Dyrfjallahlaup 2021

 

Það var sunnudaginn 16 maí sem pósturinn kom: ”Hákon Sverrisson var að senda þér meðfylgjandi miða: 1 miði/miðar á Dyrfjallahlaup COROS 2021.07.10 11:00”. Búið var að skrá mig og reyndar okkur hlaupahjónin ásamt hlaupahjónunum Hákon og Rósu í Dyrfjallahlaupið 2021. Tilhlökkunin var mikið, Dyrfjöllin eru hreint magnaður staður. Eitthvað sem ég ólst upp við að móðir mína talaði um reglulega hvað Dyrfjöllin væru falleg séð frá Jökulsárhlíðinni.

dyr9

Á toppi Brúnavíkurskarðs sáust Dyrfjöllin vel og þokan yfir firðinum niðri

 

Til að gæta allrar sanngirni þá var Dyrfjallahlaupið 2021 hvergi nálægt Dyrfjöllunum heldur um hið magnaða svæði Víkaslóðir á milli Borgarfjarðar Eystra og Loðmunarfjarðar. Á heimasíðu hreppsins segir svo:

  1. júlí 2021 - HLAUPIÐ EFTIR NÝJUM LEIÐUM UM VÍKNASLÓÐIR

Ungmennafélag Borgarfjarðar varð 100 ára 2017 og hélt af því tilefni sitt fyrsta utanvegahlaup í nágrenni Dyrfjalla. Þrisvar hefur verið hlaupin mjög krefjandi leið umhverfis Dyrfjöll gegnum Stórurð og einu sinni hlaupið um Víknaslóðir. Hlaupið verður haldið í fimmta sinn nú í sumar og að þessu sinni verður boðið upp á tvær alveg nýjar hlaupaleiðir um einstaka náttúru Víknaslóða. Hlaupið er eftir gönguleiðum sem hafa notið mikilla vinsælda göngufólks síðastliðin ár. Víknaslóðir eru einstakt svæði. Ljós líparítfjöll og skriður, í bland við dökka og tignarlega basalttinda.

Þá segir einnig um hlaupið sjálft:

Vegalengd 23.4 km - Heildarhækkun: 1076m - Heildarlækkun: 1132m - Hæsti punktur: 445m.y.s - Lægsti punktur: 5m. y.sm.

Eftir hina mögnuðu ferð í Stórurð (sjá sér bloggsíðu um það) komum við aftur á tjaldsvæðið á Borgarfirði og hittum Þjóðverjana okkar með pallhýsið þar sem við stálumst í rafmagn. Hákon ræddi við þau hjónin, sem voru að hefja 7 vikna ferðalag um Ísland, og sagði allt frágengið gagnvart tjaldvörðunum með rafmagnið! Eftir matinn fór þokan að síga inn fjörðinn og hvarf Bakkagerðiskirkja næstum í þokunni en kirkjan er aðeins í nokkur hundruð metra fjarlægð frá tjaldinu okkar. Þegar við vöknuðum morgunninn eftir var ennþá þoka yfir tjaldsvæðinu og við fórum að spá – hlaupum við bara í þoku og kulda? Eftir að hafa tekið litlu rútuna inn að Þverá í innsveitum Borgarfjarðar þá má segja í stuttu máli að veðrið var hreint geggjað allan tímann eða alveg þangað til við hlupum niður af Brúnavíkurskarðinu niður í Borgarfjörðinn og ofan í þokuna.

kirkja1

Varla sést í kirkjuna góðu frá tjaldsvæðinu fyrir þoku

dyr1

Við startið hjá brúnni

 

Hlaupið hófst klukkan 11:05 og margir hreinlega geystust af stað upp eftir veginum inn í Loðmundarfjörð. En fyrsti kílómetrinn a.m.k. var hlaupinn eftir veginum og hækkunin var nokkur. Ég furðaði mig á hversu margir voru ótrúlega vel klæddir m.v. hitann og sólina úti og auðvitað brattann. Ég fór ákaflega rólega af stað og var með öftustu mönnum lengi framan af enda sagðist Gerða alltaf hafa séð í ljósgræna bolinn skammt undan þangað til undir lokin. Af veginum beygðum við inn á gönguleið um Urðarhóla þar sem við fórum fetið á köflum. Áfram framhjá hinu fallega Urðarhólavatni og áfram að Víknaheiði (258m) og inn á grófan jeppaslóða sem liggur út í Breiðuvík að gönguskála. Leiðin eftir jappaslóðanum var að mestu leiti niður á við og því tiltölulega létt að hlaupa þótt maður þyrfti að passa sig á veginum vegna stórra steina sem þar voru. Ég var samferð stelpu á þrítugsaldri og skiptumst við á að vera með forystuna. Það sem mér þótti merkilegast að hlaupa svona með henni var hversu mikið hún másaði og blés a.m.k. á miðað við mig sem ekki kalla nú allt ömmu mína samt í þeim málum. Enda fór það svo að hún var greinilega að fara allt of hratt á miðað við hennar ástand og við fyrstu drykkjarstöð og fyrstu almennilegu brekkuna skildu leiðir og ég sá hana aldrei aftur!

dyr2

Urðarhólsvatnið fallega

dyr4

Horft niður í Breiðuvík

Rétt áður en fyrsta drykkjarstöðin kom óðum við yfir Stóruá í Breiðuvík þótt talað væri um göngubrú í leiðarlýsingunni. Þarna kom nokkuð mikil hækkun og ég týndi upp ala marga sem á undan mér voru. Frá Breiðuvík er hlaupið eftir gönguleið um gróið land og fallega líparítsmela ofan Kjólsvíkur að Syðra-varpi í 445m hæð. Að og frá Syðra-varpi er nokkuð bratt og erfitt að fóta sig á köflum í skriðunum og þurfti að fara ákaflega varlega. Þaðan er hlaupið ofan við Hvalvík og svo út Brúnavík niður að slysavarnaskýli. Vaða þarf Brúnavíkuránna stóð í lýsingunni en ég stiklaði nú bara þarna yfir enda áin ekki mikið vatnsfall en er hún þveruð alveg niður við sjó. Frá Brúnavík tekur við stíf brekka áleiðis að Brúnavíkurskarði (354m). Hlaupið er þennan hluta leiðarinnar eftir gamalli reiðgötu sem er góð og mikið gengin. Það var þarna sem ég áttaði mig á því að ég var í frábæru standi og hreinlega brunaði upp brekkuna og tók fram úr alveg slatti af mér mun yngri mönnum sem greinilega höfðu farið allt of geyst af stað. Ég var lengi vel samferða skólabróður mínum honum Thomasi og vini hans en þarna hreinlega stakk ég þá af og endaði 10 mínútum á undan þeim. Frá Brúnavíkurskarði liggur leiðin niður að sjó og þarna hreinlega flaug ég áfram og síðustu 400 metrana er hlaupið á malbiki að endamarki við Borgarfjarðarhöfn. Ekki stóðst það nú alveg enda var leiðin merkt niður og upp skurði á síðustu metrunum. Þeir voru það háir bakkarnir að Gerða ætlaði vart að hafa sig upp þegar þær Rósa komu að þeim.

Í markið kom ég á fullu spani ákaflega sáttur við mig og ég hefði alveg getað hlaupið lengra þegar þarna var komið. Garmin prógrammið að virka vel. Við endamarkið út við Hafnahólma tók við allof löng bið eftir fríum próteindrykk frá Unbroken fyrir endurheimt og svo ljúffengan, sérbruggaðan og áfengislausanbjór svokallaðan Dyrfjallabjór frá Múla. En ekkert vatn var í boði í markinu nema með Unbroken. Illu heilli þá kláraðist batteríið í úrinu rétt áður en ég náði toppinum á Brúnavíkurskarði og því náði ég ekki að mæla síðustu kílómetrana sem voru klárlega þeir lang hröðustu hjá mér í hlaupinu. 

Skömmu síðan mætti Hákon keyrandi með Heklu sem  hann hafði sagt að koma niður að höfn það væri bara rétt hjá! En við höfðum greinilega ekki kynnt okkur aðstæður þar sem Hafnarhólminn er nærri 5 kílómetra frá tjaldsvæðinu! Hákon sem var góðum 50 mínútum á undan mér húkkaði sér far inn á tjaldsvæði og náðí í bíl, drykki og dótturina og hitti okkur svo um það bil sem Gerða og Rósa komu samsíða í mark og fengu sömu tímaskráninguna. Hákon hljóp á 3:04:20, ég hljóp á 3:55:02 og þær Gerða og Rósa á 4:16:26.

 

dyr3

Umhverfið og veðrið var sturlað

 

dyr5

Horft í áttina að Syðra varpi

 

dyr6

Í brekkunum ofan Kjólsvíkur

 

dyra7

Þokan alltaf að gera sig líklega en náði samt aldrei að trufla

 

dyra8

Leiðin lá alveg niður í fjöru áður en að Brúnavíkurskarði kom

 

dyr8

Á leið niður Brúnavíkurskarðið

dyr10

Við vorum frekar létt að hlaupi loknu!

Eftir að komið var aftur í þokuna á tjaldsvæðinu ákváðum við að bruna inn á Egilsstaði og fara í sund. Það tókst hjá okkur Gerðu en Hákon og Rósa urðu frá að hverfa vegna ósveigjanleika draumsins í Olajuwon treyjuni í sundlauginni. Við gistum aftur inn á Skipalæk í Fellabæ. Á sunnudeginum tókum við daginn snemma fórum á Seyðisfjörð og stoppuðum við sjónvörpin á Fjarðarheiði og sungum í húsunum mögnuðu sem kölluð eru Tvísöngur . Eftir hádegið sigldum við niður á Höfn í Hornafirði á leið okkar heim. Horfðum á úrslitaleik EM á krá og drukkum bjór. Morgunninn eftir tókum við Gerða daginn snemma enda 500 km heim og undirbúningur fyrir Veiðivötnin daginn eftir varð að hefjast sem fyrst.  Magnaðri ferð með virkilega skemmtilegum ferðafélögum var lokið.

dyr13

Horft yfir Seyðisfjörð

 

dyr12

Kirkjan mögnuð og Regnbogansstræti líka

 

dyr16

Við sungum við Tvísöng

 

dyr15

Hin magnaða altarismynd eftir Kjarval af Jesús við Álfaklett

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

JónJóhannBloggar

Hér eru léttar lýsingar á upplifun á ferðum höfundar.

Höfundur

Jón Jóhann Þórðarson
Jón Jóhann  Þórðarson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Mýrdalshlaupið - hlaupaleið
  • Mýrdalshlaupið - hlaupaleið
  • 20230703 071008
  • 20230705 082155
  • IMG 3587

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 4388

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband