FIMMTUGSFERÐ TIL ÍTALÍU

 IMG 9711.HEIC

Hópurinn samankominn í garðinum við húsið

Það var í september 2021 sem fimmtugsferð Frábærra ferðafélaga var farin til Ítalíu, rétt tæpu ári síðar en til stóð. En þvílík ferð og þvílíkt land sem Ítalía er hvort sem horft er til veðurfars, mannlífs, matar eða drykkjar. Þetta var allt geggjað. Hópurinn skiptist upp í tvennt. Ítalía exstension fór utan laugardaginn 11 september (á 20 ára afmæli 9/11!) og restin af hópnum kom viku síðar. Saman dvöldum við síðan í húsi í bænum Orentano skammt austan við Pisa. 

IMG_0706.HEIC

Ítalía extension hópurinn á góðri stundu! (Vantar Gerðu á myndina)

 

Flogið var með Icelandair til Mílanó. Þangað vorum við komin uppúr klukkan átta á laugardagskvöldinu. Eftir að hafa fengið bílinn okkar í hendur (9 manna Benz) var ekið sem leið liggur til Desenzano við Garda vatnið. Þangað höfðum við Gerða áður komið enda bjó Þórunn systir Gerðu þar í nokkur ár þegar hún og Hlöðver lærðu söng hjá Kristján Jóhannssyni stórsöngvara. Við komum þarna í svartamyrkri og leiðsögutækið leiddi okkur beint í miðbæinn þar sem hótelið okkar var. Hótelið var svo sannarlega "downtown" því við keyrðum eftir að við héldum göngugötum að hótelinu og leið okkur ekkert vel enda áttum við eftir að skemmta okkur vel þegar við sáum aðra ferðalanga keyra eftir "göngugötunum" þegar við vorum úti að borða. Upp á hótel vorum við komin um 11 og fórum beint út að snæða.

Á sunnudeginum vöknuðum við snemma og leigðum okkur bát, enda með skipstjóra með í ferðinni, og sigldum í 2 tíma um Garda vatnið. Á mánudeginum ókum við sem leið lá til Feneyja með smá stoppi í Decathlon þar sem allir fengu sér bráðnauðsynlega sjópoka frá Decathlon. Þaðan var bílnum lagt og bátur tekinn til Feneyja. Það var magnað að ganga í Feneyjum þar sem tiltölulega fátt fólk var. Við skoðuðum helstu staðina og fórum rúnt með gondóla. Frá Feneyjum fórum við um klukkan 19 og stefnum á Wellness hótelið í gamla rómverska bænum Bagno di Romagna nánast í Ítalíu miðri. Á leiðinni sem nb var meðfram sjónum sem við aldrei sáum á meðan bjart var þar sem við keyrðum einbreiða götu með trjám á báðum hliðum. Við stoppuðum í kvöldmat á BBQ stað sem var hreinlega "in the middle of nowhere" en maturinn var ágætur en félagsskapurinn geggjaður.

Til Bagno di Romagna vorum við kominn upp úr klukkan 22 og tókum stutta göngu áður en við fórum í bælið. Daginn eftir lágum við við sundlaugina og sleiktum sólina í 2 tíma áður en við leigðum hjól og hjóluðum í næsta bæ og fengum okkur seinbúinn hádegisverð. Frá Bagno di Romagna lá leiðin til bæjarins Spello sem kom skemmtilega á óvart. Fyrst skal nefna að bærinn sjálfur er ákaflega sjarmerandi en aðalmálið var hins vegar að rauðvínsáhugamenn duttu í lukkupottinn þegar þeir kynntust mögnuðum feðgum sem versluðu með vín út um allan heim og þóttu afar færir. Til að gera langa sögu stutta þá gerðum við risapöntun upp á nokkru þúsund evrur og veigarnar skiluðu sér stuttu eftir að við komum heim.

Frá Spello brenndum við til Rómar, borgarinnar eilífu. Þangað var magnað að koma. Við vorum búin að negla okkur tvær ferðir með Ingó Árnasyni (Rómarrölt), íslenskum fararstjóra. Þessar ferðir voru algjörlega magnaðar. Sú fyrri var í Péturskirkjuna og Vatikansöfnin (þ.á.m. Sixtínsku kapelluna) en sú seinni um helstu og þekktustu kennileiti Rómarborgar s.s. spænsku tröppurnar, Trevi gosbrunninn, Pantheon hofið og Navona torgið. Gríðarlega vel heppnaðar ferðir og óhætt að segja að hægt sé að mæla með Ingó. Daginn eftir fórum við síðan að skoða Colusemum og gengum upp að hnjám og enduðum kvöldið á frábærum sushi veitingastað. Frá Róm héldum við síðan áfram meðfram ströndinni upp til Orentano með stoppi út við sjóinn á veitingastað við snekkjulægi. 

 

IMG 9714.HEIC

Við kvöldmatarborðið sem rúmaði 22 allt í allt!

Í húsið okkar vorum við komin á laugardeginum 18 september á milli klukkan 16 og 17 og er skemmst frá því að segja að það var alveg magnað. Síðan tók við löng bið eftir restinni af hópnum. Nokkrir voru hreinlega sofnaðir (þ.á.m. undirritaður) áður en þau komu rétt um klunna 02 um nóttina. Sunnudagurinn var tekinn rólega og "chillað" við sundlaugina. Mánudagurinn var hins vegar tekinn snemma enda rúmlega klukkutíma keyrsla á rútu sem við pöntuðum og haldið í vínsmökkun til San Guido sem framleiða hin mögnuðu Sassecaia rauðvín skammt frá bænum Bolgheri við vestursströnd Ítalíu. Þetta var afar skemmtileg heimsókn enda tók einn af fjölskyldunni á móti okkur og sýndi okkur allt það  helsta sem viðkemur framleiðslu á rauðvíni. Eftir heimsóknina sátum við á veitingastað í Bolgheri og svo sannarlega drukkum í okkur mannlífið! Heim í hús vorum við komin um miðjan dag enda urðum við að taka á móti kokkinum sem ætlaði að elda ofan í okkur um kvöldið klassískan ítalskan mat. 

IMG 9809.HEIC

Hópurinn í vínsmökkun hjá Sassicaia

Á þriðjudeginum 21 sept var enn haldið í ferðalag og núna keyrðum við til La Spezia og fórum síðan í lest í þorpin fimm sem kölluð eru einu nafni, Cinque Terre, en þorpin sjálf heita Monterosso al Mare, Vernazza, Corniglia, Manarola, og Riomaggiore. Við ætluðum að ganga Ástarstíginn svokallaða á milli Riomaggiore og Manarola en vegna mikilla aurskriða hafði stígurinn eyðilagst bæði á milli Riomaggiore og Manarola sem og á milli Manarola og Corniglia. Við fórum því með lestinni áfram á milli staðanna. Þrömmuðum upp stigann bratta til Corniglia og gengum til Manarola, leið sem við seinna fréttum að væri sennilega sú erfiðasta af leiðunum á milli þorpanna! Við Gerða fórum þetta svo sem létt en það var ekkert endilega þannig með alla. Leiðin sem við gengum er rúmlega 4 kílómetrar og vorum við tæpa 2 tíma á leiðinni. Leiðin öll á milli þorpanna er um 11 kílómetrar og það er pottþétt að þarna á ég eftir að koma aftur til að ganga! Frá Vernazza tókum við síðan lest til Monterosso og sigldum síðan til baka og sáum þorpin frá sjónum sem var mjög skemmtileg upplifun líka. Á leiðinni heim var komið við á skyndibitastað og keyptur alveg heill hellingur sem var síðan á tæpasta vaði þegar heim var komið enda voru boxin hreinlega sleikt að innan.

Á miðvikudeginum var slakað á og hreinlega ekki gert neitt nema einhverjir fóru í búðarferð eins og gengur og gerist en um kvöldið var boðið upp á veislu. Ólafur Skúli fór og keypti heilt naut sem hann bauð okkur uppá. Ok kannski ekki alveg heilt naut en a.m.k. 13 stykki af T-bone steikum sem grillaðar voru á útigrillum. Alveg magnað. Á fimmtudeginum var áfram chillað við sundlaugina og farið til Lucca á skemmtilegan veitingastað sem staðsettur var í porti á milli húsa. Barasta ljómandi fínt. Lucca gömul og skemmtileg borg þá sérstaklega að ganga hluta múrsins magnaða sem umlykur gömlu Lucca borgina. Múrinn er reistur á 16 öld og er um 4 kílómetra langur. Hann gnæfir allt að 10 metra fyrir umhverfið og ansi hreint magnað að ganga eftir stígum sem líða eftir stígnum. 

IMG 2458

Við hjónin við Skakkaturninn!

Á föstudeginum var enn og aftur slakað á, tekið tennismót og veigar hússins kláraðar sem voru töluverðar. Þetta þýddi að við vorum í ljósaskiptunum að sötra og það var hreinlega veisla hjá moskítóflugunum. Enda hafði ég það á orði daginn eftir að okkar hópur þekktist alveg úr, allir meira og minna útúr bitnir aftur á fótunum. Á föstudagskvöldið sóttum við Pizzur og nutum lífsins. Við vorum síðan farin úr húsinu um klukkan 0930. Komum við í Pisa enda vorum við Hrund sammála að það væri ekki hægt að vera rétt hjá Pisa og kíkja ekki á Skakka turninn. Virkilega skemmtilegt. Áfram var keyrt meðfram sjónum yfir alveg magnaðar brýr sem þveruðu hvern dalinn á fætur öðrum. Komum við í hádegismat í smábænum Recco áður en við brunuðum upp til Mílanó aftur og flugum heim.

 

italia_kort

Hér má sjá kort af ferðinni þessar 2 vikur. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

JónJóhannBloggar

Hér eru léttar lýsingar á upplifun á ferðum höfundar.

Höfundur

Jón Jóhann Þórðarson
Jón Jóhann  Þórðarson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Mýrdalshlaupið - hlaupaleið
  • Mýrdalshlaupið - hlaupaleið
  • 20230703 071008
  • 20230705 082155
  • IMG 3587

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 4388

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband