparar voru að koma hlaupandi úr Borgarnesi og 5 manna hópur tafðist við að kljást við sprungið dekk. Leiðin lá svo á milli fjallanna þar sem lægst ber, með Hafnarfjall og Hrossatungur á vinstri hönd og Skarðsheiðina á hægri hönd. Leiðin öll frá upphafsstað að Hreppslaug var rétt um 21 km. Og þegar allt er talið voru þetta um 60 manns!!!"

Leiðin um Skarðsheiðarveg er um 19,76 km löng og fylgir öll greinilegum stígum. Hún er því þægileg yfirferðar þrátt fyrir nokkra hækkun. Leiðin um Skarðsheiðarveg er ein af þeim fimmtíu sem gerð eru skil í bókinni Fjallvegahlaup eftir Stefán Gíslason sem Salka gaf út. 

Dagurinn hófst á því að við Gerða sóttum hlaupafélagana Margréti, Rósu og Möggu Lukku og héldum upp í Melasveit. Við vorum að sjálfsögðu fyrst á staðinn og keyrðum því smá 

Skarðheiðarvegur4Skarðheiðarvegur2útsýnishring áður en við lögðum bílnum á Skorholtsmelum. Hlaupið hófst svo formlega klukkan 10:05 skv. Garmin úrinu mínu. Fyrstu 5 kílómetrana er hlaupið eftir malarvegi og að svokölluðum Kinnum og Moldarbarði og þar hefjast brekkurnar.

Já ef brekkur skyldi kalla fyrir okkur Esjufarana! Í bók sinni Fjallvegahlaup segir Stefán: Skarðsheiðarvegur er hin forna þjóðleið milli Leirársveitar og Andakíls, þvert fyrir vesturenda Skarðsheiðarinnar. Þ.e. um Miðfitjarskarð milli Skarðsheiðar að austan og Hafnarfjalls og Hrossatungna að vestan.

Veðrið var frábært fyrir hlaup í það minnsta fyrri hluta leiðarinnar. Ekkert alltof mikil sól en hitinn töluverður og veitti ekkert af því að vera léttklæddur á uppleiðinni. Uppleiðin einkenndist af mjúkum moldarstígum upp Leirárdalinn með Svörtutinda á vinstri hönd og Skarðsheiðina á þá hægri. Þegar komið er á efsta punkt leiðarinnar í u.þ.b.Skarðheiðarvegur7 460-470 metra hæð var hlaupið eftir línuvegum niður á þjóðveginn skammt fyrir ofan Hreppslaug. Á myndinni hérna til hægra má sjá hlaupara á Miðfitjum þar sem vaða þarf (hoppa þarf yfir) Leirá. Vegurinn áfram sést greinilega vinstra megin í holtinu framundan. Miðfitjarhóll er svo aðeins hærra og meira til hægri. Þar er hæsti punktur leiðarinnar (460-470 m.y.s). 

Það er síðan hlaupið eftir þjóðveginum að Hreppslaug tæpan Skarðheiðarvegur8kílómetra til viðbótar. Á myndinni sést Skessuhornið vel í baksýn. Þegar þangað var komið sagði Garmin úrið að tíminn væri 2:46 og kílómetranir 20,47. Fyrir hlaupið hafði kona Stefáns ferjað farangur þ.á.m. sundföt og drykki upp í Hreppslaug. Það var yndislegt að teygja úr sér (eins mikið og það var nú hægt í þröngum pottinum) og slaka á og bíða eftir því að Hákon Sverrisson myndi renna í hlað til að skutla okkur hjónum aftur á Skorholtsmela að sækja bílinn. 

Leiðina má sjá hér á myndinni:

Skarðheiðarvegur6

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Gengið á Kirkjufell í Grundarfirði!

Ákirkjufell_allir Hvítasunnuhelginni 8.-10. júní 2019 barst mér svohljóðandi skeyti:

"Það er gluggi fyrir hádegi á mánudaginn á Kirkjufellið". Sá sem sendi þetta skeyti er göngufélaginn Guðmundur Stefán (GSM). Við félagarnir ákváðum að nýta okkur geggjaða veðurspá fyrir mánudaginn og ganga á Kirkjufellið ásamt þriðja manninum Antoni Antonssyni.

Lagt var af stað úr bænum um klukkan 07.30 að morgni og komið vestur upp úr klukkan 9.30. Eftir að hafa fundið bílnum stæði við gatnamótin heim að bænum Hálsi skammt ofan Kirkjufellsfossa var arkað af stað.

 

kirkjufell2

 Samkvæmt Garmin úrinu var lagt af stað klukkan 09:57. Við gengum upp mosagrónar brekkur og mela. Sáum ekki fyrr en á niðurleiðinni að fínn stígur er vestan við girðinguna. 

Í lýsingu Ara Trausta Guðmundssonar og Péturs Þorleifssonar í bókinni "Fólk á fjöllum. Gönguleiðir á 101 tind" segir svo um Kirkjufell.


Gönguleið: Mjög brött, mishá klettabelti, hallandi, oft hálir grasfláar. Klettar efst með keðju til að handstyrkja sig eftir.
Leiðarmat: Erfið leið og nokkuð hættuleg á þekkt og áhrifamikið fjall. Helst fyrir vana fjallamenn og áræðna göngumenn en ekki fyrir lofthrædda. Lýsing Ara Trausta átti svo sannarlega við þótt hvergi hafi ég séð keðjuna!

Við félagarnir þræddum vel greinilegan stíg alla leiðina upp á topp. Stígarnir voru fínir og þræddu leiðina á milli stallana í fjallinu og lágu á köflum um all brattar hlíðar Kirkjufellsins. 

Á þremur stöðum er búið að koma fyrir köðlum til stuðnings við að klifra upp nær lóðréttan hamar. Á myndinni hér má sjá Anton að koma niður efsta hjallann þar sem tveir kaðlar voru til stuðnings. Efsti hjallinn (toppurinn sjálfur) lítur óárennilega út en er auðveldari en hann sýnist.

kirkjufell4Ófeigur Sigurðsson Esjuvinur okkar sagði við okkur í vetur að fyrir okkur Ejsuvini og þá sem vanir eru að ganga á Esjuna í öllum veðrum þá sé Kirkjufellið ekki erfitt en það sé hins vegar býsna bratt á köflum og ekki gott að vera þar ferðinni með lofthræðslu í farteskinu.

Ferðin tók allt í allt rétt rúma 3 klukkutíma með mjöööööög góðum stoppum bæði á útsýnis stallinum fína skammt fyrir neðan kaðal 2 sem og uppi á fjallinu sjálfu. Uppi á fjallinu er töluvert löng leið yfir á "hinn" toppinn með útsýni til vesturs yfir Kvíabryggju og Tröllakirkju. Heildarvegalengd mældist 5,4 km.

Veðrið gerist ekki betra. Heiðskýrt, sól og nánast logn stóran hlut leiðarinnar. Útsýnið hreint frábært í hvaða átt sem horft var. 

Ég er hjartanlega sammála bæði Ara Trausta og Ófeigi að leiðin sjálf er kannski ekkert sérlega erfið enda fjallið ekkert voðalega hátt eða 463 m.y.s. en seinfarið á köflum þar sem fara þarf varlega.

Á heimleiðinni keyrðum við lengri leiðina heim og fórum fyrir nesið. Í gegnum Ólafsvík, Rif og Hellissand. Framhjá kirkjufell_sloGufuskálum og áfram fyrir nesið. Stoppuðum á Fjöruhúsinu á Hellnum og fengum okkur vöfflur, fiskisúpu og bjór. Sátum úti og nutum lífsins. 

Áfram brunuðum við heimsleiðis með smá stoppi hér og þar þ.á.m. við Arnarstapa og í sumarbústaðabyggð við Langá á Mýrum. Komnir heim í Höfuðborgina að verða 6 um kvöldið. Frábær ferð í alla staði.

 

Hérna fyrir neðan er GPS ferill frá Toppförum sem fóru svipaða leið og við árið 2015 en tók aðeins lengri tíma enda um mun fleiri að ræða í þeirri ferð. Þar sem bara einn fer í einu í gegnum kaðlana þá tekur hópferð mun lengri tíma.kirkjufell_slod

 


Næsta síða »

Um bloggið

JónJóhannBloggar

Hér eru léttar lýsingar á upplifun á ferðum höfundar.

Höfundur

Jón Jóhann Þórðarson
Jón Jóhann  Þórðarson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • hopur skarðsheiði
  • Hlöðufell leid
  • Hlöðufell hopur
  • HopruinnOGHrutaborg
  • Eyjadalur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband