Gengið um Hengil að Úlfljótsvatni

Laugardagurinn 25. apríl 2020 rann upp bjartur og fagur. Veðurfræðingarnir höfðu lofað þessu veðri sunnan lands. Heiðskýrum himni, sól, hita allt að 15 stigum sunnanlands en austan gjólu. Þetta veður bætti heldur betur upp fyrir Sumardaginn fyrsta þar sem dökkgrár himinninn og frekar köld gjólan var ekki spennandi fyrir margra tíma göngu. 

Ulfljotsvatn9

 

Uppstillt á bílastæðinu við Sleggjubeinsskarð í upphafi göngu.

Ath - smella á myndir til að gera þær stærri

 

Vaknað rétt fyrir klukkan 8 og allt gert klárt áður en ferðafélagarnir Hákon og Rósa mættu upp úr klukkan 09. Það var ekið beina leið upp í Sleggjubeinsdal þar sem gangan hófst. Í stuttu máli ákváðum við helgina undan að ganga um huliðsheima Hengilsins að Úlfljótsvatni. Leiðin skv býsna nákvæmum skiltum Orkuveitunnar var sögð 23,8 km. Með okkar útúrdúrum mældist gangan 26,5 km. Skv. leiðarlýsingum er talað um: "Fjölbreytt útsýnisleið, auðveld en kallar á úthald." Úthald var akkúrat það sem þurfti til að klára þessa ferð.

Ulfljotsvatn1

Leiðin hefst í Sleggjubeinsdal innan við Hellisheiðarvirkjun. Gengið er upp hrygginn milli Sleggju og Skarðsmýrarfjalls upp í Sleggjubeinsskarð. Að austanverðu er öflugt hverasvæði sem skartar mikilli litadýrð.  Uppi í skarðinu er skilti sem skiptir leiðum, önnur um vesturhlíð skarðsins upp á Vörðu-Skeggja hin sem við göngum leiðir okkur inn í Innstadal sem er innstur Hengladala. Það var ótrúlega mikill munur á brekkunni upp skarðið frá því að við fórum þarna upp á Skírdegi 2 vikum áður. Snjórinn hafði hopað mikið. Gangan upp tekur kannski ekki mikið á en í hitanum var hún bara talsvert erfið.

Slóðin heldur áfram með suðurhlið dalsins sem er grasi gróinn og sléttur, girtur fjöllum allan hringinn, Hengillinn í allri sinni dýrð til norðurs. Að austanverðu er gróið hraun, Ulfljotsvatn10þar þrengist dalurinn. En á okkar göngu var snjór yfir öllu og við sáum hvorki grasi gróinn dalinn og það rétt grillti í hraunið á stöku stað.

Í hrauninu er skilti sem skiptir leiðum, önnur áfram til austurs yfir á Ölkelduháls, hin til norðurs upp á Vörðu-Skeggja. Að skiltinu eru 3,3km. En í stað þess að ganga að skiltinu þá gengum við upp að skála Fjallaskíðafélagsins og kíktum í gilið austan við skálann þar sem er heitur lækur. Þetta lengdi sannarlega leiðina um 2-3 kílómetra. Gerða og Rósa forðuðu sér langt frá skálanum til að létta á sér enda vefmyndavél á skálanum sem væntanlega fór í gang við minnstu hreyfingu. Rétt neðan við skálann er spræna en þar fórum við varlega yfir snjóbrú sem gæti gefið sig hvenær sem er.

Áfram gengum við út mjókkandi dalinn. Hér þurftum við að vaða yfir á þar sem brattar snjófannir voru á norðurendanum. Engir voru vaðskórnir en nú kom litla Flugfélags golf-handklæðið sér vel! Gengum áfram í genum skarðið á milli Innstadals og Fremstadals áfram eftir brekkunni og suður fyrir Kýrgilshnjúk. Þegar framhjá Kýrgilshnjúki er komið opnast stórkostlegt útsýni yfir Þingvallavatn og fjöllin handan þess.

Ulfljotsvatn5

Útsýnið yfir Þingvallavatn var stórkostlegt.

 

Hér áðum við í skjóli kletta. Áfram gengum við nokkurn spöl yfir mjög mjúka malarkamba þar sem við sukkum að ökklum í drullu alla leið að Ölkelduhálsi þar sem við skoðuðum hagla-skotið upplýsingaskilti og drög að nýjum ferðum fæddust. Áfram haldið upp létta grasbrekku að Ölkelduhnjúki. Farið norðan við hnjúkinn. Hér voru falleg lón og hverir á hverju strái og áfram að Dalskarðshnjúki. Þar skiptast leiðir og hægt að fara hring um Tjarnarhnjúk, Lakahnjúk og Hrómundartind framhjá Kattartjörnum. Sú leið frá skiltinu við Ölkelduháls er um 12 km. Við göngum áfram niður hallan, yfir nokkuð bratt gil og yfir fallegt hverasvæði að skilti við Dalsel. Héðan eru 8,5 km frá skiltinu og 11,8 alls.

Frá vegprestinum við Dalsel skiptast leiðir önnur liggur um 4 km leið (sem við förum) að Álúti en hin niður í Klambragil. Þar er gott tækifæri til að baða sig í heita læknum. Gengið er síðan upp slakkann og upp í Dalskarð. Úr skarðinu rétt ofan við hverasvæðið sem staðsett er undir Dalskarðshnúk er gott útsýni yfir Klambragil og Molddalahnúka.

Farið er niður hlíðina í Grænadal sem svo sannarlega bar nafn með rentu. Leiðin liggur nú um mjög virkt hverasvæði sem hefur breyst nokkuð í jarðskjálftanum 2008 þar sem margir nýir Ulfljotsvatn6hverir hafa myndast og allnokkuð jarðrask þar sem hlíðar í giljum hafa skriðið fram. Því þarf að fara varlega eins og reyndar á öllum hverasvæðum. Hér þarf að vaða eða stikla Grænadalsánna. 

Frá Hverasvæðinu er haldið upp nokkuð bratta brekku í skarðið á milli Selfjalls og Álúts. Rétt áður en við komum að Álúti sáum við stikurnar enda skyndilega. Í skarðinu var leiðin öll á bólakafi í snjó. En við sikk sökkuðum upp. Nokkuð stíf brekka en ekki löng. Að Álúti eru 4,1 km frá Dalseli og 15.9 km alls. Af Álút er stórfenglegt útsýni yfir Ölfus til Hveragerðis, Kamba og til Þingvallavatns. Af Álúti er gengið niður Efjumýrarhrygg og að Dagmálafelli og niður á Selflatir. Dagmálafell er með gott útsýni til allra átta, Þingvallavatn, Úlfljótsvatn, Grímsnes og Ingólfsfjall.  Létt en Ulfljotsvatn8nokkuð löng ganga segir í leiðarlýsingu en það getum við sem fórum þessa ferð að hún var sko alls ekki létt! Enda sukkum við upp fyrir ökkla í drullu örugglega 5-6 km af þeim 9 sem eftir voru ferðar. Áður en við steypum okkur niður síðustu brekkurnar fyrir ofan réttirnar var kaffistopp í annað sinn í ferðinni og þá var notað tækifærið og hringt í Atla og honum sagt að fara af stað til að sækja okkur. 

Skammt ofan Selflata eru Grafningsréttir. Hér þarf að fara yfir Fossá og niður ásana ofan við Úlfljótsvatn. Rósa nennti ekkert að standa í þessu lengur og stikaði stórum beint yfir ánna. "Þurfti að hvort sem er að skola skóna," sagði hún.  Gengið er um gott berjaland í nokkuð þéttu kjarri sem þéttist eftir því sem neðar dregur. Slóðin sveigir niður með ánni og við fylgjum síðan vegaslóða að upplýsingaskilti við Úlfljótsvatn. Þessi vegarslóði var algjört helvíti en þar sukkum við áfram í drullu síðustu metrana og mikið vorum við feginn þegar við sáum Atla koma í áttina að okkur til að keyra okkur heim. Frá Álúti og að upplýsingaskiltinu eru 8,9 km og heildargangan því orðin 26,5 km alls með útúrdúrum.

Í bílnum hjá Atla var fullt ísbox af drykkjum: "Besti bjór sem ég hef smakkað", sagði Hákon, "Besta kók sem ég hef smakkað," sagði Rósa og "Besta Prozecco sem ég hef smakkað," sagði Gerða. En mikið lifandis gott var að setjast niður og keyra heima að loknu sérdeilis góðu dagsverki. 

Ulfljotsvatn7

Lagt var af stað klukkan 09.45 og tíminn stöðvaður við bílinn hjá Atla við komuna að Úlfljótsvatni. Heildarvegalengd 26.5 kílómetrar. 8:34 var heildartíminn. Á göngu vorum við 6:29 og stopp í 2 tíma og 5 mínútur. Meðal gönguhraðinn var 4.1 km á klst (3.08 þegar stoppin eru reiknuð með). Mest fórum við í 501 metra hæð yfir sjávarmáli. Heildar uppganga (ascent) reyndist vera 1053 metrar og heildar niðurganga (descent) 1232 metrar. Hæsti punkturinn í ferðinni er tindurinn Álútur eða 501 m.y.s. Hann er ýmist sagður 481 eða 485 metrar og á skv. vefsíðu toppfara mældist tindurinn 508 metrar. En er þetta ekki bara innan skekkjumarka! 

Frábær ferð í alla staði. Mjög skemmtileg en nokkuð krefjandi leið um afar fjölbreytt svæði svo gott sem í túnfætinum heima. 

Hvað verður það næst? Nokkrum uppástungum var kastað fram. Kattartjarnarleið, Selvogsgatan, Heiti lækurinn í Reykjadal og svo auðvitað Fimmvörðuhálsinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

JónJóhannBloggar

Hér eru léttar lýsingar á upplifun á ferðum höfundar.

Höfundur

Jón Jóhann Þórðarson
Jón Jóhann  Þórðarson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Mýrdalshlaupið - hlaupaleið
  • Mýrdalshlaupið - hlaupaleið
  • 20230703 071008
  • 20230705 082155
  • IMG 3587

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 4388

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband